Gómsæt súpa með gnocchi, baunum og grænmeti

Gnocchisúpa-med-grænmeti-og-baunum

Í dag deili ég með ykkur uppskrift að gómsætri súpu með gnocchi, baunum og grænmeti. Hin fullkomna haustsúpa að mínu mati. Hún er bæði dásamlega góð, vermir bæði líkama og sál og tekur undir 30 mínútur að útbúa. Ég mæli með því að bera súpuna fram með góðu brauði og toppa með heimagerðum kasjúparmesan.

Gnocchisúpa-med-grænmeti-hráefnamynd

Ég hef alltaf elskað að elda góðar súpur. Það er eitthvað svo róandi við að standa og skera niður grænmeti sem fær svo að malla í stórum potti. Súpur og pottréttir eru einnig frábær leið til að nýta grænmeti, kornvörur og baunir sem til eru heima. Þessi súpa er einmitt dæmi um það. Það er hægt að skipta grænmetinu út fyrir það sem þið eigið til heima, baununum má auðvitað skipta út fyrir aðra tegund af baunum og gnocchi er hægt að skipta út fyrir annað pasta. Mér finnst t.d. mjög gott að brjóta lasagnaplötur út í súpuna.

Hráefnin sem ég notaði í súpuna eru:

  • Niðursoðnir tómatar

  • Laukur

  • Gulrætur

  • Sellerí

  • Hvítlaukur

  • Grænmetiskraftur

  • Gnocchi

  • Cannellini baunir (sem má skipta út fyrir hvaða baunir sem er, t.d. kjúklingabaunir, pintobaunir eða smjörbaunir)

  • Balsamikedik

  • Fersk basílika

  • Ferskt timían

  • Þurrkaðar kryddjurtir

  • Salt, pipar og chiliflögur

Ert þú mikið fyrir súpur og vantar fleiri hugmyndir? Þá eru hérna nokkrar hugmyndir:

Rjómakennd vegan lasagnasúpa

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý

Uppáhalds linsubaunasúpan okkar

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin vel!

-Helga María <3

Gósmæt súpa með gnocchi, baunum og grænmeti

Gósmæt súpa með gnocchi, baunum og grænmeti
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • Ólífuolía eða önnur olía að steikja í
  • 1 meðalstór laukur
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 2 gulrætur
  • 2 sellerístilkar
  • 2 dósir niðursoðnir tómatar
  • 2 grænmetisteningar
  • 1.5 líter vatn
  • 2 tsk balsamikedik
  • 1 tsk þurrkað oregano
  • 1/2 tsk þurrkað marjoram
  • 2 msk ferskt timían
  • 2 msk fersk basílika
  • 1 dós baunir (ég notaði cannellinibaunur en það er ekkert mál að skipta þeim út fyrir t.d. kjúkligabaunir, pintobaunir eða smjörbaunir)
  • 1 pakki (ca 500g) gnocchi - passa að það sé vegan. Ég mæli með því frá Rana

Aðferð:

  1. Skerið niður lauk, gulrætur og sellerí.
  2. Steikið upp úr olíu í nokkrar mínútur eða þar til grænmetið hefur mýkst aðeins.
  3. Pressið hvítlaukinn og steikið í nokkrar mínútur.
  4. Bætið oregano og marjoram út í og hrærið.
  5. Bætið tómötum, vatni, grænmetisteningum, balsamikediki og ferskum jurtum og leyfið súpunni að malla í 15 mínútur.
  6. Bætið gnocchi og baunum saman við og leyfið súpunni að malla í 5 mínútur í viðbót eða þar til gnocchi-ið er mjúkt í gegn.
  7. Berið fram með góðu brauði
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur


Vegan ofnbakað gnocchi bolognese

Vegan bolognese með gnocchi, bakað í ofni, borið fram með gómsætu brauði. Að mínu mati hinn fullkomni kósý haustréttur. Einfalt og gott og hentar vel sem hversdagsmatur og sem fínni kvöldmatur. Ég ELSKA mat sem passar bæði sem kvöldmatur á mánudagskvöldi og í matarboð helgarinnar.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og ég notaði hakkið þeirra í þessa gómsætu bolognese sósu. Við elskum vörurnar frá Anamma og notum þær mikið í okkar eldamennsku. Hakkið er fullkomið í þennan rétt og bolognesesósan passar með hvaða pasta sem er. Ég notaði gnocchi því mig langaði að breyta aðeins til og finnst það gott. Ég prófaði sósuna líka með tagliatelle um daginn og það var dásamlega gott.

