Einn af þessum notalegu dögum

IMG_6798-7.jpg

Í dag er mánudagur. Frídagur verslunarmanna. Ég sit við eldhúsborðið í íbúðinni á Eggertsgötu sem ég er að leigja í sumar. Nánast allir sem ég þekki yfirgáfu borgina yfir helgina en ég tók meðvitaða ákvörðun um að fara ekkert. Mér líkaði tilhugsunin um að eiga rólega helgi mér sjálfri mér. Ég byrjaði daginn á að útbúa mér kaffi og smurði tvær flatkökur og borðaði úti á svölum. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér hvað flatkökur ættu eftir að verða mér dýrmætar þegar ég flytti erlendis. Þær eru eitt það sem ég sakna mest frá Íslandi og ég hef borðað ógrynni af þeim í sumar.

Ég átti notalega verslunarmannahelgi. Á laugardaginn tók ég sjálfa mig á stefnumót og eyddi deginum í miðborginni og gerði nákvæmlega bara það sem mig langaði. Ég rölti niður í bæ með tónlist í eyrunum og kíkti í Kolaportið í fyrsta sinn í nokkur ár. Ég borðaði skál mánaðarins á Gló á Laugavegi. Mexíkóskál. Skoðaði mig svo aðeins meira um og hélt svo heim. Um kvöldið fór ég út á lífið og kom seint heim svo ég leyfði mér því að eiga rólegan sunnudag sem fór að mestu í að gráta yfir Queer Eye. Í dag er ég svo búin að þvo þvott og gera fínt í íbúðinni.

unnamed (1).jpg

Nú sit ég hér við eldhúsborðið og var rétt í þessu að setja á plötuna Night Lights með Gerry Mulligan. Mér þykir gott að hlusta á Mulligan þegar ég les eða skrifa og þessi ákveðna plata fær mig til að hugsa um haustið. Mína uppáhalds árstíð. Árstíðina þar sem sem allt fær svo fallegan lit og loftið verður ferskt og svalt. Ég hef ekki alltaf haft ástæðu til að hlakka til haustsins. Ég held ég hafi sjaldan haft jafn margar ástæður og nú. Eftir nokkur ár í Svíþjóð get ég loksins sagt, án þess að finnast ég vera að segja ósatt, að þar eigi ég heima og að þar eigi ég líf og framtíð. Eftir tæpan mánuð flýg ég heim til Sigga og allra vina minna. Skólinn byrjar og mér finnst ég fullkomlega tilbúin að takast á við þau spennandi verkefni og tækifæri sem bíða mín. Ég gaf sjálfri mér loforð um að þetta skólaárið ætli ég að þora að taka meira pláss sem tónlistarkona og byrja að trúa því að ég eigi plássið skilið. “Hah, gangi þér vel” heyri ég sjálfa mig segja í hljóði.

Það er kominn ágúst. Fimmti ágúst, tvöþúsundognítján. Sumarið hefur liðið hraðar en nokkurtíman fyrr. Þetta sumarið bý ég á Íslandi. Ég hef ekki eytt sumrinu á Íslandi síðan fyrir fjórum árum og því hefur mér svolítið liðið eins og ég sé í löngu fríi. En bráðum er sumarið búið og ég flýg heim til Piteå. Ég hlakka mikið til. Þegar ég er komin heim til Sigga mun ég svo sitja við eldhúsborðið á Ankarskatavägen og minnast sumarsins sem er það besta sem ég hef átt í mörg ár. En ekki alveg strax, því enn er tæpur mánuður eftir af Íslandsdvölinni. Ágúst. Mánuðurinn þar sem við Júlía skilum af okkur öllu efni fyrir bókina okkar. Bókina sem okkur hefur dreymt svo lengi um að búa til. Framundan eru vikur sem munu að mestu einkennast af skrifum og myndatökum og bakstri og eldamennsku. Og ég gæti ekki verið hamingjusamari.

Helga María

10 skemmtilegir hlutir að gera sem kosta lítinn sem engan pening

Hugmyndina af þessari færslu fékk ég um daginn þegar ég var að reyna að lista niður hugmyndir af skemmtilegum hlutum fyrir okkur Sigga að gera sem ekki kosta mikinn pening. Það er magnað hvað ég gleymi því fljótt að það er hægt að fara út úr húsi og gera sér glaðan dag án þess að eyða fullt af pening. Ég ákvað að skrifa niður 10 hluti sem hægt er að gera með vinum sínum, maka, fjölskyldu eða bara með sjálfum sér.

1. Njóta í fallegri náttúru
Það er svo æðislegt að útbúa kaffi í brúsa og samlokur og fá sér göngutúr um einhvern fallegan stað eins og Elliðarárdal eða Heiðmörk. Það þarf oft að keyra svolítinn spöl til að komast á svona staði og ef nokkrir fara saman er ekkert mál að deila bensínkostnaði, og þá er það alls ekki dýrt. Eftir að ég flutti til Norður Svíþjóðar hef ég komist að því að það er aldrei of kalt fyrir “lautarferð.” Hérna grillar fólk í snjónum. Á sumrin er svo endalaust af möguleikum á skemmtilegum gönguferðum, bíltúrum út í sveit og fjallgöngum, jafnvel þó það þurfi oft að klæða sig vel. Eins er ótrúlega gaman, ef maður hefur góðan tíma, að keyra kannski klukkutíma út úr borginni og heimsækja litla bæi eins og Eyrarbakka og skoða fallegu gömlu húsin og taka skemmtilegar myndir.

2. Spila spil
Eitt af því sem ég geri sjaldan og vildi að ég gerði oftar er að taka spilastokk eða önnur skemmtileg spil með á kaffihús og spila. Það er undantekningalaust ótrúlega gaman og gerir kaffihúsadeitin enn meira spennandi. Við mæðgurnar áttum til dæmis ótrúlega kósý kvöld á bar í Edinborg um daginn, þar sem við spiluðum saman Olsen olsen upp og niður. Á mörgum kaffihúsum fæst uppáhelt kaffi fyrir innan við 500 kr þar sem boðið er upp á fría áfyllingu. Það getur verið virkilega gaman að setjast með vinum og spila. Eins er líka bara geggjað að halda spilakvöld heima. Ein skemmtilegustu kvöld sem ég hef átt með vinum eru spilakvöld, og það er oft hægt að fá lánuð ný og spennandi spil ef maður vill aðeins breyta til.

