Vegan íspinnar með Pólókexi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að virkilega einföldum og góðum vegan íspinnum hjúpuðum með súkkulaði og kókosmjöli. Þetta er hið fullkomna sumartrít og við mælum með því að eiga alltaf nokkra til í frystinum. Þessir dásamlegu íspinnar munu ekki valda ykkur vonbrigðum. Þeir eru ótrúlega rjómakenndir og góðir og hverfa fljótt ofan í maga.

Færsla dagsins er í samstarfi við Frón og Pólókexið frá þeim gegnir lykilhlutverki í íspinnunum. Kexið er nefnilega mulið ofan í ísblönduna sem gefur bæði gómsætt kókosbragð og stökkir kexbitarnir passa svo vel við rjómakenndan ísinn. Við erum alltaf jafn stoltar af því að fá að vinna með Fróni því Pólókex hefur verið mikilvægur partur af fæðuhring okkrar systra í mörg ár.

Ísblönduna settum við í íspinnaform. Uppskriftin gerði um 6-8 íspinna. Ef þið eigið ekki svoleiðis form er ekkert mál að setja alla blönduna í eitt stórt form. Íspinnaformin keyptum við í Allt í köku.

vegan-ispinnar-med-polokexi-

Að lokum eru pinnarnir húðaðir með súkkulaði og kókosmjöli. Algjört NAMMI. Þessir heimagerðu íspinnar toppa alla íspinna keypta út í búð að okkar mati. Við mælum mikið með því að þið prófið.

Takk innilega fyrir að lesa og við vonum innilega að ykkur líki uppskriftin vel.

Vegan íspinnar með Pólókexi

Vegan íspinnar með Pólókexi
Fyrir: 6-8
Höfundur: Veganistur
Gómsætir og einfaldir vegan íspinnar hjúpaðir með súkkulaði og kókosmjöli. Þetta er hið fullkomna sumartrít og við mælum með því að eiga alltaf nokkra til í frystinum. Þessir dásamlegu íspinnar munu ekki valda ykkur vonbrigðum. Þeir eru ótrúlega rjómakenndir og góðir og hverfa fljótt ofan í maga.

Hráefni:

  • 1/2 ferna vegan þeytirjómi
  • 1/2 ferna vegan vanillusósa
  • 3/4 dl sykur
  • 1 tsk vanilludropar
  • 80 gr Pólókex
  • Suðusúkkulaði og kókosmjöl að hjúpa með (má sleppa)

Aðferð:

  1. Þeytið saman rjóma og vanillusósu.
  2. Bætið sykri og vanilludropum saman við og þeytið svo það blandist vel saman.
  3. Myljið Pólókex í ziplock poka með kökukefli gróft og blandið saman við með sleikju.
  4. Frystið í ísskpinnaformum eða stóru formi helst yfir nótt, eða allavega í 8 klukkutíma.
  5. Bræðið suðusúkkulaði og hjúpið íspinnana með því og stráið kókosmjöli yfir.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

Vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði

- Samstarf -

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að rjómakenndum vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði. Hinn fullkomni eftirréttur að okkar mati og einmitt það sem ég myndi bjóða upp á í matarboðinu yfir sumartímann. Þessi ís sannar að heimagerður ís er alveg jafn rjómakenndur og góður þó hann sé laus við mjólk og egg.

Uppskriftin er gerð í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi og í ísinn notaði ég gómsæta jarðarberja- og rabarbaramarmelaðið frá þeim. St. Dalfour marmelaðin innihalda engan hvítan sykur og eru því ekki jafn dísæt og mörg önnur marmelaði eða sultur. Marmelaðið gefur ísnum því ferskleika sem passar fullkomlega með rjómakenndum ísnum.

Ísinn sjálfur er gerður úr þeyttum hafrarjóma, heimagerðri eða keyptri sætri niðursoðinni mjólk (e. condensed milk), vanilludufti og rjómaostablöndu. Svo er Digestive kexi og marmelaðinu bætt út í. Það er ótrúlega einfalt að útbúa ísinn en mesta vinnan er að sjóða niður mjólkina í svona hálftíma og láta hana svo standa í nokkra klukkutíma í ísskápnum. Þó það taki smá tíma er það alls ekki flókið. Svo má að sjálfsögðu kaupa hana tilbúna.

