Vegan grænmetisbollur með grænu pestó

Nú er komið nýtt ár og því fylgir að sjálfsögðu veganúar. Margir hafa sett sér ný markmið og sumir með það markmið að gerast vegan eða minnka dýraafurðaneyslu. Okkur finnst þessi mánuður alltaf jafn skemmtilegur og fáum við mikið að skilaboðum frá fólki sem er að byrja að vera vegan sem er alltaf jafn gaman. Við ætlum því að sjálfsögðu að vera duglegar að deila með ykkur nýjum sem gömlum uppskriftum núna í janúar sem og alls konar öðrum fróðleik. Við mælum að sjálfsögðu með að allir fylgi okkur á Instagram þar sem við erum duglegar að sýna frá alls konar vegan tengdu.

Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur í dag er af ótrúlega auðveldum og hollum grænmetisbollum með grænu pestói. Þessar bollur eru virkilega bragðgóðar og hægt er að bera þær fram á alls konar vegu. Það er einnig auðvelt að gera þær í stóru magni og mæli ég með að gera til dæmis þrefalda eða fjórfalda uppskrift og setja í frysti. Ég elska að eiga til góða og holla rétti í frystinum sem ég get gripið í þegar ég hef ekki mikinn tíma til að elda.

Í bollunum er, ásamt hnetum og baunum, grænt pestó sem gerir þær ótrúlega bragðmiklar og góðar. það þarf því ekkert að krydda þær aukalega þar sem basil-hvítlauksbragðið af pestóinu skín vel í gegn. Bollurnar eru stútfullar af góðum næringarefnum úr baununum og hnetunum og auðvelt er að gera þær glútenlausar með því að nota glútenlaust brauðrasp.

Bollurnar má bera fram á ótal vegu. Ég ber þær mjög oft fram með rjómapasta, en þá sýð ég gott pasta, geri einfalda rjómasósu á pönnu með vegan rjóma, rjómaosti, hvítlauk og grænmetiskrafti. Velti pastanu síðan upp úr sósunni og ber bollurnar fram með. Þá mæli ég með að hafa grænt pestó með sem hægt er að setja út á og jafnvel vegan parmesanost og hvítlauksbrauð.

Bollurnar henta einnig fullkomlega með kaldri sósu og grænmeti, hvort sem það er í pítubrauði, vefju eða með hrísgrjónum til dæmis. Þær má einnig borða kaldar og henta því mjög vel sem nesti.

Pestó grænmetisbollur (20-24 litlar bollur)

  • 1 dós pinto baunir

  • sirka 2 bollar eða 2 lúkur spínat, eða eftir smekk

  • 1 dl malaðar kasjúhnetur

  • 1/2 krukka grænt vegan pestó frá Sacla Italia

  • 1/4 laukur

  • 1 1/2 dl brauðrasp

  • 1/2 tsk salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að vinna kasjúhneturnar í blandara eða matvinnsluvél þar til fínmalaðar, setjið til hliðar.

  2. Setjið spínatið í blandarann eða matvinnsluvélina og maukið, bætið pinto baununum út í og maukið gróflega saman.

  3. Saxið laukinn mjög smátt og hrærið öllum hráefnunum saman í skál.

  4. Mótið kúlur eða buff úr deiginu en það á að vera þannig að þið getið meðhöndlað það í höndunum. Ef það er of blautt má bæta aðeins við af brauðraspi.

  5. Bakið við 200°C í 20 mínútur.

-Tillögur af því hvernig bera megi fram bollurnar má finna í færslunni hér að ofan. Njótið vel.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -

 
 

Vegan rjómabollur að sænskum sið (semlur)

IMG_2799-4.jpg

Bolludagur Svía (fettisdagen) er næsta þriðjudag, daginn eftir að hann er haldinn hátíðlegur á Íslandi, en sænska rjómabollan kallast semla. Á Íslandi fást bollurnar bara á bolludaginn og kannski einhverjir afgangar næstu daga eftir, en hérna í Svíþjóð byrja kaffihús og bakarí að selja semlur um miðjan janúar. Svíar eru sjúkir í bollurnar og borða þær mikið alveg frá því þær byrja að seljast og fram að bolludeginum.

