Vegan snitsel á tvo vegu

IMG_0755.jpg

Þessi færsla er sú þriðja í samstarfi okkar með Anamma, og í þetta sinn ákvað ég að útbúa snitselið frá þeim, sem mér þykir gríðarlega gott. Ég gat þó með engu móti ákveðið hvernig ég vildi matreiða snitselið fyrir færsluna, og eftir miklar vangaveltur fram og til baka ákvað ég að útbúa tvo mismunandi rétti úr því. Mér fannst nauðsynlegt að gera eina hefðbundna snitsel máltíð, og útbjó ég með því gómsæta sveppasósu, steiktan aspas og einar þær bestu ofnbökuðu kartöflur sem ég hef gert. Auk þess ákvað ég að gera aðeins öðruvísi máltíð og bjó til snitsel grillsamloku með grænmeti og tarragon-kapers mæjónessósu. Ég er fegin að hafa ákveðið að gera bæði því ég get ekki gert upp á milli. 

Snitselið er eina varan frá Anamma sem ekki er glúteinlaus, en nýlega breyttu þau öllum uppskriftunum sínum og snitselið, sem var glúteinlaust, er það ekki lengur. Að mínu mati eru allar vörunar mun betri eftir breytingarnar og mér finnst snitselið alveg ótrúlega gott, bæði í áferð og bragði. 

IMG_0698.jpg

Kartöflurnar sem ég gerði með voru virkilega góðar, en galdurinn var að sjóða þær fyrst og setja þær svo í ofninn. Við það urðu þær mjúkar og góðar að innan, en dásamlega stökkar að utan. Þær voru fullkomnar með báðum réttunum sem ég gerði. 

IMG_0758.jpg

Þar sem það tekur enga stund að elda snitselið langaði mig að gera með því flott meðlæti sem tekur kannski aðeins meiri tíma, en er samt virkilega einfalt og þægilegt að búa til. Ef tíminn er naumur, eða maður nennir ekki mikilli eldamennsku er auðvitað hægt að skella frönskum í ofninn og útbúa einhverja góða vegan pakkasósu, en ég mæli auðvitað mjög mikið með að búa til eigið meðlæti ef tök eru á.
Eins með samlokuna hér að neðan. Það er ekkert mál að kaupa vegan mæjónes og blanda því saman við hvítlauk og góðar jurtir, en mér fannst heimatilbúna mæjónessósan passa ótrúlega vel með samlokunni. 

IMG_0715-2.jpg
IMG_0780-3.jpg

Snitsel frá Anamma fyrir 4

  • 2 pakkar Anamma snitsel (hver pakki inniheldur 4 stk svo það er fínt að gera ráð fyrir a.m.k 2 á mann)

1. Eldið snitselið eftir leiðbeiningum á pakkanum. Ég steikti það á pönnu upp úr vegan smjöri þar til það var gyllt á báðum hliðum.

Sveppasósa:

  • 1 askja sveppir (250g)

  • Olía til steikingar

  • 500 ml vegan matreiðslurjómi

  • 1 sveppateningur 

  • 1/2 tsk dökk sojasósa (má sleppa - hún gefur sósunni mjög gott bragð en er alls ekki nauðsynleg)

  • Vatn og hveiti til að þykkja (ég mæli það aldrei neitt sérstaklega heldur hristi ég bara saman smávegis af hveiti og smá vatni, það þarf alls ekki mikið).

  1. Sneiðið niður sveppina og setjið í pott. 

  2. Steikið þá uppúr smá olíu í pottinum. Ef mér finnst sveppirnir byrja að festast við botninn finnst mér best að bæta við örlitlu vatni og endurtek það ef mér finnst þurfa. Við það myndast líka smá sveppasoð sem mér finnst gefa sósunni gott bragð. 

  3. Bætið sveppakraftinum út í pottinn þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir og hafa rýrnað svolítið, og látið hann leysast upp í soðinu sem hefur myndast í pottinum.

  4. Hellið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp.

  5. Hristið saman svolítið af hveiti og vatni og hellið út í pottinn í mjórri bunu og meðan þið hrærið hratt í sósunni þar til hún hefur náð þeirri þykkt sem þið kjósið. 

