Grillað pönnubrauð með vegan fetaostasósu og grilluðu grænmeti

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætu grilluðu pönnubrauði með fetaostasósu og grilluðu grænmeti. Hin fullkomna sumaruppskrift. Þetta er matur sem bæði er hægt að undirbúa fyrir fram og taka með sér út að grilla eða útbúa og grilla á staðnum.

Þessi færsla er í samstarfi við Krónuna og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina. Í Krónunni er virkilega gott úrval af góðum vegan grillmat og við erum alltaf jafn stoltar af því að fá að vinna með þeim.

Grillað grænmeti er að mínu mati eitt það besta við sumarið. Ég gæti glöð borðað það eitt og sér eða með góðri sósu, en í dag vil ég sýna ykkur hvernig er hægt að gera það ennþá betra. Grænmetið sem ég valdi í dag er í raun bara það sem ég átti til heima. Leyfið endilega hugmyndafluginu að ráða. Ég elska t.d. grillaðan aspas, grillað kál, kartöflur, eggaldin.

Ef þú hefur ekki prófað að grilla pönnubrauð þá mæli ég eindregið með því. Það er ekkert smá gott. Þar sem ég vildi hafa þetta uppskrift sem auðvelt er að gera á staðnum, t.d. ef þú ert í útilegu eða bara vilt elda góðan mat úti með vinum eða fjölskyldu, ákvað ég að gera einfalda uppskrift af brauði sem inniheldur lyftiduft í stað þurrgers. Þetta brauð þarf því ekki að hefast heldur er hægt að fletja út og grilla beint.

Fetaostasósan er mitt uppáhalds meðlæti með grillmat þessa dagana. Virkilega virkilega góð. Fyrir stuttu deildi ég með ykkur uppskrift af vegan fetaostasósu sem ég bar fram með steiktum kartöflubátum, en í dag mun ég sýna ykkur hvernig auðveldlega er hægt að útbúa hana án þess að þurfa að nota matvinnsluvél eða önnur raftæki. Þessi sósa er æðisleg með grillaða brauðinu og grænmetinu en passar einnig með öllum grillmat að mínu mati.

Takk kærlega fyrir að lesa og vona innilega að þér líki uppskriftin. Ef þú prófar hana eða aðrar uppskriftir af blogginu þykir okkur alltaf jafn vænt um það ef þú taggar okkur á Instagram! <3

-Helga María

Grillað pönnubrauð með vegan fetaostasósu og grilluðu grænmeti

Grillað pönnubrauð með vegan fetaostasósu og grilluðu grænmeti
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Grillað pönnubrauð með vegan fetaostasósu og grænmeti:
  • 5 dl hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 6 msk ólífuolía (plús meira til að pennsla yfir)
  • 2-3 dl vatn (byrjið á 2 dl og bætið við ef ykkur finnst þurfa)
  • Fetaostasósa (uppskrift hér að neðan)
  • Grænmeti eftir smekk
  • Vegan grænt pestó til að toppa með (má sleppa en er svakalega gott)
  • Salt og pipar
Einföld vegan fetaostasósa:
  • 1 stykki vegan fetaostur frá Violife (greek white heitir hann)
  • 1 dós vegan sýrður rjómi (ég notaði Oatly imat fraiche 200ml)
  • ca 2 tsk rifinn sítrónubörkur og 1 tsk safi frá sítrónunni.
  • 2 msk ólífuolía
  • Salt og pipar
Grillað grænmeti:
  • Grænmeti eftir smekk. Ég notaði: Vorlauk, rauðlauk, rauða og gula papriku, sveppi og kúrbít.
  • Olía og krydd eftir smekk. Ég notaði bara olíu, salt og pipar en það er hægt að krydda með öllu því sem mann lystir.

Aðferð:

Grillað pönnubrauð
  1. Blandið saman hráefnunum.
  2. Bætið olíunni og vatninu út í og hnoðið létt
  3. Skerið í 6 bita og mótið kúlur. Leyfið þeim að standa undir viskastykki í 10 mínútur.
  4. Fletjið út, pennslið með ólífuolíu og grillið þar til hvor hlið fyrir sig fær gylltan lit. Það fer eftir grilli og hversu heitt það er en það ætti ekki að taka margar mínútur að grilla hvora hlið fyrir sig.
  5. Setjið undir viskastykki þar til þið berið fram.
  6. Smyrjið á brauðið fetaostasósunni, skerið grænmetið niður og raðið yfir og toppið með grænu pestói, ólífuolíu, salti og pipar.
Vegan fetaostasósa:
  1. Stappið fetaostinn með gaffli og setjið í skál.
  2. Bætið restinni af hráefnunum í skálina og hrærið saman.
  3. Smakkið til og bætið við sítrónu, salti og pipar eftir smekk.
Grillað grænmeti:
  1. Skerið grænmetið niður eins og ykkur finnst best.
  2. Grillið þar til ykkur finnst það orðið tilbúið. Athugið að það er oft mismunandi hversu langan tíma grænmetið þarf. Vorlaukurinn þarf bara örfáar mínútur og kúrbítssneiðarnar þurfa ekki langan tíma heldur. Rauðlaukinn skar ég í 4 bita og þeir þurfa lengri tíma svo þeir séu ekki hráir að innan. Ég er dugleg að fylgjast með og passa að ekkert brenni.
  3. Þetta er samt líka mismunandi eftir grillum svo það er erfitt að segja nákvæmlega.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni þar-