Rjómaostasnúðar með rauðu pestói

Í dag deilum við með ykkur dásamlegum rjómaostasnúðum með rauðu pestói. Þessir snúðar eru ótrúlega einfaldir en ekkert smá mjúkir og gómsætir. Þeir henta fullkomlega til að eiga í nesti í útileguna, skólan eða bara með kaffinu. Það má leika sér með þessa uppskrift á ótal vegu og hægt er að setja nánast hvað sem hugurinn girnist sem fyllingu í snúðana.

Ég elska að baka sætar kökur, muffins og snúða með kaffinu en oft gleymi ég hvað er ótrúlega gaman að baka ósætt bakkelsi, líkt og þessa dásamlegu snúða. Það er svo fullkomið í kaffitímanum eða í nesti, þegar manni langar ekki endilega bara í eitthvað sætt. Mér finnst einhvern veginn alltaf meiri matur í ósætu bakkelsi. Þessir snúðar eru akkúrat þannig, ég geri þá frekar stóra svo það sé hægt að borða einn og verða ágætlega saddur af honum.

Ég hef síðan ég var barn ELSKAÐ rautt pestó og borðaði það oft eintómt ofan á brauð þegar ég var krakki, sem er kannski örlítið furðulegt, en það skiptir svo sem ekki máli. Ég nota það þó mikið í dag til að bragðbæta alls kyns hluti og er rauða vegan pestóið frá Sacla Italia í mjög miklu uppáhaldi hjá mér, hvort sem það er í pastarétti, súpur, eða í baksturinn. Pestóið hentar fullkomlega með vegan rjómaosti og verða snúðarnir svo mjúkir og djúsí með þessari fyllingu.

Ég baka oft snúðana í eldföstu móti þar sem þeir koma svo fallega út en það má einnig baka þá staka á ofnplötu og hentar það kannski betur ef það á til dæmis að frysta eitthvað af þeim til að geyma. Ég geri oft minni snúða úr helmingnum af deiginu til að eiga í frysti og geta gripið þegar mér vantar eitthvað til að taka með mér eða ef ég fæ óvænta gesti. Það er ekkert þægilegra en að vera með bakkelsi í frysti sem er hægt að henda í ofninn í nokkrar mínútur þegar fólk kemur í heimsókn.

Rjómaostasnúðar með rauðu pestói

Rjómaostasnúðar með rauðu pestói
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 2 HourEldunartími: 20 Min: 2 H & 20 M

Hráefni:

  • 5 dl plöntumjólk
  • 100 gr vegan smjör eða smjörlíki
  • 1 pakki þurrger
  • 1 tsk sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 11-12 dl hveiti
  • 200 gr vegan rjómaostur (t.d. Sheese eða oatly)
  • 1 krukka rautt vegan pestó frá Sacla Italia
  • 2 msk plöntumjólk
  • 1-2 msk beyglukrydd (t.d. sesamgaldur frá pottagöldrum)

Aðferð:

  1. Hitið ofnin í 220°C
  2. Byrjið á því að bræða smjörlíki og bæta síðan mjólkinni út í og saman þar til það er sirka við líkamshita.
  3. Stráið þurrgerinu yfir og sykrinum síðan yfir það og leyfið því að bíða í um 5 mínútur. Þurrgerið ætti aðeins að fara að freyða.
  4. Bætið saltinu og hveitinu saman við og hnoðið saman þar til allt deigið hefur losnað frá skálinnni. Byrjið á því að setja 11 dl af hveiti og bætið síðan út í eftir þörfum.
  5. Leyfið deiginu að hefast í skálinni í u.þ.b. 40 mínútur.
  6. Fletjið deigið út, smyrjið rjómaostinum yfir ásamt pestóinu. Rúllið þétt upp og skerið í bita í þeirri stærð sem hver og einn kýs.
  7. Raðið á plötu eða í eldfast mót og pressið aðeins niður á hvern og einn snúð. Leyfið þeim síðan að hefast í 20 mínútur í viðbót.
  8. Smyrjið smá plöntumjólk á hvern snúð og dreyfið beyglukryddinu yfir.
  9. Bakið í 17 til 20 mínútur eða þar til þeir verða fallega gylltir ofan á.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -