Einn af þessum notalegu dögum

IMG_6798-7.jpg

Í dag er mánudagur. Frídagur verslunarmanna. Ég sit við eldhúsborðið í íbúðinni á Eggertsgötu sem ég er að leigja í sumar. Nánast allir sem ég þekki yfirgáfu borgina yfir helgina en ég tók meðvitaða ákvörðun um að fara ekkert. Mér líkaði tilhugsunin um að eiga rólega helgi mér sjálfri mér. Ég byrjaði daginn á að útbúa mér kaffi og smurði tvær flatkökur og borðaði úti á svölum. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér hvað flatkökur ættu eftir að verða mér dýrmætar þegar ég flytti erlendis. Þær eru eitt það sem ég sakna mest frá Íslandi og ég hef borðað ógrynni af þeim í sumar.

Ég átti notalega verslunarmannahelgi. Á laugardaginn tók ég sjálfa mig á stefnumót og eyddi deginum í miðborginni og gerði nákvæmlega bara það sem mig langaði. Ég rölti niður í bæ með tónlist í eyrunum og kíkti í Kolaportið í fyrsta sinn í nokkur ár. Ég borðaði skál mánaðarins á Gló á Laugavegi. Mexíkóskál. Skoðaði mig svo aðeins meira um og hélt svo heim. Um kvöldið fór ég út á lífið og kom seint heim svo ég leyfði mér því að eiga rólegan sunnudag sem fór að mestu í að gráta yfir Queer Eye. Í dag er ég svo búin að þvo þvott og gera fínt í íbúðinni.

unnamed (1).jpg

Nú sit ég hér við eldhúsborðið og var rétt í þessu að setja á plötuna Night Lights með Gerry Mulligan. Mér þykir gott að hlusta á Mulligan þegar ég les eða skrifa og þessi ákveðna plata fær mig til að hugsa um haustið. Mína uppáhalds árstíð. Árstíðina þar sem sem allt fær svo fallegan lit og loftið verður ferskt og svalt. Ég hef ekki alltaf haft ástæðu til að hlakka til haustsins. Ég held ég hafi sjaldan haft jafn margar ástæður og nú. Eftir nokkur ár í Svíþjóð get ég loksins sagt, án þess að finnast ég vera að segja ósatt, að þar eigi ég heima og að þar eigi ég líf og framtíð. Eftir tæpan mánuð flýg ég heim til Sigga og allra vina minna. Skólinn byrjar og mér finnst ég fullkomlega tilbúin að takast á við þau spennandi verkefni og tækifæri sem bíða mín. Ég gaf sjálfri mér loforð um að þetta skólaárið ætli ég að þora að taka meira pláss sem tónlistarkona og byrja að trúa því að ég eigi plássið skilið. “Hah, gangi þér vel” heyri ég sjálfa mig segja í hljóði.

Það er kominn ágúst. Fimmti ágúst, tvöþúsundognítján. Sumarið hefur liðið hraðar en nokkurtíman fyrr. Þetta sumarið bý ég á Íslandi. Ég hef ekki eytt sumrinu á Íslandi síðan fyrir fjórum árum og því hefur mér svolítið liðið eins og ég sé í löngu fríi. En bráðum er sumarið búið og ég flýg heim til Piteå. Ég hlakka mikið til. Þegar ég er komin heim til Sigga mun ég svo sitja við eldhúsborðið á Ankarskatavägen og minnast sumarsins sem er það besta sem ég hef átt í mörg ár. En ekki alveg strax, því enn er tæpur mánuður eftir af Íslandsdvölinni. Ágúst. Mánuðurinn þar sem við Júlía skilum af okkur öllu efni fyrir bókina okkar. Bókina sem okkur hefur dreymt svo lengi um að búa til. Framundan eru vikur sem munu að mestu einkennast af skrifum og myndatökum og bakstri og eldamennsku. Og ég gæti ekki verið hamingjusamari.

Helga María