3. Halda Pálínuboð eða elda saman
Við vinir mínir höfum stundum haldið “matarboð” þar sem allir í hópnum taka með sér eitthvað sem til er í ísskápnum og elda úr því eitthvað gott. Þetta er mjög ódýrt og yfirleitt miklu skemmtilegra en þessi hefðbundnu matarboð þar sem einhver eldar og býður svo öllum hinum í mat, auk þess sem þetta er oft mun meira kósý. Við útbjuggum t.d ótrúlega góða vegan borgara um daginn þar sem einn tók með sér kartöflur og sætar sem við bökuðum í ofninum, ein átti allt sem þurfti í sjálfan borgarann og önnur átti borgarabrauð í frystinum. Ég átti allt í heimagerða hamborgarasósu og eitthvað grænmeti. Það var eitthvað svo heimilislegt að elda og borða öll saman og það urðu til virkilega skemmtilegar samræður á meðan.

IMG_2843-3.jpg

4. Stofna leshóp
Ég er nýbyrjuð í leshóp sem mun hittast einu sinni í mánuði. Þetta er eitthvað sem mig hefur alltaf langað að gera og er rosalega spennt fyrir þessu. Það er ekkert mál að redda sér bókum annað hvort á bókasafninu eða fá að láni svo það er engin þörf á því að kaupa allar bækurnar glænýjar. Leshópurinn mun hittast í fyrsta skipti núna á sunnudaginn og ég hlakka mikið til. Mér finnst svo gaman að lesa en gef mér svo sjaldan tíma í það þessa dagana. Því finnst mér frábært að hafa eitthvað svona sem hvetur mig til þess. Stelpurnar í leshópnum eru líka frábærar og það verður svo gaman að kynnast þeim enn betur. Við munum mest lesa á sænsku og það verður frábær leið til að ná enn betri tökum á tungumálinu.

5. Finna ókeypis tónleika eða aðra viðburði og fara á
Það eru oft allskonar skemmtilegir ókeypis viðburðir í Norræna húsinu og eins er Listaháskólinn oft með mjög áhugaverða og skemmtilega viðburði sem eru ókeypis. Ég fór mikið á ljóðakvöld þegar ég bjó heima og reyndi að fylgjast með því þegar höfundar voru að lesa upp verkin sín. Það er oft hægt að finna margt skemmtilegt með því að skoða viðburðina sem koma upp á Facebook. Það er t.d. frábær leið til að kynnast böndum sem maður hefur aldrei hlustað á. Nokkrar af mínum uppáhalds íslensku hljómsveitum og tónlistarmönnum hef ég fundið alveg óvart með því að mæta á tónleika hjá þeim án þess að vita við hverju var að búast.

6. Búa til heimagert barsvar (pub quiz)
Þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert með vinum mínum. Þar sem ég er í tónlistarháskóla er tónlist oftar en ekki þema keppninnar, en það er að sjálfsögðu hægt að útbúa hvernig quiz sem er. Ef keppnin á að snúast um tónlist geta til dæmis tveir úr vinahópnum útbúið lagalista á Spotify og samið spurningar. Síðan er hægt að skipta hópnum í tvö eða fleiri lið. Ef fólk vill drekka áfengi er tilvalið að kaupa ódýra bjóra í ríkinu eða jafnvel hreinsa til úr skápunum og búa til góða kokteila. Það eiga oft margir flösku af sterku áfengi sem aldrei er tilefni til að opna og því snilld að nýta það í að útbúa skemmtilega kokteila með vinunum.

IMG_2906.jpg

7. Fara á bókasafnið
Mörgum finnst þetta kannski óspennandi hlutur að gera, en ég mæli samt með að prufa. Það er ótrúlega kósý að taka með te eða kaffi í brúsa og annað hvort læra, vinna í tölvunni eða blaða í skemmtilegum bókum. Það gerir oft gríðarlega mikið fyrir mig að komast út úr húsi og breyta til þegar ég er að vinna eða læra heima. Þrátt fyrir að maður ætli að sitja og skrifa og drekka kaffi, sem vissulega er hægt að gera bara við eldhúsborðið, þá fæ ég að minnsta kosti oft á tilfinninguna að ég einbeiti mér betur að því sem ég er að gera og komi meiru í verk þegar ég klæði mig og rölti á bókasafnið. Ég tek oft með mér smá nesti og tek pásur inn á milli þar sem ég skoða skemmtilegar bækur.

8. Halda bíómaraþon með skemmtilegu þema
Þetta er mjög gaman að gera annað hvort tvö eða fleiri. Við Siggi höfum stundum haft bíómaraþon á grámyglulegum sunnudögum, en við höfum meðal annars haft “ljótumynda þema” þar sem við horfðum á myndir sem þekktar eru fyrir að vera einstaklega lélegar. Eins höfum við líka haft Steve Martin þema, sem var mjög áhugavert. Það er hægt að útbúa ótrúlega kósý bíókvöld, kveikja á kertum og finna til púða og teppi, leggja í púkk fyrir kartöfluflögum og gosi, eða poppa í potti og njóta í botn.

IMG_2890.jpg

9. Heimsækja ættingja sem þú hittir sjaldar en þú vildir
Það kostar ekkert að heimsækja ömmu, blaða í gömul myndaalbúm og drekka kaffi. Oftar en ekki gefur það manni ótrúlega mikið að eiga góðar samræður og styrkja tengslin við fólkið í lífinu sínu. Amma okkar Júlíu er mikill gestgjafi og vill alltaf bjóða gestum uppá eitthvað gott. Henni hefur hinsvegar þótt mjög erfitt að vita hvað hægt er að bjóða okkur systrum eftir að við urðum vegan svo við höfum stundum útbúið eitthvað sjálfar og tekið með. Ég hef þó gert miklu minna af því en ég vildi. Júlía hefur nokkrum sinnum bakað súkkulaðikökuna okkar og ég hef útbúið aspas rúllubrauðið okkar og ömmu þótti bæði auðvitað svakalega gott.

