Mexíkóskar chorizo kjötbollur

Eins og flestir sem skoða bloggið okkar eða fylgjast með okkur á Instagram vita, þá elskum við systur mexíkóskan mat mjög mikið. Ég er líklega með einhvers konar mexíkóskan mat í kvöldmatinn í hverri viku og er ég alltaf að prófa að gera nýjar útfærslur á uppáhalds uppskriftunum mínum.

Ég er lengi búin að ætla að gera uppskrift af einhvers konar kjötbollum með svörtu doritosi og eftir að ég gerði ofnbakað nachos með chorizo pylsunum frá Anamma í fyrra datt mér í hug að þær myndu passa fullkomlega í kjötbollurnar.

Ég notaði því formbar hakkið frá Anamma, sem er lang besta hakkið til að gera bollur og borgara að mínu mati, ásamt chorizo pylsunum í bollurnar. Þessi tvenna kom virkilega vel út en pylsurnar eru mjög bragðmiklar og gera bollurnar extra bragðgóðar.

Þessi uppskrift er alls ekki flókin og má nota hana til að gera bollur, borgara eða sem einskonar “fyllingu” ofan á nachos eða í quesadilla. Ég bakaði mínar í ofni og bar þær fram með hrísgrjónum og guacamole en það er einnig mjög gott að steikja þær og nota í vefjur.

IMG_9884.jpg

Hráefni (fyrir 4-5) :

  • 350 gr formbar anamma hakk

  • 2 stk chorizo pylsur frá anamma

  • 1/2 rauðlaukur

  • 2 hvítlauksrif

  • 1/2 dl rifinn vegan ostur

  • 1/2 dl mulið svart doritos

  • 1/2 dl niðursaxað kóríander

  • 1 msk mexíkósk kryddblanda (t.d. taco krydd eða mexican fiesta

  • 1 tsk salt.

Aðferð:

  1. Leyfið Anamma hakkinu og chorizo pylsunum að þiðna áður en byrjað er að hræra restinni af hráefnunum saman við. Ég nota oftast örbylgjuofn til að þíða “kjötið”.

  2. Saxið niður rauðlaukinn og kóríanderinn, myljið svarta doritosið og pressið hvítlaukinn.

  3. Stappið chorizo pylsurnar með gaffli og hrærið saman við hakkið ásamt restinni af hráefnunum.

  4. Mótið bollur eða fjóra hamborgara úr hakkinu.

  5. Steikið bollurnar eða hamborgarana upp úr smá ólífuolíu í nokkrar mínútur á hverri hlið eða eldið þær í bakarofni í sirka 15 mínútur við 210°C.

  6. Ég hrærði 1 krukku af salsasósu saman við 1/2 dl af vatni, hellti yfir bollurnar og setti rifin vegan ost yfir. Þetta bakaði ég síðan í 15 mínútur í 210°C heitan ofn.

Það er fullkomið að bera þessar bollur fram með hrísgrjónum, guacamole og fersku salati eða með því meðlæti sem hver og einn kýs að nota.

Þessi uppskrift hentar fullkomlega í að gera mexíkóska hamborgara en ég setti quacamole, salsasósu, ferskt grænmeti, jalapeno og tortilla flögur á minn borgara.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi.

 
anamma_logo.png