Ísinn sjálfur þarf svo nokkra klukkutíma í frystinum. Ísinn tekur því smá stund að útbúa en alls ekki mikla vinnu! Ég get lofað ykkur að sá tími er algjörlega þess virði. Útkoman er gómsætur mjólkurlaus og eggjalaus ís sem svíkur engann.

Á blogginu okkar finnurðu allskonar eftirréttaruppskriftir. Hér eru nokkrar:

Sítrónuostakaka

Kókos- og súkkulaðimús með Pólókexi

Hátíðlegur ís með saltkaramellu

Sjáið bara þessa fegurð. Ég elska ís sem er rjómakendur en inniheldur ferskleika og einhverskonar “kröns”. Af því þetta er ostakökuís braut ég niður digestivekex í ísinn sem var frábær hugmynd því kexið gefur bæði stökkleikann og smá salt. það er að sjálfsögðu hægt að gera sömu grunnuppskrift af ísnum en skipta út bragðinu, en ég mæli mjög mikið með því að prófa að þessa uppskrift.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar þér uppskriftin.

-Helga María

Vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði

Vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði
Höfundur: Helga María
Í dag deilum við með ykkur uppskrift að rjómakenndum vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði. Hinn fullkomni eftirréttur að okkar mati og einmitt það sem ég myndi bjóða upp á í matarboðinu yfir sumartímann. Þessi ís sannar að heimagerður ís er alveg jafn rjómakenndur og góður þó hann sé laus við mjólk og egg.

Hráefni:

Ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði:
  • 1 ferna vegan þeytirjómi (ég notaði Oatly sem er 250 ml)
  • ca 400 ml sæt niðursoðin mjólk (það er akkúrat magnið sem uppskriftin hér að neðan gefur)
  • 150 gr vegan rjómaostur
  • 1/2 dl sykur
  • 2 tsk sítrónusafi
  • salt á hnífsoddi
  • smá vanilluduft (má skipta út fyrir vanilludropa)
  • 1 krukka jarðarberja- og rabarbaramarmelaði frá St. Daflour
  • Digestive kex eftir smekk (ég notaði sirka 4-5 stykki)
Sæt niðursoðin mjólk:
  • 2 fernur vegan þeytirjómi (ég notaði Oatly og hef ekki prófað að gera þetta með annarri tegund. Hef prófað með þykkri kókosmjólk og það virkaði líka).
  • 2,5 dl sykur

Aðferð:

Ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði:
  1. Þeytið rjóma og setjið í stóra skál.
  2. Þeytið saman rjómaost, sykur, sítrónusafa og pínulítið salt og bætið út í skálina ásamt sætu niðursoðnu mjólkinni og vanilludufti.
  3. Hrærið varlega saman með sleikju þar til allt er vel blandað saman.
  4. Setjið hluta af ísnum í brauðform, kökuform eða eldfast mót. Brjótið kex ofan á og setjið marmelaði ofan á líka og hrærið létt saman við. Þarf alls ekki að blandast mjög vel við.
  5. Bætið meiri ís yfir og svo aðeins af kexi og marmelaði og koll af kolli þar til þið eruð búin að setja allan ísinn í.
  6. Látið sitja í frystinum í minnst 3 tíma eða þar til ísinn hefur sett sig.
Sæt niðursoðin mjólk:
  1. Setjið þeytirjóma og sykur í pott og látið malla á meðal lágum hita í 30 mínútur á meðan þið hrærið reglulega svo hann brenni ekki við botninn.
  2. Hellið í krukku og setjið í ísskáp helst yfir nótt svo mjólkin nái að þykkna. Hún mun vera frekar þunn þegar hún er heit en þykknar töluvert í ísskápnum.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-

 
 

Þriggjarétta vegan matur fyrir aðfangadagskvöld

Ég hugsa að flestir séu sammála okkur með það að aðfangadagskvöld sé eitt besta kvöld ársins. Við systur erum alveg ótrúlega mikil jólabörn og má segja að jólamaturinn sé ein af mikilvægustu máltíðum ársins að okkar mati. Í mörg ár fengum við endalaust spurninguna “En hvað borðið þið á jólunum??”. Nú eru að ganga í garð tíundu jólin okkar sem vegan og hefur jólamaturinn breyst alveg ótrúlega mikið í gegnum þessi ár. Fyrstu árin vorum við með hnetusteikur og svona frekar ómerkilegt meðlæti þó svo að margt hefðbundið jólameðlæti hafi þó alltaf verið auðvelt að gera vegan.

Við vorum þó ekki lengi að fatta að við vildum þróa betri rétti og nýjar hefðir hvað varðar jólin og þá sérstaklega aðfangadag. Við höfum síðustu ár borðað einhvern besta jólamat sem við höfum smakkað og erum við alltaf að prófa eitthvað nýtt og betrumbæta réttina. Síðustu jól hafa einnig verið 100% vegan hjá allri fjölskyldunni okkar þó svo að engin þeirra sé vegan, fyrir utan okkur að sjálfsögðu, og finnst þeim það alls ekkert verra.

Í ár fannst okkur því tilvalið að deila með ykkur í samstarfi við Krónuna þremur nýjum réttum sem saman gera fullkomið aðfangadagskvöld að okkar mati.

Fyrsti rétturinn er hinn FULLKOMNI forréttur fyrir aðfangadagskvöld eða fínt jólaboð. Rauðrófucarpaccio með kryddolíu, klettasalati, furuhnetum, balsamikediki og vegan parmesanosti. Einstaklega fallegur og góður forréttur.

Rétturinn er kryddaður með villibráðakryddi sem passar alveg fullkomlega með rauðrófunum, parmesan ostinum og balsamik edikinu. Hann er algjör veisla fyrir bragðlaukana og hefur hann notið gífurlegra vinsælda þar sem við höfum boðið upp á hann, bæði hjá vegan fólki og öðrum.

Rauðrófu carpaccio með gómsætu salati: (forréttur fyrir 4)

  • 2 meðalstórar rauðrófur

  • Góð ólífuolía

  • Villibráðakrydd frá Kryddhúsinu

  • Salt

  • Klettasalat

  • Ristaðar furuhnetur

  • Vegan parmesan ostur frá Violife

  • Balsamik edik

Aðferð:

  1. Byrjið á því að flysja rauðrófurnar. Það er gott að hafa í huga að rauðrófur geta mjög auðveldlega litað tréskurðarbretti og gott er að vera í hönskum þegar þær eru meðhöndlaðar.

  2. Pakkið rauðrófunum ásamt 1 tsk af salti í álpappír og bakið við 180°C í 50 mínútur. Takið út úr ofninum og leyfið þeim að kólna alveg. Ég geri þetta oft snemma um daginn eða jafnvel daginn áður.

  3. Notið mandolín eða mjög beittan hníf til að skera rauðrófurnar niður í mjög þunnar sneiðar, best er ef að það sést nánast í gegnum þær. Raðið þeim í þunnt, þétt lag á stóran disk eða fjóra litla diska.

  4. Hellið ólífuolíu yfir og stráið 1-2 tsk af villibráðakryddinu yfir og nuddið því aðeins á rauðrófuskífurnar, fínt að nota pensil eða bara fingurna.

  5. Stráið klettasalati, furuhnetum, balsamik ediki og parmesan ostinum yfir. Kryddið með smá salti og pipar og berið fram.

Aðalrétturinn er alls ekki af verri endanum, en þetta árið langaði okkur að deila með ykkur betrumbættri útgáfu af vinsæla innbakaða hátíðar oumphinu sem við deildum fyrst árið 2016. Þennan rétt höfum við haft í matinn á aðfangadag síðan og hefur hann þróast með hverju árinu.

Við höfum bætt við valhnetum, trönuberjum og portobello svepp í steikina sem gerir hana ótrúlega bragðmikla og hátíðlega. Við mælum svo sannarlega með að gera stóra steik þar sem við getum lofað ykkur að flestir munu vilja smakka hana þegar hún kemur ilmandi úr ofninum.

Hér á blogginu má síðan finna fullt af uppskriftum af hátíðlegu meðlæti sem passar fullkomlega með steikinni.

Hér eru nokkur dæmi:

Hátíðarsteikin:

  • 2 pokar Garlic and Thyme Oumph!

  • 2-3 litlir skallot laukar

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 tsk rósmarín

  • Salt og pipar eftir smekk

  • 1 dl valhnetur

  • 1 bolli niður saxað grænkál

  • 1/2 dl (25 gr) þurrkuð trönuber (má sleppa)

  • 250 ml hafrarjómi, við notuðum Oatly

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1 sveppateningur

  • 1 rúlla smjördeig frá PASTELLA (er í kælinum hjá upprúllaða pizzadeiginu)

  • 3 portobello sveppir

Aðferð:

  1. Saxið niður skallotlaukana og pressið hvítlaukinn. Leyfið oumphinu að þiðna aðeins og saxið það síðan gróflega. Steikið laukinn, hvítlaukinn og oumphið í nokkrar mínútur upp úr smá ólífuolíu. 