Ofnbakað pasta finnst mér bæði þægilegt og skemmtilegt að elda. Það er góð tilbreyting frá t.d. hefðbundnu “hakki og spaghetti” en er bæði einfaldara og fljótlegra en lasagna. Mér finnst algjörlega nauðsynlegt að kunna að gera gott bolognese og eins og ég sagði hér að ofan er hægt að bera hakksósuna fram með hvaða pasta sem er. Við fyrstu sýn lítur kannski út eins og sósan innihaldi ekki grænmeti, en það gerir hún svo sannarlega og grænmetið spilar stórt hlutverk í bragði sósunnar að mínu mati. Ég set í hana gulrætur, sellerí, lauk og hvítlauk. Og til að fá sem best bragð finnst mér mikilvægast að mixa grænmetið eða skera það mjög smátt.

Ein af ástæðunum fyrir því að ég elska að útbúa ofnbakað pasta er hversu hentugt það er. Ég geri það yfireitt í stóru góðu steypujárnspönnunni minni sem ég get skellt í ofninn og þarf því bara eina pönnu í eldamennskuna. Eða ég skipti því niður beint í glernestisboxin mín, baka í þeim í ofninum og get svo hitað upp í boxinu ef ég vil taka matinn með mér sem nesti eða eiga fljótlegan hádegismat heima.

Mér finnst gott brauð algjört möst með pasta og gómsætt hvítlauksbrauð er yfirleitt eitthvað sem ég vel að bera fram með nánast hvaða pastarétti sem er. Vegan parmesanostur er líka uppáhald hjá mér. Í dag er hægt að kaupa góðan tilbúinn vegan parmesan úti í búð en fyrir ykkur sem eigið erfitt með að nálgast hann mæli ég með þessum hérna heimagerða parmesan.

Ég vona innilega að þið njótið og munið að tagga okkur á Instagram ef þið eldið uppskriftirnar okkar, okkur þykir ekkert smá vænt um það.

Ofnbakað bolognese með gnocchi ( fyrir 3-4)

Hráefni

  • 500 gr gnocchi (passið að lesa vel á umbúðirnar hvort það er vegan. Sum merki innihalda egg)

  • Olía til steikingar

  • 1 meðalstór laukur

  • 1 gulrót

  • 1 sellerístöngull

  • 4 hvítlauksgeirar

  • 3 msk tómatpúrra

  • 325 gr vegan hakk frá Anamma (bæði formbar og það hefðbundna passa)

  • 2 tsk oregano

  • 1 tsk þurrkuð basílika

  • 1 tsk möluð fennelfræ

  • 1 lárviðarlauf

  • 1 grænmetisteningur

  • 250 ml vatn

  • 1 dl rauðvín

  • 1 dós niðursoðnir tómatar

  • 1-2 msk sojasósa

  • 2 msk balsamikedik

  • 1,5 dl vegan matreiðslurjómi

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Chili explosion krydd (má sleppa)

  • Vegan rjómaostur eða rifinn vegan ostur að toppa með

Gott að bera fram með: Basíliku, vegan parmesan og gott baguette

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Setjið gulrót, lauk og sellerí í matvinnsluvél og mixið þar til það er næstum maukað (sjá mynd að ofan). Ef þið eigið ekki svoleiðis vél mæli ég með því að rífa gulrótina og saxa hitt mjög smátt.

  3. Hitið olíu á stórri pönnu og steikið grænmetið í nokkrar mínútur eða þar til það fær á sig smá lit. Pressið hvítlaukinn, bætið honum á pönnuna og steikið í sirka 2 mínútur í viðbót

  4. Bætið hakkinu, oregano, þurrkaðri basíliku, fennelfræjum og tómatpúrru á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur.

  5. Hellið víninu út á pönnuna og leyfið því að eldast svolítið.

  6. Bætið við niðursoðnum tómötum, vatni, grænmetiskrafti, lárviðarlaufi, sojasósu og balsamikediki og leyfið að malla í 15-20 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað og fengið dekkri lit. Ég elska að leyfa minni að malla við vægan hita eins lengi og mögulegt er þegar ég er ekki að flýta mér.

