Vegan ofnbakað gnocchi bolognese

Vegan bolognese með gnocchi, bakað í ofni, borið fram með gómsætu brauði. Að mínu mati hinn fullkomni kósý haustréttur. Einfalt og gott og hentar vel sem hversdagsmatur og sem fínni kvöldmatur. Ég ELSKA mat sem passar bæði sem kvöldmatur á mánudagskvöldi og í matarboð helgarinnar.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og ég notaði hakkið þeirra í þessa gómsætu bolognese sósu. Við elskum vörurnar frá Anamma og notum þær mikið í okkar eldamennsku. Hakkið er fullkomið í þennan rétt og bolognesesósan passar með hvaða pasta sem er. Ég notaði gnocchi því mig langaði að breyta aðeins til og finnst það gott. Ég prófaði sósuna líka með tagliatelle um daginn og það var dásamlega gott.

Ofnbakað pasta finnst mér bæði þægilegt og skemmtilegt að elda. Það er góð tilbreyting frá t.d. hefðbundnu “hakki og spaghetti” en er bæði einfaldara og fljótlegra en lasagna. Mér finnst algjörlega nauðsynlegt að kunna að gera gott bolognese og eins og ég sagði hér að ofan er hægt að bera hakksósuna fram með hvaða pasta sem er. Við fyrstu sýn lítur kannski út eins og sósan innihaldi ekki grænmeti, en það gerir hún svo sannarlega og grænmetið spilar stórt hlutverk í bragði sósunnar að mínu mati. Ég set í hana gulrætur, sellerí, lauk og hvítlauk. Og til að fá sem best bragð finnst mér mikilvægast að mixa grænmetið eða skera það mjög smátt.

Ein af ástæðunum fyrir því að ég elska að útbúa ofnbakað pasta er hversu hentugt það er. Ég geri það yfireitt í stóru góðu steypujárnspönnunni minni sem ég get skellt í ofninn og þarf því bara eina pönnu í eldamennskuna. Eða ég skipti því niður beint í glernestisboxin mín, baka í þeim í ofninum og get svo hitað upp í boxinu ef ég vil taka matinn með mér sem nesti eða eiga fljótlegan hádegismat heima.

Mér finnst gott brauð algjört möst með pasta og gómsætt hvítlauksbrauð er yfirleitt eitthvað sem ég vel að bera fram með nánast hvaða pastarétti sem er. Vegan parmesanostur er líka uppáhald hjá mér. Í dag er hægt að kaupa góðan tilbúinn vegan parmesan úti í búð en fyrir ykkur sem eigið erfitt með að nálgast hann mæli ég með þessum hérna heimagerða parmesan.

Ég vona innilega að þið njótið og munið að tagga okkur á Instagram ef þið eldið uppskriftirnar okkar, okkur þykir ekkert smá vænt um það.

Ofnbakað bolognese með gnocchi ( fyrir 3-4)

Hráefni

  • 500 gr gnocchi (passið að lesa vel á umbúðirnar hvort það er vegan. Sum merki innihalda egg)

  • Olía til steikingar

  • 1 meðalstór laukur

  • 1 gulrót

  • 1 sellerístöngull

  • 4 hvítlauksgeirar

  • 3 msk tómatpúrra

  • 325 gr vegan hakk frá Anamma (bæði formbar og það hefðbundna passa)

  • 2 tsk oregano

  • 1 tsk þurrkuð basílika

  • 1 tsk möluð fennelfræ

  • 1 lárviðarlauf

  • 1 grænmetisteningur

  • 250 ml vatn

  • 1 dl rauðvín

  • 1 dós niðursoðnir tómatar

  • 1-2 msk sojasósa

  • 2 msk balsamikedik

  • 1,5 dl vegan matreiðslurjómi

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Chili explosion krydd (má sleppa)

  • Vegan rjómaostur eða rifinn vegan ostur að toppa með

Gott að bera fram með: Basíliku, vegan parmesan og gott baguette

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Setjið gulrót, lauk og sellerí í matvinnsluvél og mixið þar til það er næstum maukað (sjá mynd að ofan). Ef þið eigið ekki svoleiðis vél mæli ég með því að rífa gulrótina og saxa hitt mjög smátt.

  3. Hitið olíu á stórri pönnu og steikið grænmetið í nokkrar mínútur eða þar til það fær á sig smá lit. Pressið hvítlaukinn, bætið honum á pönnuna og steikið í sirka 2 mínútur í viðbót

  4. Bætið hakkinu, oregano, þurrkaðri basíliku, fennelfræjum og tómatpúrru á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur.

  5. Hellið víninu út á pönnuna og leyfið því að eldast svolítið.

  6. Bætið við niðursoðnum tómötum, vatni, grænmetiskrafti, lárviðarlaufi, sojasósu og balsamikediki og leyfið að malla í 15-20 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað og fengið dekkri lit. Ég elska að leyfa minni að malla við vægan hita eins lengi og mögulegt er þegar ég er ekki að flýta mér.

  7. Bætið gnocchi út í og leyfið þvi að eldast í sósunni í 10 mínútur. Bætið svo matreiðslurjómanum út í og smakkið til. Saltið og piprið eftir þörf. Toppið með vegan rjómaosti, eða rifnum vegan osti og bakið í ofninum í sirka 20 mínútur eða þar til osturinn hefur fengið á sig fínan dökkan lit.

  8. Berið fram með basíliku, vegan parmesan og góðu brauði

Takk fyrir að lesa og njótið vel!

-Helga María

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-