Ofnbakað pasta með rauðu pestói

IMG_9604.jpg

Nú þegar fer að hausta er ég í algjöru stuði til að gera góða ofn og pottrétti. Það er svo ótrúlega þægilegt að geta sett öll hráefnin í eitt mót eða stóran pott og eldað það saman. Mér finnst einnig mjög mikilvægt að kunna að gera góða rétti sem þarfnast lítillar fyrirhafnar og elda sig sjálfir, sérstaklega þegar mikið er að gera og lítill tími gefst í eldamennsku.

Svokallað “Í einn pott” pasta eða” One pot pasta” líkt og það er kallað á ensku er tilvaldin svoleiðis réttur. Þessir réttir hafa notið mikilla vinsælda síðustu ár þar sem þeir eru svo einfaldir og elda sig alveg sjálfir. Þá er hrátt pasta, vatn og fleiri hráefni sett saman í eldfast mót eða pott og því leyft að malla þar til pastað er soðið og rétturinn tilbúin.

Í þessari viku ætla ég akkúrat að deila með ykkur slíkri uppskrift en það má segja að þetta sé hinn fullkomni hversdagsréttur. Ég ákvað að elda réttin í eldföstu móti í ofni í stað þess að gera það í potti á hellu, einfaldlega vegna þess að mér finnst það þægilegra og uppvaskið eftir það auðveldara heldur en hitt. Það eina sem þarf að gera er að hræra öllu saman í form og skella í ofninn. Þá þarf ekki að hafa neinar áhyggjur að það sjóði uppúr eða að eitthvað brenni við botninn á pottinum.

Ég ákvað að setja smá vegan ost yfir réttinn í lokin til að gera hann extra djúsí en það má alveg sleppa því. Ég notaði rauða pestóið frá Sacla Italia þar sem það er lang uppáhalds pestóið mitt. Það er þó alveg hægt að leika sér með réttinn eins og hver og einn vill, nota til dæmis grænt pestó og það grænmeti sem til er. Þetta getur verið alveg fullkomin réttur til að nota restar úr ísskápnum í.

IMG_9626.jpg

Hráefni

  • 350 gr pasta

  • 3 hvítlauksrif

  • 1/2-1 rauð paprika

  • 1/2 krukka svartar ólífur

  • 1/2 meðalstór haus brokkolí

  • 1/2 dl næringarger

  • 1 krukka rautt pestó úr vegan línunni hjá Sacla Italia

  • 750 ml grænmetissoð

    • 750 ml vatn + 2 grænmetisteningar hitað saman

  • 2-3 lúkur af vegan rifnum osti (má sleppa)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C.

  2. Byrjið á því að setja vatn og grænmetisteninga í pott og hita þar til suðan kemur upp. Hrærið aðeins í og slökkvið undir um leið og fer að sjóða.

  3. Skerið allt grænmeti og ólífur niður og saxið hvítlaukinn.

  4. Setjið allt hráefni, nema ostinn, í eldfast mót og blandið því vel saman.

  5. Setjið álpappír yfir mótið og eldið í ofninum í 30 mínútur, takið síðan álpappírinn af og setjið ostinn yfir og bakið í 15 mínútur í viðbót.

  6. Þegar ég tek réttinn úr ofninum finnst mér best að hræra öllu vel saman og blanda ostinum við réttinn sjálfan en það þarf ekki að gera það.

- Færslan er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi. -

 
logo Sacla.jpg