10. Syngja í kór
Okei, þetta er kannski ekki fyrir alla en það eru til ótrúlega margir mismunandi kórar sem henta mismunandi fólki. Það þarf alls ekki að fara í inntökupróf í alla kóra. Það syngja ekki allir kórar klassíska tónlist, oft er sungin popp tónlist eða dægurtónlist. Kórar æfa flestir einu sinni í viku og á kóræfingum kynnist maður frábæru fólki og skemmtilegri tónlist. Stundum er ársgjald fyrir meðlimi, en það er aldrei hátt.

Takk fyrir að lesa. Mér þætti svo ótrúlega gaman að heyra ykkar hugmyndir að hlutum sem kosta lítinn sem engan pening

-Veganstur <3

Ég ætla að breyta lífinu mínu - 5. kafli

IMG_1791-2.jpg

Í dag eru liðnir 8 mánuðir síðan ég ákvað að tileinka árinu 2018 því að breyta lífinu mínu til hins betra. Í dag eru líka liðnir tæplega 3 mánuðir síðan ég byrjaði í tónlistarháskólanum hérna í Piteå og þar af leiðandi tæpir 3 mánuðir síðan lífið mitt breyttist meira en ég hefði nokkurtíman þorað að vona.

Í mars skrifaði ég færslu um það hvernig ég ætlaði að breyta lífinu mínu. Ég ákvað að gefa mér eitt ár í að vinna virkilega mikið í sjálfri mér og sjá svo hvar ég stæði að ári liðnu. Ég ætlaði mér þannig séð ekkert að ganga í gegnum einhverjar gígantískar breytingar, heldur byrja á því að laga daglegar venjur sem mér þótti hafa neikvæð áhrif á mig. Ég hafði í langan tíma eytt dögunum mínum ein heima og oft ekkert farið út úr húsi í nokkra daga nema til að versla í matinn. Venjurnar sem ég vildi breyta voru því flestar á borð við ,,klæða mig í föt daglega, þó ég sé ekkert á leið út úr húsi og geyma kósýfötin þar til á kvöldin” og ,,mæta á kóræfingar þó mig langi alls ekki út” og ,,kynnast fólki og byrja að tala sænsku.” Ég ætlaði mér því að reyna að búa til jákvæðar venjur og einhverskonar rútínu þó ég væri bara ein heima allan daginn. Fljótlega eftir að ég byrjaði í þessari sjálfskoðun áttaði ég mig á því að ég gæti breytt öllum mínum daglegu venjum, en ef ég vildi verða hamingjusöm yrði ég að hætta að vera hrædd við að fara á eftir því sem mig langar. Haustið áður hafði ég skráð mig í fjarnám í mannfræði í háskóla Íslands. Ég skráði mig í námið minni vegna þess hve mikið mig langaði að læra mannfræði og meira því það var kennt í fjarnámi og mig langaði svolítið að komast hjá því að þurfa að svara spurningum um það hvað ég ætlaði gera í framtíðinni. Mér fannst skothelt plan að skrá mig í fjarnám og fá námslán og geta svo bara bloggað og haft það gott. Námið var vissulega áhugavert og ég lærði ýmislegt, en mannfræðin heillaði mig alls ekki og og ég sökk dýpra í einhverskonar einmanaleika og kvíða. Þegar ég hafði byrjað að taka til hjá mér sá ég að ég gæti ekki haldið þessu áfram. Eftir svolitla umhugsun settist ég niður og sótti um í bachelornám í jazzsöng við tónlistarháskólann í Piteå. Stuttu síðar fór ég svo í inntökupróf og komst inn í námið. Fyrir flesta hljómar þetta kannski mjög sjálfsagt, en fyrir ári síðar hefði ég aldrei vogað mér að sækja um í þetta nám, hvað þá mæta í inntökuprófið. Þennan dag þótti mér ég vera hugrakkasta manneskja í heimi. Ég trúði varla að ég hefði mætt í prófið og staðið mig vel. Það sem ég vissi ekki þá var að inntökuprófið var bara byrjunin á því sem myndi gjörbreyta lífi mínu að sumrinu loknu.

mynddd.jpg

Hvernig hefur lífið mitt breyst síðan ég byrjaði í skólanum?

Síðan byrjaði í skólanum hefur lífið tekið u-beygju. Nánast ekkert af því sem ég skrifaði í fyrstu færsluna mína í mars á við lengur. Þessa tæpu 3 mánuði hef ég þroskast meira en ég hef gert síðustu 3 ár. Nánast vikulega geri ég hluti sem ég var dauðhrædd við og það hefur verið verulega gefandi. Ég er í 100% námi í tónlist og syng í djassbandi í skólanum, en utan þess er ég svo hluti af djasstríói með tveimur strákum sem eru á öðru ári í skólanum, Andreas á kontrabassa og Conny á gítar. Tríóið heitir Yrja og við höfum spilað á fínasta hóteli bæjarins og á fleiri stöðum niðrí bæ. Ég hef eignast yndislega vini og tala sænsku allan daginn. Mér líður eins og ég hafi fengið sjálfa mig til baka, er farin að brosa meira og orðin mun afslappaðri í kringum fólk. Vissulega er ég oft stressuð og neikvæð, en það er ekkert í líkindum við það sem var áður, og í nánast hvert skipti sannar það sig að neikvæðnin er bara í höfðinu á mér.

Er ég þá hætt að vinna í sjálfri mér?

Alls ekki. Nú þegar mörg af mínum fyrri vandamálum eiga ekki lengur við, koma upp ný vandamál sem ég þarf að takast á við. Dæmi um þau er t.d. hvernig ég finn endalaust fyrir samviskubiti. Núna þegar ég ræð ekki lengur tíma mínum að öllu leyti sjálf fæ ég oft samviskubiti yfir því að vera ekki nógu dugleg að blogga, hreyfa mig ekki nóg eða vera ekki nógu skipulögð þegar kemur að því að elda næringarríkan og góðan kvöldmat yfir vikuna. Ég er mikið að vinna í því að læra að sætta mig við það að ég get ekki verið 100% í öllu sem ég vil gera, og oft er það erfitt.

