Vegan grænmetisbollur með grænu pestó

Nú er komið nýtt ár og því fylgir að sjálfsögðu veganúar. Margir hafa sett sér ný markmið og sumir með það markmið að gerast vegan eða minnka dýraafurðaneyslu. Okkur finnst þessi mánuður alltaf jafn skemmtilegur og fáum við mikið að skilaboðum frá fólki sem er að byrja að vera vegan sem er alltaf jafn gaman. Við ætlum því að sjálfsögðu að vera duglegar að deila með ykkur nýjum sem gömlum uppskriftum núna í janúar sem og alls konar öðrum fróðleik. Við mælum að sjálfsögðu með að allir fylgi okkur á Instagram þar sem við erum duglegar að sýna frá alls konar vegan tengdu.

Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur í dag er af ótrúlega auðveldum og hollum grænmetisbollum með grænu pestói. Þessar bollur eru virkilega bragðgóðar og hægt er að bera þær fram á alls konar vegu. Það er einnig auðvelt að gera þær í stóru magni og mæli ég með að gera til dæmis þrefalda eða fjórfalda uppskrift og setja í frysti. Ég elska að eiga til góða og holla rétti í frystinum sem ég get gripið í þegar ég hef ekki mikinn tíma til að elda.

Í bollunum er, ásamt hnetum og baunum, grænt pestó sem gerir þær ótrúlega bragðmiklar og góðar. það þarf því ekkert að krydda þær aukalega þar sem basil-hvítlauksbragðið af pestóinu skín vel í gegn. Bollurnar eru stútfullar af góðum næringarefnum úr baununum og hnetunum og auðvelt er að gera þær glútenlausar með því að nota glútenlaust brauðrasp.

Bollurnar má bera fram á ótal vegu. Ég ber þær mjög oft fram með rjómapasta, en þá sýð ég gott pasta, geri einfalda rjómasósu á pönnu með vegan rjóma, rjómaosti, hvítlauk og grænmetiskrafti. Velti pastanu síðan upp úr sósunni og ber bollurnar fram með. Þá mæli ég með að hafa grænt pestó með sem hægt er að setja út á og jafnvel vegan parmesanost og hvítlauksbrauð.

Bollurnar henta einnig fullkomlega með kaldri sósu og grænmeti, hvort sem það er í pítubrauði, vefju eða með hrísgrjónum til dæmis. Þær má einnig borða kaldar og henta því mjög vel sem nesti.

Pestó grænmetisbollur (20-24 litlar bollur)

  • 1 dós pinto baunir

  • sirka 2 bollar eða 2 lúkur spínat, eða eftir smekk

  • 1 dl malaðar kasjúhnetur

  • 1/2 krukka grænt vegan pestó frá Sacla Italia

  • 1/4 laukur

  • 1 1/2 dl brauðrasp

  • 1/2 tsk salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að vinna kasjúhneturnar í blandara eða matvinnsluvél þar til fínmalaðar, setjið til hliðar.

  2. Setjið spínatið í blandarann eða matvinnsluvélina og maukið, bætið pinto baununum út í og maukið gróflega saman.

  3. Saxið laukinn mjög smátt og hrærið öllum hráefnunum saman í skál.

  4. Mótið kúlur eða buff úr deiginu en það á að vera þannig að þið getið meðhöndlað það í höndunum. Ef það er of blautt má bæta aðeins við af brauðraspi.

  5. Bakið við 200°C í 20 mínútur.

-Tillögur af því hvernig bera megi fram bollurnar má finna í færslunni hér að ofan. Njótið vel.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -

 
 

Vegan hakkabuff með rjómakenndri lauksósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af einföldu vegan hakkabuffi með lauksósu og kartöflugratín. Einfaldur heimilismatur sem er bragðgóður og saðsamur. Mér finnst best að bera hakkabuff fram með rjómakenndri lauksósu og annaðhvort kartöflugratíni eða soðnum kartöflum. Þegar ég spái í því held ég að allar kartöflur passi með hvort sem það eru þær sem ég hef þegar nefnt eða kartöflumús, franskar eða ofnbakaðar. Súrar gúrkur og sulta er svo “möst” að mínu mati. Ég notaði sænska títuberjasultu en rifsberjasulta myndi einnig passa fullkomlega með!

