Stökkir kartöflubátar með gómsætri vegan fetaostasósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að stökkum og góðum kartöflubátum bornum fram með vegan fetaostasósu með fersku oregano. Þetta er hinn fullkomni sumarréttur, hvort sem þið berið hann fram sem forrétt, meðlæti, aðalrétt eða smárétt.

Ég elska kartöflur, hvort sem það er kartöflumús, soðnar kartöflur, steiktar eða djúpsteiktar, ég gæti borðað kartöflur í öll mál. Þessir kartöflubátar eru í top 5 sætunum yfir mínar uppáhalds kartöflur. Þeir eru akkúrat eins og ég vil hafa þá, mjúkir að innan og stökkir og góðir að utan. FULLKOMNIR!

Mitt tips til að gera kartöflubátana fullkomlega stökka að utan og mjúka að innan er að sjóða þá fyrst og baka þá svo í ofninum uppúr góðri ólífuolíu og kryddum. Ég veit að þetta er eitt extra skref en mér finnst algjörlega þess virði að sjóða þá fyrst svo ég mæli virkilega með því.

Þá er það fetaostasósan. Þessi sósa er alveg guðdómlega góð og fullkomin með sumargrillmatnum. Ég á eftir að gera hana aftur og aftur í sumar og bera fram með allskonar grilluðu grænmeti eða góðu ristuðu brauði. Hún er fersk og góð og passar fullkomlega með krydduðum kartöflubátunum. Hráefnin sem ég nota í sósuna eru:

  • Vegan fetaostur

  • Vegan sýrður rjómi

  • Ferskt oregano

  • Sítrónubörkur

  • Ólífuolía

  • Chiliflögur

  • Salt og pipar

Það er hægt að leika sér mikið með hráefnin og nota t.d. aðrar jurtir í stað oregano, t.d. kóríander eða basilíku. Eins get ég ímyndað mér að það sé virkilega gott að setja hvítlauk í hana.

Ég get ímyndað mér að sósan sé fullkomin með þessum gómsætu grillspjótum!

Takk kærlega fyrir að lesa og vona innilega að þér líki uppskriftin.

-Helga María

Stökkir kartöflubátar með vegan fetaostasósu

Stökkir kartöflubátar með vegan fetaostasósu
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Kartöflubátar:
  • 1 kg kartöflur
  • 1 dl ólífuolía
  • 1 tsk af hverju kryddi: laukdufti, hvítlauksdufti, paprikudufti og salti
  • Smá svartur pipar
  • Ferskur graslaukur að toppa með eftir ofninn
Fetaostasósa:
  • 1 stykki vegan fetaostur
  • 2 dl vegan sýrður rjómi
  • 1/4 dl ólífuolía
  • sirka 1-2 msk ferskt oregano
  • sirka 2 tsk rifinn sítrónubörkur
  • Smá salt og chiliflögur
  • Smá chiliolía til að toppa með (má sleppa en ég átti svoleiðis til heima og fannst hún passa mjög vel með)

Aðferð:

Kartöflubátar:
  1. Skerið kartöflurnar niður í báta og sjóðið í 10 mínútur.
  2. Hitið ofninn í 210°c.
  3. Hellið vatninu af kartöflunum og setjið þær í ofnskúffu.
  4. Hellið ólífuolíu og kryddum yfir og hrærið saman svo það þekji kartöflurnar.
  5. Bakið í ofninum í sirka 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru stökkar og hafa fengið á sig gylltan lit.
Fetaostasósa:
  1. Setjið fetaost, sýrðan rjóma og ólífuolíu í matvinnsluvél og blandið.
  2. Bætið sítrónuberki, oregano, salti og chiliflögum saman við og blandið í nokkrar sekúndur.
  3. Smyrjið á stórt fat og toppið með kartöflubátunum, smá chiliolíu og graslauk.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur