Mjúkt og gott vegan bananabrauð með valhnetum

Hæhæ!

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlega góðu og dúnmjúku vegan bananabrauði með vanhnetum. Það er svosem alveg hægt að kalla þetta bananaköku þar sem það er mun meira í þá áttina, en að einhverri ástæðu hefur nafnið bananabrauð fests svo við höldum okkur við það. Ég ber mitt fram með góðu vegan smjöri og ætli það dugi ekki til að kalla það brauð?!

Hvort sem þú vilt kalla það bananabrauð eða bananaköku skiptir ekki miklu máli, það sem er mikilvægast er að bananabrauðið er dúnmjúkt og bragðast svoo vel. Í uppskriftina notaði ég valhnetur en viku seinna bakaði ég það aftur og skipti þeim út fyrir saxað dökkt súkkulaði. Ég get viðurkennt að mér fannst það ennþá betra með súkkulaði þó það sé að sjálfsögðu virkilega gott með hnetunum!

Ég er ein af þeim sem eiga oft til brúna banana heima og segjast alltaf vera á leiðinni að skella í bananabrauð en koma sér aldrei í það. Héðan í frá mun það ekki gerast aftur. Þessi uppskrift er svo einföld að það er eignilega hlægilegt. Það er hægt að deila deiginu í muffinsform ef maður vill baka það ennþá hraðar. En ég mun aldrei láta banana fara til spillis framar. Nú á ég nokkrar sneiðar af þessu gómsæta brauði í frystinum og það er ekkert jafn gott og að geta tekið út eins og tvær sneiðar þegar maður er í stuði.

Deigið í bananabrauðið er hrært með höndunum svo það er engin þörf á að nota hrærivél. Ég byrja á því að hræra saman sykur, olíu, mjólk, eplaedik, vanilludropa og stappaða banana og sigta svo þurrefnin saman við.

Að lokum bæti ég við niðurskornum valhnetum og hræri samanvið með sleikju. Það er ekkert mál að skipta valhnetunum út fyrir aðrar tegundir af hnetum eða fræjum, rúsínur eða súkkulaði eins og ég nefndi hér að ofan. Það má að sjálfsögðu líka sleppa þeim alveg, bananabrauðið verður alveg jafn gott þrátt fyrir það.

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki vel!

-Helga María

Vegan bananabrauð með valhnetum

Vegan bananabrauð með valhnetum
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • 4,5 dl hveiti (280 g)
  • 1 dl sykur (100 g)
  • 1/2 dl púðursykur (50 g)
  • 1 tsk matarsódi
  • 1,5 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 2 dl vegan mjólk
  • 1 tsk vanilludropar
  • 3 stórir 4 minni þroskaðir bananar
  • 1 msk eplaedik
  • 1 dl matarolía
  • 1 dl niðurskornar valhnetur (má sleppa eða skipta út fyrir t.d. aðrar hnetur, fræ, rúsínur eða súkkulaði)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c undir og yfir hita.
  2. Hrærið saman olíu, vanilludropa, eplaedik, sykur og púðursykur í skál.
  3. Stappið banana með gaffli og bætið út í skálina og hrærið saman við.
  4. Hrærið saman hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt í aðra skál.
  5. Sigtið þurrefnin ofan í skálina með blautu hráefnunum og hrærið.
  6. Skerið niður valhnetur (eða annað ef þið viljið skipta þeim út. Má líka sleppa alveg) og hrærið varlega saman við með sleikju.
  7. Hellið deiginu ofan í brauðform klætt með smjörpappír og bakið í 50-60 mínútur eða þar til pinni sem stungið er í kemur hreinn út. Byrjið að fylgjast með brauðinu reglulega eftir 40 mínútur.
  8. Njótið!!
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur