Vegan smash borgarar!

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að djúsí vegan smash borgurum með piparmæjónesi, laukhringjum og vegan beikoni sem steikt er uppúr sírópi. Fullkomnir borgarar að gera um helgina og bera fram með stökkum frönskum. og ísköldum drykk að eigin vali.

Uppskriftin er gerð í samstarfi við Oumph á Íslandi. Við höfum verið gríðarlega spenntar fyrir því að smakka nýju smash borgarana frá þeim og þeir ollu svo sannarlega ekki vonbrigðum. Við systur elskum svo sannarlega vörurnar frá Oumph og erum mjög spenntar fyrir því að fá þann heiður að vinna með þeim. Ofan á borgarann setti ég svo steikta smokey bites frá þeim sem ég steikti upp úr olíu og sírópi. Það kom virkilega vel út.

Ég vildi gera tvöfalda borgara svo ég setti vegan ost á tvo þeirra. Ég kryddaði þá einungis með salti og pipar í þetta skipti. Þetta voru virkilega með þeim betri vegan borgurum sem ég hef smakkað. Svo djúsí!!

Ég elska að setja laukhringi á borgara. Ég vissi að ég vildi hafa sykrað vegan beikon og piparmajónes og mér datt í hug að laukhringir myndu passa vel með. Það var algjörlega raunin og þeir pössuðu fullkomlega með. Auk þess setti ég kál, tómata og rauðlauk. Eins og ég skrifaði hér að ofan gerði ég tvöfalda borgara. Ég viðurkenni að það var mest gert fyrir myndatökuna, mér hefði alveg þótt nóg að hafa þá einfalda.

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki uppskriftin vel! <3

-Helga María

Vegan smash borgarar

Vegan smash borgarar
Höfundur: Veganistur
djúsí vegan smash borgarar með piparmæjónesi, laukhringjum og vegan beikoni sem steikt er uppúr sírópi. Fullkomnir borgarar að gera um helgina og bera fram með stökkum frönskum. og ísköldum drykk að eigin vali.

Hráefni:

  • 4 stk smash borgarar frá Oumph
  • Olía að steikja upp úr
  • Salt og pipar eða annað krydd að eigin vali
  • vegan ostur
  • Hamborgarabrauð
  • Kál, tómatar og rauðlaukur
  • Laukhringir (passa að þeir séu vegan)
  • Smokey bites frá Oumph
  • 1 tsk síróp
  • Smá salt
  • Piparmajónes (uppskrift hér að neðan)
  • Franskar
Piparmajónes
  • 1 dós majónes (250gr)
  • 1/2 dl vegan sýrður rjómi
  • 1 msk malaður pipar
  • 1/2 tsk sinnep
  • 1 tsk laukduft
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1/2 tsk salt

Aðferð:

  1. Hitið ofninn og bakið franskar og laukhringi eftir leiðbeiningum á pökkunum.
  2. Hitið olíu á pönnu og steikið vegan beikonið í nokkrar minútur. Bætið salti og sírópi út á og steikið þar til það verður svolítið stökkt. Smakkið til og bætið við sírópi ef ykkur finnst þörf á.
  3. Steikið borgarana á pönnu upp úr olíu og saltið og piprið. Snúið borgurum og setjið ostasneið á, nokkra vatnsdropa og lok yfir svo osturinn svitni og bráðni betur.
  4. Hitið brauðið í ofninum í nokkrar mínútur.
  5. Skerið niður grænmeti og setjið borgarana saman.
Piparmajónes
  1. Hrærið öllum hráefnum saman í skál og smakkið til.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Oumph á Íslandi-

 
 

Buffaló blómkálsborgari með gráðaostasósu

Mér finnst fátt betra um helgar en góður “helgar”matur. Við borðum yfirleitt pizzu eða hamborgara á föstudögum og elska ég að finna upp nýjan góðar borgara uppskriftir. Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur í dag er svo sannarlega ekki af verri endanum en það er buffaló blómkáls borgari með Blue cheese sósunni frá Sacla Italia

Eftir að ég smakkaði blue cheese sósuna fyrst þá hef ég elskan að gera buffaló blómkálsvængi en þessi sósa passar alveg fullkomlega með buffalósósu. Mig langaði þó að gera þessa uppskrift eða svitaða uppskrift sem væri aðeins meiri máltíð einhvern veginn og datt þá í hug að gera eins konar buff úr blómkáli sem hægt væri að nýta í borgara með þessari frábæru sósu.