Mér finnst sænsku bollurnar æðislegar. Deigið er eins og af gerbollunum sem við þekkjum, en þau setja mulda kardimommu út í bolludeigið sem mér finnst alveg svakalega gott. Á Íslandi erum við vön að borða bollurnar okkar með sultu, rjóma og glassúr, en Svíarnir borða sínar fylltar með möndlumassa og rjóma og strá flórsykri yfir. Ég man að mér fannst þessar sænsku bollur ekkert hljóma svakalega spennandi fyrst, en þær eru alveg gríðarlega góðar, ekkert síðri en þær sem við borðum heima.

IMG_2755.jpg

Möndlumassa kaupir maður tilbúinn úti í búð hérna í Svíþjóð, en þar sem hann fæst ekki tilbúinn á Íslandi ákvað ég að búa til ótrúlega góðan og einfaldan möndlumassa sjálf. Þeir sem ekki eiga matvinnsluvél eða góðan blandara geta líka rifið niður 400g af marsípani og blandað saman við 1 dl af jurtamjólk. Möndlumassi og marsípan er þó ekki alveg sami hluturinn, en marsípan inniheldur minna af möndlum og meiri af sykri. Ég er þó viss um að marsípan væri mjög gott í svona fyllingu.

IMG_2773.jpg

Ég notaði rjómann frá Alpro á bollurnar. Mér finnst hann rosalega góður, en hann verður ekki alveg jafn stífur og hefðbundinn rjómi. Ég er búin að lesa mikið um að fólk setji stundum pínulítið af lyftidufti út í hann þegar það þeytir og að það hjálpi honum að stífna, og ég var að spá í að prufa það í dag, en átti svo ekki til lyftiduft svo það verður að fá að bíða. Ef þið ákveðið að prufa væri ég mikið til í að heyra hvort það breytir einhverju.

IMG_2784-2.jpg

Uppskriftin af bollunum er ekkert smá einföld. Það er auðvitað hægt að sleppa kardimommunni ef þið viljið gera bollurnar eins og íslenskar rjómabollur, en ég mæli samt svo mikið með að prufa þessar sænsku. Eins og ég segi er uppskriftin ótrúlega einföld og það er ekkert mál að skella bara í tvö deig og gera bæði íslenskar og sænskar. Halló, bolludagurinn er einu sinni á ári, live a little!

Þegar ég var búin að baka bollurnar og mynda þær hljóp ég yfir til vinar míns sem er líka vegan. Þar sem kaffihúsin í Piteå bjóða ekki upp á vegan semlor þá datt mér í hug að hann yrði spenntur að fá tvær heimabakaðar. Ég viðurkenni að ég var mjög stressuð um að honum þætti þær ekkert spes og að ég þyrfti meiri æfingu til að geta gert góðar semlor sem stæðust væntingar svíana sem hafa borðað bollurnar alla ævi. Hann át þær báðar upp til agna og sagðist ekki hafa fengið svona góðar semlor í mörg ár og gaf þeim A+. Ég varð ekkert smá ánægð með þá einkunn.

IMG_2811-2.jpg

Ef þið gerið bollurnar okkar, værum við ekkert smá ánægðar ef þið sendið okkur myndir. Bolludagurinn hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér, ekki síst vegna þess að daginn eftir er sprengidagurinn, sem er bókstaflega uppáhalds dagurinn minn. Ég geri mér fulla grein fyrir því hvað það hljómar skringilega, komandi frá vegan manneskju, en mér finnst sprengidagssúpan alveg jafn góð vegan. Við erum með æðislega góða uppskrift af saltOumph! og baunum sem ég er ekkert smá spennt að elda næsta þriðjudag.

