Rauðrófucarpaccio með klettasalati og vegan parmesanosti (forréttur fyrir 4)

Við kynnum hinn FULLKOMNA forrétt fyrir aðfangadagskvöld - eða við önnur skemmtileg tilefni. Rauðrófucarpaccio með kryddolíu, klettasalati, furuhnetum, balsamikediki og vegan parmesanosti. Einstaklega fallegur og góður forréttur.

Við erum oft spurðar að því hvort við höfum hugmyndir af góðum forrétt fyrir jólin. Við erum vanar að gera sveppasúpu eða aspassúpu, en í ár langaði okkur að breyta aðeins til og útbúa nýja og skemmtilega uppskrift að forrétt.

Rauðrófucarpaccio er ferskur og góður réttur sem við hlökkum til að gera við fleiri skemmtileg tilefni. Við borðum jú alltaf fyrst með augunum svo það er ekki leiðinlegt að kunna bera fram svona fallegan mat.

Rauðrófucarpaccio með gómsætu salati: (forréttur fyrir 4)

  • 2 meðalstórar rauðrófur

  • Góð ólífuolía

  • Villibráðakrydd frá Kryddhúsinu

  • Salt

  • Klettasalat

  • Ristaðar furuhnetur

  • Vegan parmesan ostur frá Violife

  • Balsamikedik

Aðferð:

  1. Byrjið á því að flysja rauðrófurnar. Það er gott að hafa í huga að rauðrófur geta mjög auðveldlega litað tréskurðarbretti og gott er að vera í hönskum þegar þær eru meðhöndlaðar.

  2. Pakkið rauðrófunum ásamt 1 tsk af salti í álpappír og bakið við 180°C í 50 mínútur. Takið út úr ofninum og leyfið þeim að kólna alveg. Ég geri þetta oft snemma um daginn eða jafnvel daginn áður.

  3. Notið mandolín eða mjög beittan hníf til að skera rauðrófurnar niður í mjög þunnar sneiðar, raðið þeim í þunnt þétt lag á stóran disk eða fjóra litla diska.

  4. Hellið ólífuolíu yfir og stráið 1-2 tsk af villibráðakryddinu yfir og nuddið því aðeins á rauðrófuskífurnar, fínt að nota pensil eða bara fingurna.

  5. Stráið klettasalati, furuhnetum, balsamik ediki og parmesan ostinum yfir. Kryddið með smá salti og pipar og berið fram.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel! <3

-Veganistur

-Þessi uppskrift er í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni í réttinn þar-

 
 

Aspassúpa og hátíðar meðlætið │ Veganistur TV │ 7. þáttur

Aspassúpa

  • 75 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 1 dl hveiti

  • 2 dósir niðursoðinn aspas (soðið og aspasinn)

  • 2 lítrar Oatly Barista mjólkin

  • 4 msk grænmetiskraftur (2 grænmetisteningar)

  • 2 tsk salt

  • 1/2 lítri Oatly iMat matreiðslurjómi

Aðferð:

  1. Bryjið á því að bræða smjörlíki í stórum potti. Þegar smjörlíkið er bráðið setjið hitan á hellunni niður á miðlungs eða lágan hita.

  2. Stráið hveitinu út í smjörið og hrærið það saman í hveitibolli, Bollan á að vera frekar þurr.

  3. Hellið soðinu af tveimur aspadósum í könnu og bætið út í pottinn í nokkrum skömmtum og hrærið vel saman við hveitibollunna. Ekki setja of mikið vökva út í pottinn í einu því þá er líklegra að kekkir myndist í súpunni.

  4. Þegar allt soðið er komið saman við bætið hálfum lítra af mjólkinni saman við og hrærið vel og síðan restinni af mjólkinni.

  5. Bætið grænmetiskrafti og saltinu saman við og leyfið því að hitna þar til suðan kemur upp.

  6. Þegar suðan er komin upp bætið matreiðslurjómanum og aspasinum saman við og hitið í nokkrar mínútur í viðbót.

  7. Berið fram með hvítu hveitibrauði.

Pipar sveppasósa

  • 25 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 200 gr sveppir

  • 2 tímían stilkar (ferkst)

  • salt og pipar

  • 1 bréf piparsósa

  • 250 ml vatn

  • 2 msk grænmetiskraftur (1 grænmetisteningur)

  • 250 ml Oatly iMat matreiðslurjómi

  • 1 tsk rifsberjahlaup eða rifsberjasulta

Aðferð:

  1. Skerið sveppina í þunnar sneiðar, kremjið hvítlaukinn og setjið út á heita pönnu mðe vegan smjörinu og tímían stilkunum.

  2. Steikið í nokkrar mínútur þar til að vökvi fer að myndast úr sveppunum.

  3. bætið vatninu, piparsósunni og grænmetiskraftinum út á pönnuna og hrærið saman þar til duftið er alveg komið saman við vatnið.

  4. Bætið rjómanum og rifsberjasultunni saman við og leyfið suðunni að koma upp. Sjóðið í sirka 5 mínútur.

Brúnaðar kartöflur (10 meðalstórar kartöflur)

  • 10-12 soðnar litlar kartöflur

  • 50 gr vegan smjör

  • 100 gr sykur

  • 1/2 dl Oatly-hafrarjómi

Aðferð:

  1. Bræðið sykurinn á meðalhita á pönnu og passið að fylgjast vel með.

  2. Setjið smjörið útí um leið og sykurinn er bráðinn svo hann brenni ekki.

  3. Þegar smjörið er bráðið er slökkt undir, rjómanum hellt útí og hrært standslaust í hálfa mínútu áður en kartöflunum er helt út í.

Eplasalat

  • 2 meðalstór græn epli

  • 1 bolli græn vínber

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1/2 dl þeyttur vegan rjómi

Aðferð:

  1. Takið hýðið af eplunum og skerið niður í litla kúbba

  2. Skerið vínberin í tvennt

  3. hrærið sýrða rjómanum og þeytta rjómanum saman við ávextina í stórri skál.

-Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og Oatly á Íslandi

 
 
KRONAN-merki.png
Oatly_logo_svart.png