Vegan hakk og spaghetti

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlega góðu vegan hakki og spaghetti. Þetta er hinn fullkomni hversdagsmatur að okkar mati þar sem það tekur enga stund að útbúa hann og það er auðvelt að útbúa stóran skammt og eiga í afgang.

Uppskriftin er gerð í samstarfi við Anamma og við notuðum hakkið frá þeim í hana. Við erum alltaf jafn glaðar að fá að vinna með Anamma því við elskum vörurnar frá þeim og notum þær mikið í okkar matargerð.

Hakk og spagettí er klassískur heimilsmatur og ætli það séu ekki öll heimili með sína uppáhalds uppskrift sem alltaf er fylgt. Hakk og spagettí er einnig réttur sem er fullkominn réttur til að bjóða fólki upp á sem er svolítið efins með kjötlausa lífsstílinn. Ég hef boðið fólki upp á það sem fattaði alls ekki að um væri að ræða vegan hakk.

Okkur finnst virkilega gott að hafa rjómaost og smá pestó í sósunni. Það gerir hana svo rjómakennda og góða. Við mælum virkilega með því að prófa. Ólífur eru einnig algjört möst að okkar mati, en við vitum vel að það eru skiptar skoðanir á því, svo við skiljum vel ef þið veljið að sleppa þeim hehe. Það tekur enga stund að skella í þessa bragðgóðu og mettandi hakksósu.

Við toppum svo yfirleitt með vegan parmesanosti eða heimagerðum kasjúhnetuparmesan. Uppskrift af honum finnurðu hér að neðan.

Ertu að leita að fleiri góðum pastaréttum? Prófaðu þá:

Ofnbakað gnocchi bolognese

Vegan rjómalagað sítrónupasta

Ofnbakaður pastaréttur með kúrbít, pestó og rjómaosti

Takk innilega fyrir að lesa og við vonum að þér líki uppskriftin

-Veganistur

Gómsætt vegan hakk og spaghetti

Gómsætt vegan hakk og spaghetti
Fyrir: 4
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 5 MinEldunartími: 15 Min: 20 Min
Dásamlega gott vegan hakk og spaghetti. Þetta er hinn fullkomni hversdagsmatur að okkar mati þar sem það tekur enga stund að útbúa hann og það er auðvelt að útbúa stóran skammt og eiga í afgang.

Hráefni:

Vegan hakk og spaghetti
  • 2 msk ólífuolía
  • 1/2 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 msk oregano
  • 1 msk þurrkuð basilíka
  • 1/2 msk salt
  • 1 pakki anamma hakk
  • 400 ml tomat passata (maukaðir tómatar)
  • 1 lítil dós tómatpúrra
  • 1 kúfull msk rautt vegan pestó
  • 150 gr vegan rjómaostur
  • 1 grænmetisteningur
  • 350 gr ósoðið spaghetti
Heimagerður parmesan toppur
  • 1 dl kasjúhnetur
  • 2 msk næringarger
  • 2 tsk salt
  • 1 tsk laukduft

Aðferð:

Vegan hakk og spagettí
  1. Byrjið á því að sjóða pastað eftir leiðbeiningum á pakkningunum.
  2. Saxið niður laukinn og pressið hvítlaukinn.
  3. Hitið olíuna í smá stund á pönnu og mýkið síðan laukinn. Bætið kryddunum og hakkinu saman við og steikið þar til hakkið er nánast tilbúið.
  4. Bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið vel svo rjómaosturinn blandist vel saman við. Sjóðið kjötsósuna í sirka 5 mínútur.
  5. Berið fram með baguette brauði og parmesan toppinum
Heimagerður parmesan toppur
  1. Setjið öll hráefnin í blandara eða matvinnsluvél og malið saman.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Uppskriftin er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Vegan ofnbakað pasta með pestó og rjómaosti

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að einföldum og gómsætum ofnbökuðum pastarétti með grænu pestói og rjómaosti. Pastarétturinn er einstaklega þægilegur og þarfnast lítillar sem engrar fyrirhafnar þar sem pastað eldast í pestórjómasósunni í ofninum. FULLKOMIÐ!

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Violife á Íslandi og í pastaréttinn notaði ég bæði Violife creamy original rjómaostinn og Violife prosociano parmesan ostinn frá þeim. Ákvörðunina að nota parmesanostinn tók ég mjög skyndilega þar sem ég átti hann til í ísskápnum og þessvegna eru umbúðirnar ekki sjáanlegar. Svona líta þær út fyrir ykkur sem hafið ekki séð hann áður. Við systur elskum ostana frá Violife og notum þá daglega í bæði matargerð og ofan á brauð. Við erum því alltaf jafn stoltar og glaðar að fá að vinna með þeim.

Ef þið hafið ekki prófað að baka pasta í ofni mælum við mikið með því að prófa það. Það gerist virkilega ekki einfaldara. Ég kaus að steikja kúrbítinn á pönnu á meðan pastað fékk að malla í ofninum og bætti því svo við pastað ásamt spínatinu þegar stutt var eftir af eldunartímanum. Það gerði ég svo að grænmetið yrði ekki of maukað. Það var í raun það eina sem ég gerði á annarri pönnu, en þar sem ég gat gert það á meðan pastað var í ofninum tók það enga stund.

Að lokum útbjó ég kasjúhnetuparmesan sem ég setti ofan á réttinn þegar ég hafði bætt grænmetinu út í og leyfði réttinum svo að bakast í svolitla stund í viðbót. Ég bókstaflega elska kasjúparmesan. Ég gæti sett hann á allt. Ég geri hann einfaldlega með því að mixa saman kasjúhnetur, næringarger, laukduft, hvítlauksduft og salt. Svo gómstætt. Það má sleppa honum eða skipta út fyrir rifinn ost fyrir ykkur sem eruð með ofnæmi eða nennið ekki að gera kasjúparmesan. Það er líka mjög gott.

Takk kærlega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur uppskriftin. Elskið þið “one pot” pastauppskriftir? Kíkið þá á þetta gómsæta ofnbakaða pasta með rauðu pestói.

-Helga María

Ofnbakaður vegan pastaréttur með grænu pestói og rjómaosti

Ofnbakaður vegan pastaréttur með grænu pestói og rjómaosti
Höfundur: Helga María
Virkilega einfaldur og góður pastaréttur sem fær að malla í ofninum án mikillar fyrirhafnar!

Hráefni:

  • 500g pasta
  • 850 ml vatn
  • 1,5 grænmetiskraftur
  • 1 askja Violife creamy original rjómaostur
  • 1 krukka vegan grænt pestó
  • 1 kúrbítur
  • 150 gr spínat
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 50 violife prosociano parmesanostur
  • sítrónusafi og börkur af hálfri sítrónu
  • Salt og pipar
  • Kasjúparmesanostur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Setjið pasta, vatn, grænmetiskraft, hvítlauk, sítrónusafa, sítrónubörk, salt og pipar rjómaost og pestó í eldfast mót. Setjið álpappír yfir og eldið við 200°c í 30 mínútur. Hrærið í þegar tíminn er hálfnaður.
  2. Sneiðið niður kúrbítinn og steikið á pönnu á meðan þar till hann fær á sig smá gyltan lit.
  3. Takið eldfasta mótið út úr ofninum, bætið kúrbít, spínati og parmesanosti út og hrærið saman. Stráið kasjúparmesanosti yfir (má líka vera rifinn vegan ostur) og bakið í sirka 20 mínútur í viðbót og hrærið í þegar tíminn er hálfnaður. Það fer svolítið eftir pastanu hversu langan tíma það tekur þannig fylgist með og leyfið því að vera aðeins lengur ef þarf. Ég notaði rigatoni og það þarf svolítið langan tíma. Saltið og piprið meira ef þarf.
  4. Berið fram með t.d. góðu brauði og njótið.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi uppskrift er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 

Vegan rjómalagað sítrónupasta

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að gómsætu rjómalöguðu sítrónupasta með vegan parmesanosti, steinselju og chiliflögum. Rétturinn er virkilega einfaldur og fljólegur og bragðast alveg einstaklega vel. Hvort sem þú vilt elda eitthvað gott í kvöldmatinn hversdagslega eða ætlar að halda matarboð er sítrónupasta tilvalinn réttur. Ég mæli með að bera pastað fram með gómsætu brauði og njóta!

Færsla dagsins er í samstarfi við Violife og í pastaréttinn notaði ég Prosociano ostinn frá þeim sem er vegan parmesanostur. Hann er dásamlega góður og passar fullkomlega með allskonar pastaréttum. Við systur elskum vörurnar frá Violife og notum þær mjög mikið í okkar daglega lífi. Prosociano osturinn er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana og ég nota hann í nánast allt sem ég útbý.