Blómkálsbuffin er ótrúlega einfalt að gera og er í rauninni gert nákvæmlega eins og blómkálsvængir, nema blómkálið er einfaldlega skorið í sneiðar. Það má því alveg nota sömu uppskrift til að gera vængi eða jafnvel nýta þessa uppskrift sem eins konar blómkálssteik og bera fram með sósunni, salati og kartöflum til dæmis.

Hráefni (4 borgarar) :

  • 4 vegan hamborgarabrauð

  • 4 buffaló blómkálsbuff

  • 1 krukka vegan blue ch**se sósa frá Sacla Italia

  • Vegan hrásalat

  • Ferskt grænmeti

  • Franskar eða ofnbakað kartöflur

Aðferð:

  1. Útbúið blómkálsbuffin eftir uppskrift hér að neðan.

  2. Útbúið hrásalatið

  3. Bakið kartöflur eða franskar í ofni eða útbúið það meðlæti sem hver og einn vill hafa með.

  4. Berið fram og njótið.

Buffaló blómkálsbuff

  • 1 stór blómkálshaus

  • 1 bolli hveiti

  • 2 tsk laukduft

  • 2 tsk hvítlauksduft

  • 2 tsk paprikuduft

  • 1 msk oregano

  • 1 tsk salt

  • 1 tsk pipar

  • 1 bolli haframjólk (bætið við smá auka ef ykkur finnst hveitiblandan og þykk)

  • 1 dl buffalósósa eða önnur hot sauce

Aðferð:

  1. Hitið ofnin í 200°C

  2. Blandið öllum þurrefnum saman í skál og hellið síðan haframjólkinni út í og hrærið vel.

  3. Skerið blómkálið í þykkar sneiðar með stönglinum svo sneiðin haldist heil. Snyrtið vel í kringum stylkin og minnkið hans eins mikið og hægt er án þess að sneiðin detti í sundur. Ég byrja á því að skera hausinn beint í tvennt og næ síðan tveimur sneiðum úr hvorum helming.

  4. Veltið hverri sneið upp úr hveitiblöndunni. Hitið vel af olíu á pönnu þar til hún verður vel heit. Ég set svi mikið að það sé sirka 1 og 1/2 cm af olíu í pönnunni. Steikið hverja blómkálssneið í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til fallega gylltar á báðum hliðum.

  5. Hellið buffaló sósunni í breiða, grunna skál og veltið hverri blómkálssneið upp úr henni.

  6. Setjið á bökunarpappír og bakið í 200°C heitum ofni í 10 mínútur á hvorri hlið, sem sagt 20 mínútur samtals.

Hrásalat

  • 1 dl vegan majónes

  • 1 dl þunnt skorið hvítkál

  • 1 dl þunnt skorið ferskt rauðkál

  • 2 litlar eða 1 meðalstór gulrót

  • 1 tsk agave síróp

  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið hvítkálið og rauðkálið í mjög þunnar sneiðar.

  2. Rífið niður gulræturnar.

  3. Blandið öllum hréfnum saman í skál. Saltið eftir smekk

-Njótið vel

- Færslan er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -

Hamborgarar með frönskum og pikkluðu chilli

IMG_2460.jpg

Í dag deili ég með ykkur uppskrift af borgurum sem eru fullkomnir fyrir helgina! Sjálfir borgararnir eru djúsí og góðir, og henta bæði til steikingar og til að grilla, en til að gera þá enn ómótstæðilegri toppaði ég þá með chilimajó, djúpsteiktum strimluðum frönskum og pikkluðu chili. Þið trúið því ekki hversu gott þetta var!

IMG_2415-2.jpg

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Anamma, en borgarana útbjó ég úr “formbar” hakkinu frá þeim. Munurinn á því sem heitir formbar og því hefðbundna er að hið fyrra hentar einstaklega vel í að búa til hamborgara, bollur og annað sem krefst þess að maður móti eitthvað úr hakkinu. Það virkar þó líka að steikja það beint úr pokanum og ég geri það sjálf oft líka. Þessvegna á ég alltaf til poka af formbar färs í frystinum.

