Vegan Kransakaka

Litla systir okkar mun fermast núna í maí og er fermingarundirbúningurinn því í fullum gangi. Hún líkt og restin af fjölskyldu okkar systra er ekki vegan og verður fermingin því ekki vegan. Ég hef þó verið aðeins að troða vegan mat og þá sérstaklega eftirréttum inn í planið með því að bjóðast til að baka og þess háttar fyrir mömmu. Fermingarbarnið og mamma eru alveg til í að hafa vegan kökur og eftirrétti, þar sem þær vita báðar að munurinn á vegan bakkelsi og því sem er ekki vegan er engin og ólíklegt er að einhver muni kippa sér upp við þetta í veislunni.

Mamma spurði mig fyr á þessu ári hvort að ég gæti farið með systur okkar á kransakökunámskeið til þess að gera kransaköku fyrir ferminguna. Ég fór á slíkt námskeið fyrir mína fermingu sem var auðvitað mjög þægilegt. Það var alls ekki svo dýrt og eftir kvöldið áttum við heila kransaköku í frystinum tilbúna fyrir fermingardaginn. Kakan var og yrði núna auðvitað ekki vegan en mér fannst það ekki alveg nógu heillandi. Ég fór aðeins að kynna mér kransakökur og það hráefni sem notað er í þær og sá strax að það yrði ótrúlega lítið mál að gera vegan útgáfu að þessari ómissandi köku. 

Ég bauð systur minni því í staðin að koma bara í systrahelgi til mín og við myndum gera kökuna saman hérna heima í staðin fyrir að fara á námskeiðið og ó guð hvað það var góð hugmynd. Ég hafði aldrei getað ímyndað mér hversu einfalt var að gera svona köku og í þokkabót hversu ódýrt hráefnið í hana væri. Eftir góðan morgun af bakstri eða sirka fjóra klukkutíma stóðum við uppi með fallega köku fyrir innan við fjögurþúsund krónur.

Kakan kom ótrúlega fallega út og bragðast ennþá betur, en okkur fannst bara ennþá fallegra að það sæjist á henni að hún væri heimagerð. Við skreyttum hana á mjög hefðbundin hátt með smá glassúr og súkkulaðiskrauti. Það eru óteljandi falleg munstur og skrautmyndir á netinu sem hægt er að prenta út og sprauta súkkulaðinu eftir til að fá fallegt skraut en það er einmitt það sem við gerðum. Hægt að finna myndirnar sem við notuðum hérna fyrir neðan.

Best er að "tempra" súkkulaðið, en þá eru 2/3 af því súkkulaði sem nota á, brætt yfir vatnsbaði eg restinni svo hrært saman við þegar skálin hefur verið tekin af hitanum. Síðan er það sett í sprautupoka og leyft að kólna svolítið áður skrautið er búið til. Ef að súkkulaðið er of heitt rennur það út um allt og skrautið verður ekki jafn fallegt. Ég leyfði skrautin að vera í frysti í allavega 30 mínútur áður en ég festi það á kökuna.

Hráefni (fyrir meðalstóra köku (ca. 12-15 hringir)):

  • 1 1/2 kg marsipan

  • 600 gr flórsykur

  • 8-9 msk aquafaba (kjúklingabaunasoð)

Aðferð:

  1. Vinnið marsipanið í hrærivél eitt og sér þar til það hefur blandast vel saman.

  2. Bætið útí flórsykrinum 100 gr í einu og vinnið saman á milli.

  3. Setjið Síðast kjúklingabaunasoðið saman við 2 msk í einu, það þarf þó ekki að líða mjög langur tími á milli, einungis um 1 mínúta.

  4. Best er að gera deigið kvöldið áður en það er bakað og leyfa því að sitja í ísskápnum yfir nótt. Það er þó ekki nauðsynlegt en ég mæli með að leyfa deiginu að vera í ísskáp í allavega 1 klst áður en bakað er úr því.

  5. Skiptið deiginu í nokkra hluti og rúllið út lengjur um 1 cm á þykkt. Notið lófan til að pressa rúlluna ská niður öðrumegin svo hún verði að einskonar þríhyrning. Ef notuð eru kransakökuform er lítið mál að mæli fyrir hverjum hring en ef þau eru ekki til staðar en fyrsti hringurinn hafður 8 cm og svo bætt 3 cm við hverja lengju. Mótið hring úr lengjunum, annað hvort í formin eða á bökunarplötu og festið endana vel saman. Passa skal að smyrja formin með olíu eða öðru þess háttar ef þau eru notuð. Þrístið aðeins ofan á hringina með flatri plötu eða stórum flötum disk svo þeir verði sléttir og fallegir að ofan.

  6. Bakið hringina í 220°C heitum ofni í 8-9 mínútur eða þar til gullinbrúnir. Leyfið hringjunum að kólna aðeins í fominu eða á plötunni áður en þeir eru losaðir frá. 

  7. Sprautið fram og til baka eftir hringjunum með glassúrnum og raðir þeim svo saman eftir stærð. Gott er að festa hringina saman með því að setja smá bræddan sykur á milli.

Snjóhvítt glassúr

  • 4 msk aquafaba (kjúklingabaunasoð)

  • 300 gr flórsykur

Aðferð:

  1. Þeytið kjúklingabaunasoðið í hrærivél þar til það verður að stífri froðu.

  2. Bætið flórsykrinum út í 2 msk í einu og þeytið vel á hæstu stillingu á milli.

  3. Þeytið í góða stund þegar allur flórsykurinn er komin út í eða þar til myndast hefur skjannahvítt krem.

  4. Setjið í sprautupoka með litlu gati og sprautin fram og til baka eftir hringjunum.

 

Vonandi njótið þið vel
-Júlía Sif