Gómsætt rjómapasta

Pasta er líklega eitthvað sem öllum þykir gott. Uppáhalds pastaréttirnir mínir eru lasagna, kalt pastasalat, pasta með grænu pestó og að sjálfsögðu rjómapasta. Síðan ég var barn hef ég haldið uppá pasta í rjómasósu og þá sérstaklega það sem mamma var vön að gera fyrir mig. Þegar ég gerðist vegan útbjó ég mína eigin uppskrift af rjómapasta sem minnti á það sem ég var vön að borða. 

Það eru til nokkrar tegundir af vegan matreiðslurjóma. Persónulega finnst mér sojarjóminn frá Naturli bestur, hann fæst í Nettó. Ég hef gert pastað með kókosrjóma og mér finnst það einnig mjög gott. Ég á enn eftir að prufa möndlurjóma en hrísrjóminn finnst mér sístur, aðallega vegna þess hversu sætur hann er. 
Galdra-hráefnið er svo næringarger sem gerir ótrúlega mikið fyrir sósuna. Næringarger er óvirkt ger sem er stútfullt af vítamínum, þar á meðal b12. Næringarger er eitt af mínum uppáahalds hráefnum. Það gefur svolítið ostalegt bragð svo það er oft notað í stað osts í allskonar uppskriftir. Ég strái næringargeri nánast út á allt og mæli með því að fólk kaupi sér dollu. Ég mæli með gerinu frá Engevita sem fæst meðal annars í Bónus og Hagkaup.

Neikvæða hliðin á svona gómsætum rjómapastaréttum er sú að þeir geta verið þungir í magann. Ég man að mér leið stundum eins og ég væri með stein í maganum þegar ég hafði borðað mig sadda af svona pasta. Mér finnst vegan rjómapasta samt fara mun betur í magann. Jurtarjóminn er einhvernveginn léttari en hinn. Um nokkurt skeið hef ég líka borðað eins lítið af glúteini og ég mögulega get og ég verð að segja að glúteinlaust pasta fer miklu betur í mig. Það er til fullt af góðu glúteinlausu pasta hvort sem það er úr baunum, kínóa eða maís. Það sem ég notaði í þetta sinn er úr maís og það er ómögulegt að finna bragðmun á því og hveitipasta.

Hráefni

1/2 askja sveppir
1/2 rauð paprika
1/2 haus brokkólí 
1/2 grænmetisteningur
1-2 fernur jurta-matreiðslurjómi (mæli með Oatly sem fæst í krónunni)
1/2 tsk hvítlauksduft
1/2 tsk paprikuduft
Örlítið af olíu til steikingar
200 g pasta
3 msk næringarger
salt og pipar eftir smekk


Aðferð:

1. Steikið grænmetið á pönnunni uppúr örlítilli olíu

2. Sjóðið pasta í potti á meðan grænmetið steikist á pönnunni

3. Hellið rjómanum út á pönnuna þegar grænmetið er vel steikt. Bætið grænmetiskrafti, næringargeri og kryddum út á og látið malla í nokkrar mínútur á lágum hita. 

4. Hellið pastanu út á pönnuna þegar það er soðið í gegn. Bætið næringargeri, salti og pipar við ef ykkur finnst vanta. Ég á það til að bæta næringargeri útá því ég fæ einfaldlega ekki nóg af því!

Þegar ég er í stuði útbý ég hvítlauksbrauð og ber fram með pastanu en yfirleitt borða ég það bara eitt og sér. Ég vona að þið njótið vel.

Helga María