Gómsæt súpa með gnocchi, baunum og grænmeti

Gnocchisúpa-med-grænmeti-og-baunum

Í dag deili ég með ykkur uppskrift að gómsætri súpu með gnocchi, baunum og grænmeti. Hin fullkomna haustsúpa að mínu mati. Hún er bæði dásamlega góð, vermir bæði líkama og sál og tekur undir 30 mínútur að útbúa. Ég mæli með því að bera súpuna fram með góðu brauði og toppa með heimagerðum kasjúparmesan.

Gnocchisúpa-med-grænmeti-hráefnamynd

Ég hef alltaf elskað að elda góðar súpur. Það er eitthvað svo róandi við að standa og skera niður grænmeti sem fær svo að malla í stórum potti. Súpur og pottréttir eru einnig frábær leið til að nýta grænmeti, kornvörur og baunir sem til eru heima. Þessi súpa er einmitt dæmi um það. Það er hægt að skipta grænmetinu út fyrir það sem þið eigið til heima, baununum má auðvitað skipta út fyrir aðra tegund af baunum og gnocchi er hægt að skipta út fyrir annað pasta. Mér finnst t.d. mjög gott að brjóta lasagnaplötur út í súpuna.

Hráefnin sem ég notaði í súpuna eru:

  • Niðursoðnir tómatar

  • Laukur

  • Gulrætur

  • Sellerí

  • Hvítlaukur

  • Grænmetiskraftur

  • Gnocchi

  • Cannellini baunir (sem má skipta út fyrir hvaða baunir sem er, t.d. kjúklingabaunir, pintobaunir eða smjörbaunir)

  • Balsamikedik

  • Fersk basílika

  • Ferskt timían

  • Þurrkaðar kryddjurtir

  • Salt, pipar og chiliflögur

Ert þú mikið fyrir súpur og vantar fleiri hugmyndir? Þá eru hérna nokkrar hugmyndir:

Rjómakennd vegan lasagnasúpa

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý

Uppáhalds linsubaunasúpan okkar

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin vel!

-Helga María <3

Gósmæt súpa með gnocchi, baunum og grænmeti

Gósmæt súpa með gnocchi, baunum og grænmeti
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • Ólífuolía eða önnur olía að steikja í
  • 1 meðalstór laukur
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 2 gulrætur
  • 2 sellerístilkar
  • 2 dósir niðursoðnir tómatar
  • 2 grænmetisteningar
  • 1.5 líter vatn
  • 2 tsk balsamikedik
  • 1 tsk þurrkað oregano
  • 1/2 tsk þurrkað marjoram
  • 2 msk ferskt timían
  • 2 msk fersk basílika
  • 1 dós baunir (ég notaði cannellinibaunur en það er ekkert mál að skipta þeim út fyrir t.d. kjúkligabaunir, pintobaunir eða smjörbaunir)
  • 1 pakki (ca 500g) gnocchi - passa að það sé vegan. Ég mæli með því frá Rana

Aðferð:

  1. Skerið niður lauk, gulrætur og sellerí.
  2. Steikið upp úr olíu í nokkrar mínútur eða þar til grænmetið hefur mýkst aðeins.
  3. Pressið hvítlaukinn og steikið í nokkrar mínútur.
  4. Bætið oregano og marjoram út í og hrærið.
  5. Bætið tómötum, vatni, grænmetisteningum, balsamikediki og ferskum jurtum og leyfið súpunni að malla í 15 mínútur.
  6. Bætið gnocchi og baunum saman við og leyfið súpunni að malla í 5 mínútur í viðbót eða þar til gnocchi-ið er mjúkt í gegn.
  7. Berið fram með góðu brauði
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur