Vegan páskaegg

Ég hef ekki keypt mér páskaegg um páskana síðan ég gerðist vegan. Í staðinn hef ég lagt það í vana minn að kaupa mér bara uppáhalds vegan nammið mitt og háma það í mig á meðan að hinir gæða sér á eggjunum sínum. Úrvalið af vegan nammi er orðið svo gríðarlegt í dag að það er ekkert mál fyrir grænkera að njóta hátíðarinnar.

Þetta árið er þó hægt að fá vegan páskaegg í Krónunni en ég ákvað samt að búa mér til mitt eigið egg í fyrsta skipti. Páskaeggið í Krónunni er úr suðusúkkulaði en mig langaði í egg úr vegan mjólkursúkkulaði sem myndi minna meira á það sem ég var vön að borða áður. Ég hafði hugsað um að búa mér til páskaegg í svolítinn tíma en aldrei lagt í það. Ég ákvað að láta reyna á það og ég sé svo sannarlega ekki eftir því.

Það að gera heimagerð páskaegg var þó örlítið meira maus en ég hélt. Það var alls ekki flókið eða erfitt, það var bara aðeins tímafrekara en ég hafði gert ráð fyrir. Ég varð sem betur fer ótrúlega sátt með útkomuna sem gerði þetta allt þess virði.  Ég ætla að deila með ykkur mínum ráðum og því nammi sem ég notaði í eggin.

Ichoc súkkulaðið er uppáhalds súkkulaðið mitt og því fannst mér tilvalið að nota það til að útbúa páskaeggin. Ichoc er vegan mjólkursúkkulaði gert úr hrísgrjónamjólk og það fæst í nokkrum tegundum sem eru allar ómótstæðilega góðar. Súkkulaðið hentaði fullkomlega í páskaeggin sem gerði mig að sjálfsgöðu virkilega glaða, það var mjög auðvelt að vinna með það og það harnaði vel. Páskaegg eru ekki alvöru páskaegg nema þau séu stútfull af gómsætu nammi. Ef maður ætlar á annað borð að belgja sig út af sykri verður maður að gera það almennilega. Ég fór því í leiðangur og valdi mitt uppaáhalds nammi til þess að setja inní eggin. Formin fékk ég í búðinni Allt í köku, en þar fást páskaeggjamót í öllum stærðum og gerðum. Ég notaði mót sem eru 19 centímetrar en mér finnst það mjög mátuleg stærð.

Hráefni í eitt egg:

  • 4 plötur Ichoc súkkulaði (320 gr) (Classic súkkulaðið henntar best en ég gerði líka úr hvíta súkkulaðinu og núggat súkkulaðinu)

  • það nammi sem hugurinn girnist (ég notaði eftirfarandi)

    • bubs hlaup (fæst í Krónunni)

    • biona hlaup (fæst í Nettó)

    • dökkt brak (fæst í Iceland)

    • lakkrís (flestur íslenskur lakkrís er vegan, fyrir utan fylltan lakkrís og lakkrískonfekt. ATH mjólkursýra er vegan og hefur ekkert með kúamjólk að gera)

    • svartur brjóstsykur

    • Hjúpaður lakkrís sem ég hjúpaði sjálf með classic súkkulaðinu

Aðferð:

  1. Það er nauðsynlegt að "tempra" súkkulaðið eins og það er kallað en þá er 2/3 af súkkulaðinu eða í þessu tilfelli u.þ.b. 200 gr brætt yfir vatnsbaði og hrært í á meðan. Þegar súkkulaðið er bráðið er það tekið af hitanum og restinni sem var tekin frá (1/3) bætt út í og hrært þar til allt er bráðnað.

  2. Súkkulaðinu er hellt í páskaeggjaformin og vellt um í góða stund. Mér fannst best að setja vel í fomin, velta því um og leggja fomin svo á hvolf yfir skálina í allt að 10 mínútur. Þetta er svo endurtekið nokkrum sinnum eða þar til frekar þykkt lag af súkkulaði hefur myndast í formin. Passa þarf að brúnirnar séu einnig þykkar svo auðvelt sé að festa eggin saman.

  3. Ef setja á eitthvað í súkkulaðið líkt og lakkrískurl eða krispies er best að setja eitt lag af súkkulaði fyrst í formin áður en kurlinu er bætt út í. 

  4. Formin þurfa síðan að sitja í frysti í allavega 30 mínútur eða þar til súkkulaðið hefur losnað frá plastinu. Þegar fomið er lagt á hvolf á eggið að detta auðvledlega úr.

  5. Til að festa eggin saman er best að vera með súkkulaði sem hefur verið "temprað" og leyft að kólna við stofuhita þar til það verður ágætlega þykkt. Munið að fylla eggin með nammi og málshætti áður en því er lokað.

Gleðilega páska

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg