Hátíðleg aspassúpa

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af æðislega góðri rjómalagaðri aspassúpu. Ótrúlega klassísk og einföld súpa með fáum hráefnum sem hver sem er getur auðveldlega útbúið.

Í okkar fjölskyldu er þessi súpa borin fram í forrétt á aðfangadagskvöld og á hún því mjög sérstakan stað í okkar hjarta. Hún er argjörlega ómissandi fyrir okkur á jólunum en hentar að sjálfsögðu vel hvenær sem er á árinu með góðu brauði.

Færslan er unninn í samstarfi við ORA en okkur finnst sá aspas lang bestur í súpuna. Súpan er bökuð upp frá hveitibollu og mjög einföld í matreiðslu.

Við mælum með að bera súpuna fram með hvítu fransbrauði við hátíðartilefni en það passað ekkert smá vel. Einnig er nauðsynlegt að gera stóran skammt til að eiga afganga á jóladag að okkar mati.

Rjómalöguð hátíðar aspassúpa

Rjómalöguð hátíðar aspassúpa
Fyrir: 4-5 í aðalrétt (um 8 í forrétt)
Höfundur: Veganistur
Eldunartími: 30 Min: 30 Min

Hráefni:

  • 125 gr vegan smjör eða smjörlíki
  • 2 dl hveiti
  • 3 dósir aspas
  • 2 lítrar ósæt hafra eða sojamjólk
  • 1 líter hafrarjómi
  • 3 grænmetisteningar
  • salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða smjörið í potti.
  2. Bætið hveitinu út í smjörið og hrærið vel saman. Slökkvið undir.
  3. Bætið út í safanum af aspasinum í 3 skömmtum, (Þægilegast er að setja vökvan úr 1 dós í einu) og hrærið vel í á milli með písk svo ekki myndist kekkir. Hrærið þannig að "deigið" sem alveg slétt áður en þið bætið næsta skammti að vökva saman við. (Setjið aspasinn sjálfan til hliðar).
  4. Bætið 1/2 líter af mjólk út í og hrærið vel með písknum. Kveikið aftur undir pottinum á lágum hita.
  5. Bætið restinni af vökvanum saman við, ásamt grænmetisteningum og salti.
  6. Leyfið súpunni að hitna að suðu á lágum hita og hrærið vel í reglulega þar sem súpan getur auðveldlega brunnið við.
  7. Smakkið til með salti og bætið aspasinum saman við.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

- Færslan er unnin í samstarfi við ORA -

Gómsætt vegan heitt súkkulaði með skemmtilegu tvisti!

Hátíðlegt heitt súkkulaði með Cointreau og þeyttum vegan rjóma. Svo dásamlega gott. Fullkomið eftir langan göngutúr í desemberkuldanum. NAMM!

Í dag er annar sunnudagur í aðventu og ég er svo sannarlega komin í jólaskap. Ég mun eyða jólunum í Svíþjóð í fyrsta sinn og er bæði spennt og pínulítið stressuð. Venjurnar á t.d. aðfangadagskvöld eru aðeins öðruvísi en heima og ég mun líklega sakna þess að hlusta á kirkjuklukkurnar hringja inn jólin klukkan 6. Eins varð ég mjög hissa þegar ég fékk að heyra að þau deila út pökkunum og opna þá svo bara öll samtímis. En ég er viss um að ég mun njóta jólanna í botn.

En að heita súkkulaðinu. Ég vildi gera eitthvað aðeins öðruvísi en ég er vön og ákvað að setja smá Cointreau út í. Það sló heldur betur í gegn. Útkoman var gómsætt heitt súkkulaði með appelsínusúkkulaðibragði og smá extra kikki frá áfenginu. Fullorðinskakó hehe. Ég bauð vinum mínum uppá bolla af súkkulaðinu og þau sögðust aldrei hafa smakkað jafn gott heitt súkkulaði. Ætli það séu ekki ágætis meðmæli?!

Það sem þú þarft í þennan góða drykk er:

Suðusúkkulaði
Vatn
Vegan mjólk
Kanilstöng
Smá salt
(mikilvægt)
Cointreau
(Má sleppa auðvitað)
Þeyttan veganrjóma að toppa með

Gæti ekki verið einfaldara.

ímyndið ykkur að koma heim eftir kaldan göngutúr í desember, setja á ljúfa jólatónlist, baka vöfflur og skella í heitt súkkulaði. Ég veit fátt meira kósý.