  7. Bætið gnocchi út í og leyfið þvi að eldast í sósunni í 10 mínútur. Bætið svo matreiðslurjómanum út í og smakkið til. Saltið og piprið eftir þörf. Toppið með vegan rjómaosti, eða rifnum vegan osti og bakið í ofninum í sirka 20 mínútur eða þar til osturinn hefur fengið á sig fínan dökkan lit.

  8. Berið fram með basíliku, vegan parmesan og góðu brauði

Takk fyrir að lesa og njótið vel!

-Helga María

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Ofnbakað gnocchi í pestórjómasósu

IMG_0022-2.jpg

Hæ kæru vinir. Vona að þið hafið það gott!

Í dag deili ég með ykkur uppskrift af ofnbökuðu gnocchi med grænkáli í gómsætri pestórjómasósu. Þetta er einn af þeim réttum sem er einfalt að útbúa en smakkast eins og á veitingastað. Hversu fullkomið?!

IMG_0001_1-4.jpg

Síðustu vikur hef ég fundið ástríðuna mína fyrir matargerð og bakstri koma aftur. Eftir nokkra mánuði þar sem ég nennti ekki einu sinni að hugsa um mat, og borðaði einungis til að næra mig, var ég orðin svolítið áhyggjufull. Ég var farin að velta því fyrir mér hvort ég myndi nokkurn tíman fá góða hugmynd aftur í eldhúsinu og hvort ég væri kannski alveg búin að missa áhugann á því að elda mat. Eftir áramótin hefur mér þó liðið mun betur og hef fundið hvernig hugmyndirnar byrja að koma til mín aftur. Það hefur verið yndisleg tilfinning að finna hvernig ég sprett fram úr rúminu til að skrifa niður hugmynd af réttium sem mig langar að prófa.

Þessi réttur var einmitt dæmi um það. Ég lá í rúminu eitthvað kvöldið og þegar ég var í þann mund að sofna sá ég fyrir mér pönnu fulla af gnocchi í rjómakenndri pestósósu. Ég hljóp framúr og skrifaði niður á blað; “Gnocchi, pestó - heimagert, rjómi, hvítvín, sítrónusafi, grænkál eða spínat eða eitthvað svoleiðis”. Daginn eftir keypti ég svo hráefnin í réttinn og prófaði, og útkoman var dásamlega góð.

IMG_0012-4.jpg

Ég komst að því fyrir ekki svo löngu að hægt er að kaupa vegan ferskt gnocchi og ég hoppaði hæð mína af gleði. Á sama tíma og ég elska að útbúa mitt eigið (uppskrift HÉR) þá er það tilbúna alveg ótrúlega gott og einfaldar eldamennskuna til muna. Ég kaupi gnocchi frá Rana og það er 100% vegan. Mörg önnur merki innihalda egg og mjólk svo það er mikilvægt að lesa á pakkninguna til að vera viss. Gnocchi frá Rana fæst í Fjarðarkaupum, Hagkaupum og Melabúðinni!

IMG_0016-4.jpg

Ofnbakað gnocchi í pestórjómasósu

Hráefni:

  • 500 gr gnocchi, heimagert eða keypt tilbúið

  • olía til að steikja upp úr

  • 1 meðalstór gulur laukur

  • 1 hvítlauksgeiri

  • 150 gr grænkál eða spínat

  • 1.5 tsk oregano

  • 250 ml vegan matreiðslurjómi. Oatly er minn uppáhalds

  • 1.5 dl þurrt hvítvín

  • 1 dl vatn

  • safi og börkur af hálfri sítrónu

  • 1/2 dl heimagert grænt pestó - uppskrift hér að neðan (Hægt að nota tilbúið úr búð líka og við mælum mikið með pestóinu frá Sacla)

  • chiliflögur eftir smekk

  • rifinn vegan ostur til að toppa með

  • gott brauð að bera fram með. Ég bar réttinn fram með baguettebrauði

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c.

