Vegan bláberjamöffins með mulningi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af dúnmjúkum og flöffí bláberjamöffins með stökkum mulningi ofan á. Þessar möffins eru fullkomnar í ferðalagið, afmælisveisluna, sunnudagskaffið eða lautarferðina svo eitthvað sé nefnt. Varstu í berjamjó og veist ekkert hvað þú átt að gera við öll bláberin sem þú tíndir? Þá ertu á réttum stað!

Færsla dagsins er í samstarfi við Naturli á Íslandi og í möffinskökurnar notaði ég bæði smjörlíkið frá þeim og vanillujógúrtina. Við systur notum vörurnar frá Naturli mikið í bæði matargerð og bakstur og erum alltaf jafn stoltar af því þegar við vinnum með þeim.

Framundan er tími berjatínslu og við systur erum mjög spenntar að deila með ykkur allskonar bláberjauppskriftum. Fersk bláber eru svo ómótstæðilega góð í bakstur, hvort sem það eru tertur, pönnukökur, bláberjabökur eða einmitt þessar gómsætu möffins.

Ég nota vanillujógúrtina frá Naturli (joe’ kurt) í möffinskökurnar og jógúrtin gefur þeim bæði gott vanillubragð og gerir þær dúnmjúkar. Ég bakaði oft jógúrtmöffins þegar ég var barn og þessar gómsætu möffins minna mig mjög mikið á þær.

Ef þér líkar þessar möffins mælum við með því að prófa þessar geggjuðu kanilmöffins líka

Að lokum er það mulningurinn, toppurinn, krömblið, krönsið. Punkturinn yfir i-ið ef ég má ganga svo langt. Toppurinn fullkomnar dúnmjúkar möffinskökurnar að mínu mati, svo gómsætur og stökkur. Ég geri hann úr smjörlíki, hveiti og sykri og strái yfir deigið áður en ég baka möffinskökurnar. Svo dásamlega gott!

Spurningar og svör:

  1. Má nota frosin bláber í staðinn fyrir fersk?
    Svar: Já, ég hef gert kökurnar með frosnum bláberjum og það eina sem þarf að hafa í huga er að það tekur aðeins lengri tíma að baka þær því berin eru svo köld.

  2. Þarf að nota sojamjólk?
    Svar: Sko, nei í rauninni ekki. EN ég blanda saman sojamjólk og eplaediki og leyfi að standa í nokkrar mínútur þar til hún þykknar. Þetta finnst mér gera kökurnar enn mjúkari, og eplaedikið hefur ekki sömu áhrif á t.d. haframjólk, en ég hef prófað að baka þær með haframjólk og þær komu líka mjög vel út svoleiðis.

  3. Má frysta möffinskökurnar?
    Svar: Já, ég mæli mjög mikið með því að gera það. Það er fátt betra en að eiga möffins í frystinum og geta tekið út hvenær sem er.

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel. Ef þið prófið að gera þessa uppskrift eða einhverja aðra af blogginu, munið að tagga okkur á Instagram, það gleður okkur alltaf svo ótrúlega mikið.

Vegan bláberjamöffins

Vegan bláberjamöffins
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • 100 gr smjörlíki frá Naturli
  • 2.5 dl sykur
  • 2 msk matarolía
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 dl Joe' kurt vanillujógúrt frá Naturli
  • 1 dl sojamjólk + 1 msk eplaedik (leyfið að standa í 10 mín)
  • 300 gr (5 dl) hveiti. Ef þið mælið í dl munið að þjappa hveitinu ekki í dl málið.
  • 1/2 tsk salt
  • 1 msk lyftiduft
  • 200 gr bláber + 1 msk hveiti
Krömbl
  • 65 gr Naturli smjörlíki
  • 1.5 dl hveiti
  • 1 dl sykur

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c á undir og yfir hita
  2. Blandið saman sojamjólk og eplaediki og leggið til hliðar
  3. Bræðið smjörlíkið og hellið í skál ásamt olíu og sykri og hrærið saman með písk
  4. Bætið jógúrt, vanilludropum og sojamjólkinni saman við og hrærið
  5. Hrærið saman í aðra skál hveiti, lyftidufti og salti og sigtið svo saman við blautu hráefnin og hrærið þar til deig myndast en passið að hræra eins lítið og þið mögulega þurfið svo kökurnar verði ekki þurrar.
  6. Setjið bláberin í skál og stráið yfir 1 msk hveiti og veltið berjunum upp úr því. Þetta gerum við svo berin sökkvi ekki á botninn á kökunum.
  7. Bætið saman við deigið og hrærið saman við með sleikju.
  8. Deilið deiginu í sirka 12 pappírs möffinsform. Ég mæli mikið með að setja formin í möffins ofnform (sjá myndir að ofan). Þetta gerir það að verkum að kökurnar halda forminu vel.
  9. Stráið krömblinu yfir (aðferð hér að neðan) og bakið í 20-30 mínútur eða þar til kökurnar hafa fengið gylltan lit að ofan og tannstöngull kemur hreinn út þegar stungið er í þær (fyrir utan að hann kemur mögulega blár út). Byrjið að fylgjast með kökunum eftir 20 mínútur. Það fer bæði eftir því hvernig ofn þið eigið og hvort þið notið frosin eða fersk ber hversu langan tíma það tekur að baka kökurnar.
Krömbl
  1. Bræðið smjörlíkið og hellið í skál
  2. Bætið saman við það hveiti og sykri og blandið með höndunum þar til það verður að nokkurskonar mylsnu.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-