Vegan heitt súkkulaði með Cointreau (fyrir 4-5)

Hráefni:

  • 175g suðusúkkulaði

  • 2 dl vatn

  • 1 líter vegan mjólk. Ég notaði Oatly haframjólk

  • Smá salt

  • Kanilstöng

  • 8 cl. Cointreau. Má sleppa eða nota annað áfengi sem ykkur finnst gott. Get t.d. ímyndað mér að Kahlúa passi mjög vel

  • Vegan þeyttur rjómi að toppa með. Mæli með Oatly eða Aito

Aðferð:

  1. Setjið vatnið í pott og brjótið súkkulaðið ofan í. Hrærið vel í pottinum á meðan súkkulaðið bráðnar í vatninu

  2. Hellið mjólkinni út í pottinn ásamt kanilstönginni og leyfið suðunni að koma upp. Hrærið í á meðan svo það brenni ekki við botninn.

  3. Takið af hellunni, saltið örlítið og bætið Cointreau út í og hrærip saman við.

  4. Berið fram með þeyttum vegan rjóma og njótið!

Takk fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel!
-Helga María

Mjúk piparkaka með rjómaostakremi

IMG_9859-4.jpg

Nú er loksins kominn nóvember svo við megum byrja að tala um jólin.
Ég er búin að hlakka til síðan í sumar að byrja að birta jólauppskriftir. Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og elska að dunda mér í eldhúsinu í kringum aðventuna. Uppskrift dagsins, fyrsta jólauppskrift ársins, er af mjúkri piparköku með rjómaostakremi. Ég get ekki lýst því með orðum hvað eldhúsið lyktar vel þegar þessi kaka er bökuð. Þessi kaka er mjög vinsæl hérna í Svíþjóð og bragðið minnir svolítið á lagtertu. Þetta er uppskrift sem er komin til að vera og ég mun klárlega baka hana oft núna fram að jólum.

Næstkomandi vikur erum við systur í samstarfi við Naturli og ég ætla því að birta nokkrar uppskriftir af jólabakstri þar sem ég nota nýja smjörlíkið þeirra. Hingað til hefur ekki fengist á Íslandi gott vegan smjörlíki sem er lífrænt, laust við pálmaolíu og hentar vel í bakstur. Ég var því ekkert smá spennt að prófa nýja smjörlíkið frá Naturli og sjá hvernig væri að nota það í bakstur, og ég hef verið þvílíkt ánægð með útkomuna í hvert skipti. Smjörlíkið er búið til úr shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Það hentar vel til baksturs og steikingar og er líkt og hitt smjörið frá þeim virkilega gott. Smjörlíkið fæst í Bónus, Krónunni Melabúðinni og Fjarðarkaupum.

IMG_9841-2.jpg

Hérna í Piteå kyngir niður snjó og því óhjákvæmilegt að vera farin að huga að jólunum. Kertaljós, fallegur hvítur snjór og jólalög gera dimman veturinn mun bærilegri og þar sem ég hef alltaf haft fremur rómantíska sýn á lífið nýt ég þess mikið að geta skapað þessa notalegu stemningu. Ég er ein af þeim kýs að lýsa upp heimilið með lömpum, seríum og kertaljósi frekar en skærgulu loftljósi. Það kemur því engum sem þekkja mig á óvart hversu mikið ég elska aðventuna og allt sem henni fylgir.

IMG_9848-2.jpg

Ég hlakka til að deila með ykkur fleiri góðum hátíðaruppskriftum fram að jólum. Ég vona að þið prófið að baka þessa dásamlegu mjúku piparköku og endilega látið mig vita, ef þið bakið hana, hvernig ykkur finnst hún. Eins þykir okkur alltaf jafn gaman þegar þið komið með hugmyndir af mat sem þið viljið sjá á blogginu. Er eitthvað sem ykkur finnst ómissandi um jólin og viljið sjá í vegan útgáfu t.d.?

