Jólamatur með sænsku ívafi

IMG_2277-2.jpg

Nú hef ég búið í Svíþjóð í nokkur ár og fengið ótrúlega góðan sænskan jólamat. Þess vegna langar mig að deila með ykkur hugmynd af jólamat með sænsku ívafi. Í Svíþjóð er boðið upp á julbord eins og það kallast og er borðið fyllt af allskonar kræsingum. Ég ákvað að útbúa nokkrar uppskriftir sem eru innblásnar af sænsku jólaborði, en það er þó fullt sem vantar hjá mér. Ég hugsaði þessar uppskriftir sem góðar hugmyndir að meðlæti um jólin, eða fyrir þá sem vantar hugmyndir fyrir jólaboðið.

IMG_2244.jpg

Sænskar veganbollur eru eitt af því sem er ómissandi á sænsku vegan jólaborði (ég notaði þær frá Hälsans Kök. Það gæti mörgum þótt það furðulegt og svolítið óhátíðlegt, en þær voru rosalega góðar með öllu meðlætinu. Á borðinu eru svo vanalega “prinskorvar” sem eru litlar pylsur sem steiktar eru á pönnu, og stór jólaskinka. Vegan pylsurnar frá Anamma væru mjög sniðugar sem prinskorv og svo er hægt að gera allskonar í staðinn fyrir jólaskinkuna. Það er bæði hægt að búa til sína eigin úr seitan, kaupa tilbúna úti í búð, eða gera ofnbakað blómkál eða rótarsellerí sem er mjög vinsælt hjá vegan fólki hérna í Svíþjóð.

IMG_2253.jpg

Mér finnst ekkert smá gaman að prufa eitthvað nýtt um jólin. Við sem erum vegan erum í því að búa til nýjar hefðir og vantar oft hugmyndir af einhverju hátíðlegu fyrir jóladag, annan í jólum, gamlárskvöld og öll jólaboðin. Við erum yfirleitt löngu búin að ákveða hvað við ætlum að hafa á aðfangadagskvöld, en þurfum meira að spá í öllum hinum dögunum.

IMG_2255.jpg
IMG_2257-2.jpg

Ég hélt mín fyrstu vegan jól árið 2011 og þá var úrvalið af vegan mat allt annað en þekkist í dag. Þá var það mjög vanalegt að grænkerar borðuðu hnetusteik við öll hátíðleg tilefni. Þegar ég var búin að borða hnetusteikina aðfangadagskvöld, jóladag og annan í jólum var ég oft komin með smá ógeð og fannst því ekkert svakalega spennandi að hafa hana aftur á gamlárs. Í dag erum við svo heppin að hafa endalaust úrval af skemmtilegum vörum og uppskriftum til að prufa eitthvað nýtt.

IMG_2263.jpg

Ég er búin að ákveða að hafa sveppasúpu í forrétt og innbakað Oumph! á aðfangadagskvöld, en uppskriftirnar finniði hér á blogginu. Á jóladag er ég svo að spá í að gera svona sænskt jólaborð en ætla að bæta við heilbakaðri sellerírót með gljáa. Ég er svo að spá í að gera tartaletturnar sem ég birti um daginn á gamlárskvöld. Svo ætlum við að baka lakkrístoppa og mögulega laufabrauð á næstu dögum. Í desert ætla ég að hafa ís einhverja daga, en svo ætla ég að útbúa vegan frysta ostaköku á gamlárs og stefni á að birta uppskrift af henni fyrir áramótin. Við erum þó nú þegar með tvær uppskriftir af gómsætum ostakökum nú þegar á blogginu. Eina svona frysta og aðra úr kasjúhnetum.

IMG_2276.jpg

Vegan jólaborð

Á disknum er ég með:

Kartöflugratín

Rósakál með möndlum og appelsínuberki

Rauðrófu- og eplasalat

Rauðvínssósu

Vegan síld á hrökkbrauði

Vegan kjötbollur frá Hälsans Kök

Grænkál sem ég steikti á pönnu uppúr sinnepi, Oatly rjóma, salti og pipar

Njótið
Veganistur