Er ég svikahrappur?

Í mörg ár hef ég gengið um með stórt leyndarmál í brjóstinu. Það er í rauninni svo stórt að ég hef verið hrædd nánast daglega um að einhver lyfti af mér hulunni og heimurinn sjái loksins að ég er ekkert annað en einn stór brandari.

25555656_10155226570832525_938399104_n.jpg

Oft á tíðum líður mér þó einnig eins og allir hafi komist að sannleikanum fyrir löngu en enginn þori að segja neitt og taki þess vegna þátt í leikritinu; enginn vilji búa til vandræðalega stemningu. Ég hef oft verið viss um að fólkið í kringum mig horfi inn í sálina á mér og hlægi yfir því sem kemur þeim fyrir sjónir. Til að varðveita leyndarmál af þessari stærðargráðu er best að láta lítið fyrir sér fara og gera hvað sem er til að komast hjá því að lenda í aðstæðum þar sem ég get verið afhjúpuð sem svikahrappurinn sem ég er.  Það versta sem gæti gerst er að vera uppgvötuð sem svikari og útskúfuð úr samfélaginu í kjölfarið. Enginn vill hafa svikahrapp í umhverfi sínu. 

Það var síðasta haust sem ég ákvað að gefa sjálfa mig fram og játa glæpinn í fyrsta sinn. Ég sagði kærastanum frá öllu saman og endaði á orðunum ,,Þú þekkir mig því miður ekki eins vel og þú hélst" viðbúinn því að hann myndi labba út úr lífi mínu og aldrei láta sjá sig meir. Ég var í óða önn að skipuleggja leið til að taka þetta allt til baka, láta sem þetta hafi verið grín eða jafnvel próf, sem ég hefði lagt fyrir hann til að sjá hvort hann elskaði mig í alvöru, þegar hann tjáði mér að það væri í raun ég sem þekkti sjálfa mig ekki eins vel og ég hafði haldið. Hann hélt áfram og sagði mér að ég væri enginn atvinnusvikari, þvert á móti væri ég arfaslakur lygari, og það sem ég héldi að gerði mig svona einstaka væri í raun heilkenni sem hrjáir stóran hluta fólks, impostor syndrome eða blekkingarheilkennið. Ég var síður en svo tilbúin til að kaupa þessa greiningu, en eftir að hafa lesið mér vel til um heilkennið áttaði ég mig á því að eina manneskjan sem ég hafði blekkt í öll þessi ár var ég sjálf. Tilfinningarnar sem fylgdu þessari uppgvötun voru blendnar. Ég var bæði fegin því að vera ekki svikahrappurinn sem ég hélt að ég væri, en á sama tíma fór það í taugarnar á mér að ég hefði ekki heyrt um þetta fyrr eða séð í gegnum þessar hugsanir. Fyrst og fremst vissi ég þó að líf mitt yrði ekki það sama. 

Hvað er blekkingarheilkennið?

Impostor syndrome, einnig kallað fraud syndrome, lýsir sér þannig að manneskja er sífellt hrædd um að verða uppljóstruð sem fraud eða svikahrappur. Þeir sem þjást af heilkenninu eru vissir um að þeir séu svikarar og hafi með blekkingum sínum tekist að ná árangri í lífinu sem þeir eigi í raun ekki skilið. Það er sama hversu miklum árangri er náð, skýringarnar eru yfirleitt á þann veg að um heppni sé að ræða. Maður hafi einfaldlega verið á réttum stað á réttum tíma, eða það sé vegna hæfileikans í að þykjast vera klárari eða færari en maður er í raun. Því er ómögulegt að eigna sér heiður fyrir afrek sín því það eru alltaf utanaðkomandi skýringar á þeim. Blekkingarheilkennið gerir það líka að verkum að manni þykir allir meira ekta en maður sjálfur; aðrir ná árangri því þeir hafa sanna hæfileika en manni sjálfum hefði aldrei tekist hið sama því maður kemst bara ákveðið langt með því að blekkja aðra. Þannig útskýrir blekkingarheilkennið sigra jafnt sem ósigra. 
Í mörg ár sannfærði ég sjálfa mig um að ég væri stanslaust að blekkja aðra og svíkja mig í gegnum allskonar aðstæður þegar ég gerði í raun ekki nokkurn skapaðan hlut því ég var of hrædd við að allir sæju hvað ég væri mikill lúser. Þegar ég horfði svo á aðra ná þeim árangri sem mig dreymdi um skildi ég það vel, enda höfðu þau í alvörunni það sem til þurfti. 

IMG_8230.jpg

Hvað breyttist eftir að ég lærði um blekkingarheilkennið?

Margt hefur breyst, en margt er oft ennþá eins. Ég á mína daga og mín móment þar sem ég virðist gleyma öllu sem ég hef lesið og helli mér í þetta gamla viðhorf. Ég er þó yfirleitt fljót upp úr því aftur og minni mig á að nú sé ég að blekkja sjálfa mig og halda aftur að mér.  Eftir að ég fór að kynna mér heilkennið hef ég verið dugleg að koma mér í aðstæður þar sem ég þarf að berjast gegn þessum hugsunum og yfirstíga hræðsluna við hvað öðrum þyki um mig. Ég ætla ekki að ljúga að ykkur að það sé auðvelt, það er virkilega erfitt að breyta hugsun sem hefur verið manni rótgróin í mörg ár. Það er ekkert grín að ætla að byrja að segja sjálfri mér að ég eigi stóran þátt í þeim árangri sem ég hef náð og að ég eigi hann skilið. Eins er erfitt að læra að taka hrósi og stoppa röddina í hausnum þegar hún hvíslar að fólk hrósi vegna þess að það vorkenni mér fyrir að vera svona misheppnuð, eða því ég hafi talið þeim trú um að ég sé betri en ég er. Á maður bara að standa hjá brosandi og trúa því að fólk hrósi manni því maður eigi hrósin skilið? Já! Algjörlega! 

Helga María