IMG_9851-2.jpg

Mjúk piparkaka

  • 200 gr Naturli smjörlíki við stofuhita

  • 2 dl sykur

  • 6 dl hveiti

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1,5 tsk matarsódi

  • 1 msk kanill

  • 2 tsk engiferkrydd

  • 2 tsk negull

  • Örlítið salt

  • 6 dl vegan mjólk

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 msk eplaedik

  • 2 msk týtuberjasulta (lingonsylt). Þessa sultu er kannski svolítið erfitt að finna á Íslandi. Hún er alltaf notuð í svona köku í Svíþjóð og mér þykir gott að hafa hana með. Ég veit að hún fæst í Ikea, en fyrir ykkur sem ekki nennið eða hafið tök á að fara þangað eftir henni mæli ég með að prufa að nota aðra sultu í staðinn eða jafnvel rúsínur. Annars er ekkert mál að sleppa henni bara.

Aðferð

  1. Hitið ofninn í 175°C. Minn er ekki með blæstri svo ég set á undir og yfir hita.

  2. Þeytið smjörlíkið og sykurinn í stórri skál þar til það verður létt og svolítið ljóst.

  3. Sigtið út í skálina hveiti, lyftiduft, matarsóda, salt og kryddin.

  4. Hellið útí mjólk, vanilludropum og eplaediki og hrærið þar til deigið er laust við kekki.

  5. Bætið sultunni útí og blandið varlega saman við deigið.

  6. Smyrjið tvö smelluform og skiptið deiginu í þau.

  7. Bakið í 40-60 mínútur. Það fer svolítið eftir ofninum hversu lengi kakan er að bakast en ég byrja að fylgast með henni eftir sirka hálftíma.

  8. Látið botnana kólna áður en þið setjið kremið á.

Rjómaostakrem

  • 200 gr vegan rjómaostur

  • 100 gr Naturli smjörlíki

  • 2 msk vanillusykur

  • 500 gr flórsykur

  • 1 msk kanill

Aðferð

  1. Byrjið á því að þeyta rjómaostinn og smjörlíkið.

  2. Bætið saman við flórsykrinum, vanillusykrinum og kanil og þeytið þar til kremið er létt og ljóst.

  3. Smyrjið botnana með kreminu og skreytið kökuna eftir smekk. Ég muldi niður piparkökur og stráði yfir.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þið prófið að baka þessa dásamlegu köku.

Helga María

 
naturlilogo.jpg
 

- þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli -

Vegan síld í sinnepssósu

IMG_2228.jpg

Síld er ekki eitthvað sem að við systur getum sagt að hafi verið hluti af okkar jólum í æsku. Það var þó oft keypt síld á heimilið og hún til yfir jólin en við systkinin borðuðum hana svo sannarlega ekki. Þegar Helga síðan flutti til svíþjóðar og kynntist þeim æðislega vegan jólahefðum sem þar ríkja fór hún að vera forvitin um vegan síld. Við ákváðum því fyrir nokkrum árum að slá til.

IMG_2205.jpg

Við gerðum uppskrift fyrir jólablað fréttablaðsins sem heppnaðist ekkert smá vel. En einhverra hluta vegna gleymdist þessi uppskrift hjá okkur og við komumst aldrei í að setja hana á bloggið. Það er því sannarlega komin tími á að hún fái loksins að koma hérna inn en það verður engin svikin af þessari “síld”.

Síldin er gerð úr eggaldin sem mörgum finnst örugglega skrítin tilhugsun. Okkur þótti það sjálfum fyrst þegar við heyrðum af þessu, en þetta kom okkur ekkert smá mikið á óvart. Eggaldin er fullkomið í þennan rétt þar sem áferðin verðum ótrúlega skemmtileg og það dregur ótrúlega vel í sig allt bragð. Að öðru leiti er uppskriftin hefðbundin og bragðið eitthvað sem að margir kannast örugglega við. En síldin verður einnig svo ótrúlega girnileg í fallegri krukku.

IMG_2227.jpg

Það er mjög sniðugt að gera eina eða tvær uppskriftir af réttinum og eiga í ísskápnum yfir hátíðrnar til að henda á brauð þegar gestir kíkja við eða bara þegar maður verður svangur í öllu jólastússinu. En einnig má gera stóra uppskrift og setja í litlar krukkur og gefa fólkinu í kringum sig, en okkur systur finnst fátt skemmtilegra en jólagjafir sem hægt er að borða. Þær svíkja enganm og fjölskylda eða vinir geta notið saman.

