Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú, hrásalati og bjórsteiktum lauk

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að hinni fullkomnu vegan steikarsamloku með grilluðu tófú, piparmajó, hrásalati og bjórsteiktum lauk. Samlokan er tilvalin að gera fyrir sumargrillveisluna eða taka með sér í lautarferð. Þetta er samloka sem allir elska, hvort sem viðkomandi er vegan eða ekki. Ég mæli með því að bera hana fram með góðum frönskum og þessa dagana er ég með æði fyrir vöfflufrönskum.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin í hana þar. Í Krónunni er mikið úrval af vegan mat og hægt að fá allt sem þarf fyrir vegan grillveisluna þar, hvort sem það er fyrir forrétt, aðalrétt, meðlæti eða eftirrétt.

Grillaða tófúið er aðalpersónan í þessari uppskrift. Það er einstaklega gott og hægt að bera fram með nánast hverju sem er. Ef ég er ekki í stuði til að gera samloku finnst mér gott að borða það með grilluðum kartöflum, hrásalati, góðri sósu og salati. Leyndarmálið er að leyfa tófúinu að marínerast í allavega klukkutíma. Ég reyni að pressa það í viskastykki í sirka klukkutíma og hafa það svo í maríneringunni í 3-4 tíma svo það dragi í sig sem mest bragð.

Þetta hljómar kannski tímafrekt en í raun krefst þetta ekki mikillar fyrirhafnar. það tekur enga stund að hræra saman maríneringunni en það er tíminn á milli sem er lengri. Og trúið mér, það er þess virði að gera þetta tímanlega því tófúið verður svo ótrúlega gott.

Á samlokunni er:

Grillað tófú
piparmajó
hrásalat
klettasalat
tómatur
bjórsteiktur laukur.

Þetta er guðdómlega gott og djúsí. Ekta steikarsamloka sem sannar fyrir öllum að vegan grillmatur sé alls ekki síðri öðrum grillmat. Viljiði uppskriftir af góðu grillmeðlæti? Þá mæli ég með þessari færslu sem er stútfull af góðum hugmyndum.

Takk fyrir að lesa og vonandi smakkast vel!

-Helga María

Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú

Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú
Fyrir: 3-4
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Grillað tófú
  • 1 stk tófú, ca 400-500 gr. (passið að kaupa ekki silken tófú vegna þess að það virkar alls ekki fyrir svona uppskrift)
  • 2 dl sojasósa
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 msk hlynsíróp
  • Safi úr 1/2 sítrónu
  • 1 tsk timían
  • Smá chiliflögur (má sleppa)
  • Brauð fyrir samlokurnar
Köld piparsósa:
  • 1 dl oatly sýrður rjómi eða hreint sykurlaust vegan jógúrt
  • 1 dl vegan Krónu majónes
  • 2 tsk grófmalaður svartur pipar
  • 1/2 tsk laukduft
  • 1/2 tsk salt
Hrásalat
  • 300 gr rifið hvítkál
  • 200 gr rifnar gulrætur
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 1 dl vegan krónumajónes
  • 1 dl oatly sýrður rjómi
  • 1 tsk dijonsinnep
  • 1 tsk eplaedik
  • 1/2 tsk salt
  • Svartur pipar eftir smekk
Bjórsteiktur laukur
  • 3 stórir laukar
  • Olía að steikja upp úr
  • 2 msk sykur
  • 2 msk soyasósa
  • salt og pipar
  • 1/2 dl bjór (ég mæli með peroni libero áfengislausa bjórnum sem er til í Krónunni)

Aðferð:

Grillað tófú:
  1. Takið tófúið úr umbúðunum og kreistið létt svo þið fáið út aðeins af vökvanum. Vefjið tófústykkinu inn í eldhúspappír eða viskastykki og leggið eitthvað þungt yfir, t.d. stóra bók eða pönnu. Leyfið að standa í sirka klukkutíma.
  2. Hrærið saman maríneringunni og hellið í box eða stóra skál. Skerið tófúið í 4 sneiðar og leggið í maríneringuna og leyfið að marínerast í minnst klukkustund. Ég reyni að leyfa því að sitja í maríneringunni í 3-4 tíma svo tófúið dragi í sig sem mest bragð.
  3. Græjið restina af hráefnunum á meðan þið bíðið svo að ekki þurfi að gera meira þegar kemur að því að grilla tófúið.
Köld piparsósa
  1. Hrærið öllu saman í skál.
Hrásalat:
  1. Rífið hvítkálið með ostaskerara.
  2. Rífið gulræturnar.
  3. Skerið laukinn í þunna strimla.
  4. Setjið í skál og hrærið restinni af hráefnunum saman við.
Bjórsteiktur laukur
  1. Skerið laukana í frekar þunnar sneiðar.
  2. steikið laukinn upp úr smá olíu þar til hann fer að brúnast vel.
  3. Bætið salt og pipar, sykri og soyasósu og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.
  4. Bætið bjórnum útí og steikið í góðar 5 til 10 mínútur.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Færslan er unnin í samstarfi við Krónunna-

