Grillaðar samlokur með vegan kjúklingasalati

Góðan daginn kæru vinir.

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af djúsí grilluðum samlokum með vegan kjúklingasalati og osti. Svo gott að ég gæti grátið!

DSCF1646.jpg

Uppskriftin er í samstarfi við Hellman’s. Vegan majónesið þeirra er eitt það allra besta á markaðnum og er fullkomið í góð sallöt og sósur. Mér finnst gott að eiga alltaf til krukku af majónesinu þeirra svo ég geti skellt í góða pítu- eða hamborgarasósu hvenær sem er. Já, eða þetta gómsæta vegan kjúkligasalat

DSCF1666.jpg

Ég er mikið fyrir majónessalöt og þetta tiltekna salat hefur oft slegið í gegn í mínum veislum og partýum. Ég hef borið það fram með góðu kexi og einn skammtur hverfur yfirleitt á nokkrum mínútum. Salatið er líka frábært í allskonar samlokur og langlokur og ég hef líka gert litlar vefjur sem ég sker niður í munnbita. Allt saman jafn gott!

Hugmyndin um að útbúa grillaðar samlokur með salatinu kom til mín í dag. Ég hafði fyrst hugsað mér að bera það öðruvísi fram fyrir færsluna, en lá svo í rúminu í morgun og fékk þessa hugmynd. Ég vissi ekki hvernig það kæmi út og dreif mig að prófa. Guð minn góður hvað ég er glöð að ég gerði það, ég hef ekki borðað jafn góða samloku lengi.

DSCF1682-2.jpg

Já ég get líka sagt ykkur það að ég gerði mér sérstaka ferð til Luleå, sirka klukkutíma frá mér, bara til þess að kaupa nýtt samlokugrill því ég vildi gera gómsætar samlokur sem minntu svolítið á grillað panini. Ég vildi fá þessar fínu rendur sem koma í þessum ákveðnu grillum. Ég veit að það er kannski svolítið galið, en ég sé svo sannarlega ekki eftir þessum kaupum.

DSCF1703.jpg

Ég hlakka til að heyra hvort þið prófið að gera þessar sjúlluðu samlokur og hvað ykkur finnst!

Hráefni:

Vegan kjúklingasalat með karrý

  • 1 pakki vegan kjúklingabitar

  • Olía til steikingar

  • 1 krukka vegan Hellman’s majónes

  • 1/2 dl vegan hrein jógúrt eða grísk vegan jógúrt

  • 1-2 dl saxaður vorlaukur. Ég setti um 1,5 dl

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk karrýduft

  • salt og pipar eftir smekk

Hráefni í 3-4 samlokur

  • 6-8 brauðsneiðar

  • 1 skammtur kjúklingasalat

  • Rifinn vegan ostur eftir smekk

  • Vegan smjör til að smyrja samlokurnar að utanverðu (má sleppa)

Gott að bera fram með:

  • Kóríander

  • Pikluðum rauðlauk

  • Frönskum

Aðferð:

  1. Takið bitana úr frysti og steikið aðeins á pönnu uppúr smá olíu og salti. Bitarnir þurfa í raun ekkert að eldast mikið, bara í nokkrar mínútur þannig þeir séu orðnir mjúkir.

  2. Hellið þeim á stórt skurðarbretti og rífið í sundur með tveimur göfflum. Mér finnst þetta skipta miklu máli uppá áferðina á salatinu. Ég ríf þá ekkert alveg niður en ríf þá í sundur í þá stærð sem ég vil hafa bitana í stað þess að skera þá niður.

  3. Setjið bitana í stóra skál og bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman.

  4. Leyfið salatinu að standa í ísskáp í allavega klukkustund. Þetta gerir það að verkum að salatið verður bragðmeira og betra. Eins og ég sagði hér að ofan er mjög gott að gera þetta snemma sama dag og þið ætlið að bera salatið fram eða jafnvel kvöldið áður.

  5. Smyrjið brauðsneiðar með smjöri að utanverðu

  6. Smyrjið salati á og dreifið rifnum osti yfir

  7. Grillið samlokurnar í samlokugrilli eða á pönnu þar til osturinn hefur bráðnað og brauðið fengið örlítið gylltan lit.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið!

-Helga María

-Þessi færsla er í samstarfi við Hellman’s á Íslandi-

 
Hellmann’s-Logo-2015.jpeg