IMG_2238.jpg

Vegan jóla “síld”

  • 1 eggaldin

  • ½ rauðlaukur

  • ½ dl sætt sinnep

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 3 msk matarolía

  • 1 msk rauðvínsedik

  • 1 msk sykur

  • 1 dl oatly-rjómi

  • ½ dl dill

Aðgerð

  1. Setjið vatn í pott ásamt einni matsekið af salti og látið suðuna koma upp. Setið niðurskorið eggaldin út í þegar suðan er komin upp og sjóðið í 5 mínútur.

  2. Hellið vatninu af og leyfið eggaldininu að kólna.

  3. Pískið saman sinnep, sykrur, olíu og edik þar til sykurinn leysist upp. Pískið rjómann og dillið saman við og bætið síðast köldu eggaldininu og niðurskornum rauðlauknum út í.

  4. Leyfið síldinni að standa í ísskáp í um einn sólarhring áður en hennar er notið

Síldin passar fullkomlega á gróft rúgbrauð eða venjulegt ristað brauð og er ómissandi á jólaborðið

-Veganistur

Rósakál með ristuðum möndlum og appelsínuberki

IMG_2168.jpg

Ég uppgvötaði rósakál fyrir nokkrum árum. Mér hefði eiginega aldrei dottið í hug að mér myndi þykja það gott, því ég hafði oft heyrt frá öðrum að það væri hrikalega vont. Því er ég algjörlega ósammála, og í dag borða ég rósakál í hverri viku. Yftirleitt kaupi ég það frosið og borða sem meðlæti með mat, en um jólin kaupi ég það ferskt og útbý það á aðeins hátíðlegri máta.

IMG_2163-2.jpg

Ég hef smakkað margar skemmtilegar og gómsætar uppskriftir sem innihalda rósakál, eins og gratín og fleira gúrmé. Yfir hátíðirnar er ég þó vanalega með kartöflugratín, sósu og fleira sem inniheldur rjóma eða mæjónes, svo ég vil hafa rósakálið aðeins meira ferskt.

IMG_2166.jpg

Þar sem jólamaturinn getur tekið langan tíma er svo gott að gera meðlæti sem þarfnast ekki mikillar fyrirhafnar. Þetta rósakál er einmitt dæmi um svoleiðis meðlæti en smakkast á sama tíma ótrúlega vel og passar fullkomlega yfir hátíðirnar.

IMG_2174-2.jpg

Rósakál með appelsínuberki og möndlum

  • 400 g ferskt rósakál

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 1-2 tsk hlynsíróp

  • 1 dl möndlur

  • 2 msk appelsínusafi

  • börkur af einni appelsínu

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið rósakálið í tvennt og takið botninn af ef hann er mjög stór og harður

  2. Saxið niður möndlurnar og þurrristið á pönnu. Takið frá þegar þær eru orðnar ristaðar

  3. Hitið olíu á pönnu og bætið rósakálinu út á

  4. Steikið það í smá stund þar til það er orðið svolítið gyllt á litinn

  5. Bætið út á pönnuna appelsínusafanum og sírópinu og steikið þar til rósakálið er orðið svolítið dökkt

  6. Bætið þá út á möndlunum, berkinum, salti og pipar og steikið örlítið í viðbót.

  7. Berið fram heitt eða kalt

Njótið

Veganistur

Rauðrófu- og eplasalat

IMG_2189-3.jpg

Þetta salat er alveg rosalega einfalt og þarf varla sér færslu. Ég ákvað þó að skella því hérna inn því þetta er mitt uppáhalds meðlæti yfir jólin. Það er svolítið erfitt að segja hversu mikið þarf af hverju, því það fer algjörlega eftir því hversu margir ætla að borða. Ég sker niður epli eins og ég vil og sker svo niður rauðbeður úr krukku þannig jafn mikið verði af þeim og af eplunum. Svo bæti ég vegan mæjónesi út í eins og mér finnst passlegt. Ég ætla að skrifa hér að neðan hversu mikið ég gerði, en ég gerði einfaldlega það sem mér fannst þurfa svo ég ætti nóg í færsluna, en það myndi þó passa fyrir 3-4 held ég.