Ég þarf líka að leggja mig mikið fram við að leifa svikaraheilkenninu ekki að stjórna mér. Það getur verið rosalega auðvelt að hugsa mikið um hvað strákarnir sem ég spila með séu góðir og reyndir og hausinn á mér reynir oft að segja mér að ég sé veikasti hlekkurinn í bandinu. Það hefur hjálpað mér mikið að tala við aðrar söngkonur í skólanum sem hafa upplifað svipaðar hugsanir, og svo er mikilvægt að minna sig á að svikaraheilkennið segir ekki satt. Það segir manni að efast um sig þegar manni gengur vel og þá er mikilvægt að læra að taka ekki alltof mikið mark á því. Þetta er eitthvað sem ég þarf að minna mig oft á og krefst það mikillar vinnu að breyta þessum hugsunarhætti.

IMG_1782.jpg

Ef ég hef lært eitthvað síðustu mánuði þá er það að ég mun líklega aldrei geta hætt að vinna í sjálfri mér. Ég myndi ekki segja að síðustu ár hafi ég alveg hætt því, en ég hunsaði ákveðin vandamál í von um að komast hjá því að vinna úr þeim. Nú þegar ég sit og skrifa þessi lokaorð er klukkan 8 og ég þarf að leggja af stað í skólann. Þegar ég lít út og dáist að sólarupprásinni átta ég mig á því að síðan ég byrjaði í skólanum hef ég ekki fengið þessa kvíðatilfinningu sem ég fékk oft áður þegar ég þurfti að vakna snemma og mæta eitthvað. Ég hef vissulega verið kvíðin fyrir því að koma fram og fleira en það er allt öðruvísi kvíði. Ég er ekki með hnút í maganum á kvöldin bara því ég þarf að mæta í skólann, heldur vakna ég glöð og fer glöð að sofa nánast á hverjum degi. Ég hlakka til að leyfa ykkur að fylgjast betur með. Það er að miklu leyti ykkur lesendum okkar að þakka hvað við höfum þroskast mikið og dafnað síðustu ár. Þið hafið sýnt okkur þvílíkt mikinn stuðning og oft stappað í okkur stálinu, bæði hérna á blogginu og á samfélagsmiðlum.

Helga María

Ég ætla að breyta lífi mínu - 3. kafli

Jæja Helga, hvað er að frétta? Þessi færsla ætti að vera löngu komin og eins og mig langar að geta sagt að ég hafi fjölmargar gildar ástæður, er eiginlega engin afsökun nógu góð. Ætli það verði ekki efst á listanum fyrir næstu viku að birta færsluna á réttum tíma ehhehe.. 

IMG_0107-2.jpg

Síðustu vikur hefur líf mitt breyst að mörgu leyti en á sama tíma er erfiðara en ég hélt að breyta ýmsu. Ég get þó byrjað á því að segja að ég hef ekki verið jafn hamingjusöm lengi. Ég talaði um það í síðustu færslu hvernig ég vil segja skilið við þær ákveðnu hugmyndir um hver ég er og hvað ég get og get ekki gert. Það hefur verið ákveðin áskorun og ég hef komist að því að hugmyndir mínar um hver ég er, eru mun skorðaðri en ég gerði mér grein fyrir. Samt sem áður er það skemmtileg áskorun því ég hef kynnst sjálfri mér betur í kjölfarið. Það er þó ekki nóg að breyta því hvernig ég hugsa, heldur þarf ég að læra að taka skrefið og gera hlutina sem mig hefur alltaf langað en annaðhvort ekki þorað eða fundist ég ekki geta gert. Síðan ég var unglingur hef ég meðal annars forðast það að gera hluti sem ég er ekki nú þegar orðin góð í (ég átta mig fyllilega á því að dæmið gengur eiginlega ekki upp.) Ég myndi aldrei spila mini-golf eða reyna að búa til málverk, því ég kann það ekki. Þessi hugsunarháttur hefur gert það að verkum að ég stoppa sjálfa mig oft og geri ekkert af því sem mig langar því mér finnst ég ekki geta gert það nógu vel. 

IMG_9984-2.jpg

Ég hef mikið hugsað um þetta síðustu vikur og er ákveðin í að breyta þessu. Ég tók því fyrsta skrefið í síðustu viku. Síðan ég var barn hefur mér þótt gaman að búa til tónlist og hef í gegnum tíðina samið fullt af hálfkláruðum lögum. Mér hefur aldrei þótt ég hafa það sem þarf til að klára lögin og hvað þá leyfa fólki að heyra þau. Við Siggi höfum síðastliðna mánuði leikið okkur í GaragaBand í símanum mínum og búið til lög sem mér hefur þó aldrei þótt nálægt því nógu góð til að setja á netið, þar til ég áttaði mig á því að lögin sem ég geri núna eru einfaldlega eins góð og ég gert þau akkúrat núna, og að það er ekkert að því. Í síðustu viku settist ég við píanótið og samdi lag sem Siggi hjálpaði mér svo að setja upp í GaragaBand appið á símanum mínum og gerði meðal annars fyrir mig trommur og fl. Ég tók svo sönginn upp í iPhone heyrnatólin, svo gæðin eru allt annað en góð. Við ákváðum að setja það á Soundcloud og Youtube þrátt fyrir að lagið sé langt frá því að vera fullkomið. Oft er sagt að eyða þurfi 10.000 klukkutímum í að gera eitthvað til að verða mjög góð/ur í því, og ég hef alls ekki eytt 10.000 klukkutímum í að semja tónlist, svo það væri virkilega skrítið ef ég væri einhver snillingur í því. 

Lagið heitir I'll be fine og það var virkilega gaman að búa það til. Ég get leyft mér að segja að ég sé stolt af því, þrátt fyrir að mér finnist margt mega vera betra. Ég hlakka til að sýna ykkur fleiri lög og kannski eftir svona hundrað í viðbót kemur eitthvað meistaraverk. 

