Súkkulaðijógúrt með pólókex mulningi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætum og einföldum morgunmatur sem hentar fullkomlega við betri tilefni, um helgar eða með brönsinum til dæmis. Rétturinn samanstendur af unaðslegri, hollri súkkulaðijógúrt með banana og pólókex mulningi sem bætir smá sætu og krönsi í réttinn.

Úrvalið af vegan jógúrti er orðið mjög gott og fannst mér því tilvalið að gera mjög einfalt tvist á tilbúið jógúrt sem gerir það líkt og það sem heimagert. Frosnu bananarnir gefa smá sætu í jógúrtið og gera það ískalt og ferskt.

Póló kex hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá okkur systrum en það hefur verið vegan frá upphafi. Það er mátulega sætt að mínu mati og virkar fullkomlega með jógúrtinni þar sem hún er ekki sæt. Kexið gefur gott kröns í réttinn og gerir hann smá sparilegan.

Súkkulaðijógúrt með pólókexi

Súkkulaðijógúrt með pólókexi
Fyrir: 2 litlar krukkur
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 10 Min: 10 Min
Gómsætt súkkulaðijógúrt með pólókexi og kókosflögum. Æðislegur spari morgunmatur sem hentar fullkomlega um helgar eða með brönsinum til dæmis.

Hráefni:

  • 10 pólókex
  • 1 frosin banani
  • 400 ml hreint vegan skyr eða vegan grískt jógúrt (eða annað þykkt jógúrt)
  • 1 msk kakó
  • Jarðaber og ristaður kókos til að skreyta (eða það sem hver og einn vill nota)

Aðferð:

  1. Setjið í blandara vegan jógúrtið, bananan og kakóið. Blandið þar til jógúrtið verður alveg slétt og laust við alla kekki. Getið þurft að stoppa á milli og skafa niður hliðarnar þar sem blandarinn getur átt erfitt með frosna bananan í byrjun.
  2. Myljið kexið annað hvort í blandara eða með því að setja það í ziplock poka og brjóta það niður.
  3. Setjið smá af kexmulning í krukku eða lítið glas, hálf fyllið glasið með jógúrtinni og setjið síðan meiri kexmulning og að lokum meira jógúrt.
  4. Skreytið með því sem hver og einn vill
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Pólókex/Frón -

 
 

Kókos og súkkulaðimús með pólókexi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af hinum fullkomna eftirrétti. Ótrúlega loftkennd og mjúk súkkulaðimús með kókoskeim og muldu pólókexi. Við lofum því að það munu allir elska þennan gómsæta eftirrétt.

Við fáum oft spurningar um að deila með ykkur freiri eftirréttum sem eru einfaldir og krefst þess ekki að baka eða neitt slíkt. Því ákváðum við að deila með ykkur þessari snilldar uppskrift því hún er svo fljótleg en á sama tíma fullkomin. Létt og loftkennd og ekki þung í maga sem hentar fullkomlega eftir góða máltíð.

Pólókex er að sjálfsögðu í miklu uppáhaldi hjá okkur systrum þar sem það er ein af gömlu góðu “óvart” vegan vörunum hér á landi. Ég á yfirleitt til pakka af þessu kexi inn í skáp hjá mér til að grípa í með kaffinu.

Ásamt pólókexinu eru einungis þrjú önnur hráefni sem þar í réttinn, að undanskyldum kókosflögum ef fólk vill nota þær til að skreyta hann. Ég nota sweetened condenced coconut milk sem má nú finna í blárri niðursuðudós í flestum verslunum. Þessi vara er ótrúlega bragðgóð, sæt og með kókoskeim.

Kókos og súkkulaðimús með pólókexbotni

Kókos og súkkulaðimús með pólókexbotni
Fyrir: 4-5
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 10 Hour: 10 Hour
Gómsæt kókos og súkkulaðimús sem "krispý" kexbotni sem við lofum að allir muni elska

Hráefni:

  • 1/2 pakki pólókex
  • 1 ferna vegan þeytirjómi
  • 125 gr suðusúkkulaði
  • 1 dós sweetened condensed coconut milk
  • kókosflögur til að skreyta (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Ef súkkulaðið er brætt í örbylgju er mikilvægt að hræra vel í því á 20 sekúndna fresti.
  2. Þeytið rjóman vel og hellið súkkulaðinu síðan út í á meðan þið þeytið á fullum styrk.
  3. Bætið kókosmjólkinni út í og þeytið aðeins lengur.
  4. Myljið niður pólókex í glös eða stórt fat, eftir því í hverju þið kjósið að bera fram músina. Mér finnst best að mylja það gróft og hafa smá bita með en þá má líka hafa það alveg fínt.
  5. Hellið músinni yfir kexið og kælið í að minnsta kosti 2 klst áður en músin er borin fram.
  6. Skreytið með meira kexi og kókosflögum
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Frón -