  2. Saxið gróflega grænkálið og valhnetur og bætið út á pönnuna ásamt, salti, pipar, rósmaríni og trönuberjunum. Steikið í nokkrar mínútur í viðbót eða þar til grænkálið er orðið vel mjúkt.

  3. Bætið hafrarjómanum, sinnepi og sveppatening út í, steikið saman svo sveppatningurinn leysist upp og allt er komið vel saman.

  4. Leyfið fyllingunni að kólna alveg áður en henni er pakkað inn í smjördeigið

  5. Rúllið út smjördeiginu og setjið sirka helminginn af fyllingunni í lengju á mitt deigið. Takið stilkana af sveppunum og leggið í röð ofan á fyllinguna. Setjið restina af fyllingunni yfir og pressið hana þétt upp að sveppunum svo þetta verði fallega “slétt” lengja. Það er best að nota hendurnar bara til að móta þetta til.

  6. Það má alveg loka deiginu á einfaldan hátt með því að rúlla því yfir fyllinguna í hring svo sárið endi undir steikinni. VIð hins vegar ákváðum að gera fallega fléttu í deigið en þá er einfaldlega skorið ræmur sitthvoru megin við steikina upp á móti hvorri hliðinni og þær síðan fléttaðar yfir hvor aðra. Við mælum með að finna bara kennslumyndband á youtube ef þið eruð óviss með þessa aðferð en þau má finna með því að skrifa “braided wellington” í leitina.

  7. Penslið steikina með smá haframjólk og í 200°C heitum ofni í u.þ.b. 30 mínútur eða þar til smjördeigið verður fallega gyllt að ofan.

Síðast en ALLS EKKI síst er það svo eftirrétturinn en það er alveg komin tími á að við deilum með ykkur þessum ofur einfalda vegan hátíðarís. En það besta við þennan ís, fyrir utan hversu bragðgóður hann er, er hvað það er auðvelt að búa hann til. Grunnuppskriftina er hægt að leika sér með og bæta út í allskyns góðgæti ef maður vill. Skemmtilegur ís sem býður uppá ýmsa möguleika.

Það var alltaf boðið upp á heimagerðan ís á jólunum hjá okkur þegar við vorum yngri en við vorum í nokkuð langan tíma að þróa uppskriftina þar til hún varð nógu góð. Það má segja að vanillusósan frá Oatly sé leyni innihaldsefnið þar sem hún gerir bæði fullkomna áferð og unaðslegt bragð.

Uppskriftin er í samstarfi við Happi haframjólkur súkkulaðið en það er nýtt vegan súkkulaði gert úr haframjólk og er selt í Krónunni. Virkilega gott vegan súkkulaði sem er búið að gera jólabaksturinn svo skemmtilegan núna síðustu vikur. Það hefur lengi vantað gott fjölbreytt vegan súkkulaði og erum við því alveg að elska þetta merki. Saltkaramellu braðið gerir ísinn ótrúlega góðan en þá má alveg nota venjulega súkkulaðið eða appelsínu súkkulaðið frá HAPPI í þessa uppskrift líka. Bara það sem ykkur finnst best.

Vegan jólaís með saltkaramellu súkkulaði:

  • 1 ferna (250 ml) vanillusósa frá Oatly

  • 1 ferna Oatly þeytirjóminn

  • 1 dl sykur

  • 2 tsk vanillusykur frá gestus

  • 2 plötur saltkaramellu súkkulaði frá HAPPI

Aðferð:

  1. Byrjið á því að þeyta rjóman í hrærivél eða með handþeytara. Setjið í aðra skál og geymið til hliðar.

  2. Þeytið vanillusósuna, vanillusykurinn og sykur saman þar til það verður mjög loftkennt.

  3. Hrærið vanillusósu blönduna og þeytta rjóma mjög varlega saman þar til það er alveg blandað.

  4. Saxið súkkulaðið mjög smátt, Við mælum með að hafa ekki mjög stóra bita af súkkulaðinu í ísnum þar sem það verður aðeins hart þegar það er fryst. Blandið súkkulaðinu varlega saman við ísinn.