Síðustu vikur hef ég:

  • Vaknað í kringum klukkan 8 alla daga
  • Klætt mig í almennileg föt daglega og leyft kósýgallanum að bíða þar til á kvöldin
  • Talað oftar við systkini mín en ég hef gert síðasta hálfa árið nánast
  • Eytt miklum tíma í að læra að hugsa öðruvísi um sjálfa mig 
  • Bloggað það sem ég ætlaði fyrir páskana, þ.a.m. fyrstu færlsuna fyrir samstarfið sem við erum í
  • Hlustað á miiiikið af tónlist og sungið miklu meira en ég hef verið vön síðustu ár. Ég hef uppgvötað fullt af skemmtilegum tónlistarmönnum og notið þess að hlusta á eitthvað nýtt
  • Klárað lagið sem ég var að vinna í og birt það 
  • Haldið matarboð og kynnst vinum okkar hérna í Piteå betur
  • Unnið við borð en ekki í sófanum - stór sigur ehe
  • Borðað næringaríkan mat (fyrir utan nokkra daga um páskana)
  • Hugsað vel um húðina mína
  • Átt yndislegt símtal við Siggu vinkonu mína, sem var löngu orðið tímabært
  • Brosað meira og hlegið meira en ég hef gert lengi
  • Haldið áfram að þykja vænt um mig 

Það sem hefði mátt fara betur og ég mun bæta í þessari viku:

  • Ég hef hreyft mig vandræðalega lítið (af hverju er svona erfitt að fara í ræktina þegar maður hefur tekið pásku?!)
  • Ég hef stundum leyft uppvaskinu að bíða þar til daginn eftir, sem er aldrei þess virði
  • Ég hef oft gleymt mér í Youtube glápi þegar ég á að vera að gera eitthvað annað
  • Ég hef nokkrum sinnum dottið í sjálfsvorkunn varðandi vanvirka skjaldkirtilinn minn og því sem fylgir og ég ætla að tala betur um það í næstu færslu. 
  • Ég fór ekki á kaffihúsadeit eins og ég hafði ætlað mér
  • Ég færði EKKI lögheimilið!! Ég ætlaði að gera það tvisvar og fattaði að ég hafði gleymt vegabréfinu heima í bæði skiptin, halló Helga, þú getur þetta!

Þessa vikuna ætla ég að:

  • Halda áfram að tileinka mér þær daglegu venjur sem ég hef verið að taka upp
  • Færa lögheimilið í eitt skipti fyrir öll, ég verð!
  • Halda áfram að vinna í hinu laginu sem við Siggi erum að gera
  • Gera uppskriftarfærslurnar sem ég er með á dagskrá
  • Byrja að fara reglulega í ræktina, ég fór í gær og það lét mér líða virkilega vel
  • Hringja í ömmu
  • Hringja í systkini mín
  • Halda áfram að ganga frá eftir mig jafn óðum, það lætur mér líða mun betur í eigin umhverfi
  • Klára bókina sem ég er að lesa
  • Fara á kaffihúsadeit með sjálfri mér og skrifa
  • Byrja að undirbúa Póllandsferðina með kórnum (þarf m.a. að fara í blóðprufu og fá nýjan skammt af skjaldlyfjum áður en við förum)
IMG_9645.jpg

Næsta færsla kemur á réttum tíma, ég ætla að lofa sjálfri mér því!

Helga María 

 

 

Ég ætla að breyta lífi mínu - 2. kafli

IMG_9687.jpg

Síðasta vika hefur verið áhugaverð. Mér hefur að mörgu leyti liðið eins og ég sé að fá tækifæri til að byrja upp á nýtt. Tækifæri til að sleppa frá mér öllum þeim hugmyndum og skoðunum um það hver ég er og hvað ég get og get ekki. Það er nefnilega magnað að stoppa um stund og átta sig á því að hausinn á manni setur manni gríðarlega mikil takmörk. Við göngum í gegnum lífið með rödd í höfðinu sem stoppar ekki. Hún gefur okkur endalaust af óumbeðnum ráðum og tjáir okkur skoðanir sínar á öllum sköpuðum hlutum. Ef röddin í höfðinu á okkur væri önnur manneskja værum við löngu búin að segja henni að hypja sig. Hver vill umgangast einhvern allar stundir sem talar við okkur á sama hátt og röddin í höfðinu á það til að gera? Við getum ekki þaggað niður í röddinni og þess vegna er svo mikilvægt að gera hana að okkar besta vini. Svo það sé á hreinu, þá er ég að tala um hugsanir okkar. Við hugsum allan liðlangan daginn og oft um eitthvað sem skiptir voðalega litlu máli eða jafnvel lætur okkur líða virkilega illa. Oft er líka erfitt að greina á milli staðreynda og svo okkar upplifunum á hlutunum, sem eru þegar allt kemur til alls, bara okkar upplifun. 

Síðan ég birti síðustu færslu hef ég upplifað margar og miklar tilfinningar, þó eiginlega bara jákvæðar. Ég viðurkenni að ég var svolítið hrædd um að ekkert myndi breytast hjá mér og þessi árs skuldbinding mín myndi verða að engu. Í dag er ég síður en svo hrædd um það og ég get sagt að ég hafi ekki upplifað jafn góða viku í langan tíma. Mér líður á margan hátt eins og ég sé önnur manneskja. Ekki vegna þess að ég er skyndilega allt öðruvísi en ég var áður heldur vegna þess að með því að taka ákvörðun um að breyta lífi mínu, og segja frá því á blogginu og á snappinu okkar, líður mér eins og ég hafi klifið vegg sem ég taldi mig ekki komast yfir. Eins fékk ég fjöldann allan af skilaboðum frá fólki sem annaðhvort vildi sýna mér stuðning eða jafnvel taka þátt í þessu átaki með mér og ég get ekki lýst því hvað mér þykir vænt um það. 

IMG_9839.jpg

Í síðustu viku

  • Vaknaði ég fyrir klukkan 9 á hverjum degi
  • Klæddi ég mig í föt á hverjum degi og kósýgallinn hefur fengið smá hvíld
  • Átti ég yndislegt símtal við Katrínu litlu systur mína.
  • Átti ég yndislegt símtal við ömmu mína
  • Prufaði ég mig áfram með kökuuppskrift sem kemur á bloggið á næstu dögum
  • Mætti ég á kóræfingu og æfði mig vel fyrir hana
  • Fór ég á kaffihús, las ljóð, drakk gott kaffi og spjallaði við Sigga
  • Fór ég í spennandi atvinnuviðtal varðandi sumarvinnu
  • Gekk ég frá eftir mig jafn óðum og leið ég kjölfarið mun betur í umhverfinu mínu
  • Minnti mig á það daglega að ég ber ábyrgð á lífinu mínu og þó ég hafi ekki fullkomna stjórn á því sem kemur fyrir mig, hef ég stjórn á því hvernig ég bregst við því. 
  • Þvoði ég á mér andlitið á hverju kvöldi fyrir svefninn
  • Hlustaði ég mikið á tónlist og uppgvötaði frábæra nýja hljómsveit
  • Borðaði ég næringarríkan mat og keypti engar óþarfa umbúðir
  • Datt ég tvisvar í hálkunni og langaði ekki að hverfa inn í sjálfa mig!!

