Ég ætla að breyta lífinu mínu - 5. kafli

IMG_1791-2.jpg

Í dag eru liðnir 8 mánuðir síðan ég ákvað að tileinka árinu 2018 því að breyta lífinu mínu til hins betra. Í dag eru líka liðnir tæplega 3 mánuðir síðan ég byrjaði í tónlistarháskólanum hérna í Piteå og þar af leiðandi tæpir 3 mánuðir síðan lífið mitt breyttist meira en ég hefði nokkurtíman þorað að vona.

Í mars skrifaði ég færslu um það hvernig ég ætlaði að breyta lífinu mínu. Ég ákvað að gefa mér eitt ár í að vinna virkilega mikið í sjálfri mér og sjá svo hvar ég stæði að ári liðnu. Ég ætlaði mér þannig séð ekkert að ganga í gegnum einhverjar gígantískar breytingar, heldur byrja á því að laga daglegar venjur sem mér þótti hafa neikvæð áhrif á mig. Ég hafði í langan tíma eytt dögunum mínum ein heima og oft ekkert farið út úr húsi í nokkra daga nema til að versla í matinn. Venjurnar sem ég vildi breyta voru því flestar á borð við ,,klæða mig í föt daglega, þó ég sé ekkert á leið út úr húsi og geyma kósýfötin þar til á kvöldin” og ,,mæta á kóræfingar þó mig langi alls ekki út” og ,,kynnast fólki og byrja að tala sænsku.” Ég ætlaði mér því að reyna að búa til jákvæðar venjur og einhverskonar rútínu þó ég væri bara ein heima allan daginn. Fljótlega eftir að ég byrjaði í þessari sjálfskoðun áttaði ég mig á því að ég gæti breytt öllum mínum daglegu venjum, en ef ég vildi verða hamingjusöm yrði ég að hætta að vera hrædd við að fara á eftir því sem mig langar. Haustið áður hafði ég skráð mig í fjarnám í mannfræði í háskóla Íslands. Ég skráði mig í námið minni vegna þess hve mikið mig langaði að læra mannfræði og meira því það var kennt í fjarnámi og mig langaði svolítið að komast hjá því að þurfa að svara spurningum um það hvað ég ætlaði gera í framtíðinni. Mér fannst skothelt plan að skrá mig í fjarnám og fá námslán og geta svo bara bloggað og haft það gott. Námið var vissulega áhugavert og ég lærði ýmislegt, en mannfræðin heillaði mig alls ekki og og ég sökk dýpra í einhverskonar einmanaleika og kvíða. Þegar ég hafði byrjað að taka til hjá mér sá ég að ég gæti ekki haldið þessu áfram. Eftir svolitla umhugsun settist ég niður og sótti um í bachelornám í jazzsöng við tónlistarháskólann í Piteå. Stuttu síðar fór ég svo í inntökupróf og komst inn í námið. Fyrir flesta hljómar þetta kannski mjög sjálfsagt, en fyrir ári síðar hefði ég aldrei vogað mér að sækja um í þetta nám, hvað þá mæta í inntökuprófið. Þennan dag þótti mér ég vera hugrakkasta manneskja í heimi. Ég trúði varla að ég hefði mætt í prófið og staðið mig vel. Það sem ég vissi ekki þá var að inntökuprófið var bara byrjunin á því sem myndi gjörbreyta lífi mínu að sumrinu loknu.

mynddd.jpg

Hvernig hefur lífið mitt breyst síðan ég byrjaði í skólanum?

Síðan byrjaði í skólanum hefur lífið tekið u-beygju. Nánast ekkert af því sem ég skrifaði í fyrstu færsluna mína í mars á við lengur. Þessa tæpu 3 mánuði hef ég þroskast meira en ég hef gert síðustu 3 ár. Nánast vikulega geri ég hluti sem ég var dauðhrædd við og það hefur verið verulega gefandi. Ég er í 100% námi í tónlist og syng í djassbandi í skólanum, en utan þess er ég svo hluti af djasstríói með tveimur strákum sem eru á öðru ári í skólanum, Andreas á kontrabassa og Conny á gítar. Tríóið heitir Yrja og við höfum spilað á fínasta hóteli bæjarins og á fleiri stöðum niðrí bæ. Ég hef eignast yndislega vini og tala sænsku allan daginn. Mér líður eins og ég hafi fengið sjálfa mig til baka, er farin að brosa meira og orðin mun afslappaðri í kringum fólk. Vissulega er ég oft stressuð og neikvæð, en það er ekkert í líkindum við það sem var áður, og í nánast hvert skipti sannar það sig að neikvæðnin er bara í höfðinu á mér.

Er ég þá hætt að vinna í sjálfri mér?

Alls ekki. Nú þegar mörg af mínum fyrri vandamálum eiga ekki lengur við, koma upp ný vandamál sem ég þarf að takast á við. Dæmi um þau er t.d. hvernig ég finn endalaust fyrir samviskubiti. Núna þegar ég ræð ekki lengur tíma mínum að öllu leyti sjálf fæ ég oft samviskubiti yfir því að vera ekki nógu dugleg að blogga, hreyfa mig ekki nóg eða vera ekki nógu skipulögð þegar kemur að því að elda næringarríkan og góðan kvöldmat yfir vikuna. Ég er mikið að vinna í því að læra að sætta mig við það að ég get ekki verið 100% í öllu sem ég vil gera, og oft er það erfitt.

Ég þarf líka að leggja mig mikið fram við að leifa svikaraheilkenninu ekki að stjórna mér. Það getur verið rosalega auðvelt að hugsa mikið um hvað strákarnir sem ég spila með séu góðir og reyndir og hausinn á mér reynir oft að segja mér að ég sé veikasti hlekkurinn í bandinu. Það hefur hjálpað mér mikið að tala við aðrar söngkonur í skólanum sem hafa upplifað svipaðar hugsanir, og svo er mikilvægt að minna sig á að svikaraheilkennið segir ekki satt. Það segir manni að efast um sig þegar manni gengur vel og þá er mikilvægt að læra að taka ekki alltof mikið mark á því. Þetta er eitthvað sem ég þarf að minna mig oft á og krefst það mikillar vinnu að breyta þessum hugsunarhætti.

IMG_1782.jpg

Ef ég hef lært eitthvað síðustu mánuði þá er það að ég mun líklega aldrei geta hætt að vinna í sjálfri mér. Ég myndi ekki segja að síðustu ár hafi ég alveg hætt því, en ég hunsaði ákveðin vandamál í von um að komast hjá því að vinna úr þeim. Nú þegar ég sit og skrifa þessi lokaorð er klukkan 8 og ég þarf að leggja af stað í skólann. Þegar ég lít út og dáist að sólarupprásinni átta ég mig á því að síðan ég byrjaði í skólanum hef ég ekki fengið þessa kvíðatilfinningu sem ég fékk oft áður þegar ég þurfti að vakna snemma og mæta eitthvað. Ég hef vissulega verið kvíðin fyrir því að koma fram og fleira en það er allt öðruvísi kvíði. Ég er ekki með hnút í maganum á kvöldin bara því ég þarf að mæta í skólann, heldur vakna ég glöð og fer glöð að sofa nánast á hverjum degi. Ég hlakka til að leyfa ykkur að fylgjast betur með. Það er að miklu leyti ykkur lesendum okkar að þakka hvað við höfum þroskast mikið og dafnað síðustu ár. Þið hafið sýnt okkur þvílíkt mikinn stuðning og oft stappað í okkur stálinu, bæði hérna á blogginu og á samfélagsmiðlum.

Helga María