Suma daga líður mér eins og lífið mitt einkennist af þoku. Þá er ég ekki að tala um svona huggulega þoku sem hengur fyrir utan gluggann minn eins og falleg hvít slæða. Ég er að tala um þokuna sem lætur sér ekki nægja að læðast hægt um götur bæjarins, heldur treður sér inn fyrir útidyrnar og gluggana og smokrar sér inní hausinn á mér.
Hún er þung og blindandi og full af afbrýðissemi. Með allskonar brögðum tekst henni að fá mig til að gleyma því hvað ég er ástfangin af lífinu. Hún vill nefnilega að ég elski engan nema sig, og til þess að ég sjái alls ekki í gegnum hana gengur hún stundum undir öðru nafni og kallar sig ,,þægindarammann.”
Þokan vill að við höfum það þægilegt saman og henni er illa við allt sem er henni ókunnugt eða erfitt. Henni líður best í hausnum á mér þar sem hún er óhult og oftar en ekki grátbiður hún mig að vera bara heima og helst á náttfötunum. Hún segir að það sé notalegt, þægilegt og kósý…
Í fyrstu er þokan eins og góður vinur. Hún huggar mig, heldur í höndina á mér þegar ég er hrædd, og telur mér trú um að hún sé komin til að passa mig. Passa að ég geri ekki eitthvað sem gæti orðið erfitt eða valdið mér vonbrigðum. Hún hvíslar að mér að hún muni sjá til þess að enginn geti sært mig, gagnrýnt mig, hafnað mér eða gert lítið úr mér. Margir myndu halda að um sanna vináttu væri að ræða. Ég fell að minnsta kosti oft fyrir þessu.
Það tekur mig þó yfirleitt ekki langan tíma að átta mig á því að þokan er ekki komin til að hjálpa mér, þó hún haldi það kannski. Ég fer að sjá allskonar mynstur sem benda mér á að sambandið okkar sé eitrað. Hún ein hefur stjórnina og hún er frek og eigingjörn. Samskipti við umheiminn eru ekki henni að skapi og oftar en ekki hlýði ég. Það er einfaldast.
Fyrst þegar ég áttaði mig á þessu fylltist ég reiði. Mér leið eins og ég hefði verið í ofbeldisfullu sambandi í mörg ár og enginn hefði látið mig vita. Mín vanlíðan var öllum í kringum mig að kenna, það varaði mig enginn við. Eftir nokkurn tíma viðurkenndi ég þó loksins að ef ég ætti í ofbeldissambandi við einhvern þá væri það við sjálfa mig. Ég hafði búið þokuna til og hleypt henni inn. Ég hafði í rauninni beðið hana að koma í hvert skipti sem ég var hrædd við að takast á við vandamál, erfið verkefni eða sjálfa mig. Ég hafði beðið hana að vefja sig utan um mig eins og mjúkan bómul og telja mér trú um að ég þyrfti í rauninni ekki að takast á við neitt, að ég mætti vera heima og loka augunum fyrir því sem væri í gangi fyrir utan rammann. Þægindarammann.
Við þessa uppgötvun öðlaðist ég ákveðið vald sem ég vissi ekki að ég hefði. Ég sá að það er ég sjálf sem hef vald yfir tilfinningum mínum og það er enginn nema ég sem getur látið mér líða betur eða verr. Með tímanum hef ég lært ákveðnar leiðir til þess að ýta þokunni frá svo ég sjái skýrar. Þrátt fyrir það á ég auðvelt með að leyfa þokunni að koma sér vel fyrir enn þann dag í dag. Það er nefnilega svo auðvelt að gleyma því hvað skiptir máli og sækjast í öryggið, flýja inn í ramman, breiða yfir haus.
Ég skrifa þessi orð sem áminningu fyrir sjálfa mig svo ég gleymi ekki hvað það er gott að elska lífið og hversu mikilvægt það er að elska sig sjálfa.
Ég ætla því að lista niður hlutina sem hjálpa mér við að draga frá sólu þegar þokan smeygir sér inn fyrir augun á mér og reynir að leiða mig burt frá lífinu.
1. Ég hlusta á tónlist.
Ég veit að það kann að þykja klisjukennt en tónlist er eitt það mikilvægasta í mínu lífi. Hún hefur áhrif á mig sem ég fæ ekki lýst. Mér þykir tónlistin magnað tjáningarform og hún hefur hjálpað mér í gegnum mörg erfið tímabil. Tónlistarval mitt ræðst algjörlega af því í hvernig skapi ég er, þess vegna er Spotify einn af mínum bestu vinum. Þar bý ég til ,,playlista" af lögum sem passa við allskonar tilefni.
Hérna er listi af lögum sem ég hlusta á þegar mig langar að komast út úr þokunni og líða betur. Lögin eru vel valin og hafa líklega ekki sömu áhrif á ykkur öll og þau hafa á mig, enda upplifum við tónlist hvert á eigin hátt. Hinsvegar getur vel verið að listinn sé akkúrat það sem þið eruð að leita að og þess vegna ætla ég að deila honum með ykkur. Listinn heitir ,,In love with life” og inniheldur lög sem hjálpa mér að muna að elska lífið. Þegar ég set listann í gang líður mér eins og ég komist í annan heim og mér finnst tilveran breyta um lit.