  5. Setjið í köku- eða ísform, setjið plastfilmu yfir og látið hana alveg þétt við ís”deigið” svo ekkert loft sé á milli. Setjið í frysti í að minnska kosti 12 klukkustundir.

Karamellusósa

  • 100 g smjör

  • 100 g púðursykur

  • 1 tsk vanilludropar

  • 1 dl hafrarjómi

  • 1/4 tsk salt

Aðferð:

  1. Setjið allt í pott og kveikið undir á meðal hita.

  2. Leyfið smjörinu og sykrinum að bráðna alveg og látið síðan sjóða í 5-7 mínútur. Hrærið í stanslaust á meðan.

  3. Sósuna má bera fram heita með ísnum eða leyfa henni aðeins að kólna ef þið viljið skreyta ístertu með henni.

Við vonum að þið njótið vel og hlökkum mikið til að fylgjast með hvað grænkerar ætla að hafa í jólamatinn í ár!

-Þessi færsla er í samstarfi við Krónuna og öll hráefnin í uppskriftirnar fást þar. Færslan er einnig í samstarfi við Happi, vegan súkkulaði úr haframjólk-

 
 

Íssamlokur úr súkkulaðibitakökum

IMG_2556.jpg

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætum íssamlokum úr súkkulaðibitakökum. Uppskriftin er í samstarfi við Ben & Jerry’s á Íslandi en frá þeim fást nokkrar tegundir af vegan ís sem er virkilega góður. Fyrir ekki svo mörgum árum var ómögulegt að finna vegan ís sem ekki var frostpinni. Í dag er sem betur fer hægt að fá vegan rjómaís sem gefur ekkert eftir hvað bragð og áferð varðar. Vegan ísinn frá Ben & Jerry’s er einmitt dæmi um svoleiðis ís.

Nýbakaðar súkkulaðibitakökur og ís er kombó sem er virkilega erfitt að toppa. Ég mæli allavega með því að þið prufið! Uppskriftin af kökunum er virkilega einföld og tekur enga stund að búa þær til.

IMG_2517-2.jpg

Ég hafði mínar mjög hefðbundnar og notaði suðusúkkulaði en það er hægt að breyta til og setja allskonar skemmtilegt í kökurnar, eins og hnetur, hvítt súkkulaði, eða annað sælgæti sem manni þykir gott!

Þær bragðtegundir sem ég notaði í íssamlokurnar að þessu sinni voru “Cookies on cookie dough” og “Chocolate fudge brownie”. Báðar tegundirnar eru í miklu uppáhaldi hjá mér!

IMG_2561.jpg

Hráefni:

  • 250 gr smjörlíki

  • 1 dl sykur

  • 1 dl púðusykur

  • 1/2 dl plöntumjólk

  • 1 tsk vanilludropar

  • 4 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk matarsódi

  • örlítið salt

  • 150 gr suðusúkkulaði

  • Vegan Ben & Jerry’s ís

Aðferð:

  1. Þeytið saman smjörið og sykurinn í smá tíma, bætið síðan útí mjólkinni og vanniludropunum og þeytið örlítið lengur.

  2. Blandið saman öllum þurrefnunum í skál og hrærið síðan saman við smjörið og sykurinn.

  3. Síðast er súkkulaðið saxað og því blandað saman við deigið.

  4. Rúllið kúlur úr deiginu og bakið í 7-9 mínútur við 180°C.

  5. Leyfið kökunum að kólna á plötunni.

  6. Setjið eina kúlu af ís á hverja köku og pressið svo aðra köku ofan á og njótið!

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel!


-Veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Ben & Jerry’s á Íslandi-

 
ben-and-jerrys-logo.png
 


Frosin ostakaka með Oreo botni

IMG_1113-3.jpg

Það er fátt sem toppar góða máltíð betur en gómsætur eftirréttur. Þegar ég held matarboð þykir mér eftirrétturinn oft alveg jafn mikilvægur og máltíðin sjálf. Eins og það er þægilegt að kaupa góðan vegan ís, ávexti og súkkulaði, þá er líka stundum skemmtilegt að útbúa eitthvað aðeins meira extra. Það er virkilega auðvelt að gera allskonar vegan eftirrétti og sætindi, og við ætlum að reyna að vera duglegri að birta uppskriftir af svoleiðis hérna á blogginu. 