Það hefur aldrei verið jafn auðvelt að útbúa góða vegan borgara og í dag. Þegar ég varð vegan fyrir 10 árum (já, það eru komin 10 ár síðan!!) þá var grænmetisbuff með tómatsósu og sinnepi það sem við grænkerarnir borðuðum í stað borgara. Ég vissi heldur ekki á þeim tíma hversu hlægilega auðvelt það er að gera vegan mæjónes svo allar gómsætar sósur hurfu af mínum matseðli í nokkur ár.

IMG_2438-2.jpg

Ég á ekki grill svo ég steikti borgarana á steypujárnspönnunni minni, en það er svakalega gott að skella þeim á grillið!

IMG_0002.jpg

Ég var í stuði til að prófa eitthvað nýtt og spennandi og ákvað að útbúa þunnar franskar til að hafa á borgaranum. Á ensku heita þær shoestring fries eða skóreimafranskar (hehe). Þær eru ekkert smá krispí og góðar og eru bæði geggjaðar á borgarann og til að bera fram með.

IMG_2470.jpg

Ég útbjó einnig pikklað chili. Ég hef verið með æði fyrir að pikkla allskonar og ísskápurinn fullur af pikkluðu grænmeti. Mæli virkilega með.

IMG_2465-3.jpg

Ég vona að þið prófið þessa dásamlegu borgara, þeir eru hin fullkomna grilluppskrift fyrir sumarið.

IMG_2456.jpg

Borgararnir

Hráefni:

  • 500 gr formbar hakkið frá Anamma

  • 1 msk laukduft

  • 1 msk hvítlauksduft

  • 1-2 tsk sojasósa

  • 1 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep

  • 1 tsk paprikuduft

  • salt og pipar

  • 1 tappi liquid smoke. Það er hægt að skipta því út fyrir 1 tsk reykt paprikuduft. Ef þið gerið það er óþarfi að hafa venjulegt paprikuduft

Aðferð:

  1. Takið hakkið úr frysti um það bil klukkutíma áður en matreiða á borgarana.

  2. Setjið öll kryddin út í þegar hakkið hefur aðeins fengið að þiðna.

  3. Mótið 4-5 buff út hakkinu (fer eftir því hversu þykka þið viljið hafa þá) og steikið eða grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

Shoestring franskar

Hráefni

  • Ferskar kartöflur eftir smekk. Fer algjörlega eftir því hversu margir ætla að borða. Ég útbjó franskar úr 6 stórum kartöflum og fékk frekar mikið úr þeim.

  • 1 líter olía til að djúpsteikja með

  • salt og pipar eða frönsku krydd. Ég blanda yfirleitt saman hvítlauksdufti, laukdufti, reyktri papriku, þurrkaðri steinselju, salti og pipar og strái yfir.

Aðferð:

  • Hitið olíu í stórum potti í 180°c

  • Skrælið kartöflurnar og rífið niður gróft. Ég nota svona julienne eins og þið sjáið á myndinni. Annars myndi ég skera niður mjööög þunnt með hníf bara.

  • Djúpsteikið hluta af kartöflunum í einu í hrærið varlega til að aðskilja þær í pottinum. Djúpsteikið í sirka 2-3 mínútur eða þar til þær eru orðnar gylltar og fínar.

  • Veiðið upp með sleif með götum og leggið á disk með eldhúspappír. stráið kryddinu yfir.

Pikklað chili

  • 5-6 fersk rauð chili

  • 2 dl vatn

  • 1 dl edik

  • 1/2 dl sykur

  • örlítið salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera niður chili. Ég hafði steinana með en takið þá úr ef þið viljið ekki hafa þetta mjög sterkt.

  2. Setjið vatn, edik og sykur í pott og leyfið því að hitna á hellu þar til sykurinn leysist upp.

  3. Setjið chili í glerkrukku og hellið blöndunni yfir og látið standa uppá borði þar til það hefur kólnað. Hægt að borða svo eftir svona klukkutíma.