  2. Hitið olíu á pönnu við meðalháan hita.

  3. Skerið niður laukinn og pressið hvítlaukinn og steikið þar til hann fær smá lit.

  4. Bætið gnocchi út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur.

  5. Bætið oregano og grænkáli út á og steikið þar til grænkálið hefur mýkst og minnkað aðeins.

  6. Hækkið hitann og bætið hvítvíninu útí og eldið í sirka 3-5 mínútur.

  7. Bætið pestó, rjóma, vatni, sítrónusafa, sítrónuberki og chiliflögum út á og lækkið hitann aftur niður í miðlungshita. Blandið saman og takið af hellunni.

  8. Færið yfir í eldfastmót, nema þið notið pönnu sem hægt er að setja beint inní ofn. Stráið rifnum vegan osti yfir og setjið í ofninn þar til osturinn hefur bráðnað og fengið gylltan lit.

Pestó

Hráefni:

  • 50 gr fersk basilika

  • 1/2 dl furuhnetur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1/2 dl ólífuolía

  • Salt og pipar

Aðferð:

  1. Blandið öllu fyrir utan olíunni saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.

  2. Hrærið olíunni saman við.

Takk fyrir að lesa og njótið!

-Helga María

Vegan gnocchi með aspas og spínati

IMG_3109-9.jpg

Uppskrift dagsins er af heimagerðu gnocchi með aspas, hvítlauk, hvítvíni og spínati. Þetta er dásamlega gott og sjálft gnocchiið inniheldur bara þrjú hráefni, kartöflur, hveiti og salt. Það er að sjálfsögðu hægt að nota það í allskonar uppskriftir, bara eins og pasta, en þessi útgáfa er svakalega góð og mér finnst svolítill veitingahúsafílingur í réttinum.

IMG_3081.jpg

Eins og þið kannski sum vitið höfum við Júlía haldið úti veganistur.is í þrjú ár í sumar, en fyrir það vorum við í rúmt ár einungis með Facebook síðu og Instagram. Veganistur áttu fyrst að vera hversdagsleg Facebook síða þar sem við skelltum inn símamyndum af kvöldmatnum okkar án þess að hugsa mikið um það, og sýndum fólki einfaldlega hvað það er auðvelt að vera vegan. Facebook síðan óx mun hraðar en við hefðum haldið og við fórum að fá allskonar fyrirspurnir um hvort við gætum gert uppskriftir af þessu og hinu og smám saman breyttust Veganistur í uppskriftarsíðu.

IMG_3085-3.jpg

Við fórum fljótt að finna fyrir því að fólk væri að fylgjast með og í kjölfarið vildum við leggja meiri vinnu og metnað í bæði uppskriftirnar og myndirnar. Það var svo vorið 2016 að við ákváðum að útbúa alvörunni vefsíðu og þá má segja að boltinn hafi farið að rúlla. Það sem fyrst átti bara að vera lítið áhugamál hefur orðið að risastórum hluta af lífinu okkar. Í dag eru Veganistur það sem við leggjum hvað mesta vinnu í og höfum mikla ástríðu fyrir. Það eruð þið, lesendur okkar, sem gefið okkur endalausan innblástur og styrk til að gera eins vel og við getum. Ykkur erum við gríðarlega þakklátar.

IMG_3088-3.jpg

Við Júlía stöndum tvær í þessu og sjáum um allt sem viðkemur blogginu samhliða fullu námi og öðrum verkefnum. Það getur verið gríðarlega kostnaðarsamt að útbúa nýtt efni fyrir bloggið, bæði í peningum og tíma talið. Kostnaðurinn er misjafn, en við vöndum valið okkar á samstörfum við önnur fyrirtæki virkilega vel og tókum snemma ákvörðun um að hafa engar auglýsingar að öðru tagi á blogginu. Allur peningur og tími sem við leggjum í bloggið okkar og uppskriftir er fyllilega þess virði og við munum aldrei sjá eftir einni einustu krónu.

IMG_3089-2.jpg

Okkur hafa borist margar fyrirspurnir um hvernig sé hægt að styrkja okkur og hingað til hefur það einungis verið hægt með því að lesa og deila blogginu okkar, og þið hafið svo sannarlega gert það. Við erum virkilega hrærðar yfir því hvað þið eruð mörg sem heimsækið síðuna okkar daglega og látið orðið berast til þeirra sem þið þekkið. Þið eruð æði!