 
 

Stökkir kartöflubátar með gómsætri vegan fetaostasósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að stökkum og góðum kartöflubátum bornum fram með vegan fetaostasósu með fersku oregano. Þetta er hinn fullkomni sumarréttur, hvort sem þið berið hann fram sem forrétt, meðlæti, aðalrétt eða smárétt.

Ég elska kartöflur, hvort sem það er kartöflumús, soðnar kartöflur, steiktar eða djúpsteiktar, ég gæti borðað kartöflur í öll mál. Þessir kartöflubátar eru í top 5 sætunum yfir mínar uppáhalds kartöflur. Þeir eru akkúrat eins og ég vil hafa þá, mjúkir að innan og stökkir og góðir að utan. FULLKOMNIR!

Mitt tips til að gera kartöflubátana fullkomlega stökka að utan og mjúka að innan er að sjóða þá fyrst og baka þá svo í ofninum uppúr góðri ólífuolíu og kryddum. Ég veit að þetta er eitt extra skref en mér finnst algjörlega þess virði að sjóða þá fyrst svo ég mæli virkilega með því.

Þá er það fetaostasósan. Þessi sósa er alveg guðdómlega góð og fullkomin með sumargrillmatnum. Ég á eftir að gera hana aftur og aftur í sumar og bera fram með allskonar grilluðu grænmeti eða góðu ristuðu brauði. Hún er fersk og góð og passar fullkomlega með krydduðum kartöflubátunum. Hráefnin sem ég nota í sósuna eru:

  • Vegan fetaostur

  • Vegan sýrður rjómi

  • Ferskt oregano

  • Sítrónubörkur

  • Ólífuolía

  • Chiliflögur

  • Salt og pipar

Það er hægt að leika sér mikið með hráefnin og nota t.d. aðrar jurtir í stað oregano, t.d. kóríander eða basilíku. Eins get ég ímyndað mér að það sé virkilega gott að setja hvítlauk í hana.

Ég get ímyndað mér að sósan sé fullkomin með þessum gómsætu grillspjótum!

Takk kærlega fyrir að lesa og vona innilega að þér líki uppskriftin.

-Helga María

Stökkir kartöflubátar með vegan fetaostasósu

Stökkir kartöflubátar með vegan fetaostasósu
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Kartöflubátar:
  • 1 kg kartöflur
  • 1 dl ólífuolía
  • 1 tsk af hverju kryddi: laukdufti, hvítlauksdufti, paprikudufti og salti
  • Smá svartur pipar
  • Ferskur graslaukur að toppa með eftir ofninn
Fetaostasósa:
  • 1 stykki vegan fetaostur
  • 2 dl vegan sýrður rjómi
  • 1/4 dl ólífuolía
  • sirka 1-2 msk ferskt oregano
  • sirka 2 tsk rifinn sítrónubörkur
  • Smá salt og chiliflögur
  • Smá chiliolía til að toppa með (má sleppa en ég átti svoleiðis til heima og fannst hún passa mjög vel með)

Aðferð:

Kartöflubátar:
  1. Skerið kartöflurnar niður í báta og sjóðið í 10 mínútur.
  2. Hitið ofninn í 210°c.
  3. Hellið vatninu af kartöflunum og setjið þær í ofnskúffu.
  4. Hellið ólífuolíu og kryddum yfir og hrærið saman svo það þekji kartöflurnar.
  5. Bakið í ofninum í sirka 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru stökkar og hafa fengið á sig gylltan lit.
Fetaostasósa:
  1. Setjið fetaost, sýrðan rjóma og ólífuolíu í matvinnsluvél og blandið.
  2. Bætið sítrónuberki, oregano, salti og chiliflögum saman við og blandið í nokkrar sekúndur.
  3. Smyrjið á stórt fat og toppið með kartöflubátunum, smá chiliolíu og graslauk.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Grillaðar vegan pylsur á þrenns konar vegu

IMG_0438.jpg

Í dag er föstudagur og því finnst mér tilvalið að deila með ykkur líklega síðustu grillfærslu sumarsins. Þetta sumar er búið að líða alveg ótrúlega hratt og er erfitt að trúa því að núna séu skólar að komast á fullt. Núna í lok ágúst finnst mér því fullkomið að deila með ykkur þessari færslu sem inniheldur mismunandi tillögur af því hvernig bera megi fram Anamma pylsurnar. Anamma pylsurnar eru í miklu uppáhaldi hjá okkur systrum og elskum við að grilla þær því það er svo einfalt og þægilegt. Þær eru einnig fullkomin matur til að taka með sér í útilegur eða í grillveislur til vina eða fjölskyldu.