  6. Bætið sojasósunni út í ásamt salti og pipar og smakkið til. 

Ristaðar kartöflur í ofni

  • 2 kg kartöflur

  • 6 msk olía til steikingar

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1 tsk paprikuduft

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Byrjið á því að skræla kartöflurnar

  2. Hitið ofninn í 200 gráður

  3. Skerið kartöflurnar í meðalstóra bita og leggið í bleyti í kalt vatn í sirka korter

  4. Sjóðið vatn í stórum potti á meðan

  5. Sjóðið kartöflurnar þar til þær eru svona nálægt því að verða tilbúnar. Þær eiga ekki að vera orðnar alveg mjúkar í gegn (mínar voru samt mjög nálægt því)

  6. Á meðan kartöflurnar sjóða hitiði olíuna á pönnu og pressið hvítlauksgeirana útí. Þegar þeir eru orðnir brúnir helliði olíunni í skál, sigtið hvítlaukinn úr og leggið til hliðar. Passið að hvítlaukurinn brenni ekki því hann verður notaður seinna 

  7. Takið kartöflurnar úr pottinum og hellið þeim í stóra skál og veltið þeim upp úr olíunni sem þið hituðuð, ásamt paprikudufti, salti og pipar. Passið að þekja kartöflurnar vel. Á þessum tímapunkti líta þær út fyrir að vera svolítið maukaðar og þannig eiga þær að vera

  8. Hellið kartöflunum á hreina ofnplötu og dreifið úr þeim svo þær séu sem minnst klestar saman

  9. Ristið þær í ofninum í 20 mínútur, takið plötuna svo út, snúið kartöflunum og ristið í aðrar 20 mínútur

  10. Þegar þær eru tilbúnar er gott að velta þeim upp úr hvítlauknum sem þið hituðuð í olíunni. Ástæðan fyrir því að ég geri það ekki áður en kartöflurnar fara í ofninn er sú að hann gæti brunnið og þá gefur hann frá sér beiskt bragð sem skemmir svolítið fyrir. 

  11. Bætið við grófu salti ef ykkur finnst þurfa

Með þessu steikti ég svo frosinn aspas á pönnu upp úr sítrónupipar, hvítlauk og salti

 

Grill samloka með snitseli og tarragon- kapersmæjó:

  • Anamma snitsel

  • Gott brauð (mæli með að kaupa heilt brauð og skera í frekar þykkar sneiðar)

  • Grænmeti eftir smekk (ég notaði romain kál, tómata og rauðlauk)

  • 1,5 dl vegan mæjónes (uppskrift okkar af vegan mæjónesi má finna HÉR)

  • 3 tsk kapers

  • 1 tsk tarragon

  • 1/2 tsk rifinn sítrónubörkur

  • Örlítil ólífuolía

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Steikið snitselið á pönnu upp úr olíu eða vegan smjöri þar til það er gyllt báðum megin

  2. Ristið brauðið á pönnu upp úr örlitlu vegan smjöri 

  3. Saxið niður kapers og bætið út í mæjónesið ásamt tarragon, rifnum sítrónuberki, ólífuolíu, salti og pipar

  4. Smyrjið báðar brauðsneiðarnar með mæjónessósunni og setjið snitselið á ásamt því grænmeti sem ykkur þykir best 

  5. Berið fram með gómsætu kartöflunum hér að ofan eða ofnbökuðum frönskum

Vonum að þið njótið!+
- Veganistur

 

anamma.png

- Þessi færlsa er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Vegan lasagna með Anamma sojahakki

IMG_0541.jpg

Stuttu eftir að við opnuðum bloggið okkar birtum við uppskrift af gómsætu grænmetislasagna. Sú uppskrift hefur lengi verið í uppáhaldi og er elduð ansi oft á okkar heimili. Eins og mér finnst uppskriftin æðisleg, hef ég svolítið verið að prufa mig áfram með nýja uppskrift sem minnir e.t.v. meira á þetta klassíska lasagna sem margir þekkja. Þessi uppskrift er svolítið öðruvísi en hin og inniheldur meðal annars sojahakk í stað linsubauna. Þetta lasagna er svo ótrúlega gott að ég eldaði það tvo daga í röð í síðustu viku. 

