Vegan brún sósa

Brún sósa er eitthvað sem er algjörlega nauðsynlegt að kunna að gera að okkar mati. Þessi uppskrift er ótrúlega einföld, fljótleg og klikkar aldrei. Innihaldsefnin eru fá og tekur innan við 10 mínútur að útbúa sósuna alveg frá grunni. Sósan hentar fullkomlega með vegan kjötbollum, grænmetisbollum og hrísgrjónaréttum til dæmis eða nánast hverju sem er.

Þessi uppskrift er ein af svona grunn uppskriftunum sem ég gríp til nánast í hverri viku. Það er svo ótrúlega auðvelt að gera einfaldan, fljótlegan kvöldmat, eins og vegan kjötbollur til dæmis, að máltíð með þessari góðu sósu. Þetta er líka uppskrift sem ég á alltaf allt til í og er erfitt að trúa því hversu góð hún er miðað við hversu einfalt og fljótlegt það er að matreiða hana.

Vegan brún sósa

Vegan brún sósa
Höfundur: Júlía Sif
( 0 reviews )

Hráefni:

  • 1/2 lítri vatn
  • 2 grænmetisteningar
  • 1/4 dl næringarger
  • 1/4 dl hveiti
  • 1 msk soyjasósa
  • 1 tsk laukduft
  • 2-3 dropar sósulitur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hrista saman vatnið og hveiti í hristibrúsa eða krukku.
  2. Hellið hveitiblöndunni í pott og bætið öllu nema sósulitnum út í.
  3. Hitið að suðu og hrærið vel í á meðan. Sjóðið í 4-5 mínútur.
  4. Bætið sósulitnum út í, einum dropa í einu þar til sá litur sem þið kjósið kemur fram.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Einfalt vegan kartöflugratín

Kartöflugratín. Eitt af mínu uppáhalds meðlæti. Kartöflur, vegan rjómi, vegan ostur, góð krydd. Dásamlega gott!

Ég elska gott meðlæti. Mér þykir stundum meðlætið mikilvægara en aðalrétturinn. Ég myndi t.d. frekar panta mér franskar og vegan kokteilsósu án hamborgara en einungis hamborgara með engum frönskum. Eins myndi ég auðveldlega getað borðað eintómt kartöflugratín. Kartöflugratín, grænar baunir og sveppasósa, dýrindis kvöldmatur. Nei nú er ég kannski farin að ganga aðeins of langt, en þið skiljið hvert ég er að fara. Meðlæti er gríðarlega mikilvægt.

Kartöflugratín er eitt af þessu meðlæti sem passar með öllu. Það getur bæði verið hversdagslegt og hátíðlegt og ég borða það bæði með þriðjudagskvöldmatnum og á aðfangadagskvöld.

Ég gerði þetta gratín sem meðlæti með þessu vegan hakkabuffi um daginn og það var fullkomið saman!

Kartöflugratín

Hráefni:

  • 25 gr. smjörlíki að smyrja í eldfasta mótið

  • 750 gr kartöflur

  • 300 ml vegan matreiðslurjómi

  • 200 ml vegan mjólk (mæli með haframjólk eða ósætri sojamjólk)

  • 2-3 hvítlauksgeirar

  • 1 tsk þurrkað timían

  • Örlítið af hvítum pipar

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Rifinn ostur eftir smekk til að dreyfa yfir. Ég notaði u.þ.b. 70 gr.

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°c

  2. Smyrjið eldfast mót með smjörlíki

  3. Skerið kartöflurnar niður í mjög þunnar sneiðar. Ég notaði mandólin. Ég leyfði hýðinu að vera á.

  4. Raðið kartöflunum í formið og hellið út á rjómanum, mjólkinni, kryddið og stráið yfir ostinum

  5. Setjið álpappír yfir og leyfið kartöflunum að bakast í 60 mínútur. Mér finnst best að baka þær hægt. Stingið í og sjáið hvort kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Ef ekki, leyfið þeim að bakast aðeins lengur.