  4. Geymist í ísskáp í 2 vikur.

Chilimæjó

  • Heimagert vegan mæjó eða keypt út í búð (Uppskrift af mæjóinu hér að neðan)

  • Sambal Olek

  1. Blandið saman og smakkið til. Hægt að salta smá í lokinn.

Vegan mæjónes:

  • 1 bolli ósæt sojamjólk (helst við stofuhita.) Ég nota þessa í rauðu fernunni frá Alpro, en svo er einnig til mjög góð frá Provamel, einnig í rauðri fernu

  • 2 tsk eplaedik

  • Bragðlaus olía eftir þörf. Ég nota sólblómaolíu eða rapsolíu

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1/2 tsk salt

  1. Hellið sojamjólkinni í blandara eða matvinnsluvél ásamt eplaedikinu og hrærið á miklum hraða í nokkrar sekúndur

  2. Hellið mjórri bunu af olíu ofan í á meðan blandarinn vinnur. Ég hefði átt að mæla fyrir ykkur hvað ég notaði mikla olíu, en ég gleymdi því. Ég nefnilega helli henni beint úr flöskunni í mjórri bunu þar til mæjónesið er orðið eins þykkt og ég vil hafa það. Það er mikilvægt að hella henni hægt svo þetta tekur alveg mínútu.

  3. Þegar mæjóið er orðið þykkt bæti ég sinnepinu og saltinu útí og hræri í nokkrar sekúndur í viðbót.

Takk fyrir að lesa og vonandi smakkast vel!

-Helga María

-Þessi uppskrift er í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
anamma.png
 


Vegan hamborgari með bjórsteiktum lauk og hamborgarasósu

IMG_6520-5.jpg

Þá er komið að seinni færslunni í samstarfi okkar við Anamma í júní. Eins og við nefndum síðast þá erum við að vinna með nýja hakkið frá þeim sem mótast sérstaklega vel og hentar fullkomlega til að útbúa góða borgara eins og þennan. Í síðustu færslu deildum við með ykkur uppskrift af geggjuðum vegan bollum með ritz kexi og döðlum og við höfum fengið virkilega góð viðbrögð við þeim. Í dag er komið að þessum djúsí borgara sem er geggjaður á grillið eða pönnuna. Þetta nýja hakk er alger “game changer” og við erum ekkert smá ánægðar með að fá að vinna með svona góðar vandaðar vörur. Vörurnar frá Anamma fást í Hagkaup og Bónus og svo í ýmsum minni verslunum eins og Melabúðinni og Fjarðarkaup.

IMG_6494-5.jpg

Það er æðislegt að sjá úrvalið af vegan vörum aukast svona gríðarlega eins og gerst hefur síðustu ár. Það er ekkert svo langt síðan vegan borgarar voru alltaf gerðir úr hefðbundnu grænmetisbuffi með tómatsósu. Í dag er hinsvegar hægt að velja á milli allskonar borgara, en þar til fyrir stuttu var svolítið vesen að útbúa heimagerða borgara úr sojahakki. Það breyttist þó algerlega þegar Anamma byrjaði að framleiða nýja hakkið sitt og í dag er ekkert mál að útbúa djúsí heimagerða borgara.

IMG_6497-6.jpg

Við ákváðum að byrja á því að gera svolítið klassíska uppskrift. Uppskrift sem er geggggjuð eins og hún er en býður uppá það að setja hana í eigin búning ef maður vill. Þessa borgara er ekkert mál að grilla og við getum eiginlega lofað ykkur að jafnvel hörðustu kjötætur eiga eftir að elska þá.

IMG_6500-5.jpg

Í þetta skipti útbjuggum við gómsæta hamborgarasósu með borgurum og toppuðum þá einnig með bjórsteiktum lauk sem er ekkert smá góður. Hamborgarasósuna gerum við í hvert skipti sem við gerum okkur borgara. Það tekur enga stund að útbúa hana og hún er dásamleg. Við settum svo hvítlauksmæjónes á borgarann líka, en það var mest til að fá fallega mynd hehe.

IMG_6518-4.jpg

Eins og ég skrifaði að ofan er þessi uppskrift alveg svakalega góð, en það er auðvelt að prufa sig áfram og gera eitthvað aðeins öðruvísi úr henni. Ég hef t.d. stundum sett smá estragon út í og það gefur mjög skemmtilegt bragð. Eins er rosalega gott að blanda út í borgarann vegan fetaosti. Við erum mjög spenntar að heyra hvað ykkur finnst um borgarann og eins hvað ykkur þykir skemmtilegast að útbúa úr þessu frábæra nýja hakki frá Anamma.

