Grillað pönnubrauð með vegan fetaostasósu og grilluðu grænmeti

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætu grilluðu pönnubrauði með fetaostasósu og grilluðu grænmeti. Hin fullkomna sumaruppskrift. Þetta er matur sem bæði er hægt að undirbúa fyrir fram og taka með sér út að grilla eða útbúa og grilla á staðnum.

Þessi færsla er í samstarfi við Krónuna og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina. Í Krónunni er virkilega gott úrval af góðum vegan grillmat og við erum alltaf jafn stoltar af því að fá að vinna með þeim.

Grillað grænmeti er að mínu mati eitt það besta við sumarið. Ég gæti glöð borðað það eitt og sér eða með góðri sósu, en í dag vil ég sýna ykkur hvernig er hægt að gera það ennþá betra. Grænmetið sem ég valdi í dag er í raun bara það sem ég átti til heima. Leyfið endilega hugmyndafluginu að ráða. Ég elska t.d. grillaðan aspas, grillað kál, kartöflur, eggaldin.

Ef þú hefur ekki prófað að grilla pönnubrauð þá mæli ég eindregið með því. Það er ekkert smá gott. Þar sem ég vildi hafa þetta uppskrift sem auðvelt er að gera á staðnum, t.d. ef þú ert í útilegu eða bara vilt elda góðan mat úti með vinum eða fjölskyldu, ákvað ég að gera einfalda uppskrift af brauði sem inniheldur lyftiduft í stað þurrgers. Þetta brauð þarf því ekki að hefast heldur er hægt að fletja út og grilla beint.

Fetaostasósan er mitt uppáhalds meðlæti með grillmat þessa dagana. Virkilega virkilega góð. Fyrir stuttu deildi ég með ykkur uppskrift af vegan fetaostasósu sem ég bar fram með steiktum kartöflubátum, en í dag mun ég sýna ykkur hvernig auðveldlega er hægt að útbúa hana án þess að þurfa að nota matvinnsluvél eða önnur raftæki. Þessi sósa er æðisleg með grillaða brauðinu og grænmetinu en passar einnig með öllum grillmat að mínu mati.

Takk kærlega fyrir að lesa og vona innilega að þér líki uppskriftin. Ef þú prófar hana eða aðrar uppskriftir af blogginu þykir okkur alltaf jafn vænt um það ef þú taggar okkur á Instagram! <3

-Helga María

Grillað pönnubrauð með vegan fetaostasósu og grilluðu grænmeti

Grillað pönnubrauð með vegan fetaostasósu og grilluðu grænmeti
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Grillað pönnubrauð með vegan fetaostasósu og grænmeti:
  • 5 dl hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 6 msk ólífuolía (plús meira til að pennsla yfir)
  • 2-3 dl vatn (byrjið á 2 dl og bætið við ef ykkur finnst þurfa)
  • Fetaostasósa (uppskrift hér að neðan)
  • Grænmeti eftir smekk
  • Vegan grænt pestó til að toppa með (má sleppa en er svakalega gott)
  • Salt og pipar
Einföld vegan fetaostasósa:
  • 1 stykki vegan fetaostur frá Violife (greek white heitir hann)
  • 1 dós vegan sýrður rjómi (ég notaði Oatly imat fraiche 200ml)
  • ca 2 tsk rifinn sítrónubörkur og 1 tsk safi frá sítrónunni.
  • 2 msk ólífuolía
  • Salt og pipar
Grillað grænmeti:
  • Grænmeti eftir smekk. Ég notaði: Vorlauk, rauðlauk, rauða og gula papriku, sveppi og kúrbít.
  • Olía og krydd eftir smekk. Ég notaði bara olíu, salt og pipar en það er hægt að krydda með öllu því sem mann lystir.

Aðferð:

Grillað pönnubrauð
  1. Blandið saman hráefnunum.
  2. Bætið olíunni og vatninu út í og hnoðið létt
  3. Skerið í 6 bita og mótið kúlur. Leyfið þeim að standa undir viskastykki í 10 mínútur.
  4. Fletjið út, pennslið með ólífuolíu og grillið þar til hvor hlið fyrir sig fær gylltan lit. Það fer eftir grilli og hversu heitt það er en það ætti ekki að taka margar mínútur að grilla hvora hlið fyrir sig.
  5. Setjið undir viskastykki þar til þið berið fram.
  6. Smyrjið á brauðið fetaostasósunni, skerið grænmetið niður og raðið yfir og toppið með grænu pestói, ólífuolíu, salti og pipar.
Vegan fetaostasósa:
  1. Stappið fetaostinn með gaffli og setjið í skál.
  2. Bætið restinni af hráefnunum í skálina og hrærið saman.
  3. Smakkið til og bætið við sítrónu, salti og pipar eftir smekk.
Grillað grænmeti:
  1. Skerið grænmetið niður eins og ykkur finnst best.
  2. Grillið þar til ykkur finnst það orðið tilbúið. Athugið að það er oft mismunandi hversu langan tíma grænmetið þarf. Vorlaukurinn þarf bara örfáar mínútur og kúrbítssneiðarnar þurfa ekki langan tíma heldur. Rauðlaukinn skar ég í 4 bita og þeir þurfa lengri tíma svo þeir séu ekki hráir að innan. Ég er dugleg að fylgjast með og passa að ekkert brenni.
  3. Þetta er samt líka mismunandi eftir grillum svo það er erfitt að segja nákvæmlega.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni þar-