 
 

Vegan súkkulaðimús með appelsínukeim

Í dag deilum við með ykkur dásamlega mjúkri og loftkenndri súkkulaðimús úr Síríus suðusúkkulaði, appelsínum og möndlum. Þessi súkkulaðimús er fullkomin eftirréttur fyrir hvaða tilefni sem er, hvort sem það er um hátíðir líkt og jól eða páska, veislur eða hversdagslegri tilefni.

Færslan og uppskriftin eru í samstarfi við Nóa Síríus, en í uppskriftina notum við gamla góða suðusúkkulaðið sem er alltaf nauðsynlegt að eiga til á hverju heimili að okkar mati. Suðusúkkulaðið frá Nóa hefur alltaf verið vegan og hentar því í hvaða vegan matargerð sem er, hvort sem það er bakstur, eftirrétti eða heitt súkkulaði til dæmis.

Páskadagur eru á morgun og fannst okkur því nauðsynlegt að deila með ykkur góðum eftirrétti sem væri fullkomin fyrir páskadag og því kom ekki annað til greina en að gera eftirrétt með súkkulaði. Við vildum að uppskriftin væri einföld og tæki ekki langan tíma þar sem það er nauðsynlegt að slaka á og gera sem minnst á páskadag að okkar mati. Músin inniheldur því fá hráefni sem einungis þarf að þeyta saman og bera fram.

Við ákváðum að hafa appelsínur og möndlur með í músinni til að gera hana ennþá betri á bragðið en okkur finnst appelsínur passa fullkomlega með súkkulaði. Það kemur ekkert smá vel út og gerir músina ferskari og skemmtilegri á bragðið. Það er þó alveg hægt að sleppa því og gera músina ennþá einfaldari. Hún bragðast alveg ótrúlega vel á báða máta.

Við vonum að ykkur líki uppskriftin vel og eins og alltaf megið þið endilega tagga okkur á Instagram ef þið eruð að gera uppskriftir frá okkur þar sem okkur finnst svo ótrúlega gaman að fylgjast með.

Gleðilega páska!

Dámasleg vegan súkkulaðimús með appelsínum og möndlum

Dámasleg vegan súkkulaðimús með appelsínum og möndlum
Höfundur: Júlía Sif
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 10 Min: 10 Min
Dásamleg mjúk og loftkennd súkkulaðimús með appelsínukeim sem hentar fullkomlega sem eftirréttur við hvaða tilefni sem er.

Hráefni:

  • 1 ferna vegan þeytirjómi (250 ml)
  • 150 gr Síríus suðusúkkulaði frá Nóa Síríus
  • Safi úr 1/2 appelsínu
  • Börkur af 1/2 appelsínu
  • 1 dl sykur
  • 1/2 dl hakkaðar möndlur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði eða með því að setja það í örbylgjuofn í 20 sekúndur í einu og hræra vel í á milli.
  2. Þeytið rjóman í hrærivél eða með handþeytara þar til stífþeyttur.
  3. Þeytið áfram á meðalhraða og bætið appelsínusafanum, berkinum og sykri út í á meðan.
  4. Hellið súkkulaðinu út í rjóman í mjórri bunu á meðan þið þeytið áfram á meðalhraða. Skafið meðfram hliðum og þeytið þar til allt er komið saman.
  5. Bætið hökkuðum möndlum út í og blandið þeim saman við músina með sleikju.
  6. Fínt er að leyfa músinni að sitja í ísskáp í allavega klukkutíma áður en hún er borin fram en þess þarf þó ekki.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Vegan súkkulaðitrufflur með appelsínulíkjör

IMG_1960.jpg

Í dag deili ég með ykkur annarri uppskrift sem hentar fullkomlega sem heimatilbúin jólagjöf. Þessar trufflur eru mögulega besta nammi sem ég hef gert. Þær eru svo ótrúlega ljúffengar og bráðna bókstaflega í munninum. Þetta er svona uppskrift sem smakkast eins og hún sé rosalega flókin, en er í raun virkilega einföld og þægileg. Ég fékk mér kúlu með síðdegiskaffinu og mér leið eins og það væru komin jól.