IMG_6523-7.jpg

Hamborgarar 4 stykki

  • 440 gr formbar hakkið frá Anamma

  • 1 msk laukduft

  • 1 msk hvítlauksduft

  • 1-2 tsk sojasósa

  • 1 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep

  • 2 tsk kjöt og grillkrydd

  • salt og pipar

  • BBQ sósa til að pennsla yfir (má sleppa)

Aðferð:

  1. Takið hakkið úr frysti um það bil klukkutíma áður en matreiða á borgarana.

  2. Setjið öll kryddin út í þegar hakkið hefur aðeins fengið að þiðna.

  3. Mótið 4 buff út hakkinu (sirka 110 gr hvert buff) og steikið eða grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

  4. Pennslið með BBQ sósu áður en borgararnir eru matreiddir ef þið kjósið. Það er alls engin nauðsyn en okkur þykir það svakalega gott.

Hamborgarasósa

  • 1-1 1/2 dl vegan majónes (keypt eða eftir uppskrift hérna af blogginu)

  • 1/2 dl tómatsósa

  • 1/2 dl mjög smátt saxaðar súrar gúrkur

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk laukduft

  • salt

Aðferð:

  1. Saxið súru gúrkurnar mjög smátt.

  2. Hrærið öllum hráefnunum saman í skál

Bjórsteiktur laukur

  • 2 stórir laukar

  • 1 msk sykur

  • 1 msk soyasósa

  • salt og pipar

  • 2-3 msk bjór

Aðferð:

  1. Skerið laukana í frekar þunnar sneiðar.

  2. steikið laukinn upp úr smá olíu þar til hann fer að brúnast vel.

  3. Bætið salt og pipar, sykri og soyasósu og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.

  4. Bætið bjórnum útí og steikið í góðar 5 til 10 mínútur.




anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Auðveldir grill borgarar

Það er nauðsynlegt að eiga alla vegana eina skothelda hamborgara uppskrift á sumrin. Ég ákvað þar sem að það fer að styttast í vorið og sumarið og margir farnir að grilla að henda í eina slíka núna í páskafríinu. Það er ekkert mál að fá vegan borgara út í búð nú til dags en það er samt eitthvað við það að bera fram ljúfenga, heimagerða borgara.

Ég man þegar ég var yngri gerði ég stundum heimagerða borgara úr hakki sem voru ekki svo flóknir og þar sem mikið er til að vegan hakki nú til dags ákvað ég að útbúa borgara úr slíku, þar sem það er alveg ótrúlega einfalt og fljótlegt. Ég valdi nýjasta hakkið á markaðnum en það er hakk frá merkinu Linda McCartney og fæst í Bónus og Hagkaup. Ástæðan fyrir því að ég valdi það hakk er að það kemur í kílóa pakkningum og er fyrir vikið ódýrara en annað sem ég hef fundið.

Þegar ég geri heimagerð buff og bollur finnst mér lang best að gera mikið í einu og frysta frekar en að gera bara akkúrat það sem verður borðað. Úr þessari uppskrift koma 10 stórir borgarar en ég geri oftast eins marga borgara og ég þarf og rúlla svo litlar kjötbollur úr restinni og frysti. Þá get ég skellt þeim í ofnin einhvern tíman þegar tími til að undirbúa kvöldmat er takmarkaður.

Það er tilvalið að skella þessum á grillið í sumar en þeir eru ótrúlega vinsælir hjá mér hvort sem það er hjá grænkerum eða öðrum. Karamellaður laukur og bbq sósa gera þá virkilega bragðgóða og hakkið gerir mjög góða áferð. Ég hef hvern hamborgara stóran eða allt að 130gr en sú stærð hefur mér fundist best, en ég reikna oftast ekki með meira en einum á mann þar sem flestir virðast mátulega saddir eftir þessa stærð.

Mér finnst ofnbakaðar kartöflur vera algjör nauðsyn með góðum borgara en það er ótrúlega einfalt að útbúa svoleiðis. Ég einfaldlega sker kartöflurnar í þá stærð sem að mér finnst best, hvort sem það eru litlar franskar eða bátar. Svo helli ég örlítilli olíu og kryddblöndu yfir, og baka í ofninum við 210°C í u.þ.b. hálftíma. Þau krydd sem ég nota oftast eru: salt, pipar, laukduft, hvítlauksduft og paprikuduft.

Write here...

Write here...

Hráefni (10 stórir borgarar):

  • 600 gr Linda McCartney hakk + 300 ml vatn

  • 2 dósir svartar baunir

  • 1 laukur, smátt skorin

  • 3 hvítlauksrif, pressuð

  • 1 tsk tímían

  • salt og pipar

  • 75 ml bbq sósa

  • 1/2-1 tsk cayenne pipar

  • 1 - 1 1/2  dl malað haframjöl

  • Valfrjálst: góð kryddblanda að eigin vali en ég setti 2 msk af best á allt kryddi frá pottagöldrum.