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi. Formbar hakkið frá þeim er það allra besta í svona hakkabuff. Það er ólikt venjulegu vegan hakki að því leiti að auðvelt er að móta það í buff, bollur eða borgara án þess að þurfa að nota önnur bindiefni með. Það er því nóg að krydda eftir smekk, forma buff og elda. “Formbar” hakkið fæst í Hagkaupum, Vegan búðinni, Fjarðarkaupum og Melabúðinni.

Eitt af markmiðum mínum fyrir komandi ár er að vera dugleg að birta uppskriftir af góðum hversdagslegum heimilismat sem er einfaldur en á sama tíma bragðgóður og spennandi. Við viljum að grænkerar hafi endalaust af hugmyndum af góðum mat að elda og elskum að deila með ykkur uppskriftum af gómsætum vegan mat.

Sjáið þennan fallega steikta lauk. Hann gefur sósunni svo gómsætt bragð.

Það er svo ótrúlega auðvelt að útbúa þessi gómsætu vegan hakkabuff og ég elska að leyfa þeim að malla aðeins í rjómakenndri lauksósunni í lokinn.

Vegan hakkabuff með rjómakenndri lauksósu

Hráefni:

  • Olía til steikingar

  • 500 gr formbar hakk frá Anamma (hakkinu leyft að þiðna þar til það er kallt eins og úr ísskáp)

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 msk fljótandi grænmetiskraftur eða 1/2 grænmetisteningur muldur niður

  • 1 msk sojasósa

  • 1 msk vegan matreiðslurjómi

  • 1 msk gróft sinnep

  • Salt og pipar eftir smekk

Lauksósa:

  • Olía að steikja upp úr

  • 1 mjög stór laukur eða 2 venjulegir

  • 400 ml vegan matreiðslurjómi

  • 1/3 teningur sveppakraftur eða grænmetiskraftur

  • 1/2-1 tsk sojasósa

  • 1 tsk þurrkað timían

  • Salt og pipar eftir smekk (farið varlega í saltið því bæði sveppakrafturinn og sojasósan gefa mikla seltu)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að gera buffin tilbúin til steikingar. Látið hakkið þiðna en hafið það þó kalt þegar þið meðhöndlið það. Ef það nær of miklum hita verður erfiðara að móta það. Ég miða við að það sé við það hitastig sem það væri beint úr kæliskáp. Þetta tekur 30-40 mínútur. Ég hef þó sjálf sett hakkið í örbylgjuna á afþýðingu ef ég lendi í stressi og það skemmdi alls ekki fyrir.

  2. Setjið hakkið í skál ásamt restinni af hráefninum og blandið saman með höndunum. Mótið 4 buff og leggið til hliðar.

  3. Skerið laukinn niður í þunna strimla og steikið á pönnu uppúr olíu. Saltið laukinn örlítið svo hann svitni vel. Leyfið honum að steikjast í nokkrar mínútur þar till hann fær gylltan og fínan lit. Takið hann þá af pönnunni og leggið til hliðar en þrífið pönnuna ekki því við steikjum buffin beint á henni og laukurinn gefur bara gott bragð.

  4. Bætið við meiri olíu á pönnuna og steikið buffin á meðalháum hita þar til þau eru vel steikt á báðum hliðum. Þau eru svolítið þykk svo það þarf að passa að þau séu steikt í gegn. Þau eiga að hafa fengið meira “þétta” áferð þegar potað er í þau.

  5. Bætið lauknum aftur á pönnuna með buffunum og bætið við restinni af sósuhráefnunum og hrærið svo hún blandist vel. Ég myl niður sveppakraftinn svo hann blandist auðveldlega í sósuna. Piprið eftir smekk og saltið smá þó það sé að mínu mati ekki þörf á miklu salti.

  6. Berið fram með meðlæti að eigin vali. Ég hafði með þeim súrar gúrkur, títuberjasultu og kartöflugratín, en uppskriftina af gratíninu finniði HÉRNA.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið!

-Helga María

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Mexíkóskar chorizo kjötbollur

Eins og flestir sem skoða bloggið okkar eða fylgjast með okkur á Instagram vita, þá elskum við systur mexíkóskan mat mjög mikið. Ég er líklega með einhvers konar mexíkóskan mat í kvöldmatinn í hverri viku og er ég alltaf að prófa að gera nýjar útfærslur á uppáhalds uppskriftunum mínum.