IMG_0462.jpg

Það hefur komið mér svolítið á óvart hvað mér þykir lasagna gott, því mér þótti það aldrei neitt sérstakt þegar ég var yngri. Ég taldi mér trú um að rétturinn væri bara ekkert fyrir mig, þar til fyrir nokkrum árum þegar ég ákvað að gefa honum annan séns. Ég er gríðarlega fegin að hafa gert það, því í dag er það eitt af því besta sem ég fæ. 

IMG_0468.jpg

Ég hef mikið notað vörurnar frá Anamma síðustu ár og þær valda aldrei vonbrigðum. Anamma er sænskt fyrirtæki sem útbýr einungis vegan matvörur og leggur mikinn metnað og vinnu í vörurnar sínar. Nýlega breyttu þau uppskriftunum á öllum vörunum sínum, og bættu helling við úrvalið hjá sér, og nú bragðast maturinn þeirra enn betur en áður. Í lasagnað fannst mér fullkomið að nota hakkið frá þeim, en ég á alltaf til poka af því í frystinum. Vörurnar frá Anamma fást meðal annars í Bónus, Melabúðinni og Fjarðarkaupum. 

Eitt af því besta við að gera lasagna er að hægt er að nota í það allt það grænmeti sem til er í ísskápnum. Í uppskriftina í færslunni nota ég t.d gulrætur, kúrbít og spínat, en það er síður en svo heilagt. Ég nota yfirleitt bara það sem ég á til sem hentar mér mjög vel, því ég elska að breyta til. 

IMG_0522.jpg
IMG_0531.jpg

Lasagna fyrir 4-6

Hakk í tómatsósu:

  • 1 poki hakk frá Anamma (325g)

  • 1 miðlungsstór laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • Grillkrydd eftir smekk

  • Oregano eftir smekk (ég er vön að setja frekar mikið)

  • 1 msk balsamik edik

  • salt og pipar

Grænmeti og lasagnaplötur:

  • 1 lítill kúrbítur eða 1/2 stór skorinn í þunnar lengjur. Ég einfaldlega sneiði hann niður með flysjaranum mínum.

  • Sirka 2 gulrætur (1 bolli) skornar í lengjur. Ég nota sömu aðferð og við kúrbítinn.

  • 2 lúkur spínat. Það má alveg vera meira frekar en lítið af spínati því það hverfur nánast við eldun.

  • 1 pakki lasagnaplötur. Það er misjafnt hvað fólk vill hafa mikið af plötum, en ég hafði fjögur lög og notaði þrjár í hvert lag svo það fóru tólf plötur alls í lasagnað hjá mér.

Rjómaostasósa:

  • 1 askja vegan rjómaostur (yfirleitt 150-250g)

  • 2 msk ljóst tahini

  • 1/2 grænmetisteningur

  • 1/2 bolli vatn

  • 1/2 bolli ósæt sojamjólk

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að pressa hvítlauk og saxa laukinn og steikið á pönnu með örlítilli olíu á miðlungshita.

  2. Bætið hakkinu út í þegar laukurinn er orðinn mjúkur og steikið þar til það hefur þiðnað. Athugið að vegan hakk má steikja beint úr frystinum svo það þarf alls ekki að þíða það fyrir.

  3. Kryddið hakkið með grillkryddi að eigin vali og bætið svo tómötunum útá ásamt oregano og balsamik edik og leyfið því að malla í nokkrar mínútur og smakkið til. Mögulega þarf að bæta við meira af kryddunum, salti og pipar.

  4. Leggið blönduna til hliðar og steikið grænmetið örstutt á annarri pönnu með smá olíu. Það þarf ekki að vera neitt rosalega vel steikt en samt alveg búið að mýkjast svolítið. Leggið til hliðar.

  5. Setjið hráefnin í rjómaostasósuna í pott og hrærið vel saman þar til hún er orðin heit og laus við kekki. Smakkið til og bætið við salti og pipar ef þarf.