IMG_3091-2.jpg

Við höfum þó ákveðið eftir mikla umhugsun að opna Patreon aðgang fyrir þá sem hafa áhuga á að styrkja okkur. Það er einfaldlega svo við höfum meira frelsi varðandi uppskriftir og þurfum ekki að skipuleggja bloggfærslur einungis útfrá því hvað við eigum mikinn pening hverju sinni. Með því að styrkja okkur hjálpar þú semsagt til við að auka svigrúm og afkastagetu okkar. Eins höfum við lengi verið með uppskriftarbók í maganum og við iðum í skinninu við að koma henni út og deila með ykkur ennþá fleiri ótrúlega spennandi og gómsætum uppskriftum.

Á Patreon síðunni okkar sérðu hvað við bjóðum ykkur í staðinn og eitt af því er aðgangur að lokaðri Facebook grúppu þar sem við Júlía munum elda með ykkur live í hverri viku. Við erum ekkert smá spenntar fyrir því og fyrsta uppskriftin sem ég ætla að gera með ykkur er akkúrat þessi. Ég hlakka ekkert smá til og mun svo deila með ykkur nákvæmri tímasetningu þegar nær dregur.

IMG_3093-2.jpg

Við viljum enn og aftur þakka ykkur fyrir. Þegar við stofnuðum Veganistur höfðum við ekki hugmynd um hvað við myndum fá mikinn stuðning frá ykkur öllum. Án ykkar værum við ekki á þeim stað sem við erum í dag.

IMG_3106-5.jpg

Gnocchi

  • 2 bollar stappaðar kartöflur

  • 1,5- 2 bollar hveiti

  • 1,5 tsk salt

Það sem fer með á pönnuna

  • Vegan smjör til að steikja uppúr. Ég setti alveg vænan bita.

  • 200 gr aspas. Ég notaði frosinn í þetta sinn

  • Tvær lúkur babyspínat

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 dl hvítvín (má sleppa)

  • Ristaðar furuhnetur til að strá yfir

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflur og afhýðið. Stappið þær vel með kartöflustappara eða gaffi og setjið í stóra skál.

  2. Bætið hveitinu og saltinu saman við. Ég byrjaði á því að setja 1,5 bolla hveiti og bætti svo aðeins við eftir þörf. Hrærið saman við og hafið í huga að þetta verður mjög mjölkennt til að byrja með. Hrærið eins vel og þið getið með sleif og færið svo yfir á borð og notið hendurnar til að hnoða þetta saman í deig.

  3. Skiptið deiginu niður í fjóra hluta, rúllið þá út og skerið sirka 2 cm bita úr þeim.

  4. Það má sleppa þessu skrefi og elda bitana einfaldlega eins og þeir eru þegar búið er að skera þá niður, en ég vildi útbúa smá gnocchi munstur og notaði til þess gaffal. Margir eiga sérstakt bretti sem gerir það mun auðveldara, en ég læt gaffalinn duga. Ég tók bita og flatti hann létt út á gaffalinn og rúllaði svo upp. Ég hefði kannski getað sýnt aðeins skýrari mynd af því hvernig þetta er gert, en það er fullt af myndböndum á youtube sem sýna það mun betur en mér hefði tekist. Passið að strá smá hveiti yfir bitana og láta þá ekki liggja saman á meðan þið gerið þetta því þeir munu festast saman og verða að einni klessu.

  5. Steikið á pönnu hvítlauk, aspas, og spínat uppúr smjörinu. hækkið hitann og hellið hvítvíninu út í og lækkið hitann svo aftur eftir nokkrar mínútur.

  6. Sjóðið vatn í stórum potti og saltið smá. Þegar suðan er vel komin upp skuluði hella gnocchiinu í. Ég myndi ekki setja þá alla í einu þar sem þetta eru svolítið margir bitar. Veiðið bitana upp þegar þeir hafa flotið upp á yfirborðið sem tekur um 90 sekúndur.

  7. Sigtið allt vatn af bitunum og skellið þeim á pönnuna og steikið þá í nokkrar mínútur. Saltið og piprið eftir smekk.

  8. Berið fram með því sem ykkur lystir, en mér finnst alltaf gott að útbúa gómsætt hvítlauksbrauð með.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

Veganistur <3