Rauðrófu- og eplasalat

  • 1 og ½ afhýtt epli

  • Rauðbeður úr krukku þannig jafn mikið sé af þeim og af eplunum

  • Nokkrar msk heimagert mæjónes,eða eins og mér fannst passlegt. Uppskrift af mæjónesinu er að finna HÉR

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Skerið niður eplin

  2. Skerið niður rauðbeðurnar

  3. Bætið mæjónesinu saman við ásamt salti og pipar

Njótið

Veganistur

Vegan tartalettur á tvo vegu

IMG_2129-5.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur tveimur uppskriftum af tartalettum. Það var aldrei hefð á okkar heimili að borða tartalettur og ég held ég hafi bara smakkað þær nokkrum sinnum yfir ævina. Hinsvegar hefur mig lengi langað að prufa að gera tartalettur með góðri vegan fyllingu og í gær lét ég loksins verða af því. Ég ákvað að gera tvær útgáfur, en mér fannst nauðsynlegt að gera eina uppskrift sem minnir á hangikjötsfyllinguna sem margir borða. Ég elska aspasbrauðrétti svo mér fannst ég verða að gera svoleiðis útgáfu líka. Báðar heppnuðust alveg ótrúlega vel og komu mér í þvílíkt hátíðarskap.

IMG_2072-2.jpg

Mér finnst alltaf jafn áhugavert hvað mér finnst margt gott, eftir að ég varð vegan, sem er innblásið af mat sem mér þótti aldrei góður áður fyrr. Hangikjöt, grænar baunir og uppstúf var eitthvað sem mér fannst hreinlega vont allt mitt líf, en þegar ég gerði fyllinguna í gær sem er gerð með salty & smoky Oumph! kom það mér á óvart hversu ótrúlega gott mér þótti þetta. Það eru mörg fleiri dæmi um þetta hjá mér og kokteilsósa er eitt sem er mér efst í huga. Ég skildi aldrei af hverju fólki þótti kokteilsósa góð, en í dag þykir mér vegan kokteilsósa alveg geggjuð.

IMG_2088-3.jpg

Reyndar þegar ég hugsa um það hefur mér aldrei þótt matur jafn góður og eftir að ég gerðist vegan. Ég var aldrei spennt fyrir matnum yfir jólin. Mér þóttu marengstertur og aspasbrauðréttir góðir, en allt hitt þótti mér óspennandi eða vont. Í dag eru jólin í algjöru uppáhaldi og ég er alltaf jafn spennt að baka smákökur, lagtertu og lakkrístoppa. Jólamaturinn hefur líka aldrei verið jafn veglegur hjá mér og síðan ég varð vegan. Úrvalið er orðið svo gríðarlegt og grænkerar þurfa ekki lengur að borða hnetusteik í öll mál yfir hátíðirnar eins og fyrir sjö árum þegar ég hélt mín fyrstu vegan jól.

IMG_2104-2.jpg

Reykta og saltaða Oumphið er virkilega gott og mjög jólalegt. Þegar ég gerði tartaletturnar í gær gerði ég bara hálfa uppskrift af hvorri tegund, svo ég ákvað að prufa að gera vegan útgáfu af hangikjötsalati úr afgöngunum. Það kom auðvitað sjúklega vel út, en ég steikti á pönnu afganginn af oumphinu, skar það mjög smátt niður og blandaði við afgangs mæjónes ásamt grænum baunum úr dós og örlitlu hlynsírópi. Þetta fékk svo að standa í ísskápnum í smá stund og ég fékk smá sjokk yfir því hvað þetta minnti mikið á hangikjötsalat (sem mér einmitt þótti aldrei gott þegar ég borðaði kjöt, en finnst alveg geggjað svona vegan).

IMG_2105-3.jpg

Það eru örugglega margir sem hafa aldrei borðað tartalettur og finnst þetta kannski hljóma óspennandi, en ég mæli mikið með að gefa þeim séns. Sjálfar tartaletturnar minna á smjördeig og eru rosalega góðar með fyllingunni. Ég var smá viss um að mér myndi þykja aspas fyllingin miklu betri en hin, en ég get eiginlega ekki valið á milli, mér fannst þær báðar svo ótrúlega góðar.

IMG_2126-4.jpg

Ég ætla ekki að deila uppskrift af meðlætinu í þessari færslu, en uppskriftin af rauðrófusalatinu er þó væntanleg núna eftir helgi. Rósakálið gerði ég einfaldlega með því að steikja það á pönnu upp úr smá olíu og salti og svo í lokinn bætti ég örlitlu hlynsírópi á pönnuna ásamt appelsínuberki og leyfði rósakálinu að brúnast örlítið í því.

