Vegan hakkabuff með rjómakenndri lauksósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af einföldu vegan hakkabuffi með lauksósu og kartöflugratín. Einfaldur heimilismatur sem er bragðgóður og saðsamur. Mér finnst best að bera hakkabuff fram með rjómakenndri lauksósu og annaðhvort kartöflugratíni eða soðnum kartöflum. Þegar ég spái í því held ég að allar kartöflur passi með hvort sem það eru þær sem ég hef þegar nefnt eða kartöflumús, franskar eða ofnbakaðar. Súrar gúrkur og sulta er svo “möst” að mínu mati. Ég notaði sænska títuberjasultu en rifsberjasulta myndi einnig passa fullkomlega með!

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi. Formbar hakkið frá þeim er það allra besta í svona hakkabuff. Það er ólikt venjulegu vegan hakki að því leiti að auðvelt er að móta það í buff, bollur eða borgara án þess að þurfa að nota önnur bindiefni með. Það er því nóg að krydda eftir smekk, forma buff og elda. “Formbar” hakkið fæst í Hagkaupum, Vegan búðinni, Fjarðarkaupum og Melabúðinni.

Eitt af markmiðum mínum fyrir komandi ár er að vera dugleg að birta uppskriftir af góðum hversdagslegum heimilismat sem er einfaldur en á sama tíma bragðgóður og spennandi. Við viljum að grænkerar hafi endalaust af hugmyndum af góðum mat að elda og elskum að deila með ykkur uppskriftum af gómsætum vegan mat.

Sjáið þennan fallega steikta lauk. Hann gefur sósunni svo gómsætt bragð.

Það er svo ótrúlega auðvelt að útbúa þessi gómsætu vegan hakkabuff og ég elska að leyfa þeim að malla aðeins í rjómakenndri lauksósunni í lokinn.

Vegan hakkabuff með rjómakenndri lauksósu

Hráefni:

  • Olía til steikingar

  • 500 gr formbar hakk frá Anamma (hakkinu leyft að þiðna þar til það er kallt eins og úr ísskáp)

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 msk fljótandi grænmetiskraftur eða 1/2 grænmetisteningur muldur niður

  • 1 msk sojasósa

  • 1 msk vegan matreiðslurjómi

  • 1 msk gróft sinnep

  • Salt og pipar eftir smekk

Lauksósa:

  • Olía að steikja upp úr

  • 1 mjög stór laukur eða 2 venjulegir

  • 400 ml vegan matreiðslurjómi

  • 1/3 teningur sveppakraftur eða grænmetiskraftur

  • 1/2-1 tsk sojasósa

  • 1 tsk þurrkað timían

  • Salt og pipar eftir smekk (farið varlega í saltið því bæði sveppakrafturinn og sojasósan gefa mikla seltu)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að gera buffin tilbúin til steikingar. Látið hakkið þiðna en hafið það þó kalt þegar þið meðhöndlið það. Ef það nær of miklum hita verður erfiðara að móta það. Ég miða við að það sé við það hitastig sem það væri beint úr kæliskáp. Þetta tekur 30-40 mínútur. Ég hef þó sjálf sett hakkið í örbylgjuna á afþýðingu ef ég lendi í stressi og það skemmdi alls ekki fyrir.

  2. Setjið hakkið í skál ásamt restinni af hráefninum og blandið saman með höndunum. Mótið 4 buff og leggið til hliðar.

  3. Skerið laukinn niður í þunna strimla og steikið á pönnu uppúr olíu. Saltið laukinn örlítið svo hann svitni vel. Leyfið honum að steikjast í nokkrar mínútur þar till hann fær gylltan og fínan lit. Takið hann þá af pönnunni og leggið til hliðar en þrífið pönnuna ekki því við steikjum buffin beint á henni og laukurinn gefur bara gott bragð.

  4. Bætið við meiri olíu á pönnuna og steikið buffin á meðalháum hita þar til þau eru vel steikt á báðum hliðum. Þau eru svolítið þykk svo það þarf að passa að þau séu steikt í gegn. Þau eiga að hafa fengið meira “þétta” áferð þegar potað er í þau.

  5. Bætið lauknum aftur á pönnuna með buffunum og bætið við restinni af sósuhráefnunum og hrærið svo hún blandist vel. Ég myl niður sveppakraftinn svo hann blandist auðveldlega í sósuna. Piprið eftir smekk og saltið smá þó það sé að mínu mati ekki þörf á miklu salti.

  6. Berið fram með meðlæti að eigin vali. Ég hafði með þeim súrar gúrkur, títuberjasultu og kartöflugratín, en uppskriftina af gratíninu finniði HÉRNA.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið!

-Helga María

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-