Vegan hamborgari með bjórsteiktum lauk og hamborgarasósu

IMG_6520-4.jpg

Þá er komið að seinni færslunni í samstarfi okkar við Anamma í júní. Eins og við nefndum síðast þá erum við að vinna með nýja hakkið frá þeim sem mótast sérstaklega vel og hentar fullkomlega til að útbúa góða borgara eins og þennan. Í síðustu færslu deildum við með ykkur uppskrift af geggjuðum vegan bollum með ritz kexi og döðlum og við höfum fengið virkilega góð viðbrögð við þeim. Í dag er komið að þessum djúsí borgara sem er geggjaður á grillið eða pönnuna. Þetta nýja hakk er alger “game changer” og við erum ekkert smá ánægðar með að fá að vinna með svona góðar vandaðar vörur. Vörurnar frá Anamma fást í Hagkaup og Bónus og svo í ýmsum minni verslunum eins og Melabúðinni og Fjarðarkaup.

IMG_6494-4.jpg

Það er æðislegt að sjá úrvalið af vegan vörum aukast svona gríðarlega eins og gerst hefur síðustu ár. Það er ekkert svo langt síðan vegan borgarar voru alltaf gerðir úr hefðbundnu grænmetisbuffi með tómatsósu. Í dag er hinsvegar hægt að velja á milli allskonar borgara, en þar til fyrir stuttu var svolítið vesen að útbúa heimagerða borgara úr sojahakki. Það breyttist þó algerlega þegar Anamma byrjaði að framleiða nýja hakkið sitt og í dag er ekkert mál að útbúa djúsí heimagerða borgara.

IMG_6497-5.jpg

Við ákváðum að byrja á því að gera svolítið klassíska uppskrift. Uppskrift sem er geggggjuð eins og hún er en býður uppá það að setja hana í eigin búning ef maður vill. Þessa borgara er ekkert mál að grilla og við getum eiginlega lofað ykkur að jafnvel hörðustu kjötætur eiga eftir að elska þá.

IMG_6500-4.jpg

Í þetta skipti útbjuggum við gómsæta hamborgarasósu með borgurum og toppuðum þá einnig með bjórsteiktum lauk sem er ekkert smá góður. Hamborgarasósuna gerum við í hvert skipti sem við gerum okkur borgara. Það tekur enga stund að útbúa hana og hún er dásamleg. Við settum svo hvítlauksmæjónes á borgarann líka, en það var mest til að fá fallega mynd hehe.

IMG_6518-3.jpg

Eins og ég skrifaði að ofan er þessi uppskrift alveg svakalega góð, en það er auðvelt að prufa sig áfram og gera eitthvað aðeins öðruvísi úr henni. Ég hef t.d. stundum sett smá estragon út í og það gefur mjög skemmtilegt bragð. Eins er rosalega gott að blanda út í borgarann vegan fetaosti. Við erum mjög spenntar að heyra hvað ykkur finnst um borgarann og eins hvað ykkur þykir skemmtilegast að útbúa úr þessu frábæra nýja hakki frá Anamma.

IMG_6523-6.jpg

Hamborgarar 4 stykki

 • 440 gr formbar hakkið frá Anamma

 • 1 msk laukduft

 • 1 msk hvítlauksduft

 • 1-2 tsk sojasósa

 • 1 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep

 • 2 tsk kjöt og grillkrydd

 • salt og pipar

 • BBQ sósa til að pennsla yfir (má sleppa)

Aðferð:

 1. Takið hakkið úr frysti um það bil klukkutíma áður en matreiða á borgarana.

 2. Setjið öll kryddin út í þegar hakkið hefur aðeins fengið að þiðna.

 3. Mótið 4 buff út hakkinu (sirka 110 gr hvert buff) og steikið eða grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

 4. Pennslið með BBQ sósu áður en borgararnir eru matreiddir ef þið kjósið. Það er alls engin nauðsyn en okkur þykir það svakalega gott.