Það sem mér tókst ekki nógu vel í síðustu viku en ætla að gera betur þessa viku:

  • Ég gaf mér ekki tíma á kvöldin þar sem ég lagði frá mér símann. Ég er að reyna að vera meira meðvituð um símanotkunina og það er virkilega áhugavert hvað ég á það til að teygja mig í símann þegar mér leiðist
  • Ég borðaði enga máltíð án þess að hafa afþreyingu. Ég hef áttað mig á því að ég er alltaf með Snapchat, Instagram, Youtube myndbönd, hlaðvörp eða hljóðbækur í gangi á meðan ég borða og mig langar að breyta því
  • Ég póstaði ekki Instagram myndum jafn oft og ég ætlaði mér
  • Ég gerði ekki uppskriftarfærslu 
  • Ég hreyfði mig ekkert að viti, en það er þó vegna þess að ég er að jafna mig eftir snúinn ökkla og tók ákvörðun um að taka því rólega síðustu vikuna. Ég fór samt eitthvað út úr húsi alla dagana og er ánægð með það. 
IMG_9716-2.jpg

Þessa vikuna ætla ég að:

  • Halda áfram þeim daglegu venjum sem ég hef náð að tileinka mér síðustu vikuna 
  • Halda áfram með lagið sem ég hef verið að búa til síðustu daga
  • Skrifa meira
  • Lesa fleiri ljóð
  • Gera tvær uppskriftafærslur sem ég er búin að undirbúa
  • Hitta vini okkar Sigga um helgina
  • Undirbúa samstarfið sem við Júlía erum að fara í
  • Hreyfa mig daglega, hvort sem það er að fara í ræktina, göngutúr eða gera æfingar hérna heima
  • Fara á allavega eitt kaffihúsadeit með sjálfri mér 
  • Halda áfram að þykja svona vænt um sjálfa mig 
  • MUNA að það er eðlilegt að ekki séu allir dagar fullkomnir. Ég er ekki að reyna að vera fullkomin eða glöð alla daga, það eru óraunhæfar kröfur sem gagnast engum
  • Færa lögheimilið mitt!! Kommon Helga, þú hefur haft endalausan tíma til að gera þetta
IMG_9700.jpg

Ég hlakka til að heyra í ykkur að viku liðinni! 

Helga María

 

Ég ætla að breyta lífi mínu - 1. kafli

Ég sá myndband um daginn sem hafði mikil áhrif á mig. Í myndbandinu segir ung kona frá því hvernig hún ætli að breyta lífi sínu á 365 dögum. Í kjölfarið fór ég að skoða líf mitt og sérstaklega þá hluti sem ég er ósátt við en hef ekki gert mikið til þess að breyta. Á síðustu dögum hef ég smám saman áttað mig á því hvernig ég hef beðið eftir því að lífið segi mér hvenær röðin sé komin að mér. Þá muni allt sem þarf að laga í mínu lífi kippast í liðinn og ég verði betri manneskja, með betri venjur og betra hugarfar. 

IMG_9595-2.jpg

Ég hef í rauninni eytt gríðarlegum tíma í að haga mér og hugsa eins og það sé ekki í mínum verkahring að búa mér til það líf sem ég vil lifa, svona eins og að með því að viðurkenna að ábyrgðin sé virkilega mín þurfi ég að standa upp og gera eitthvað í því, sem er auðvitað ekki jafn þægilegt og að sitja heima og bíða eftir að lífið banki uppá og bjóði manni í einhverskonar allsherjar "make-over." 
  Eftir að hafa horft á myndbandið, hugsað um það í nokkra daga, horft á það aftur, og svo einu sinni enn, ákvað ég að taka Dottie til fyrirmyndar og skora á sjálfa mig að breyta lífi mínu næstu 365 daga og leyfa ykkur að fylgjast með. Ég er ekki að tala um áramótaheit sem ég gleymi eftir viku, heldur er ég að tala um það að leggja mig alla fram, í fyrsta sinn á ævinni, við að laga það sem ég hef viljað laga en aldrei komið mér í. 
   Síðustu ár hef ég verið óánægð með margt í lífinu mínu og margt í eigin fari en það er einmitt ákveðið vandamál út af fyrir sig. Ég hef nefnilega verið föst í því að einblína einungis á það sem ég er ósátt við og það sem ég vil HÆTTA að gera í stað þess að hugsa um hvernig ég get bætt nýjum og jákvæðum venjum inn í lífið mitt. Næstu 365 daga ætla ég hinsvegar að einbeita mér að því að tileinka mér jákvæðar venjur sem ég tel að muni gera mér og fólkinu í kringum mig gott. Í stað þess að hugsa stanslaust um það sem ég vil hætta að gera ætla ég að hugsa um það sem ég vil byrja að gera. Ég ætla að gera mitt besta, en ætla á sama tíma að muna að "mitt besta" getur breyst frá degi til dags og að þó mér gangi verr í dag en í gær þýðir það ekki að ég sé að standa mig illa eða að mér sé að misheppnast. 

En þrátt fyrir að dagsformið sé og muni alltaf vera misjafnt er það víst að dagurinn í dag er dagurinn sem ég ætla alltaf að muna. 14. mars 2018. Dagurinn sem ég ákvað að taka ábyrgð á eigin lífi og leggja í fyrsta skipti mikla vinnu í að byggja upp það líf sem ég vil lifa og búa mér til þær jákvæðu venjur sem ég tel að munu hjálpa mér að vera hamingjusöm og heilbrigð.  Hér eru nokkur dæmi um venjur sem mig hefur dauðlangað að tileinka mér en aldrei tekið almennilega ákvörðun um að virkilega reyna að gera:

image_6483441 (3).jpg

Það er sagt að það taki allt frá tveimur vikum til tvo mánuði að mynda nýjar venjur. Eins og sá tími virðist oft líða löturhægt þegar maður einbeitir sér að því að breyta venjum sínum til hins betra, þá flýgur tíminn þegar kemur að því að mynda sér "ósiði" eða minna heilbrigðar venjur. Dæmi um það er þegar ég byrja að hreyfa mig. Eftir að hafa mætt í ræktina í fjóra daga í röð finnst mér ég hafa svitnað og púlað mánuðum saman, en svo tek ég varla eftir því þegar ég hef verið í sömu kósýbuxunum næstu fjóra daga límd við sófann. 

Þegar við fluttum til Svíþjóðar þótti mér erfitt hvað ég var mikið ein. Ég þekkti mjög fáa og var oft einmana. Það var þó fljótt að venjast, og svo hætti einveran að vera mér erfið og fór að vera þægileg.  Fyrr en varði var hún orðin það sem ég þekkti best. Ég vandist því líka hratt að þurfa lítið að fara út úr húsi svo kósýgallinn varð ákveðinn einkennisklæðnaður sem gerði það að verkum að oft varð mér lítið úr verki yfir daginn. Ég hef nefnilega komist að því að þegar ég klæði mig eins og ég sé á leið í vinnuna þá líður mér eins og ég sé í vinnunni og er minna líkleg til þess að sitja á sófanum og horfa á Youtube í marga klukkutíma. 

IMG_9671.jpg

Næsta árið mun ég ekki einungis einbeita mér að daglegum venjum heldur einnig stærri hlutum og markmiðum. ég ætla að gera fjóra lista; 

  • Það sem ég vil hafa áorkað að ári liðnu
  • Það sem ég vil áorka yfir vikuna
  • Það sem ég vil gera daglega
  • Það sem ég ætla að gera í dag

Listarnir munu líklega breytast eitthvað þegar líður á árið en ég mun leyfa ykkur að fylgjast með því. 

 

Það sem ég vil hafa áorkað að ári liðnu

  • Ég ætla að vera komin langt með að vinna úr erfiðum minningum og lífsreynslum sem hafa fylgt mér til dagsins í dag og haft hamlandi áhrif á mig
  • Ég ætla að vera farin að tala reiprennandi sænsku 
  • Ég ætla að vera orðin örugg með að tala við ókunnuga án þess að finnast ég þurfa að biðjast afsökunar á því hver ég er og hvernig ég er
  • Ég ætla að vera búin að ná mun betri líkamlegri heilsu og muna að þó ég sé með vanvirkan skjaldkirtil er ég ekki fórnarlamb sjúkdómsins
  • Ég ætla að vera búin að kaupa mér nýja Canon vél því mín er eldgömul og lúin
  • Ég ætla, ásamt Júlíu, að vera búin að gera handrit að matreiðslubók! 
  • Ég ætla að læra að elska sjálfa mig og vera í kjölfarið betur fær um að sýna fólkinu í kringum mig ást og umhyggju
  • Ég ætla fyrst og fremst að vera ég sjálf og muna alla daga að þó ég eigi slæman dag sé engin ástæða til að brjóta mig niður eða finnast mér vera að mistakast

Það sem ég vil áorka vikulega

  • Blogga í hverri viku - Birta bæði uppskriftarfærslu og vikulegar færslur um þessa áskorun
  • Hringja í ömmu í hverri viku
  • Hringja í systkini mín í hverri viku
  • Mæta á kóræfingar
  • Versla vel inn eftir skipulagi til að eiga nóg af næringarríkum mat yfir vikuna
  • Elda nýja uppskrift í hverri viku
  • Skrifa að minnsta kosti eitt ljóð í hverri viku
  • Fara á kaffihúsadeit með sjálfri mér einu sinni í viku með tölvuna mína og skrifa

Það sem ég vil gera daglega

  • Vakna fyrir klukkan 9 alla daga
  • Hugleiða í allavega 10 mínútur (mér líður svo miklu betur þegar ég geri það)
  • Fara eitthvað út úr húsi daglega, þrátt fyrir að hafa ekkert sérstakt erindi
  • Hreyfa mig eitthvað daglega, hvort sem það er að fara í göngutúr eða í ræktina
  • Pósta mynd á Instagram á hverjum degi
  • Klæða mig eins og ég sé á leið í vinnuna þó ég sé bara að fara að vinna heima 
  • Gefa mér hálftíma á hverju kvöldi áður en ég fer að sofa þar sem ég kíki ekkert á símann
  • Þvo á mér andlitið á hverjum degi
  • Skrifa daglega punkta og hugleiðingar um hvernig mér gengur að breyta lífi mínu - vera hreinskilin
  • Hafa hreint og fínt þegar ég fer að sofa á kvöldin
  • Vaska upp strax eftir kvöldmatinn svo ekkert uppvask sé þegar ég vakna daginn eftir
  • Muna að taka skjaldkirtilslyfin mín á hverjum degi

Það sem ég ætla að gera í dag (14. mars 2018)

  • Vera farin á fætur klukkan 9
  • Fara í eins kalda sturtu og ég þoli (treystið mér, manni líður svo vel eftir á)
  • Klára að skrifa þessa færslu og koma henni í loftið
  • Pósta mynd á Instagram
  • Fara á sóprana kóræfingu
  • Elda kvöldmat handa okkur Sigga
  • Ryksuga íbúðina og þurrka af
  • Þvo á mér andlitið í lok dagsins
IMG_9698-2.jpg

Ég hlakka til að leyfa ykkur að fylgjast með, en fyrst og fremst er ég að gera þetta fyrir sjálfa mig. Tilhugsunin um að birta þessa færslu hræðir mig örlítið því um leið og hún er komin í loftið er ekki aftur snúið. Hinsvegar er það mögnuð tilfinning að vita að frá og með þessarri stundu muni allt breytast. Ég er ekki að búast við því að lífið verði allt í einu dans á rósum og ég skælbrosandi alla daga, en ég veit fyrir víst að ég mun í fyrsta skipti leggja mig alla fram við að búa mér til það líf sem ég vil lifa og það er mögnuð tilfinning. Ef mér mistekst hryllilega get ég í fyrsta sinn sagt að ég hafi allavega reynt mitt besta. 