  6. Það er engin regla til um það hvernig setja á lasagna saman og ég held ég geri það aldrei nákvæmlega eins. Ég byrja hinsvegar alltaf á því að setja tómatsósu neðst og passa að hún þekji botninn vel.
    Næst raða ég lasagnaplötum og það passar fullkomlega að setja þrjár í hvert lag í mínu eldfasta móti.
    Næst smyr ég yfir góðu lagi af rjómaostasósunni og þar á eftir raða ég grænmetinu yfir, og endurtek svo leikinn.
    Ég nota ekki vegan ost á lasagnað, heldur passa ég að eiga svolítið eftir af rjómaostasósunni sem ég helli yfir áður en lasagnað fer í ofninn.

  7. Bakið við 190°c í 35-40 mínútur.

Við mælum með því að bera lasagnað fram með góðu salat og hvítlauksbrauði. 

Njótið
Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 

Vegan grýta

IMG_2083.jpg
IMG_2122.jpg

Grýta er einn mesti nostalgíumatur sem ég veit um en það var mjög oft í matinn heima hjá mér þegar ég var barn. Rétturinn er virkilega einfaldur en á sama tíma ótrúlega góður sem gerir hann að fullkominni máltíð fyrir köld vetrarkvöld eftir langan dag þegar metnaðurinn er kannski ekki sá allra mesti. Stundum þarf maður virkilega á því að halda að geta bara hent saman hráefnum á pönnu og ekki hugsað neitt sérstaklega um það. 

Ég viðurkenni að grýta var ekki réttur sem að ég hélt að ég myndi borða eftir að ég varð vegan. Ég var þó ekki búin að vera vegan ýkja lengi, þó það hafi alveg verið komið rúmlega eitt ár, þegar ég komst að því að lang flest grýtuduft er vegan. Þá var reyndar ekki mikið um gott vegan hakk á markaðnum og ég hugsaði því ekki oft um að nýta mér slíkt duft. Nú er vegan hakk hins vegar auðfundið í lang flestum búðum og er það líka bara ótrúlega gott. Vegan hakk er eitt af mínu uppáhalds kjötlíki þar sem hakk er notað mikið í góða bragðmikla rétti sem oftast er auðvelt að gera vegan einfaldlega með því að skipta því út fyrir vegan hakk.

IMG_2308.jpg

Hægt er að gera nokkrar útgáfur af þessum rétt. Hann er hægt að gera á mjög einfaldan máta þar sem í raun þarf bara hakk og grýtuduftið, en einnig er hægt að leika sér með hann og bæta alls kynns góðum hráefnum út í. 

Hráefni:

  • Mexíkósk grýta frá Toro

  • 1 poki vegan hakk frá Halsans kök

Það sem mér finnst gott að setja út í:

  • 1 dós nýrnabaunir

  • 1 dl graskersfræ

  • frosnar harricot baunir

Aðferð:

  1. Steikið hakkið á pönnu upp úr smá vatni eða olíu.

  2. Bætið grýtuduftinu út í ásamt vatni eins og nauðsynlegt er samkvæmt pakkanum.

  3. Bætið nýrnabaunum, graskersfræjum og strangjabaunum saman við ef nota á slík hráefni.

  4. Leyfið réttinum að sjóða eins og pakkningarnar segja til um.

Rétturinn stendur vel einn og sér en uppáhalds meðlætið mitt með honum er kartöflumús og sýrður rjómi frá Oatly.

-Júlía Sif

Hrísgrjónanúðlur með hnetusmjörssósu og tofu

IMG_1389.jpg

Þá er veturinn kominn langt á veg og flestir komnir á fullt, rútínan loksins að verða komin á ról aftur og allir á fullu í sínu, allan daginn. Meðlimir fjölskyldunnar fara út á morgnanna hver í sína átt og hittast oft ekki aftur fyr en um kvöldmatarleytið. "En hvað á að hafa í matinn?" Þetta er ein leiðinlegasta umræða sem flestar fjölskyldur þurfa að eiga á hverjum degi. Hvort sem fjölskyldna samanstendur af einni manneskju eða átta þarf alltaf að hafa eitthvað í matinn og bara að ákveða það getur verið mikill hausverkur, hvað þá að þurfa að ákveða það á hverjum einasta degi.