Hamborgarasósa

 • 1-1 1/2 dl vegan majónes (keypt eða eftir uppskrift hérna af blogginu)

 • 1/2 dl tómatsósa

 • 1/2 dl mjög smátt saxaðar súrar gúrkur

 • 1 tsk paprikuduft

 • 1 tsk hvítlauksduft

 • 1 tsk laukduft

 • salt

Aðferð:

 1. Saxið súru gúrkurnar mjög smátt.

 2. Hrærið öllum hráefnunum saman í skál

Bjórsteiktur laukur

 • 2 stórir laukar

 • 1 msk sykur

 • 1 msk soyasósa

 • salt og pipar

 • 2-3 msk bjór

Aðferð:

 1. Skerið laukana í frekar þunnar sneiðar.

 2. steikið laukinn upp úr smá olíu þar til hann fer að brúnast vel.

 3. Bætið salt og pipar, sykri og soyasósu og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.

 4. Bætið bjórnum útí og steikið í góðar 5 til 10 mínútur.
anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Veganistur mæla með: Bike Cave

Snemma árs 2015 fóru að berast fréttir af því að hamborgarastaður hér á landi væri farinn að bjóða upp á vegan kokteilsósu. Þessar fréttir voru vægast sagt spennandi þar sem engin skyndibitastaður á landinu hafði boðið upp á þess háttar metnað í vegan matreiðslu áður. Sögusagninar virtust ekki einungis vera sannar heldur var kokteilsósan og maturinn allur þvílíkt góður! Staðurinn heitir Bike Cave og kúrir í Skerjafirðinum en frá því að staðurinn opnaði með sína vegan kokteilsósu hefur hann svo sannarlega ekki slakað á. Vegan borgari, ostur, kokteilsósa, bernaissósa og pítusósa er meðal annars á boðstólnum og maður verður ekki svikin þegar lífið kallar á feita skyndibitamáltíð, sem við vitum öll að gerist öðru hverju.

Ef maginn kallar á eitthvað létt með yndislegri lifandi tónlistinni sem Bike Cave býður upp á hverja helgi er Deli Koftast algjörlega málið. Indverskar bollur með sósu og hvítlauksbrauði er hinn fullkomni "bar" réttur til að njóta t.d. með einum köldum eða sem forrétt.

Franskarnar á Bike Cave þurfa alveg klárlega sér umfjöllun en við viljum meina að þessar franskar séu þær bestu á landinu. Hægt er að velja á milli fjögurra mismunandi tegunda en uppáhaldið okkar eru krossararnir og krullurnar. Þessar franskar eru svo vel kryddaðar og auðvitað spilar kokteilsósan risa stórt hlutverk! Við getum haft það eftir flestum sem hafa smakkað þessa sósu að hún sé alveg eins og venjuleg kokteilsósa.

Pítan er alveg einstök og sósan er, líkt og kokteilsósan var á sínum tíma, algjör nýjung á veitingastaðamarkaðnum. Og ekki er sósan spöruð, en ásamt henni fær maður fullt af fersku grænmeti og annað hvort kartöflurösti eða chillibuff. Pítan er uppáhald okkar veganista en við pöntum okkur auðvitað alltaf franskar með.

Hægt er að velja á milli tveggja vegan borgar á Bike Cave. Annars vegar er það venjulegur grænmetisborgari sem er mjög klassískur og ekki skemmir það á hversu góðu verði hann er. Líkt og í pítuna velur maður annað hvort kartöflurrösti eða chillibuff. Við mælum með buffinu en okkur finnst það passa ótrúlega vel með sósunni sem er á borgaranum. Hins vegar er það vegan lúxusborgarinn, en hann er ens og nafnið gefur til kynna algjör lúxus. Á borgaranum er nýjasta sósa Bike Cave, vegan bernaissósa, ásamt sojabuffi, vegan osti og fersku grænmeti. Þessi borgari er klárlega sveitasta vegan máltíð sem hægt er að finna á landinu í dag en það er einmitt það sem hefur vantað á veitingastaði sem bjóða uppá vegan valkosti hingað til.

Þeir sem leita að ekta skyndibitamat sem inniheldur enga grimmd eða þjáningu verða svo sannarlega ekki sviknir á Bike Cave en þangað förum við alltaf þegar okkur langar í smá svindlmat.