Bökuð vegan kókosostakaka með rjómaostakremi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að undursamlega góðri bakaðri vegan kókosostaköku toppaðri með dúnmjúku rjómaostakremi og ristuðu kókosmjöli. Hin fullkomna ostakaka að bjóða uppá í matarboðinu, saumaklúbbnum eða við önnur tilefni. Ostakaka slær alltaf í gegn!

Færsla dagsins er í samstarfi við Pólókex frá Frón. Við systur elskum og höfum alltaf elskað Pólókex. Það gladdi okkur mikið þegar við urðum vegan og komumst að því að Póló er vegan. Það var nánast eina kexið sem var laust við mjólk og egg á þeim tíma. Þið vitið það eflaust öll en Póló er kókoskex með súkkulaðihjúp og um leið og þau heyrðu í okkur varðandi samstarf fékk Júlía hugmynd um að gera kókosostaköku og nota Pólókex í botninn.

Það eru nú þegar nokkrar uppskriftir hérna á blogginu af frosnum ostakökum og það var kominn tími til að birta bakaða ostaköku og við vonum svo innilega að ykkur muni líka þessi uppskrift eins mikið og okkur. Pólókexið, kókosfyllingin og rjómaostakremið passar svo ótrúlega vel saman og kexið var svo sannarlega fullkomið í svona botn.

Uppistaðan í sjálfri fyllingunni er silkitófú, kasjúhnetur og condensed kókosmjólk. Það reka eflaust einhverjir upp stór augu við að lesa að kakan innihaldi tófú, en við lofum ykkur að hún smakkast ekkert eins og tófú. Tófúið er notað fyrir áferðina á kökunni og þið finnið ekki bragð af því. Condense kókosmjólk fæst í Krónunni, Nettó og Vegan búðinni og gefur fyllingunni sætt kókosbragð.

Ostakakan er svo toppuð með rjómaostakremi sem er gert úr vegan rjómaosti, þeytirjóma og ristuðu kókosmjöli. Kremið er sett á þegar kakan hefur kólnað. Dásamlega gott!

takk innilega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki uppskriftin vel! <3

-Júlía Sif

Bökuð kókósostakaka

Bökuð kókósostakaka
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 30 MinEldunartími: 60 Min: 1 H & 30 M
Unaðsleg bökuð ostakaka með pólókexbotni og kókoskeim.

Hráefni:

Pólókexbotn
  • 200 gr pólókex
  • 60 gr vegan smjör eða smjörlíki
Kókosfylling
  • 300 gr silkitófú
  • 200 gr kasjúhnetur
  • 1 dós condensed kókosmjólk (320 gr)
  • 3/4 dl hlynsíróp
  • 1/2 dl flórsykur
  • 1/4 tsk salt
  • 1 1/2 dl kókosmjöl
Rjómaostakrem
  • 1 dl þeytirjómi
  • 1/2 dl vegan rjómaostur
  • 2-3 msk ristað kókosmjöl

Aðferð:

Pólókex botn
  1. Setjið kexið í matvinnsluvél eða blandara og malið saman
  2. Blandið smjörlíkinu saman við kexið með höndunum þar til það hefur blandast vel saman.
  3. Setjið bökunarpappír í botninn á smelluformi og þjappið fyllingunni vel í botninn.
  4. Bakið við 180°C í 10 mínútur.
  5. Takið úr ofninum og setjið til hliðar þar til fyllingin er tilbúin.
Kókosfylling
  1. Setjið öll hráefnin nema kókosmjölið í öflugan blandara og blandið vel þar til fyllingin verður silkimjúk
  2. Blandið kókosmjölinu saman við með sleikju
  3. Hellið ofan á kexbotninn og bakið við 160°C í 50 mínútur.
  4. Takið kökuna út og leyfið henni að kólna alveg í forminu áður en hún er tekin úr.
  5. Kakan er mjög mjúk þegar hún kemur úr ofninum svo það þarf að láta hana alveg vera þar til hún hefur kólnað alveg, eða í allavega 4 klst.
Rjómaostakrem
  1. Þeytið rjóman og bætið síðan rjómaostinum saman við og þeytið aðeins áfram.
  2. Smyrjið yfir kökuna.
  3. Ristið smá kókosmjöl í nokkrar mínútur á þurri pönnu.
  4. Stráið yfir kökuna og berið fram.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Pólókex frá Frón-