IMG_1252.jpg

Eg sagði þessari spurningu stríð á hendur fyrir nokkrum árum og fór að gera matseðla um helgar fyrir viku í senn sem eg verslaði svo inn fyrir í einni ferð. Þvílíkur léttir að þurfa ekkert að hugsa um það, dag eftir dag, hvað ég eigi að hafa í matinn. Fara bara út í daginn vitandi nákvæmlega hvað á að vera í kvöldmat og að allt sé til í ísskápnum í akkúrat þann rétt. Hins vegar er auðvitað ekki alltaf auðvelt að setja niður á blað 6 máltíðir í einu, það er oft snúið, stundum alveg ótrúlega létt en stundum eins og það séu bara ekki til fleiri réttir í heiminum en tveir eða þrír. Ég er hins vegar komin með ágætis æfingu og enn ágætara gagnasafn af vikumatseðlum og fannst því komin tími til að leyfa ykkur að njóta góðs af. Við systur höfum því ákvaða að gera vikumatseðil að vikulegum færslum hérna á blogginu og vonum að ykkur líki vel.

IMG_1384.jpg
IMG_1386.jpg

Þó eru auðvitað ekki næstum allar uppskriftirnar af réttunum hérna inná blogginu en munum við auðvitað bæta í smátt og smátt og reyna að koma öllum okkar uppáhalds réttum hingað inn. Í þessari viku eru hnetusmjörs-tofu-núðlur á matseðlinum og fannst mér því tilvalið að setja þá uppskrift inn samhliða honum en þessar núðlur eru í algjöru uppaháldi hjá okkur þessa stundina. Þær eru alveg ótrúlega bragðgóðar og matarmiklar, og ekki skemmir fyrir hversu hollar og næringarríkar þær eru í leiðinni.

IMG_1439.jpg
IMG_1461.jpg

Hráefni:

  • 1/2 pakki hrísgrjónanúðlur

  • 1/2 kubbur tofu

  • 1/2 haus brokkoli

  • 1/2 græn paprika

  • u.þ.b. 10 cm af blaðlauk

  • u.þ.b. 1 bolli harricot baunir (ég kaupi frosnar)

  • u.þ.b. 1 bolli hvítkál skorið í þunnar ræmur

  • 4 gulrætur

  • Hnetsmjörssósa:

    • 2 bollar vatn

    • 2-3 msk grænmetiskraftur

    • 4 kúfullar msk hnetusmjör

    • 1 msk tamarisósa

    • 3 hvítlauksgeirar

    • 2 ferskar döðlur (muna að taka steininn úr)

    • 2 tsk rautt karrý mauk (red curry paste)

    • smá sítrónusafi kreystur úr ferskri sítrónu (má alveg sleppa)

    • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Mér finnst best að byrja á því að setja vatn í frekar stóran pott og kveikja undir, þá er það farið að sjóða og hægt að setja núðlurnar útí, þegar ég hef undirbúið allt hitt.

  2. Ég sker tofuið niður en mér finnst best að henda því bara inn í ofn eins og það er, ekki með neinu kryddi eða neitt og leyfa því að vera þar á meðan að ég steiji grænmetið og útbý hnetusósuna.

  3. Skerið grænmetið niður eftir smekk og steikið létt upp úr örlitlu vatni

  4. Setjið öll hréfnin fyrir sósuna í blandara ðea matvinnsluvél og blandið vel þar til allt er komið vel saman.

  5. Sjóðið núðlurnar í vatninu eftir leiðbeiningum á pakkningunni.

  6. Takið tófuið út og bætið út á pönnuna með grænmetinu, hellið síðan hnetusósunni yfir það og leyfið suðunni á henni að koma upp. Mér finnst best að leyfa sósunni að malla í 5-7 mínútur áður en ég blanda núðlunum saman við.

