Vegan hamborgari með bjórsteiktum lauk og hamborgarasósu

IMG_6520-5.jpg

Þá er komið að seinni færslunni í samstarfi okkar við Anamma í júní. Eins og við nefndum síðast þá erum við að vinna með nýja hakkið frá þeim sem mótast sérstaklega vel og hentar fullkomlega til að útbúa góða borgara eins og þennan. Í síðustu færslu deildum við með ykkur uppskrift af geggjuðum vegan bollum með ritz kexi og döðlum og við höfum fengið virkilega góð viðbrögð við þeim. Í dag er komið að þessum djúsí borgara sem er geggjaður á grillið eða pönnuna. Þetta nýja hakk er alger “game changer” og við erum ekkert smá ánægðar með að fá að vinna með svona góðar vandaðar vörur. Vörurnar frá Anamma fást í Hagkaup og Bónus og svo í ýmsum minni verslunum eins og Melabúðinni og Fjarðarkaup.

IMG_6494-5.jpg

Það er æðislegt að sjá úrvalið af vegan vörum aukast svona gríðarlega eins og gerst hefur síðustu ár. Það er ekkert svo langt síðan vegan borgarar voru alltaf gerðir úr hefðbundnu grænmetisbuffi með tómatsósu. Í dag er hinsvegar hægt að velja á milli allskonar borgara, en þar til fyrir stuttu var svolítið vesen að útbúa heimagerða borgara úr sojahakki. Það breyttist þó algerlega þegar Anamma byrjaði að framleiða nýja hakkið sitt og í dag er ekkert mál að útbúa djúsí heimagerða borgara.

IMG_6497-6.jpg

Við ákváðum að byrja á því að gera svolítið klassíska uppskrift. Uppskrift sem er geggggjuð eins og hún er en býður uppá það að setja hana í eigin búning ef maður vill. Þessa borgara er ekkert mál að grilla og við getum eiginlega lofað ykkur að jafnvel hörðustu kjötætur eiga eftir að elska þá.

IMG_6500-5.jpg

Í þetta skipti útbjuggum við gómsæta hamborgarasósu með borgurum og toppuðum þá einnig með bjórsteiktum lauk sem er ekkert smá góður. Hamborgarasósuna gerum við í hvert skipti sem við gerum okkur borgara. Það tekur enga stund að útbúa hana og hún er dásamleg. Við settum svo hvítlauksmæjónes á borgarann líka, en það var mest til að fá fallega mynd hehe.

IMG_6518-4.jpg

Eins og ég skrifaði að ofan er þessi uppskrift alveg svakalega góð, en það er auðvelt að prufa sig áfram og gera eitthvað aðeins öðruvísi úr henni. Ég hef t.d. stundum sett smá estragon út í og það gefur mjög skemmtilegt bragð. Eins er rosalega gott að blanda út í borgarann vegan fetaosti. Við erum mjög spenntar að heyra hvað ykkur finnst um borgarann og eins hvað ykkur þykir skemmtilegast að útbúa úr þessu frábæra nýja hakki frá Anamma.

IMG_6523-7.jpg

Hamborgarar 4 stykki

  • 440 gr formbar hakkið frá Anamma

  • 1 msk laukduft

  • 1 msk hvítlauksduft

  • 1-2 tsk sojasósa

  • 1 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep

  • 2 tsk kjöt og grillkrydd

  • salt og pipar

  • BBQ sósa til að pennsla yfir (má sleppa)

Aðferð:

  1. Takið hakkið úr frysti um það bil klukkutíma áður en matreiða á borgarana.

  2. Setjið öll kryddin út í þegar hakkið hefur aðeins fengið að þiðna.

  3. Mótið 4 buff út hakkinu (sirka 110 gr hvert buff) og steikið eða grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

  4. Pennslið með BBQ sósu áður en borgararnir eru matreiddir ef þið kjósið. Það er alls engin nauðsyn en okkur þykir það svakalega gott.

Hamborgarasósa

  • 1-1 1/2 dl vegan majónes (keypt eða eftir uppskrift hérna af blogginu)

  • 1/2 dl tómatsósa

  • 1/2 dl mjög smátt saxaðar súrar gúrkur

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk laukduft

  • salt

Aðferð:

  1. Saxið súru gúrkurnar mjög smátt.

  2. Hrærið öllum hráefnunum saman í skál

Bjórsteiktur laukur

  • 2 stórir laukar

  • 1 msk sykur

  • 1 msk soyasósa

  • salt og pipar

  • 2-3 msk bjór

Aðferð:

  1. Skerið laukana í frekar þunnar sneiðar.

  2. steikið laukinn upp úr smá olíu þar til hann fer að brúnast vel.

  3. Bætið salt og pipar, sykri og soyasósu og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.

  4. Bætið bjórnum útí og steikið í góðar 5 til 10 mínútur.




anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-