Helga María 

Er ég svikahrappur?

Í mörg ár hef ég gengið um með stórt leyndarmál í brjóstinu. Það er í rauninni svo stórt að ég hef verið hrædd nánast daglega um að einhver lyfti af mér hulunni og heimurinn sjái loksins að ég er ekkert annað en einn stór brandari.

25555656_10155226570832525_938399104_n.jpg

Oft á tíðum líður mér þó einnig eins og allir hafi komist að sannleikanum fyrir löngu en enginn þori að segja neitt og taki þess vegna þátt í leikritinu; enginn vilji búa til vandræðalega stemningu. Ég hef oft verið viss um að fólkið í kringum mig horfi inn í sálina á mér og hlægi yfir því sem kemur þeim fyrir sjónir. Til að varðveita leyndarmál af þessari stærðargráðu er best að láta lítið fyrir sér fara og gera hvað sem er til að komast hjá því að lenda í aðstæðum þar sem ég get verið afhjúpuð sem svikahrappurinn sem ég er.  Það versta sem gæti gerst er að vera uppgvötuð sem svikari og útskúfuð úr samfélaginu í kjölfarið. Enginn vill hafa svikahrapp í umhverfi sínu. 

Það var síðasta haust sem ég ákvað að gefa sjálfa mig fram og játa glæpinn í fyrsta sinn. Ég sagði kærastanum frá öllu saman og endaði á orðunum ,,Þú þekkir mig því miður ekki eins vel og þú hélst" viðbúinn því að hann myndi labba út úr lífi mínu og aldrei láta sjá sig meir. Ég var í óða önn að skipuleggja leið til að taka þetta allt til baka, láta sem þetta hafi verið grín eða jafnvel próf, sem ég hefði lagt fyrir hann til að sjá hvort hann elskaði mig í alvöru, þegar hann tjáði mér að það væri í raun ég sem þekkti sjálfa mig ekki eins vel og ég hafði haldið. Hann hélt áfram og sagði mér að ég væri enginn atvinnusvikari, þvert á móti væri ég arfaslakur lygari, og það sem ég héldi að gerði mig svona einstaka væri í raun heilkenni sem hrjáir stóran hluta fólks, impostor syndrome eða blekkingarheilkennið. Ég var síður en svo tilbúin til að kaupa þessa greiningu, en eftir að hafa lesið mér vel til um heilkennið áttaði ég mig á því að eina manneskjan sem ég hafði blekkt í öll þessi ár var ég sjálf. Tilfinningarnar sem fylgdu þessari uppgvötun voru blendnar. Ég var bæði fegin því að vera ekki svikahrappurinn sem ég hélt að ég væri, en á sama tíma fór það í taugarnar á mér að ég hefði ekki heyrt um þetta fyrr eða séð í gegnum þessar hugsanir. Fyrst og fremst vissi ég þó að líf mitt yrði ekki það sama. 

Hvað er blekkingarheilkennið?

Impostor syndrome, einnig kallað fraud syndrome, lýsir sér þannig að manneskja er sífellt hrædd um að verða uppljóstruð sem fraud eða svikahrappur. Þeir sem þjást af heilkenninu eru vissir um að þeir séu svikarar og hafi með blekkingum sínum tekist að ná árangri í lífinu sem þeir eigi í raun ekki skilið. Það er sama hversu miklum árangri er náð, skýringarnar eru yfirleitt á þann veg að um heppni sé að ræða. Maður hafi einfaldlega verið á réttum stað á réttum tíma, eða það sé vegna hæfileikans í að þykjast vera klárari eða færari en maður er í raun. Því er ómögulegt að eigna sér heiður fyrir afrek sín því það eru alltaf utanaðkomandi skýringar á þeim. Blekkingarheilkennið gerir það líka að verkum að manni þykir allir meira ekta en maður sjálfur; aðrir ná árangri því þeir hafa sanna hæfileika en manni sjálfum hefði aldrei tekist hið sama því maður kemst bara ákveðið langt með því að blekkja aðra. Þannig útskýrir blekkingarheilkennið sigra jafnt sem ósigra. 
Í mörg ár sannfærði ég sjálfa mig um að ég væri stanslaust að blekkja aðra og svíkja mig í gegnum allskonar aðstæður þegar ég gerði í raun ekki nokkurn skapaðan hlut því ég var of hrædd við að allir sæju hvað ég væri mikill lúser. Þegar ég horfði svo á aðra ná þeim árangri sem mig dreymdi um skildi ég það vel, enda höfðu þau í alvörunni það sem til þurfti. 

IMG_8230.jpg

Hvað breyttist eftir að ég lærði um blekkingarheilkennið?

Margt hefur breyst, en margt er oft ennþá eins. Ég á mína daga og mín móment þar sem ég virðist gleyma öllu sem ég hef lesið og helli mér í þetta gamla viðhorf. Ég er þó yfirleitt fljót upp úr því aftur og minni mig á að nú sé ég að blekkja sjálfa mig og halda aftur að mér.  Eftir að ég fór að kynna mér heilkennið hef ég verið dugleg að koma mér í aðstæður þar sem ég þarf að berjast gegn þessum hugsunum og yfirstíga hræðsluna við hvað öðrum þyki um mig. Ég ætla ekki að ljúga að ykkur að það sé auðvelt, það er virkilega erfitt að breyta hugsun sem hefur verið manni rótgróin í mörg ár. Það er ekkert grín að ætla að byrja að segja sjálfri mér að ég eigi stóran þátt í þeim árangri sem ég hef náð og að ég eigi hann skilið. Eins er erfitt að læra að taka hrósi og stoppa röddina í hausnum þegar hún hvíslar að fólk hrósi vegna þess að það vorkenni mér fyrir að vera svona misheppnuð, eða því ég hafi talið þeim trú um að ég sé betri en ég er. Á maður bara að standa hjá brosandi og trúa því að fólk hrósi manni því maður eigi hrósin skilið? Já! Algjörlega! 

Helga María