Sumarlegt salat

Þar sem ég er vegan þarf ég yfirleitt alltaf að taka með mér nesti í vinnuna. Ég elda stórar máltíðir svo það sé nóg fyrir bæði mig og kærastann minn í hádegismat daginn eftir. Stundum henntar það þó ekki alveg, t.d. þegar að við förum út að borða eða höfum einfaldlega ekki tíma til að elda stóra góða máltíð, en þá er hægt að redda sér á alls konar vegu.

Ég á alltaf til grænmetisbuff eða bollur í frystinum til að grípa í og svo er úrvalið af fljótlegum vegan mat alltaf að aukast. Snemma í vetur kom á markaðinn skyndiréttur frá Allos. Þegar ég sá þetta ákvað ég að grípa nokkra pakka með og prófa. Við prófuðum að taka réttina með okkur í nesti en urðum ósátt hvað þeir eru lítið mettandi. Við hefðum örugglega þurft að taka þrjá hvort til þess að verða södd, en réttirnir voru aftur á móti virkilega bragðgóðir.

Um daginn ákvað ég að prufa mig áfram með réttina. Ég átti ennþá tvo pakka og þar sem við vorum ekkert rosalega spennt fyrir réttunum, ákvað ég að gá hvort ég gæti ekki kryddað örlítið uppá þá. Útkoman var æðislegt sumarsalat sem kom okkur báðum mikið á óvart. Við höfum verið dugleg að úbúa samskonar salöt og taka með okkur í nesti. Þau verða þó aldrei alveg eins því við nýtum það sem við eigum í ísskápnum hverju sinni. Salötin eru mettandi en þó frekar létt og henta því einnig vel sem hádegismatur á sólríkum degi. 

Ég skiptist á að nota grjón, bygg, kínóa eða kúskús. Svo set ég grænmeti, ávexti og fræ. Það er hægt að leika sér endalaust með þetta og finna hvað manni þykir best. Réttirnir eru bragðmiklir svo það er óþarfi að krydda salötin aukalega. 

Hráefni:

  • 1 pakki Allos vegan skyndiréttur

  • 1 bolli einhvers konar grunnur (Í þessu salati var ég með kúskús og kínóa í bland)

  • spínat

  • kirsuberjatómatar

  • epli

  • graskersfræ

Aðferð:

  1. Eldið skyndiréttinn eftir leiðbeiningum á pakkanum og sjóðið þann grunn sem þið hyggist nota. Mér finnst gott að sjóða kínóa og kúskús upp úr smá grænmetiskrafti.

  2. Leyfið skyndiréttinum og grunninum að kólna en á meðan er hægt að undirbúa restina af salatinu og blanda þessu svo saman þegar allt hefur kólnað vel.

  3. Ég sker spínatið, tómatana og eplin í litla bita svo auðvelt sé að borða salatið. Fræin set ég heil saman við.

Júlía Sif