  6. Takið þær út, hækkið hitann í 200°c og setjið þær örlítið hærra í ofninn í 10 mínútur svo ofninn fái fínan lit.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið

-Helga María

Haustlegt kartöflusalat með Ceasar dressingu

IMG_9761.jpg

Ég held að það sé óhætt að segja að það sé komið haust og þar af leiðandi er fullt af fersku og góðu grænmeti í búðum akkúrat núna. Ég elska að gera góða rétti úr rótargrænmeti á haustinn og finnst það alltaf fylgjast haustinu á mínu heimili. Kartöflur eru eitt af þeim hráefnum sem er sérstaklega gott á haustinn að mínu mati og ef það er einhver matur sem ég held að ég gæti lifað alfarið á, þá eru það kartöflur. Ég bókstaflega elska kartöflur, hvort sem þær eru soðnar, ofnbakaðar, maukaðar í kartfölumús eða bara hvernig sem er.

IMG_9756.jpg

Einn af mínum uppáhalds réttum með kartöflum er kartöflusalat. Ég elska að hafa eitthvað í matinn sem passar með kartöflusalat til að geta haft það sem meðlætii. Þetta salat er engu líkt og það er svo gott að það er nánast hægt að borða það eitt og sér. Það má einnig bæta út í það t.d. linsubaunum og meira af salati og þá er það orðið máltíð út af fyrir sig. Ég hins vegar elska að hafa sem mest af kartöflum og sem minnst af einhverju öðru og ef ég á að segja alveg eins og er stelst ég oft í að setja afgang af salatinu ofan á brauð og borða það þannig.

IMG_9777.jpg

Salatið er einstaklega einfalt í undirbúningi, þar sem ég notast við Ceasar dressinguna frá Sacla Italia og þarf þar með ekki að krydda neitt aukalega nema mögulega setja smá salt. Það er þó best að smakka salatið til fyrst þar sem “reyktu bitarnir” eru einnig saltir.

IMG_9757.jpg

Hráefni

  • 500 gr kartöflur

  • Klettasalat, sirka 2 bollar

  • 2-3 litlir vorlaukar

  • 1 dl smokey bites frá Oumph

  • 1/2 dl ristaðar furuhnetur

  • salt ef þarf

  • 1/2 flaska vegan Ceasar sósa frá Sacla Italia

Aðferð:

  1. Skerið kartöflurnar í bita, stærðin má vera eftir smekk, og sjóðið í um 10 mínútur eða þar til þær eru mjúkar í gegn. Ég hef hýðið á kartöflunum en það má að sjálfsgöðu taka það af.

  2. Saxið niður vorlaukinn og klettasalatið.

  3. Steikið reyktu bitana í nokkrar mínútur á pönnu, takið til hliðar og ristið síðan furuhneturnar á sömu pönnu þar til þær verða fallega gylltar.

  4. Leyfið öllum hráefnum að kólna aðeins.

  5. Blandið öllu saman í skál og hellið dressingunni yfir. Hrærið vel saman og smakkið til hvort að þurfi að salta aukalega.

-Njótið vel og takk fyrir að lesa.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -

 
logo Sacla.jpg
 

Aspassúpa og hátíðar meðlætið │ Veganistur TV │ 7. þáttur

Aspassúpa

  • 75 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 1 dl hveiti

  • 2 dósir niðursoðinn aspas (soðið og aspasinn)

  • 2 lítrar Oatly Barista mjólkin

  • 4 msk grænmetiskraftur (2 grænmetisteningar)

  • 2 tsk salt

  • 1/2 lítri Oatly iMat matreiðslurjómi

Aðferð:

  1. Bryjið á því að bræða smjörlíki í stórum potti. Þegar smjörlíkið er bráðið setjið hitan á hellunni niður á miðlungs eða lágan hita.

  2. Stráið hveitinu út í smjörið og hrærið það saman í hveitibolli, Bollan á að vera frekar þurr.

  3. Hellið soðinu af tveimur aspadósum í könnu og bætið út í pottinn í nokkrum skömmtum og hrærið vel saman við hveitibollunna. Ekki setja of mikið vökva út í pottinn í einu því þá er líklegra að kekkir myndist í súpunni.

  4. Þegar allt soðið er komið saman við bætið hálfum lítra af mjólkinni saman við og hrærið vel og síðan restinni af mjólkinni.

  5. Bætið grænmetiskrafti og saltinu saman við og leyfið því að hitna þar til suðan kemur upp.

  6. Þegar suðan er komin upp bætið matreiðslurjómanum og aspasinum saman við og hitið í nokkrar mínútur í viðbót.