Ég er lengi búin að ætla að gera uppskrift af einhvers konar kjötbollum með svörtu doritosi og eftir að ég gerði ofnbakað nachos með chorizo pylsunum frá Anamma í fyrra datt mér í hug að þær myndu passa fullkomlega í kjötbollurnar.

Ég notaði því formbar hakkið frá Anamma, sem er lang besta hakkið til að gera bollur og borgara að mínu mati, ásamt chorizo pylsunum í bollurnar. Þessi tvenna kom virkilega vel út en pylsurnar eru mjög bragðmiklar og gera bollurnar extra bragðgóðar.

Þessi uppskrift er alls ekki flókin og má nota hana til að gera bollur, borgara eða sem einskonar “fyllingu” ofan á nachos eða í quesadilla. Ég bakaði mínar í ofni og bar þær fram með hrísgrjónum og guacamole en það er einnig mjög gott að steikja þær og nota í vefjur.

IMG_9884.jpg

Hráefni (fyrir 4-5) :

  • 350 gr formbar anamma hakk

  • 2 stk chorizo pylsur frá anamma

  • 1/2 rauðlaukur

  • 2 hvítlauksrif

  • 1/2 dl rifinn vegan ostur

  • 1/2 dl mulið svart doritos

  • 1/2 dl niðursaxað kóríander

  • 1 msk mexíkósk kryddblanda (t.d. taco krydd eða mexican fiesta

  • 1 tsk salt.

Aðferð:

  1. Leyfið Anamma hakkinu og chorizo pylsunum að þiðna áður en byrjað er að hræra restinni af hráefnunum saman við. Ég nota oftast örbylgjuofn til að þíða “kjötið”.

  2. Saxið niður rauðlaukinn og kóríanderinn, myljið svarta doritosið og pressið hvítlaukinn.

  3. Stappið chorizo pylsurnar með gaffli og hrærið saman við hakkið ásamt restinni af hráefnunum.

  4. Mótið bollur eða fjóra hamborgara úr hakkinu.

  5. Steikið bollurnar eða hamborgarana upp úr smá ólífuolíu í nokkrar mínútur á hverri hlið eða eldið þær í bakarofni í sirka 15 mínútur við 210°C.

  6. Ég hrærði 1 krukku af salsasósu saman við 1/2 dl af vatni, hellti yfir bollurnar og setti rifin vegan ost yfir. Þetta bakaði ég síðan í 15 mínútur í 210°C heitan ofn.

Það er fullkomið að bera þessar bollur fram með hrísgrjónum, guacamole og fersku salati eða með því meðlæti sem hver og einn kýs að nota.

Þessi uppskrift hentar fullkomlega í að gera mexíkóska hamborgara en ég setti quacamole, salsasósu, ferskt grænmeti, jalapeno og tortilla flögur á minn borgara.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi.

 
anamma_logo.png
 

Vegan kjötbollur með ritz og döðlum

IMG_6487.jpg

Við erum loksins mættar aftur með nýja uppskrift fyrir ykkur. Síðustu mánuðir hafa verið ansi viðburðarríkir, en við vildu einbeita okkur að því að klára önnina í skólanum og gera það eins vel og við gætum. Júlía tók nokkur próf og Helga hélt tvo lokatónleika og spilaði nokkur gigg. En nú eru skólarnir komnir í sumarfrí og við báðar byrjaðar á fullu í sumarvinnunum okkar. Ég (Helga) er stödd á Íslandi og verð þar í sumar þar sem það eru mjög spennandi verkefni framundan hjá okkur systrum. Við hlökkum mikið til að deila því öllu með ykkur og ég viðurkenni það alveg að það er svakalega gott að fá smá tíma núna í sumar til að sinna Veganistum saman en ekki úr sitthvoru landinu.

IMG_6489.jpg

Í júní erum við í samstarfi við Anamma, en það vita það flestir sem hafa skoðað bloggið okkar eða fylgjast með okkur á samfélagsmiðlum að við elskum vörurnar þeirra. Ég byrjaði að fylgjast svolítið með þessu fyrirtæki þegar ég flutti til Svíþjóðar, en þau eru einmitt þaðan, og mér finnst allt svo frábært sem þau eru að gera. Þau framleiða pylsur, borgara, bollur, falafel, hakk og fleira, en í fyrra kom frá þeim ein vara sem bókstaflega setti allt á hvolf í Svíþjóð. Það var nefnilega nýja hakkið þeirra sem heitir á sænsku “formbar färs” og er sojahakk sem hefur þann eiginleika að einstaklega auðvelt er að móta úr því það sem maður vill. Það hefur lengi verið svolítið tímafrekt að útbúa heimagerða vegan borgara úr vegan hakki vegna þess að það þarf að setja út í það eitthvað sem er bindandi. Hinsvegar er engin þörf á því þegar kemur að þessu nýja hakki sem þýðir að nú er hægt að útbúa dásamlega góða borgara, kjötbollur eða bara það sem mann langar úr vegan hakki. Nú er þetta hakk loksins komið til Íslands og er bókstaflega fullkomið til að útbúa eitthvað gott á grillið í sumar. Vörurnar frá Anamma fást í Hagkaup, Bónus og fleiri minni verslunum eins og Melabúðinni og Fjarðarkaup.

IMG_6452.jpg

Það virkar bæði að móta eitthvað úr hakkinu, en einnig að steikja það beint á pönnu. Þegar á að móta úr því þarf að taka það út sirka klukkutíma fyrir og leyfa því að þiðna svona nokkurnveginn alveg. Mér þykir best að eiga við það þegar það er nánast þiðið en samt enn ískalt. Hinsvegar þegar á að steikja það beint á pönnu þá er best að hafa það alveg frosið þegar byrjað er að steikja. Það eru svo auðvitað skýrar leiðbeiningar aftan á pakkanum.

IMG_6460.jpg

Ég hef útbúið ýmsar gerðir af bollum úr hakkinu, en oft skelli ég bara hakki, söxuðum lauk, dökkri sojasósu, smá sinnepi, salti og pipar í skál og rúlla úr því bollur. Þetta er alveg dásamlega gott og týpískur hversdagsmatur. Í dag ætlum við að deila með ykkur alveg ótrúlega góðri uppskrift af bollum sem eru bæði góðar sem kvöldmatur og einnig sem pinnamatur við ýmis tilefni. Það tekur enga stund að rúlla þessar bollur og útkoman er alveg frábær.

Við vonum innilega að þið prufið þessa uppskrift. Við munum svo gera aðra á næstu dögum og hlökkum til að deila henni með ykkur. Eins vonum við að þið getið fyrirgefið okkur þessa fjarveru síðustu mánuði, en við ætlum í sumar að vera duglegar á Instagram og hlökkum svo til að segja ykkur betur frá komandi verkefnum.

IMG_6482.jpg

Kjötbollur

  • 450 gr formbar hakk frá anamma

  • 100 gr ritzkex

  • 1 dl saxaður vorlaukur

  • 2 hvítlauksgeirar eða 2 tsk hvítlauksduft

  • 1/2 bolli döðlur

  • salt og pipar

  • kjöt og grillkrydd

  • 2 msk matarolía eða vegan smjör

Aðferð:

  1. Takið hakkið úr frysti sirka klukkustund áður byrjað er að vinna með það.

  2. Saxið laukinn og döðlurnar mjög smátt og setjið í skál ásamt hakkinu og kryddunum.

  3. Myljið ritzkexið vel, t.d. í matvinnsluvél eða í höndunum og setjið út í hakkið.

  4. Hrærið saman og mótið litlar kúlur úr hakkdeiginu.

  5. Steikið á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða bakið í ofni við 180°C í 12-14 mínútur

Rjómaostasósa

  • 1 bolli vegan rjómaostur (t.d. rjómaostur frá YOSA)

  • 1 bolli plönturjómi (t.d. hafrarjómi frá yosa)

  • 1/2 bolli saxaður vorlaukur

  • 1 grænmetisteningur

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Saxið laukinn smátt og steikið upp úr örlítilli olíu eða vegan smjöri í nokkrar mínútur.

  2. Bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið þar til rjómaosturinn hefur bráðnað saman við rjóman.

  3. Sjóðið sósuna í 10 til 15 mínútur.

  4. Hægt er að þykkja sósuna með hveitiblöndu (hveiti og vatn hrisst saman) ef þess er óskað

Takk fyrir að lesa og við vonum innilega að þið njótið!
-Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-