Einföld og fljótleg kúrbítsbuff með kaldri sósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að einföldum og fljótlegum kúrbítsbuffum með indverskum kryddum bornum fram með kaldri sósu. Buffin eru hinn fullkomni hversdagsmatur þar sem það tekur enga stund að útbúa þau. Aðal uppistaðan er zucchini og kjúklingabaunahveiti sem geriri þau stútfull af góðri næringu!

Ég hef verið í miklu kúrbítsstuði síðustu mánuði og finnst gott að nota þau í allskonar matargerð og bakstur. Margir fatta ekki hversu mikið hægt er að gera við zucchini en ég nota það í súpur, pottrétti, buff, ríf það út í hafragraut og kökudeig og elska að skera það niður þunnt og nota sem álegg á pizzu. Möguleikarnir eru virkilega endalausir!

Mér finnst virkilega gott að útbúa allskonar buff heima, hvort sem það eru grænmetisbuff, vegan hakkabuff eða baunabuff. Ég hef gert þessi buff á allskonar hátt. Stundum bæti ég við rifnum gulrótum, kartöflum eða hvítkáli. Ég nota í raun það sem ég á til heima að hverju sinni. Í þetta sinn vildi ég hafa þau frekar einföld en var í stuði til að setja þau í indverskan búning. Ég notaði engifer, túrmerík, garam masala, kóríanderkrydd, kúmmín, frosið kóríander og chili. Útkoman varð dásamleg.

Buffin steiki ég á pönnu upp úr smá olíu en það er auðvitað hægt að baka þau í ofni eða air fryer líka. Ef þið bakið þau mæli ég með því að bæta örlítilli ólífuolíu út í deigið. Ég bar buffin fram með gómsætri kaldri sósu sem ég gerði úr meðal annars vegan sýrðum rjóma, hvítlauk, frosnu kóríander og sítrónusafa. Sósan passar fullkomlega með buffunum að mínu mati. Ég bar einnig fram mangó chutney með en steingleymdi að hafa það með á myndunum því miður, en það kom virkilega vel út með buffunum líka.

Einföld kúrbítsbuff með kaldri sósu

Einföld kúrbítsbuff með kaldri sósu
Fyrir: 2-3
Höfundur: Helga María
Í dag deilum við með ykkur uppskrift að einföldum og fljótlegum kúrbítsbuffum með indverskum kryddum bornum fram með kaldri sósu. Buffin eru hinn fullkomni hversdagsmatur þar sem það tekur enga stund að útbúa þau. Aðal uppistaðan er zucchini og kjúklingabaunahveiti sem geriri þau stútfull af góðri næringu!

Hráefni:

Kúrbítsbuff
  • 100 gr kjúklingabaunahveiti
  • 20 gr hrísgrjónahveiti
  • 400 gr rifinn kúrbítur
  • 2 vorlaukar
  • 1 msk rifið engifer
  • 2 tsk garam masala
  • 1 tsk túrmerík
  • 1 tsk kúmmín
  • 1 tsk kóríanderkrydd
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 msk frosið kóríander
  • chiliflögur
  • salt og pipar
Sósan:
  • 2 dl vegan sýrður rjómi
  • 2 rifnir eða pressaðir hvítlauksgeirar
  • 2 tsk frosið kóríander
  • 1 tsk laukduft
  • 2 tsk sítrónusafi
  • 2 tsk ólífuolía
  • Salt og pipar

Aðferð:

Kúrbítsbuff:
  1. Blandið kjúklingabaunahveiti, hrísgrjónahveiti, kryddum, lyftidufti, salti og pipar í skál.
  2. Rífið niður kúrbít, saxið vorlauk, rífið engifer og bætið út í skálina ásamt frystu kóríander og hrærið saman svo úr verði deig. Ég nota hendurnar við að hræra þessu saman.
  3. Hitið olíu á pönnu, búið til buff og steikið þar til þau fá gylltan lit.
Sósan:
  1. Blandið öllu saman í skál og berið fram með buffunum. Það er mjög gott að gera sósuna snemma svo hún geti fengið að standa aðeins í ísskápnum.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar þér uppskriftin!

-Helga María <3