  7. Berið fram með hvítu hveitibrauði.

Pipar sveppasósa

  • 25 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 200 gr sveppir

  • 2 tímían stilkar (ferkst)

  • salt og pipar

  • 1 bréf piparsósa

  • 250 ml vatn

  • 2 msk grænmetiskraftur (1 grænmetisteningur)

  • 250 ml Oatly iMat matreiðslurjómi

  • 1 tsk rifsberjahlaup eða rifsberjasulta

Aðferð:

  1. Skerið sveppina í þunnar sneiðar, kremjið hvítlaukinn og setjið út á heita pönnu mðe vegan smjörinu og tímían stilkunum.

  2. Steikið í nokkrar mínútur þar til að vökvi fer að myndast úr sveppunum.

  3. bætið vatninu, piparsósunni og grænmetiskraftinum út á pönnuna og hrærið saman þar til duftið er alveg komið saman við vatnið.

  4. Bætið rjómanum og rifsberjasultunni saman við og leyfið suðunni að koma upp. Sjóðið í sirka 5 mínútur.

Brúnaðar kartöflur (10 meðalstórar kartöflur)

  • 10-12 soðnar litlar kartöflur

  • 50 gr vegan smjör

  • 100 gr sykur

  • 1/2 dl Oatly-hafrarjómi

Aðferð:

  1. Bræðið sykurinn á meðalhita á pönnu og passið að fylgjast vel með.

  2. Setjið smjörið útí um leið og sykurinn er bráðinn svo hann brenni ekki.

  3. Þegar smjörið er bráðið er slökkt undir, rjómanum hellt útí og hrært standslaust í hálfa mínútu áður en kartöflunum er helt út í.

Eplasalat

  • 2 meðalstór græn epli

  • 1 bolli græn vínber

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1/2 dl þeyttur vegan rjómi

Aðferð:

  1. Takið hýðið af eplunum og skerið niður í litla kúbba

  2. Skerið vínberin í tvennt

  3. hrærið sýrða rjómanum og þeytta rjómanum saman við ávextina í stórri skál.

-Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og Oatly á Íslandi

 
 
KRONAN-merki.png
Oatly_logo_svart.png
 

Rósakál með ristuðum möndlum og appelsínuberki

IMG_2168.jpg

Ég uppgvötaði rósakál fyrir nokkrum árum. Mér hefði eiginega aldrei dottið í hug að mér myndi þykja það gott, því ég hafði oft heyrt frá öðrum að það væri hrikalega vont. Því er ég algjörlega ósammála, og í dag borða ég rósakál í hverri viku. Yftirleitt kaupi ég það frosið og borða sem meðlæti með mat, en um jólin kaupi ég það ferskt og útbý það á aðeins hátíðlegri máta.

IMG_2163-2.jpg

Ég hef smakkað margar skemmtilegar og gómsætar uppskriftir sem innihalda rósakál, eins og gratín og fleira gúrmé. Yfir hátíðirnar er ég þó vanalega með kartöflugratín, sósu og fleira sem inniheldur rjóma eða mæjónes, svo ég vil hafa rósakálið aðeins meira ferskt.

IMG_2166.jpg

Þar sem jólamaturinn getur tekið langan tíma er svo gott að gera meðlæti sem þarfnast ekki mikillar fyrirhafnar. Þetta rósakál er einmitt dæmi um svoleiðis meðlæti en smakkast á sama tíma ótrúlega vel og passar fullkomlega yfir hátíðirnar.

IMG_2174-2.jpg

Rósakál með appelsínuberki og möndlum

  • 400 g ferskt rósakál

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 1-2 tsk hlynsíróp

  • 1 dl möndlur

  • 2 msk appelsínusafi

  • börkur af einni appelsínu

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið rósakálið í tvennt og takið botninn af ef hann er mjög stór og harður

  2. Saxið niður möndlurnar og þurrristið á pönnu. Takið frá þegar þær eru orðnar ristaðar

  3. Hitið olíu á pönnu og bætið rósakálinu út á

  4. Steikið það í smá stund þar til það er orðið svolítið gyllt á litinn

  5. Bætið út á pönnuna appelsínusafanum og sírópinu og steikið þar til rósakálið er orðið svolítið dökkt

  6. Bætið þá út á möndlunum, berkinum, salti og pipar og steikið örlítið í viðbót.

  7. Berið fram heitt eða kalt

Njótið

Veganistur