IMG_2825-2.jpg

Sænskar semlur

  • 2 dl plöntumjólk (ég notaði haframjólk)

  • 50 gr smjörlíki

  • 2 tsk þurrger + 1 tsk sykur

  • örlítið salt

  • 1/2 tsk vanilludropar

  • 1 tsk mulin kardimomma

  • 50 gr sykur

  • 250 gr hveiti

  • Smá jurtamjólk til að pensla með

Aðferð:

  1. Hitið mjólk og smjörlíki saman í potti þar til smjörlíkið hefur bráðnað og hrærið í á meðan. Hellið blöndunni svo í skál og leyfið að standa þar til hún er við líkamshita, eða um 37°c.

  2. Stráið þurrgerinu yfir ásamt 1 tsk sykri og leyfið að standa í 10 mínútur.

  3. Blandið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman. Ef deigið er of blautt blandið við það smá meira hveiti á meðan þið hnoðið þar til þið fáið rétta áferð. Deigið á að vera svolítið blautt, en þó auðvelt að að meðhöndla án þess að það sé festist við fingurna. Hnoðið deigið þar til það verður slétt og sprungulaust.

  4. Leyfið deiginu að hefast í skál með hreinu viskustykki yfir í allavega klukkutíma áður en litlar kúlur eru myndaðar og settar á bökunarplötu. Passið að hafa bollurnar ekki of stórar þar sem þær stækka vel í ofninum. það komu 10 bollur úr uppskriftinni hjá mér í dag, en þær voru svona meðalstórar. Ég gerði aðeins minni bollur í fyrra og þá komu alveg 14 bollur hjá mér. Leyfið bollunum að hefast á plötunni í allavega hálftíma í viðbót, penslið þær svo með plöntumjólk og bakið í 15 mínútur við 180°C.

Möndlumassi

  • 5 dl möndlumjöl

  • 3 dl flórsykur

  • 5 msk aquafaba (það er vökvinn sem fylgir með kjúklingabaunum í dós)

  • 2-3 msk plöntumjólk eða vegan rjómi

  • Pínu möndludropar. Ég setti í litlu kryddskeiðina mína sem er 1 ml

Aðferð:

  1. Hellið öllu í matvinnsluvél eða góðan blandara og blandið þar til mjúkt. Þetta á að vera þykkt, en þó auðvelt að meðhöndla.

  2. Leyfið að standa við stofuhita. Ég setti þetta strax í sprautupoka sem gerði það auðvelt að fylla bollurnar.

Bollan sett saman

  • Bollurnar

  • Möndlumassinn

  • 1 ferna Alpro jurtarjómi

  • Flórsykur

Til að setja saman bollurnar klippti ég þríhirning úr lokinu og tók aðeins innan úr. Svo sprautaði ég möndlumassa inn í, sprautaði svo þreyttum rjóma yfir, lagði lokið á og sigtaði flórsykur yfir. Það er að sjálfsögðu líka hægt að skera þær í tvennt, en svona gera Svíarnir þetta svo ég ákvað að slá til, mest upp á lúkkið hehe.

Vona innilega að ykkur líki vel <3
-Veganistur

Bolludags-gerbollur og þrenns konar fyllingar

Bolludagurinn er að mínu mati mjög góð tilbreyting í hversdagsleikanum svona rétt eftir áramótin. Dagur sem snýst um að gúffa í sig sætabrauði, hver tekur ekki á móti svoleiðis mánudegi fagnandi?
Bollur eru hins vegar oftast ekki vegan, að minnsta kosti ekki þessar sem við þekkjum úr bakaríum og búðum landsins. Það eru þó einhverjir staðir farnir að selja vegan bollur á bolludaginn.

Nú í ár ákvað ég að baka bollur í fysta skipti síðan ég gerðist vegan, og hef því ekki fengið bolludagsbollur í fimm ár.  Ég skil ekkert í mér að hafa ekki prufað að baka þær fyrr því það var virkilega einfalt og bollurnar ótrúlega gómsætar. Ég ákvað að gera gerbollur þar sem ég var með mjög gott gerbolludeig í huga. Bollurnar urðu mjög loftkenndar og mjúkar og hvet ég því alla til að prófa bollubakstur heima þetta árið. Bollurnar má alveg geyma í nokkra daga en þær eru þó lang bestar samdægur

Hráefni:

  • 1 3/4 dl plöntumjólk (ég notaði haframjólk)

  • 50 gr plöntusmjör

  • 2 tsk þurrger + 1 tsk sykur

  • örlítið salt

  • 1/2 tsk vanilludropar

  • 50 gr sykur

  • 250 gr hveiti

Aðferð:

  1. Setjið mjólkina og smjörið í pott og hitið þar til smjörið er bráðnar. Hrærið stanslaust í á meðan.

  2. Hellið blöndunni í skál og leyfið henni að kólna þar til hún er við líkamshita (sirka 37°C). Ég athuga hitan með því að stinga fingrinum ofan í mjólkina en þegar ég finn ekki fyrir neinum hitabreytingum er mjólkin sirka við réttan hita.

  3. Stráið þurrgerinu yfir mjólkina og einni teskeið af sykri og leyfið þessu að standa í tíu mínútur.

  4. Setjið restina af hráefnunum útí og hrærið saman. Hnoðið deigið í dágóða stund annað hvort í höndunum eða í hrærivél. Deigið á að vera heldur blautt en samt auðvelt að meðhöndla með höndunum án þess að það klessist mjög mikið.

  5. Leyfið deiginu að hefast í skál með hreinu viskustykki yfir í allavega klukkutíma áður en litlar kúlur eru myndaðar og settar á bökunarplötu. Bollurnar eiga alls ekki að vera of stórar þar sem þær stækka vel í ofninum. Það koma u.þ.b. 12-14 bollur úr deiginu. Leyfið bollunum að hefast á plötunni í tuttugu til þrjátíu mínútur í viðbót áður en þær eru bakaðar í 15 mínútur við 180°C.

IMG_8563.jpg

Ég ákvað að gera þrjár mismunandi fyllingar í bollurnar að þessu sinni, en það er auðvitað líka hægt að skella bara sultu og rjóma á þær og njóta. Ég mæli með að taka aðeins innan úr bollunum áður en sett er á þær svo rjóminn renni ekki allur út þegar þær eru borðaðar.

Hindberja-chia sulta

  • 2 dl frosinn hindber

  • 1 msk síróp

  • 1 msk chiafræ

  • 1/2 dl vatn

Aðferð

  1. Hitið hindberinn og síróp í potti þar til dágóður vökvi hefur myndast.

  2. Blandið saman chiafræunum og vatni og leyfið því að standa í allavega 10 mínútur. Chiafræin bólgna út og þá verður þetta eins konar hlaup.

  3. Blandið chiahlaupinu út í hindberin þegar þau hafa kólnað.

 

Súkkulaði glassúr

  • 1 dl flórsykur

  • 1 msk kakó

  • vatn

Aðferð

  1. Blandið saman flórsykri og kakó í skál.

  2. Bætið við vatni eftir þörfum sirka 1 msk í einu.

 

Karamella

  • 1/2 dl smjör

  • 1/2 dl sykur

  • 1 dl síróp

  • 1/2 dl plönturjómi (ég notaði hafrarjóma)

Aðferð

  1. Setjið allt saman í pott og leyfið að sjóða við vægan hita í u.þ.b. 20-30 mínútur og hrærið vel í á meðan.

  2. Leyfið karamellunni og kólna áður en hún er sett á bollurnar en þegar hún kólna þykknar hún.

Ég bar karamellubollurnar fram með soyatoo rjóma, niðurskornum jarðaberjum og jarðaberjasúkkulaðihjúp

 

 

 

Lakkríssósa

  • 1 dl niðurskornar lakkrísreimar

  • vatn

Aðferð

  1. Setjið lakkrísinn í lítinn pott og sirka hálfan dl af vatni.

  2. Hitið þetta þar til lakkrísinn er bráðnaður, en það þarf að hræra vel í á meðan.

  3. Bætið út í vatni á meðan að lakkrísinn bráðnar ef þarf.

Ég bar lakkrísbollurnar fram með soyatoo rjóma, lakkrískurli, súkkulaðispæni og dökkum súkkulaðihjúp.

 

 

Vonandi njótiði vel
-Júlía Sif