IMG_1029-3.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift af ótrúlega góðri vegan ostaköku. Ég myndi kalla þetta blöndu af ostaköku og ísköku því best er að borða hana nánast beint úr frystinum. Þessi kaka er svo góð að ég hef ekki getað hætt að hugsa um hana síðan ég gerði hana. Oreo botninn passar fullkomlega við fyllinguna sem hefur smá kaffikeim. Ég held það væri gaman að gera úr uppskriftinni litlar ostakökur í bollakökuformi, til að bjóða upp á í matarboðum eða afmælum. 

IMG_0964-2.jpg

Ég get ekki sagt að ég hafi alist upp við að borða ostakökur, en þær eru núna orðnar mikið uppáhald hjá mér. Ég er með aðra mjög góða uppskrift í pokahorninu sem er líka frosin, en á eftir að prufa mig áfram með bakaðar ostakökur. Ég get þó lofað ykkur því að um leið og ég hef masterað svoleiðis köku fáið þið uppskriftina strax. Ég er búin að skora á sjálfa mig að ögra sjálfri mér meira þegar kemur að því að útbúa kökur og deserta. Mér finnst ekkert mál að elda mat og það kemur til mín mjög náttúrulega, en ég er rosalega óöruggur bakari og er yfirleitt með Júlíu í tólinu á meðan ég baka. Ég er þó ákveðin í að hætta að vera hrædd við að baka og sætta mig við það að stundum misheppnast hlutirnir í fyrsta sinn og þá er ekkert annað að gera en að reyna aftur. 

IMG_1066-2.jpg

Þið megið endilega láta okkur vita hvað er ykkar uppáhalds desert og hvort það er eitthvað sem þið viljið að við reynum að "veganæsa." Við erum með endalausar hugmyndir af kökum og skemmtilegu bakkelsi sem okkur langar að setja á bloggið, en það væri mjög gaman að heyra frá ykkur hvað er í uppáhaldi. 

IMG_1120-2.jpg

Hráefni: 

  • 20 Oreo kexkökur

  • 70 gr bráðið vegan smjör (notið hvaða vegan smjör sem er virkar, t.d Krónu smjörlíki eða Ljóma smjörlíki)

  • 1 þeytirjómi frá Alpro (2 dl)

  • 2 öskjur påmackan rjómaosturinn frá Oatly (300gr)

  • 1,5 dl sykur

  • 1 msk vanillusykur

  • 2-3 msk kalt uppáhellt kaffi (fer alfarið eftir því hversu mikið kaffibragð þið viljið hafa. Ég setti 2 msk og það var mjög milt kaffibragð af minni, sem mér fannst fullkomið).

Aðferð:

  1. Myljið niður Oreo kexið, annaðhvort í matvinnsluvél eða með því að setja það í lokaðan nestispoka og brjóta kexið með kökukefli. Hellið muldu kexinu í skál.

  2. Bræðið smjörið, hellið því ofan í skálina og blandið vel saman við kexið með sleif.

  3. Hellið blöndunni í 20 cm smelluform og þrýstið vel í botninn. Setjið formið í frystinn á meðan þið undirbúið fyllinguna.

  4. þeytið rjómann í stórri skál og leggið til hliðar.

  5. Bætið restinni af hráefnunum í aðra stóra skál og þeytið saman.

  6. Bætið þeytta rjómanum útí skálina og þeytið allt saman í nokkrar sekúndur, eða þar til allt er vel blandað saman.

  7. Hellið blöndunni ofan í smelluformið og setjið í frystinn yfir nótt eða í allavega fjóra klukkutíma.

  8. Toppið kökuna með því sem ykkur lystir. Í þetta sinn bræddi ég súkkulaði og toppaði með því, sem voru smá mistök því það var virkilega erfitt að skera í gegnum súkkulaðið þegar það var orðið frosið. Næst myndi ég bræða súkkulaðið og blanda saman við það nokkrum matskeiðum af þykka hlutanum úr kókosmjólk í dós, því þannig harðnar súkkulaðið aldrei alveg. Eins er ótrúlega gott að toppa kökuna bara með muldu Oreo kexi, súkkulaðikurli eða setja yfir hana fullt af ferskum jarðarberjum þegar hún er tekin út. Í rauninni er kakan fullkomin ein og sér, en útlitsins vegna finnst mér skemmtilegt að toppa hana með einhverju gómsætu.

  9. Berið kökuna fram nánast beint úr frystinum. Gott er að láta hana standa í nokkrar mínútur, en hún er svolítið eins og ísterta og er því best ísköld.

Njótið
Helga María