Hummus með krydduðu hakki

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að hummus með krydduðu steiktu hakki, tómötum, lauk, steinselju, ristuðum furuhnetum og ólífuolíu. Þennan rétt er tilvalið að bera fram með volgu pítubrauði, steiktu pönnubrauði eða vefjum. Fullkomið þegar þið viljið gera hummusinn ykkar aðeins matarmeiri.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og við notuðum að sjálfsögðu hakkið frá þeim í uppskriftina. Við notum vörurnar frá Anamma virkilega mikið og hakkið þeirra er að okkar mati það langbesta á veganmarkaðnum. Við erum því alltaf jafn stoltar af því að fá að vinna með þeim.

Við systur elskum að útbúa stóran skammt af hummus og nota á brauð og í matargerð. Það er til dæmis virkilega gott að gera pastasósu úr hummus, en sósan verður virkilega rjómakennd og góð. Eins gerir hann samlokur og vefjur seðjandi og góðar. Í uppskrift dagsins má auðvitað nota keyptan hummus, það er líka dásamlega gott, en við mælum auðvitað mikið með að útbúa hann sjálf því það er bæði betra að okkar mati og ódýrara.

Eins og ég sagði er þetta hin fullkomna leið til að gera hummusinn matarmeiri. Ég smakkaði svipaðan rétt á veitingastað erlendis fyrir mörgum árum og varð mjög hrifin. Mér finnst mjög gott að toppa hummus með allskonar góðgæti.

Ef þið viljið fleiri hugmyndir mæli ég með þessu kúskússallati með hummus og steiktum kjúklingabaunum.

Ofan á hakkið settum við tómata, lauk, tabascosósu, ristaðar furuhnetur, steinselju og slatta af ólífuolíu. Það er auðvitað hægt að toppa með öllu því sem ykkur þykir gott, eða bera fram með salati. Ég get líka ímyndað mér að það sé mjög gott að setja smá tahinisósu yfir allt saman.

Takk kærlega fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki uppskriftin.

Veganistur

Hummus með steiktu hakki

Hummus með steiktu hakki
Fyrir: 4-6
Höfundur: Helga María
Dásamlegur hummus með krydduðu steiktu hakki, tómötum, lauk, steinselju, ristuðum furuhnetum og ólífuolíu. Þennan rétt er tilvalið að bera fram með volgu pítubrauði, steiktu pönnubrauði eða vefjum. Fullkomið þegar þið viljið gera hummusinn ykkar aðeins matarmeiri.

Hráefni:

Steikt hakk:
  • Olía að steikja upp úr
  • 1 poki hakk frá Anamma
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 tsk malað kóríanderkrydd
  • 1 tsk malað broddkúmen
  • 1 tsk paprikuduft
  • 1 tsk laukduft
  • 1/2 tsk kanill
  • Salt og pipar
  • 1/2-1 dl vatn
Hummus:
  • 3 dósir kjúklingabaunir skolaðar
  • 2 dl tahini (ég mæli með að kaupa ekta tahini frá t.d. Instanbul market. það er langbest að mínu mati)
  • 3 hvítlauksgeirar
  • Safi úr enni sítrónu
  • 1/2-1 tsk broddkúmen
  • Salt eftir smekk. Mér finnst gott að salta hummusinn vel
  • 2 klakar
  • ískalt vatn eftir þörfum. Mér finnst gott að hafa vatn með klökum og bæta við 1 msk í einu ef hummusinn er of þykkur. Það fer mikið eftir bæði tahini og merki á baununum hversu þykkur hann er.
  • Hlutir að toppa með: Steikta hakkið, tómatar, laukur, tabascosósa, fersk steinselja eða kóríander, ristaðar furuhnetur, ólífuolía.
  • Gott að bera fram með: Pítubrauði, djúpsteiktum pítuflögum, vefjum, steiktu pönnubrauði.

Aðferð:

Steikt hakk:
  1. Hitið olíu á pönnu.
  2. Bætið hakkinu út á og steikið í sirka 2 mínútur.
  3. Bætið pressuðum eða rifnum hvítlauk út á ásamt kryddunum og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.
  4. Bætið vatninu á pönnuna og steikið þar til það er gufað upp og hakkið orðið tilbúið.
Hummus:
  1. Skolið kjúklingabaunirnar og setjið í matvinnsluvél ásamt restinni af hráefnunum. Bætið vatni við eftir þörfum á meðan matvinnsluvélin vinnur.
  2. Bætið við salti og kryddum eftir smekk.
  3. Smyrjið á fat og toppið með hakkinu og því sem ykkur langar í. Hugmyndir sjáiði hér að ofan.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

Vefjur með falafel, hummus og chili-mæjó

IMG_9277-2.jpg
IMG_9227-2.jpg

Nú er janúar að líða undir lok sem þýðir að Veganúar fer að klárast. Okkur hefur þótt virkilega gaman að sjá hversu margir eru að taka þátt í ár og við hvetjum að sjálfsögðu alla til að halda áfram. Eins þætti okkur gaman að heyra hvernig ykkur hefur gengið í Veganúar og hvaða matur ykkur hefur þótt standa fram úr. 

IMG_9252-2.jpg
IMG_9260.jpg

Þessi færsla er sú síðasta í samstarfi okkar við Krónuna í Veganúar en okkur fannst tilvalið að enda á falafel vefjum sem eru í miklu uppáhaldi hjá okkur. Falafel eru bollur gerðar úr kjúlingabaunum og allskyns kryddum. Bollurnar eiga uppruna sinn að rekja til Egyptalands og eru yfirleitt borðaðar í pítubrauði eða vefjum. Okkur þykir best að borða falafel í vefju, með hummus, grænmeti og sterkri sósu. 

IMG_9275-3.jpg
IMG_9287.jpg

Hér er listinn yfir hráefnin. Það er svolítið erfitt að lista niður hlutföll því það er misjafnt hvað fólk vill setja mikið í vefjurnar sínar og hvort fólk borðar fleiri en eina vefju. 

  • Vefjur - Við mælum með þeim frá Planet Deli og Banderos

  • Falafelbollur frá Hälsans Kök - Pakkinn er 300g og miðast við þrjá fullorðna

  • Hummus frá Tribe 

  • Salat að eigin vali

  • Rauðlaukur (má sleppa)

  • Kirsuberjatómatar (má sleppa)

  • Sriracha mæjó frá Flying goose

  1.  Eldið falafelbollurnar eftir leiðbeiningum á pakkanum. Það er bæði hægt að steikja þær á pönnu eða í bakaraofni og við mælum með því síðarnefnda. 

  2. Hitið vefjurnar í nokkrar sekúndur í ofninum eða í örbylgjuofni

  3. Smyrjið vefjuna með hummus, raðið falafelbollunum og því grænmeti sem ykkur lystir ofan á og endið svo á sriracha mæjóinu. Það er virkilega bragðgott en heldur sterkt svo við mælum með að setja ekki of mikið til að byrja með. 

  4. Rúllið vefjurnar upp og njótið!

Veganistur

 

krónan.png

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar