Uppáhalds grillmeðlætið okkar

Við systur höldum áfram að deila með ykkur uppáhalds grill uppskriftunum okkar en nú er komið að uppáhalds grill meðlætinu okkar. Okkur systrum finnst svo gaman að grilla og ennþá skemmtilegra að njóta matarins með góðum vinum eða fjölskyldu. Í þessari færslu deilum við með ykkur þremur réttum sem henta sem meðlæti með grillmatnum eða sem geggjaðir forréttir sem munu alltaf slá í gegn.

Við elskum að nota ferskt og gott grænmeti á grillið og er það uppistaðan í öllum smáréttunum sem koma hér á eftir. Það er ekkert smá auðvelt að gera ótrúlega ljúffenga grillrétti með einföldum hráefnum og fær grænmetið í þessum réttum að njóta sín ótrúlega vel.

IMG_9492.jpg

Grillaður chilli maís með vegan parmesan

  • 2 ferskir maísstönglar

  • Chilliolía

    • 1/2 dl góð ólífuolía

    • 1 tsk chillikrydd

    • 1/2 tsk paprikukrydd

    • 2 tsk blandaðar jurtir

    • 1/2 tsk laukduft

    • 1/2 tsk hvítlauksduft

    • 1 tsk salt

  • Heimagerður vega parmesan

    • 1 dl kasjúhnetur

    • 1 tsk laukduft

    • 1 tsk hvítlauksduft

    • 2 tsk salt

    • 2-3 msk næringarger

  • Oatly sýrður rjómi

Aðferð:

  1. Byrjið á því að taka vel utan af maísstönglunum og passið að fjarlæga alla “strengina” vel. Byrjið á því að sjóða maísstönglana í 10 mínútur í stórum potti. Gott er að salta vatnið vel.

  2. Á meðan er gott að undurbúa chilliolíuna, en einungis þarf að blanda öllum hráefnunum fyrir olíuna saman í skál og setjið til hliðar.

  3. Setjið öll hráefnin fyrir parmesan ostinn í blandara eða matvinnsluvél og blandið þar til hráefnin verða að fínu dufti. Setjið til hliðar.

  4. Grillið maísstönglana þar til þeir verða fallega gylltir eða fá smá “brennda” bletti hér og þar.

  5. Penslið olínnu á maísinn um leið og hann kemur af grillinu og veltið þeim síðan upp úr heimagerða parmesan ostinum.

  6. Berið fram með vegan sýrðum rjóma.

Grillaðar kartöflur með chilli majónesi og chorizo pylsum

  • 2 stórar grillkartöflur

  • Vegan smjör

  • Salt

  • Chilli majónes (keypt eða heimagerð)

    • 2 dl vegan majónes

    • 1-2 tsk sambal oelek (chillimauk)

  • 1 vegan Chorizo pylsa

  • Graslaukur

Aðferð:

  1. Mér finnst best að byrja á því að sjóða kartöflurnar í 20 mínútur þar sem það tekur óratíma að grilla stórar kartöflur.

  2. Vefjið hvorri kartöflu inn í álpappír ásamt klípu af vegan smjöri og salti

  3. Grillið kartöflurnar í álpappírnum í 15 mínútur, gott er að snúa þeim af og til.

  4. Hrærið saman majónesinu og chillimaukinu fyrir heimagert chillimajó

  5. Skerið chorizo pylsuna í litla bita og steikið í 2-3 mínútur upp úr olíu á vel heitri pönnu.

  6. Skerið ofan í kartöflurnar, setjið klípu af vegan smjöri og smá salt ofan í og stappið því aðeins saman við kartöfluna. Dreifið chilli majónesinu, chorizo pylsubitunum og niðurskornum graslauk yfir og berið fram.

Vatnsmelónu grillsalat

  • 1/2 stór vatnsmelóna

  • 1 gúrka

  • 1/2 rauðalukur

  • safi úr 1/2 lime

  • örítið salt

  • Niðursöxuð mynta (má sleppa)

Aðferð:

  1. Skerið vatnsmelónuna, gúrkuna og rauðlaukinn niður í þá stærð sem þið kjósið.

  2. Blandið saman í skál og hellið safanum af límónunni yfir. Setjið salt og myntu saman við og blandið vel saman.

  3. Berið fram með öllum grillmat eða sem forréttur fyrir hvaða mat sem er.

-Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

 
KRONAN-merki (1).png
 


Kartöflugratín

IMG_0196.jpg

Kartöflugratín er eitthvað sem við systurnar ólumst ekki upp við að borða. Það var ekki fyrr en á fullorðinsárunum sem við áttuðum okkur á því hvað gratín er frábært meðlæti. Í dag er það oft á boðstólum hjá okkur við ýmis hátíðleg tilefni. 

IMG_0224-4.jpg

Gratín er einn af þessum réttum sem bragðast rosalega vel og henta fullkomlega sem meðlæti með fínum mat, en er virkilega auðvelt að útbúa. Það er þægilegt þegar maður eldar eitthvað fínt sem þarfnast mikillar vinnu, að geta útbúið gott meðlæti sem hægt er að skella í ofninn án þess að spá mikið í því. Matreiðslurjóminn frá Oatly er í miklu uppáhaldi hjá okkur og hann gerir gratínið rjómakennt og gott. 

IMG_0169-2.jpg

Við höfum prufað okkur áfram með gratínið síðustu ár og hef komist að því að okkur þykir best að sjóða kartöflublönduna í potti og baka hana síðan í ofninum. Við höfum prufað að gera gratínið með vegan osti en komist að því að okkur þykir hann ekki nauðsyn. Við einfaldlega kryddum  blönduna áður hún fer í ofninn og yfirborðið verður svolítið stökkt, líkt og þegar ostur er settur yfir. Í dag bar ég gratínið fram með páskamatnum, en uppskrift af honum er að finna HÉR

IMG_0222.jpg

Kartöflugratín

Fyrir 4
Eldunartími: 40 mín

  • 1 msk vegan smjör

  • Sirka 0,75 kg kartöflur

  • 4 dl Oatly matreiðslurjómi

  • 1/2 laukur, skorinn í strimla

  • 2-3 hvítlauksgeirar - pressaðir

  • 1 grænmetisteningur

  • Pasta rossa krydd eftir smekk

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Krydd til að strá yfir gratínið áður en það fer í ofninn. Mér þykir mjög gott að setja chili flögur, gróft salt og reykta papriku, en það er hægt að nota hvaða krydd sem er. 

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Skerið Kartöflurnar í sneiðar - mér þykir gott að hafa hýðið með

  3. hitið smjör í potti og bætið lauk og hvítlauk út í

  4. Steikið í nokkrar mínútur, eða þar til laukurinn hefur mýkst töluvert. Ef mér finnst laukurinn vera að festast við botninn helli ég örlitlu vatni út í

  5. Bætið kartöflunum í pottinn ásamt Oatly rjómanum og kryddunum og sjóðið við vægan hita í sirka korter

  6. Smyrjið eldfast mjót með örlitlu vegan smjöri, hellið blöndunni í, kryddið með því sem ykkur þykir best (eða dreifið vegan osti yfir) og bakið í 20 mínútur

-Veganistur

innnes2.jpg

-Færslan er unnin í samstarfi við Innnes Heildverslun-