 
 

Nektarínu grillbaka á hvolfi

IMG_9450.jpg

Grill eftirréttir finnst mér alltaf jafn skemmtilegir. Ég hugsa að ég noti aldrei jafn mikið af ákvextum í eftirrétti og þegar ég er að gera rétt á grillinu. Grillaðir ávextir eru svo ótrúlega góðir og verða eitthvað svo extra sætir og safaríkir. Ég elska að henda banönum og ananas sneiðum á grillið og borða með góðum ís og kannski súkkulaði en það er svo þægilegur og einfaldur eftirréttur.

IMG_9442.jpg

Þessi baka er ekki síður auðveld og svo er hún svo ótrúlega falleg þegar búið er að hvolfa henni. Mesta snilldin við hana er að það er hægt að nota hvaða ávexti með hugurinn girnist. Mér finnst passa fullkomlega að nota epli, perur eða góð ber en í þetta skipti deili ég með ykkur uppskrift þar sem ég nota nektarínur. Það er hægt að fá nektarínur í öllum búðum akkúrat núna og þær passa svo vel í þennan rétt. Þær verða svo safaríkar og sætar þegar þær bakast á grillinu.

IMG_9445.jpg
IMG_9447.jpg

Þessi baka er einnig svo mikil snilld þar sem notast er við keypt deig og niðurskorna ávexti svo það er auðvelt að skera ávextina niður og setja í box, kaupa deigið og taka þetta með sér hvert sem er. Bakan er bökum í álbakka en það þarf að passa vel að kaupa ekki álbakka með götum því þá mun allur safi leka niður í grillið. Ég ber kökuna fram með góðm vegan ís en akkúrat núna er ísinn frá Jude´s sem fæst í Krónunni í rosalega miklu uppáhaldi hjá mér svo ég notaðist við vanilluísinn frá þeim. Það má alveg vera með bragðmeiri ís með eða bæta jafnvel súkkulaði með í bökuna. Ef það er gert þarf að passa að setja súkkulaðið ekki neðst í bakkan því þá gæti það brunnið. Það er best að strá því yfir ávextina áður en deigið er sett yfir.

IMG_9451.jpg

Hráefni:

  • 5-6 nektarínur

  • 1 askja hindber

  • 1 askja brómber

  • 1/2 dl sykur

  • 1 pakki upprúllað smjördeig úr Krónunni.

Aðferð:

  1. Skolið og skerið niður nektarínurnar.

  2. Setjið alla ávextina í skál og stráið sykrinum yfir og blandið saman (þessu má alveg sleppa þar sem ávextirnir verða mjög sætir á grillinu. Mér finnst bakan þó verða extra gómsæt ef það er settur smá sykur).

  3. Hellið ávextunum í álbakka og dreifið vel úr.

  4. Rúllið út deiginu og stingið í það nokkur göt með gaffli. Leggið deigið yfir álbakkan og skerið meðfram bakkanum. Klemmið deigið aðeins við kanntana á bakkanum.

  5. Setjið grillið á meðallága stillingu og hafið grillið sem mest lokað á meðan bakan er á grillinu. Bakið í 15 til 20 mínútur eða þar til deigið verður fallega gyllt að ofan.

  6. Takið bökuna af grillinu og leyfið henni að standa í 5-10 mínútur áður en henni er hvolft á disk. Best er að setja bakkan á stóran disk og setja annan stóran disk yfir og hvolfa bökunni þannig.

  7. Berið fram með góðum vegan ís eða vegan þeyttum rjóma.

-Njótið vel.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png
 

Grillspjót með grænmeti og tófú, og köld piparsósa

IMG_9424.jpg

Við erum loksins farin að finna fyrir smá sumri hérna í höfuðborginni og sjá smá sól en það er fátt sem mér finnst betra þegar það sést í sól en að grilla. Grillmatur er bara eitthvað svo einstaklega góður og stemmingin við að grilla er engu lík. Ég hef alltaf verið mjög dugleg að prófa nýja rétti á grillið á sumrin og er það svo sannarlega ekkert mál að gera góðan vegan grillmat. Það er hægt að finna fullt af góðum hamborgurum og pylsum eða öðrum vegan “kjöt” vörum í búðum í dag og er alls konar grænmeti einnig einstaklega gott á grillinu.