IMG_0455-2.jpg

Ég elska hefðbundnar pylsur með tómatsósu, steiktum lauk og sinnepi en finnst einnig alveg ótrúlega skemmtilegt að leika mér með mismunandi hráefni og matreiða pylsurnar á ólíka vegu. Það má breyta réttinum alveg með því að setja aðrar sósur eða góð salöt á pylsurnar. Það má undirbúa öll hráefnin í þessari færslu fyrirfram þar sem þau eru öll mjög einföld og taka með sér í lautarferð eða hvar sem planið er að grilla.

IMG_0459-2.jpg

Þessi hefðbundna:

  • Anamma pylsur

  • Tómatsósa

  • Steiktur laukur

  • Sinnep (ég nota yfirleitt bæði pylsusinnep og sætt sinnep)

  • Heimagert kartöflusalat (uppskrift neðst í færslunni)

  • Pylsubrauð

Aðferð:

  1. Útbúið kartöflusalatið eftir uppskriftinni neðst í þessari færslu.

  2. Grillið pylsurnar í nokkrar mínútur á hverri hlið eða þar til þær fá fallega gylltar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðinn og raðið hráefnunum á eins og hver og einn vill.

BBQ pylsur:

  • Anamma pylsur með bbq sósu

  • Chilli majónes

  • Grænt salat

  • Hrásalat

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa hrásalat, uppskriftina af því má finna neðst í þessari færslu.

  2. Pennslið pylsurnar með bbq sósu og grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til pylsurnar frá fallegar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðin og raðið hráefnunum í eftir smekk.

IMG_0462-2.jpg

Þessi mexíkóska:

  • Anamma pylsur

  • Mangósalsa (uppskrift neðst í færslunni)

  • Guacamole (uppskrift neðst í færslunni)

  • Grænt salat

  • Sýrður rjómi

  • Svart Doritos

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa mangósalsað og guacamole sem er hér neðst í færslunni.

  2. Grillið pyslurnar í nokkrar mínútur á hvorri hlið þar til þær fá fallegar gylltar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðin og raðið hráefnunum í eftir smekk.

Kartöflusalat

  • 500 gr kartöflur

  • 2 dl vorlaukur (einnig hægt að nota blöndu af venjulegum lauk og graslauk)

  • 3/4 dl vegan majónes

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1 msk gróft sinnep

  • 2 tsk sítrónusafi

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið kartöflurnar í litla bita og gufusjóðið í 20 mínútur. Það er líka alveg hægt að sjóða kartöflurnar venjulega og flysja og skera niður þegar þær hafa kólnað.

  2. Saxið vorlaukinn og blandið öllu nema kartöflunum saman í skál. Setjið kartöflurnar út í þegar þær hafa kólnað alveg.

  3. Berið fram með hverju sem er, en salatið passar auðvitað sérstaklega vel með öllum grilluðum mat.

Hrásalat

  • 1 dl vegan majónes

  • 1 dl þunnt skorið hvítkál

  • 1 dl þunnt skorið ferskt rauðkál

  • 2 litlar eða 1 meðalstór gulrót

  • 1 tsk agave síróp

  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið hvítkálið og rauðkálið í mjög þunnar sneiðar.

  2. Rífið niður gulræturnar.

  3. Blandið öllum hréfnum saman í skál. Saltið eftir smekk

Mangó salsa

  • 1 dl niðurskorið mangó

  • 1 dl niðurkorið papríka

  • 1/2 dl niðursaxaður rauðlaukur

  • safi úr hálfri lime

  • Salt eftir smekk

  • Ferskt kóríander eftir smekk (má sleppa)

Aðferð:

  1. Skerið niður grænmetið og mangóið í litla bita.

  2. Blandið öllum hráefnum saman í skál.

  3. Saltið eftir smekk.

Guacamole

  • 2-3 stór avocado

  • 1/2 hvítlauksgeiri

  • 1 tómatur

  • 1/2 lítill rauðlaukur

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Safi úr 1/2 lime

  • Ferstk kóríander (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að stappa avocadoin vel saman með gaffli

  2. Saxið niður tómat og rauðlauk og pressið hvítlauk

  3. Blandið öllum hráefnum saman við avocadómaukið og hrærið vel saman.

  4. Saltið og piprið eftir smekk

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi -

 
anamma_logo.png