Aðferð:

  1. Steikið hakkið á pönnu með vatninu þar til það er heitt og farið að mýkjast vel. Tekur ekki mikið meira en 5 mínútur. Setjið hakkið í blandara eða matvinnsluvél og blandið í smá stund í einu þar til hakkið verður aðeins fínna, en þetta hakk er frekar gróft. Þegar búið er að blanda þetta lítur þetta út eins og frekar þurrt kjörfarst. Setjið hakkið í skál og til hliðar.

  2. Skerið laukinn smátt og pressið hvílaukinn á pönnu og steikið með tímíani þar til laukurinn mýkist vel. Ég steiki upp úr smá vatni en það má alveg nota olíu.

  3. Setjið í blandarann eða matvinnsluvélina baunirnar, bbq sósuna og kryddinn, og blandið þar til alveg maukað. Bætið því ásamt lauknum og haframjölinu út í hakkið og hrærið saman. Ég byrja á að setja 1 dl af haframjöli og ef degið er of blautt til að móta buff með höndunum bæti ég 1/2 dl við.

  4. Mótið buff úr deiginu en það koma 10, 130 gr borgarar úr einni uppskrift. Eins og ég sagði fyrir ofan er hægt að gera rúmlega af buffum eða litlar bollur úr afganginum og frysta.

  5. Bakið í ofni við 180°C í 25-30 mínútur ef það á að bera þá fram strax, en mér finnst það koma betur út þegar þeir eru eldaðir beint en að steikja þá. Ég hins vegar geri deigið oftast fyrirfram og set borgarana þá í 15 mínútur í ofninn, tek þá út og leyfi þeim að kólna alveg. Ef ég ætla að bera þá fram á næstu dögum set ég þá bara í ísskápin og steiki svo á pönnu eða set þá á grillið, þegar þar að kemur. Annars skelli ég þeim bara í frystin og tek út sirka tveimur tímum áður en ég steiki þá. Ég mæli ekki með að setja deigið beint á grill þar sem það er soldið mjúkt og blautt.

Ég bar borgarana að þessu sinni fram með ofnbökuðum kartöflum, fersku grænmeti, steiktum sveppum, bbq sósu og hvítlauksósu, en það er hægt að leika sér á óteljandi vegu með sósur og meðlæti. Ég ætla að láta uppskriftina af hvítlaukssósunni fylgja með.

Hvílaukssósa:

  • 200 ml vegan majónes (uppskrift af heimagerðu er hér)

  • 1/2 hvílauksgeiri

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1-2 tsk þurrkuð steinselja 

Aðferð:

  1. Hrærið öllu saman og leyfið að standa í ísskáp í 20-30 mín áður en borið fram.

Pulled Oumph! borgari með jalapeno mæjó og gómsæt ídýfa

Ég held að flestum Íslendingum líði þessa dagana eins og þeir gangi um í draumi. Karlalandsliðið okkar í fótbolta spilar í átta liða úrslitum á Evrópumeistaramótinu á morgun. Þetta lið er eitt af átta bestu fótboltaliðum evrópu. Og ekki gengur kvennaliðinu verr, efstar í undankeppni evrópumótsins sem fer fram á næsta ári, búnar að skora tæp 30 mörk og fá engin á sig. Ég er allavega í sjokki og ekkert smá stolt af þessu fólki og því að litla landið okkar skari fram úr á svo mörgum sviðum. Líkt og flestir Íslendingar ætla ég að horfa á leikinn á sunnudaginn, en leikurinn er sýndur klukkan 19:00, einmitt á kvöldmatartíma. Því er eiginlega nauðsynlegt að hafa eitthvað gott að borða á meðan. Það verður þó að vera eitthvað auðvelt þar sem spennan og stressið sem við munum finna fyrir á sunnudaginn mun örugglega hindra flókna eldamennsku. Ég ákvað því að á sunnudaginn þyrfti ég að hafa eitthvað rosalega gott en einnig rosalega auðvelt í matinn.