Ég notaði spaghetti að þessu sinni en það er líka gott að nota t.d. linguine eða rigatoni. Passið að sjóða pastað bara þar til það er “al dente” svo það verði ekki klístrað og mjúkt. Já, og munið að salta pastavatnið vel!!

Sósan er einföld og það tekur enga stund að útbúa hana, en hún er svakalega góð. Hún inniheldur:

smjörlíki
ólífuolíu
hvítlauk
chiliflögur
sítrónubörk
sítrónusafa
vegan parmesanost
örlítið af vatninu sem pastað er soðið upp úr
salt og pipar

Pastað er svo að lokum toppað með steinselju. Svo gott!

Ég hef verið í miklu pastastuði undanfarið. Ég er t.d. alltaf á leiðinni að deila með ykkur uppáhalds vodkapastanu mínu sem ég elda mikið. Ætli ég verði ekki að drífa mig í því í næstu viku. Við erum með allskonar góðar uppskriftir af pasta hérna á blogginu nú þegar og ég mæli með því að kíkja á ÞETTA ofnbakaða pestópasta sem Júlía útbjó í haust og hefur svo sannarlega slegið í gegn!

Eins og við systur höfum talað mikið um uppá síðkastið ætlum við árið 2022 að vera duglegari að birta uppskriftir af allskonar kvöldmat. Við fáum svo oft spurningar um hvort við getum ekki sýnt meira af hversdagslegum mat og svoleiðis og við lofum að gera meira af því. Að sjálfsögðu munu koma gómsætar kökur og fl. en við höfum oft verið lélegar í að birta “venjulegan mat” svo við erum mjög spenntar fyrir því og tökum alltaf fagnandi á móti allskonar fyrirspurnum og áskorunum!

Ég vona innilega að ykkur líki uppskriftin og ef þið prófið að elda hana, eða einhverja aðra uppskrift af blogginu, væri ótrúlega gaman ef þið taggið okkur á Instagram. Það gerir okkur alltaf svo ótrúlega glaðar!

Rjómalagað vegan sítrónupasta

Hráefni:

  • 400 gr pasta - ég notaði spaghetti

  • 3 hvítlauksgeirar

  • Safi og börkur úr einni sítrónu

  • Chiliflögur eftir smekk. Það er svo misjafnt hversu mikið fólk þolir

  • 2,5 dl vegan matreiðslurjómi

  • 1,5 dl vatn sem pastað hefur verið soðið í

  • Rifinn prosociano (vegan parmesan frá Violife) eftir smekk. Þetta finnst mér líka vera svolítið smekksatriði. Ég notaði sirka 1/2 ost í sósuna og toppaði svo með aðeins meira. Það þarf allavega ekki meira en einn ost en það eru ekki allir sem vilja hafa svo mikið af parmesan en mér finnst það gera sósuna virkilega góða og “creamy”

  • Salt og pipar

  • Fersk steinselja að toppa með

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða pastað eftir leiðbeiningum á pakkanum þar til það er “al dente” og sigtið þá vatnið frá. ATHUGIÐ að það þarf að taka frá 1.5 dl af vatninu og nota í sósuna. Munið að salta pastavatnið vel.

  2. Setjið ólífuolíu og smjörlíki í pott, pressið hvítlauk og steikið hann í 30 - 60 sekúndur. Hann á að mýkjast en á ekki að taka á sig brúnan lit.

  3. Rífið sítrónubörk út í pottinn (geymið smá ef þið viljið nota til að toppa pastað með) og kreistið sítrónusafann og hrærið saman við hvítlaukinn ásamt chiliflögunum og leyfið þessu að eldast í nokkrar sekúndur.

  4. Hellið rjómanum útí ásamt salti og pipar og leyfið rjómanum að hitna vel.

  5. Hellið vatninu frá pastanu út í og hrærið.

  6. Bætið pastanu út í sósuna (ekki hella sósunni út í pastað því þá er erfiðara að sjá til þess að þetta verði nógu “creamy”) og passið að sósan þekji pastað vel.

  7. Toppið með prosociano og steinselju og berið fram með góðu brauði.

Takk fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel

-Helga María

-Þessi færsla er í samstarfi við Violife á Íslandi-