Kúskússalat með hummus og ristuðum kjúklingabaunum

Í deilum við með ykkur uppskrift að kúskússalati bornu fram með gómsætum hummus og ristuðum kjúklingabaunum. Fullkomið að bera fram með góðu brauði eins og heimapökuðu pönnubrauði, vefjum eða pítubrauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Til hamingju og ég notaði kúskús og ristuð graskersfræ frá þeim í salatið. Við elskum vörurnar frá Til hamingju og notum þær mikið í matargerð og bakstur hérna heima.

Kúskús er virkilega þægilegt að nota í matargerð þar sem það krefst lítillar sem engrar fyrirhafnar. Mér finnst best að hella því í skál og hella sjóðandi vatni ásamt ólífuolíu og salti og leggja lok eða disk yfir. Ég leyfi því að standa í 10-15 mínútur og hræri aðeins í því þegar tíminn er hálfnaður. Kúskús er svo hægt að nota á allskonar vegu, t.d. í allskonar salöt, pottrétti og sem meðlæti.

Salatið sem ég gerði í þetta skipti inniheldur kúskús, tómata, papriku, gúrku, rauðlauk, grænar ólífur, ristuð graskersfræ, steinselju, vegan fetaost, ólífuolíu, sítrónusafa, salt og chiliflögur. Einstaklega gott og ferkst hvort sem það er borðað eitt og sér eða með hummus, ristuðum kjúkligabaunum og brauði eins og ég gerði.

Ég einfaldlega smurði hummusnum á stórt fat og toppaði með ristuðu kjúklingabaununum og kúskússalatinu. Svo toppaði ég með chiliolíu, ólífuolíu, reyktri papriku, kúmmin, salti, pipar og aðeins meiri steinselju. Ég bar þetta svo fram með Liba brauði sem ég steikti á pönnu. Dásamlega gott!

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur muni líka vel! <3

-Helga María

Kúskússalat með hummus og ristuðum kjúklingabaunum

Kúskússalat með hummus og ristuðum kjúklingabaunum
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Kúskússalat
  • 3 dl kúskús frá Til hamingju
  • 4 dl vatn
  • 1 msk ólífuolía + meira til að hella yfir salatið seinna
  • sjávarsalt
  • 1,5 dl ristuð graskersfræ frá Til hamigju
  • 1,5 dl niðurskornir kirsuberjatómatar (ath að grænmetið og magnið sem ég nefni er einungis hugmynd um hvað er hægt að setja í salatið, það má velja bara það sem til er heima eða skipta út hverju sem er)
  • 1,5 dl niðurskorin gúrka
  • 1,5 dl niðurskorin paprika
  • 1,5 dl niðurskornar grænar ólífur
  • 1 dl niðurskorinn rauðlaukur
  • 1,5 dl niðurskorin steinselja
  • 1,5 dl vegan fetaostur
  • Salt og chiliflögur
Hummus
  • 3 dósir kjúklingabaunir skolaðar
  • 2 dl tahini (ég mæli með að kaupa ekta tahini frá t.d. Instanbul market. það er langbest að mínu mati)
  • 3 hvítlauksgeirar
  • Safi úr enni sítrónu
  • 1/2-1 tsk kúmmín (má sleppa)
  • Salt eftir smekk. Mér finnst gott að salta hummusinn vel
  • 2 klakar
  • ískalt vatn eftir þörfum. Mér finnst gott að hafa vatn með klökum og bæta við 1 msk í einu ef hummusinn er of þykkur. Það fer mikið eftir bæði tahini og merki á baununum hversu þykkur hann er.
  • Hlutir sem gott er að toppa hummusinn með: chiliolía, ólífuolía, meira kúmmín, reykt papríkuduft.
Ristaðar kjúklingabaunir
  • 1 dós kjúklingabaunir
  • 1 msk harissamauk
  • 1/2 tsk hvítlauksduft
  • 1/2 tsk laukduft
  • 1 tsk reykt papríka
  • salt og pipar
  • Olía

Aðferð:

Kúskússalat
  1. Hellið kúskús í stóra skál og hellið sjóðandi vatni yfir ásamt ólífulolíu og salti og leggið lok eða disk yfir. Hrærið í eftir sirka 5 mínútur og svo aftur þegar þið ætlið að bæta restinni af hráefnunum út í.
  2. Leyfið að kólna, bætið svo restinni af hráefnunum saman við og smakkið til með salti og pipar.
Hummus
  1. Skolið kjúklingabaunirnar og setjið í matvinnsluvél ásamt restinni af hráefnunum. Bætið vatni við eftir þörfum á meðan matvinnsluvélin vinnur.
  2. Bætið við salti og kryddum eftir smekk.
  3. Smyrjið á fat og toppið með kúskússalatinu og ristuðu kjúklingabaununum.
Ristaðar kjúklingabaunir
  1. Skolið kjúklingabaunirnar í sigti og setjið í skál. Ég reyni að þurrka þær aðeins með viskastykki.
  2. Bætið harissamaukinu og kryddunum saman við.
  3. Steikið upp úr olíu í 10 mínútur eða þar til baunirnar eru orðnar stökkar að utan.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Uppskriftin er í samstarfi við Til hamingju-