  7. Berið réttinn fram einan og sér eða með spírum og muldum salthnetum

Njótið vel

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Milt grænmetiskarrý

download (3).jpeg

Þessi karrýréttur er ótrúlega góður. Ég geri hann yfirleitt bara úr því grænmeti sem ég á hverju sinni en mér finnst lykilatriði að í réttinum séu, allavega kartöflur eða grasker og einhvers konar baunir, hvort sem það eru nýrnarbaunir eða linsur. Svo lengi sem sósan er eins og flýtur vel yfir grænmetið er hægt að nýta nánast hvaða grænmeti sem er út í, rétturinn verður alltaf ótrúlega góður. 

download.jpeg

Hráefni:

  • Það grænmeti sem ég átti þessu sinni:

    • 1 laukur

    • 4 hvítlauksrif

    • rúmlega 1 paprika

    • 1/2 lítil rófa

    • 1/2 sæt kartafla

    • 3 meðalstórar kartöflur

    • 1/2 lítill hvítkálshaus

    • 2 tómatar

    • 1 dl frosnar grænar baunir

    • 1 bolli frosnar sykurbaunir

    • hálfur poki spínat

  • 3-4 msk milt karrý

  • 1 msk paprikuduft

  • 1 msk þurrt tímían

  • 1/4 tsk kanill

  • salt og pipar

  • 2 bollar linsur

  • 1/2 lítri vatn

  • 4 msk rapunzel grænmetiskraftur

  • 2 dósir angelmark kókosmjólk

  • 1 dós niðursoðnir tómatar

Aðferð:

  1. Steikið lauk og hvítlauk. Þegar ég geri kássur og súpur finnst mér best að steikja bara upp úr vatni í smá tíma. Þá bæti ég bara meira og meira vatni út í ef laukurinn fer að festast við pottinn.

  2. Bætið kryddunum út í ásamt smá vatni í viðbót og hrærið við.

  3. Setjið linsurnar og 1/2 líter af vatni út í og leyfið suðunni að koma upp. Mér finnst gott að skera restina af grænmetinu niður á meðan að linsurnar sjóða. Leyfið linsunum að sjóða í allavega 10 mínútur og setjið svo restina af grænmetinu út í, að undanskildu spínatinu.

  4. Bætið út í kóksmjólkinni, tómötunum og grænmetiskraftinum og leyfið suðunni að koma upp.

  5. Sjóðið kássuna í allavega 30 mínútur. Gott að smakka til eftir 10-15 mínútur og krydda meira ef þarf.

  6. Bætið spínatinu út í og hrærið því saman við rétt áður en kássan er borin fram.

Ég ber réttinn oftast fram með hrísgrjónum, salati og góðu brauði.

- Júlía Sif

Fylltar sætar kartöflur með Oumph!

Oumph! er eitt af uppáhalds spari matnum mínum. Þegar við Ívar ætlum aðeins að leyfa okkur, t.d. um helgar eða þegar okkur langar bara í eitthvað extra djúsí eldum við oft eitthvað með Oumphi. Fyrir þá sem vita ekki hvað Oumph! er, þá er það soyjakjöt sem líkist svolítið kjúklingi og er virkilega gott og þægilegt. Það besta við það er að það er alveg ótrúlega hollt! Innihaldslýsingin samanstendur af soyja, vatni og olíu, sem er fáránlegt miðað við áferðina á bitunum og því getur maður borðað það áhyggjulaust. En einnig hentar það virkilega mörgum þar sem það er, ásamt því að vera vegan, líka glúteinlaust.

Ég hef rosalega mikið notað Oumph! þegar ég er að fá fólk í mat sem er ekki vegan og þá hef ég gert alls konar hefðbunda rétti sem að ég veit að gestirnir eru vanir að borða og skipt kjötinu út fyrir Oumph!. Þetta hefur lang oftast slegið rosalega í gegn og flestum finnst Oumphið alveg ótrúlega gott! Ég mæli því klárlega með því að leyfa sem flestum í kringum ykkur að smakka þar sem það hefur oftar en einu sinni verið svoleiðis hjá mér að einhver hefur haldið að þetta væri kjúklingur.

Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur er alveg ótrúlega einföld og mjög þægilegt að henda í ef manni langar í eitthvað rosalega gott en er kannski ekkei mjög mikið fyrir að hanga í eldhúsinu í marga tíma. Ég hef oft séð svona fylltar sætar kartöflur og þá lang oftast með kjúkling og því datt mér í hug einn daginn að skella í eitthvað svipað með Oumphi. Ég ákvað að hafa mexíkóska kryddblöndu með og því er þetta með mexíkósku ívafi og það má alveg nota fyllingu í vefjur eða með salati líka.

Hráfeni:

  • 1 pakki Oumph! the strip

  • 1 meðalstór sæt kartafla

  • 1/4 græn paprika

  • 1/4 rauð paprika

  • 1/2 laukur

  • 5-6 frekar litlir sveppir

  • Mexíkósk kryddblanda (hægt að nota þessa hér að neðan en kaupa taco krydd út í búð og blanda með 1 dl af vatni)

    • 1 msk tómatpúrra

    • 1-2 hvítlauksrif

    • 1 tsk cumin

    • 1 tsk paprika

    • 1 tsk þurrkað oregano

    • 1/2 tsk kóríander

    • 1/2 tsk laukduft

    • 1/2 cayenne pipar

    • 1 tsk grænmetiskraftur eða 1/2 teningur

    • 1 msk limesafi

    • 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Skerið sætu kartöfluna þvert yfir í tvennt og bakið í 40 mínútur við 200°C með sárið niður. Gott er að stinga nokkur göt með hníf í kartöfluhýðið áður en hún fer í ofnin.

  2. Steikið Oumphið upp úr smá olíu þar til það er þiðið og bætið þá niðurskornu grænmetinu við. Steikið þetta saman í allt að 15 mínútum eða þar til grænmetið er orðið vel mjúkt.

  3. Blandið kryddblönduna í litla skál og hellið út í. Hrærið vel svo allt grænmetið og Oumphið sé vel balndað með kryddunum og steikið á meðal hita í aðrar 15 mínútur. Gott að hafa lok yfir ef svoleiðis er á pönnunni.

  4. Skafið innan úr miðjunni á sætu kartöflunum þegar þær eru tilbúnar og gerið sá holu í þær. Passið samt að það sé smá brún eftir en ekki bara hýðið. Mér finnst gott að hræra því sem skafað er úr með smá salti og bera fram með matnum. 

  5. Setjið fyllinguna í kartöflunar og berið fram með kasjú-avokadó sósunni sem er hérna fyrir neðan, salati og sætkartöflustöppunni.

IMG_8970.jpg

Kasjú-avokadósósa

  • 1 þroskað avokadó

  • 1 dl kasjúhnetur

  • 1 hvílauksrif

  • 1/2 tsk gróft sinnep

  • safi úr hálfu lima (1-2 msk)

  • 1 dl haframjólk

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í blandara eða matvinnsluvél og vinnið vel saman þar til alveg slétt. Fínt að bæta við smá mjólk ef erfitt er að ná sósunni alveg sléttri.

Njótið vel
-Júlía Sif

Uppáhalds linsubaunasúpan

Linsubaunir eru æðislegt hráefni sem hægt er að nýta í allskonar gómsæta rétti. Þær eru stútfullar af næringu og það tekur enga stund að elda þær. Þegar ég gerðist vegan var linsubaunasúpa eitt af því fyrsta sem ég lærði að elda. Súpan var þó langt frá því að vera jafn góð hjá mér og hún er í dag, enda eru rúmleg fimm ár síðan og ég hef prufað allskonar útgáfur sem hafa heppnast misvel. Ég get sagt að nú sé ég komin með súpu sem ég er virkilega ánægð með og myndi stolt bjóða uppá til dæmis í matarboðum. 

Það er mjög mismunandi hvaða grænmeti ég hef í súpunni. Ég myndi segja að linsubaunasúpa sé einmitt tilvalinn matur til að útbúa þegar maður á fullt af grænmeti í ísskápnum sem er hálfklárað og jafnvel orðið lúið. Það er rosalega gott að setja í súpuna t.d sellerí, papriku, gulrætur, sætar kartöflur eða rifið hvítkál. Ég ákvað þó að hafa þetta súper einfalt í dag og notaði tvær tegundir af lauk og spínat. 