Í þetta skiptið ætla ég hins vegar að deila með ykkur, í samstarfi við Krónuna, ótrúlega góðum grillpinnum með alls konar grænmeti og tófú. Tófú er snilldar hráefni sem passar í alls konar rétti þar sem það er tiltölulega bragðlítið eitt og sér en ef það er marinerað dregur það í sér bragðið af marineringunni. Það passar því alveg ótrúelga vel á grillið þar sem grillmarinergingar er algjört lykilatriði oft í grillmat. Ég notaðist við gómsæta sítrónu og kryddjurta marinerignu en hún passar fullkomlega með grænmeti og tófu. Það má nota allt það grænmeti sem manni dettur í hug í þessari uppskrift.

IMG_9426.jpg

Það sem er svo þægilegt við þennan rétt er að auðvelt er að græja marineringuna í box, skera grænmetið og tófúið út í og taka þetta með sér hvort sem það er í útileguna, sumarbústað eða í grillveisluna. Þá þarf einfaldlega að þræða pinnana, skella þeim á grillið og maturinn er tilbúin. Það finnst mér alveg æði því þá þarf ekki að fara í einhverja sérstaka “eldamennsku” í útilegunni en mér finnst lang þægilegast að fara í útilegur með matinn nánast tilbúin og að þurfa ekki að undirbúa hann mikið á staðnum.

IMG_9419.jpg

Grillpinnana ber ég fram með því meðlæti sem ég á til hverju sinni. Grillaðar kartöflur finnst mér vera algjörlega ómissandi og köld piparsósa einnig. Í þetta skiptið var ég einnig með grillaðan aspas sem ég velti aðeins upp úr ólífuolíu og salti áður en ég setti hann á grillið. Grillaður maís passað einnig mjög vel með en ef ég grilla maís þá sýð ég hann fyrst í um 10 mínútur því þá verður hann extra safaríkur. Það geri ég einnig við kartöflurnar áður en ég grilla þær.

IMG_9432.jpg

Grillpinnar (sirka 10 spjót, fyrir 4)

  • Marinering

    • 3/4 dl góð ólífuolía

    • 3/4 dl sítrónusafi (safi úr sirka 2 sítrónum)

    • börkur af 1 sítrónu

    • 3-4 hvítlauksgeirar

    • 1 msk oreganó

    • 1 msk rótargrænmetiskrydd frá pottagöldrum (eða einhvers konar blandaðar jurtir)

    • 1-2 msk ferskt timían

    • 1 tsk papríkuduft

    • 1 tsk laukduft

    • 1/2 tsk chilli duft eða chilli flögur (má sleppa)

    • 1 msk sesamfræ

  • 1/2 rauð paprika

  • 1/2 gul eða appelsínugul papríka

  • 1 rauðlaukur

  • 1 pakki kastaníusveppir

  • 1 pakki tófú

Aðferð:

  1. Blandið öllum hráefnunum fyrir marineringuna í stóra skál eða stórt box.

  2. Skerið grænmeti og tófúið í mjög grófa bita, bitarnir eiga að vera frekar stórir svo þeir tolli vel á grillpinnunum.

  3. Setjið grænmetið og tófúið út í marineringuna og veltið því vel um þar til allir bitar eru vel þakknir af kryddolíunni.

  4. Leyfið þessu að liggja í marineringunni í að minnsta kosti 30 mínútur, en því meiri tíma sem þetta fær að hvíla því betra.

  5. Byrjið að huga að meðlætinu en ég var með grillaðar kartöflur, aspas, blandað ferskt salat og kalda sósu með. Uppskrift af sósunni er hér fyrir neðan.

  6. Takið um 10 grillpinna og leyfið þeim að liggja í vatni í 10 til 15 mínútur. Takið pinnana úr vatninu og þræðið grænmeti og tófú á þá í þeirri röð sem þið viljið.

  7. Grillið í nokkrar mínútur á hverri hlið eða þar til grænmetið og tófúið fær fallegar “bruna” rákir. Við mælum með að hafa grill álbakka undir svo maturinn brenni ekki of mikið að utan.

Köld piparsósa

  • 1 dl oatly sýrður rjómi eða hreint sykurlaust vegan jógúrt

  • 1 dl vegan Krónu majónes

  • 2 tsk grófmalaður svartur pipar

  • 1/2 tsk laukduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 tsk sítrónusafi

  • 1-2 msk vatn (eftir því hversu þunna þið viljið sósuna)

Aðferð:

  1. Hrærið öllu saman í skál.

-Njótið vel og endilega verið dugleg að tagga okkur og krónuna ef þið hendið í vegan grillveislu með uppskriftinni þar sem okkur finnst svo ótrúlega gaman að sjá myndir frá ykkur <3

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png