IMG_2122.jpg

Tartalettur með aspas og sveppum

  • 1 bolli vegan mæjónes - Mér finnst laaang best og einfaldast að búa til mitt eigið. Hér er uppskrift af því

  • 150 g sveppir

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 1 sveppateningur - Ég notaði sveppakraft frá Knorr

  • 180 g aspas úr dós plús 2 msk af safanum af aspasinum

  • Paprikuduft eftir smekk

  • Tartalettur

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 180°C

  2. Skerið sveppina niður og steikið á pönnu upp úr smá olíu þar til þeir eru frekar vel steiktir

  3. Bætið út á pönnuna mæjónesi, aspas, safa af aspasinum og sveppakrafti

  4. Skiptið fyllingunni í tartelettuform og toppið með smá paprikudufti

  5. Hitið í ofninum í ca 15 mínútur eða þar til þetta er farið að taka smá gylltan lit.

Tartalettur með Oumph og uppstúf:

Uppstúf:

  • 2 msk smjörlíki

  • 4 msk hveiti

  • 500 ml vegan mjólk

  • 1-2 msk sykur

  • Salt og pipar (hvítur eða svartur)

  1. Hitið smjörið og hveitið í potti og hrærið vel þannig það myndi smjörbollu

  2. Hellið mjólkinni út í hægt þar til úr verður þykk sósa. Ég skrifaði 500 ml að ofan, en það fer svolítið eftir því hvaða mjólk er notuð. Það þarf þó ekki meira en 500 ml en sumir gætu þurft aðeins minna.

  3. Bætið út í sykri, salti og pipar og smakkið til

Tartalettur með Oumphi, uppstúf, kartöflum og baunum:

  • 1 poki salty & smoky Oumph!

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 2-3 meðalstórar soðnar kartöflur - fer svolítið eftir smekk hversu mikið fólk vill af kartöflum, en ég notaði tvær.

  • Grænar baunir í dós eftir smekk

  • Uppstúf eftir smekk - Það mun líklega verða smá afgangur af uppstúf, en ég mæli með því að blanda smá í einu þar til fyllingin hefur þá áferð sem þið kjósið.

Aðferð:

  1. Steikið oumphið upp úr smá olíu á pönnu og skerið svo niður í smærri bita

  2. Afhýðið kartöflurnar og skerið í svipað stóra bita

  3. Blandið saman í skál ásamt grænum baunum og uppstúf. Mér finnst svolítið erfitt að segja nákvæmt magn af t.d baunum eða uppstúf því það er svo misjafn hvað fólk vill, en ég held ég hafi notað sirka 1 dl af baunum og svo hellti ég sósu saman við þar til ég fékk þá áferð sem ég vildi. Þið sjáið á einni af myndunum hérna fyrir ofan hvernig fyllingin mín leit út áður en tartaletturnar fóru í ofninn.

  4. Hitið í ofninum í 15 mínútur eða þar til tartaletturnar hafa fengið á sig gylltan lit.

Takk innilega fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel

veganisturundirskrift.jpg

Ristaðar jólamöndlur

IMG_2044-3.jpg

Þá er komið að þriðju og síðustu færslunni í þessari litlu jólagjafaseríu minni. Í vikunni hef ég gert tvær konfekt uppskriftir, en ég gerði dásamlegt kókosnammi og súkkulaðitrufflur sem eru með því besta nammi sem ég hef smakkað. Í dag ætla ég ekki að deila konfekti, heldur færi ég ykkur ristaðar jólamöndlur. Þessar möndlur hef ég sjálf gefið nokkrum sinnum í jólagjafir og þær hafa algjörlega slegið í gegn. Það er orðin hefð hjá mér að búa þær til fyrir jólin og ég held það sé ekkert sem lætur heimilið ilma jafn vel og þegar möndlurnar eru í ofninum.

IMG_1994-2.jpg

Ég er með mun fleiri hugmyndir af góðum ætum jólagjöfum, en ákvað að láta þrjár duga í þetta sinn svo ég nái að gera eitthvað annað fyrir jólin. Allar þessar uppskriftir eru ekki bara fullkomnar sem jólagjafir heldur einnig sniðugar til að hafa í skálum yfir jólin og í jólaboðinu. Þær eru líka góðar til að sýna vinum og kunningjum að vegan nammi er alls ekkert síðra en annað sælgæti. Þessar möndlur t.d eru mjög líkar þeim sem maður fær á jólamörkuðum víðsvegar um heim og fólk hefur yfirleitt orðið hissa þegar ég segi því að ég hafi gert þær sjálf.