Einn stærsti kosturinn við súpugerð er hversu lítið þarf að hafa fyrir eldamennskunni. Það er að sjálfsögðu mismunandi eftir uppskriftum en þær súpur sem ég geri eru yfirleitt virkilega þægilegar og einfaldar. Mér þykir bara eitthvað svo heillandi að geta skellt hráefni í pott og leyft því að malla án þess að þurfa mikið að skipta mér af. 

Hráefni:

  • 1 bolli saxaður laukur

  • 1 bolli niðurskorinn blaðlaukur

  • 2-3 pressaðir hvítlauksgeirar - ég notaði 2 stóra

  • Olía til steikingar

  • 2 tsk túrmerik

  • 1 tsk cumin

  • 1 tsk garam masala

  • 1 bolli ósoðnar rauðar linsubaunir

  • 1 dós kókosmjólk

  • 1 dós niðursoðnir tómatar

  • 4 bollar vatn

  • 1 grænmetisteningur

  • Safi úr 1/2 lime

  • 150 g spínat

  • salt og pipar eftir smekk

 

Aðferð:

  1. Byrjið á því að steikja laukinn, blaðlaukinn og hvítlaukinn uppúr olíu í nokkrar mínútur eða þar til hann hefur mýkst aðeins. 

  2. Bætið túrmerik, cumin og garam masala útí, hrærið saman við laukinn í sirka mínútu

  3. Setjið restina af hráefnunum (fyrir utan spínatið og lime safann) og leyfið súpunni að malla í sirka 20 mínútur á miðlungs hita

  4. Slökkvið á hellunni og bætið spínati, lime safa, salti og pipar útí pottinn. Hrærið aðeins og leyfið spínatinu að mýkjast. 

  5. Berið súpuna fram eina og sér eða með því sem ykkur lystir. Mér finnst súpan passa mjög vel með góðu súrdeigsbrauði. 

Vona að þið njótið
Helga María

Einfaldur og góður grjónagrautur

Ég hef verið vegan í 5 ár og fæ reglulega spurningar frá fólki varðandi allskonar sem tengist lífsstílnum. Eitt af því sem fólk virðist hafa miklar áhyggjur af þegar það gerist vegan, er að það verði að kveðja grjónagrautinn. Ég held ég hafi verið spurð oftar að því hvaða jurtamjólk sé best til að gera grjónagraut heldur en hvað best sé að nota í stað osts. 

Mér hefur alltaf þótt grjónagrautur góður. Sem barn borðaði ég hann alltaf með rúsínum og kanilsykri. Ég áttaði mig svo á því seinna meir hversu mikið hægt er að leika sér með grautinn. Hann er góður með
eplum og kanil
hlynsírópi
bláberjum og möndlum
sultu
karamellusósu...

..Listinn er endalaus.

Í kvöld bar ég grautinn annarsvegar fram með kanilsykri og hinsvegar með hindberjasultu sem ég hitaði örlítið í potti. Bæði þykir mér alveg virkilega gott!

Hráefni:

  • 3 dl grautar hrísgrjón

  • 3 og 1/2 dl vatn 

  • 1 líter jurtamjólk. Ég mæli mest með því að nota sæta soyamjólk, Provamel og Alpro eru æðislegar. 
    Annars er mjög gott að nota haframjólk, kókosmjólk eða möndlumjólk.
    Mér finnst hrísmjólk virka síst. Hún er æðisleg útá grautinn en hún er svo þunn að mér finnst hún ekki alveg passa í grautargerðina. 

  • 1 og 1/2 tsk salt

  • 1/4 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Setjið grjónin í pott ásamt vatninu og sjóðið þar til allt vatnið er horfið (sirka 10-15 mín). Hrærið reglulega á meðan

  2. Hellið mjólkinni, saltinu og vanilludropunum útí og látið malla í sirka 25-35 mínútur og hrærið mjög reglulega, grauturinn getur nefnilega auðveldlega brunnið við í botninum

  3. Berið fram með því sem ykkur langar. Í kvöld setti ég örlítið af sultu í lítinn pott og hitaði í smá stund. Sultunni helti ég svo yfir grautinn og það var æðislega gott

 

Njótið :)

Helga María