Þegar ég var í Svíþjóð hjá Helgu í maí fórum við á skyndibitastaðinn Max, en hann er nýlega farin að bjóða upp á vegan borgara. Þetta er þó ekki hinn hefðbundni grænmetisborgari en uppistaðan í honum var Pulled Oumph. Mér datt því í hug að reyna að endurgera þennan borgara þar sem ekki er erfitt að nálgast Pulled Oumph þessa dagana á Íslandi. Það gekk líka svona ljómandi vel og útkoman varð æðisleg máltíð sem tók örskamman tíma að útbúa. Ég ætla að deila með ykkur uppskriftinni af borgaranum svo þið getið notið hans yfir leiknum á morgun líkt og ég mun gera.

Pulled Oumph borgari (ein uppskrift verður að tveimur borgurum)

1 poki Pulled Oumph
2 hamborgarabrauð (athugið að brauðin sem þið kaupið séuð vegan, en brauðin frá Myllu eru það til dæmis)
Það grænmeti sem hugurinn girnist, en ég notaði kál, gúrku og tómata.
Jalapeno mæjónes

Borgarinn er mjög auðveldur í eldamennsku en það eina sem þarf að gera er að steikja Oumphið þar til það er tilbúið og setja á hamborgarabrauð ásamt sósunni og grænmetinu. Ég bar borgarann fram með kartöflubátum og vegan hrásalati. En uppskriftin af hrásaltinu má finna HÉR. Fyrir þá sem ekki vita hvað Oumph er, þá er það soja kjöt sem líkist kjúklingi mjög mikið. Pulled Oumph er í bbq sósu og því þarf ekki einu sinni að krydda það og því mjög auðvelt að gera góða máltíð úr því. Hægt er að fá Oumph í nánast öllum Krónu búðum á landinu.

Jalapeno mæjónes

1 dl vegan mæjónes
3 skífur niðursoðið jalapeno mjög smátt skorið
nokkrir dropar af sítrónusafa
salt og pipar

Hrærið öllu saman í skál. Hægt er að fá vegan mæjónes t.d. í Hagkaup frá Just Mayo en mér finnst lang best að gera bara heimatilbúið mæjónes en það er mjög auðvelt. Uppskrif af mæjó er að finna HÉR


Ég ætla einnig að deila með ykkur uppáhalds sjónvarpsmönnsinu mínu. Þessa ídýfu kenndi mamma vinkonun minnar okkur að gera þegar við vorum litlar en mér fannst þessi uppskrift hljóma svo illa að ég var staðráðin í að mér myndi sko ekki finnast þetta gott. Ástæðan var örugglega sú að ídýfan samanstendur af sósu með fullt af grænmeti ofan á. Mér fannst alveg furðulegt að maður myndi setja grænmeti á eitthvað sem ætti að vera borðað yfir sjónvarpinu á föstudagskvöldi. Ég hefði þó ekki getað haft meira rangt fyrir mér þar sem þessi ídýfa er það besta sem ég veit og heldur betur tilvalinn með leiknum á sunnudaginn. Einnig er hún alls ekkert óholl og þarf maður því ekki að sitja með samviskubit eftir að maður gæðir sér á henni.

Ídýfa Önnu í Túni (ein uppskrift verður að ágætisstærð af ídýfu sem gott er að deila með vinum og fjölskyldu)

1 dós vegan rjómaostur (tofutti rjómaosturinn er mjög góður en hann fæst í Hagkaup)
1 dós (sirka 300 gr) salsa sósa
Það grænmeti sem hugurinn girnist, t.d. kál, gúrka, tómatar og paprika, en það er það sem ég notaði

Hrærið rjómaostinn ötlitla stund með handþeytara. Hrærið salsasósunni út í og setjið blönduna í það ílát sem þið hyggist bera ídýfuna fram í. Gott er að nota einhversskona eldfast mót eða bakka en blandan á að vera sirka einn cm þykk í botninum. Skerir grænmetið mjög smátt og stráið yfir. Berið ídýfuna fram kalda með tortilla snakki eða svörtu doritos, en það er vegan. Ef tíminn fyrir leikinn er naumur er gott að gera ídýfuna fyrr um daginn en þá er sniðugt að skera vatnsmesta partin úr gúrkunni (miðjuna) og sleppa tómötunum svo ídýfan verði ekki vatnskennd.

 

Ég hvet alla til að prófa þessar uppskriftir og hafa með leiknum á morgun, en ef þið gerið það má alltaf pósta á instagram og merkja #veganistur eða senda okkur myndir á snapchat, en við elskum að fá myndir frá ykkur.

 

 Júlía Sif