Ég hef alltaf verið jólabarn, en ég ákvað fyrir nokkrum árum að gera mitt allra besta við að tengja jólin ekki við gríðarlegt stress og pressu til þess að gera allt fullkomið. Ég viðurkenni að í ár hef ég þó upplifað svolítið af þessu. Ég vildi gera íbúðina súper jólalega, gera billjón jólauppskriftir og kaupa sjúklega flottar jólagjafir handa öllum sem ég þekki…

En svo varð ég að minna mig á að þetta er ekki það sem jólin snúast um fyrir mér. Við fljúgum til Noregs núna 17. des svo það hefði varla tekið því að fara að fylla íbúðina okkar af jólaskrauti, og ég reyni að kaupa sem minnst af dóti sem ég hef ekki þörf fyrir. Ég minnti mig líka á að ég blogga því mér finnst það gaman og það eyðileggur bara fyrir mér að setja svona mikla pressu á að ná að gera þúsund uppskriftir fyrir jólin. Þegar ég stoppaði aðeins og andaði náði ég að sjá þetta allt í öðru ljósi sem gerði það að verkum að ég er meira spennt fyrir jólunum en ég hef verið í mörg ár.

IMG_2015.jpg

Hvað jólagjafirnar varðar hef ég oft fengið samviskubit yfir því að geta ekki gefið öllum sem ég vil. Mér hefur liðið eins og ég sé ömurlegasta systir veraldar, því ég hef ekki sent neitt heim til litlu systkinna minna síðustu ár, en mamma hefur verið svo góð að kaupa eitthvað og skrifa nafnið mitt við. Það er svo leiðinlegt að þurfa að skammast sín fyrir að eiga lítinn pening í desember, en ég held að margir námsmenn t.d kannist vel við að eiga lítið eftir af námslánunum þegar fer að líða að jólunum. Auðvitað eru margir aðrir sem eiga lítinn pening fyrir jólagjöfum, en ég er einfaldlega að tala út frá minni reynslu. Ég man að fyrstu jólin sem ég gaf svona jólamöndlur í gjafir fékk ég meiri viðbrögð frá fólkinu í kringum mig en ég hafði fengið áður. Allir urðu himinlifandi og það var enginn sem hugsaði að þetta hlyti að vera því ég ætti ekki pening fyrir einhverju fínna. Möndlur eru sannarlega ekki ódýrar, en allt annað í uppskriftinni er það. Öll kryddin sem ég nota kosta lítið og endast lengi, og svo safnaði ég fallegum krukkum sem ég þvoði vel og fyllti af möndlunum.

IMG_2054.jpg

Mér þætti ótrúlega gaman að heyra hvort þið gefið heimatilbúnar gjafir, og hvort þið hafið fleiri skemmtilegar hugmyndir af ætum jólagjöfum. Eins finnst okkur alltaf jafn gaman þegar þið gerið uppskriftirnar okkar og sendið okkur, eða merkið við okkur á Instagram.

IMG_2027-2.jpg

Ristaðar jólamöndlur

  • 500 g möndlur með hýði

  • 125 g sykur

  • 2 msk aquafaba (vökvinn sem er í dós af kjúklingabaunum - Ég mæli með að nota vökvann af kjúklingabaunum frá Euroshopper sem fást í Bónus, og mér finnst geggjað að nota svo sjálfar baunirnar í þetta dásamlega salat).

  • 1/2 tsk engifer krydd

  • 1/2 tsk allrahanda krydd

  • 1/2 tsk múskat

  • 1 tsk kanill

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Hitið bakaraofninn á 135°c.

  2. Skolið möndlurnar með köldu vatni í sigti og látið vatnið renna af þeim áður en þið setjið þær í skál.

  3. Hrærið kjúklingabaunavökvanum saman við möndlurnar ásamt sykrinum og kryddunum.

  4. Smyrjið ofnskúffu með smá olíu, eða leggið á hana bökunarpappír og dreifið vel úr möndlunum yfir.

  5. Bakið möndlurnar í ca 30 mínútur og hrærið í á 10 mín fresti

  6. Leyfið möndlunum að kólna á plötunni eftir að hún er tekin út en hrærið þó reglulega í svo þær festist ekki.

  7. Geymið möndlurnar í loftþettu íláti.

Takk fyrir að lesa og vonum að ykkur líki vel

veganisturundirskrift.jpg