IMG_1876-5.jpg

Í nóvember héldum við Siggi upp á afmælið hans og nokkrir vinir okkar mættu með litlar flöskur af allskonar líkjör sem þau höfðu keypt í Alko, finnsku vínbúðinni, þegar þau fóru í “roadtrip” í Ikea á landamærunum. Þau skildu eitthvað af því eftir, þar á meðal Cointreau appelsínulíkjör. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég smakkaði Cointreau var að hann yrði ég að nota í uppskrift og datt þá í hug að gera trufflur fyrir jólin. Ég var ekki alveg viss hvernig það myndi koma út, en fannst þó trúlegt að líkjörinn myndi passa mjög vel við súkkulaðið, sem hann gerði svo sannarlega. Það er þó hægt að skipta honum út fyrir annan líkjör sem manni þykir góður, eða bara sleppa honum ef maður vill. Ég gerði annan skammt í morgun þar sem ég notaði Amaretto möndlulíkjör og ætla að gera úr honum kúlur í kvöld. Ég smakkaði fyllinguna áður en hún fór í ísskápinn og hún var guðdómlega góð líka. Það er því hægt að leika sér endalaust með svona trufflur.

IMG_1956.jpg

Eins og ég sagði að ofan eru þessar trufflur fullkomnar sem jólagjöf. Það er ekki bara persónulegt og skemmtilegt að gefa heimatilbúnar gjafir, heldur kemur það einnig í veg fyrir að maður kaupi bara eitthvað til að gefa eitthvað, sem oftar en ekki bætir bara við dótið sem fólk kannski notar lítið. Eins eru margir sem eiga ekkert svakalega mikinn pening um jólin og eiga erfitt með að kaupa gjafir handa öllum sem þau vilja gefa. Við Siggi erum bæði í námi og eigum því oft ekki mikinn pening svona í lok annarinnar. Því finnst mér hugmyndin um að búa til gómsætar gjafir frábær.

IMG_1964.jpg

Ég rúllaði nokkrar kúlur upp úr kakó en ákvað líka að hjúpa nokkrar í súkkulaði. Mér fannst bæði alveg virkilega gott, en þessar súkkulaðihúðuðu voru alveg extra góðar að mínu mati. Ég var smá hrædd um að það yrði erfitt að hjúpa kúlurnar, en ég setti þær í frystinn eftir að ég rúllaði þær upp þannig þær fengu aðeins að stífna áður en ég hjúpaði þær og það varð ekkert mál. Ég notaði suðusúkkulaði, en vegan mjólkursúkkulaðið frá Ichoc væri örugglega líka mjög gott utan um kúlurnar. Eins held ég að 70% súkkulaði passi rosalega vel því fyllingin er svo sæt.

IMG_1981-2.jpg
IMG_1984.jpg

Súkkulaðitrufflur með appelsínulíkjör (ca 15 stk)

  • 1 dl Alpro þeytirjómi -Ekki þeyta hann samt

  • 25 g smjörlíki

  • 200 g suðusúkkulaði

  • 2 msk Cointreau appelsínulíkjör - Eða bara sá líkjör sem ykkur þykir góður. Eins og ég sagði að ofan passar Amaretto líka fullkomlega í trufflurnar en svo setja margir viskí eða annað áfengi. Eins er auðvitað hægt að sleppa öllu svoleiðis og hafa þetta einfaldlega súkkulaðitrufflur. Eins er líka smekksatriði hversu mikill líkjör er settur út í. Mér fannst 2 msk alveg passlegt, en svo er hægt að bæta meiru við ef fólk vill.

  • Kakó til að rúlla upp úr eða súkkulaði ef þið ætlið að hjúpa kúlurnar

Aðferð:

  1. Saxið niður súkkulaði og setjið í skál.

  2. Hitið rjóma og smjörlíki í potti þar til suðan er alveg að koma upp.

  3. Hellið heitu rjómablöndunni yfir og hrærið varlega saman við súkkulaðið með sleikju. Súkkulaðið á að bráðna alveg, en ef það bráðnar ekki er hægt að hella blöndunni aftur í pottinn og setja á heitu helluna, án þess þó að kveikja á henni.

  4. Bætið líkjörnum út í þegar súkkulaðið er bráðið.

  5. Hellið blöndunni í skál og látið hana kólna upp á borði og setjið svo í ísskáp í 4-6 klst eða yfir nótt.

  6. Takið út og mótið kúlur. Ef þið ætlið að rúlla þeim úr kakó gerið það strax en ef þið ætlið að hjúpa þær í súkkulaði mæli ég með að raða þeim á smjörpappír og setja í frystinn í 30 mín og hjúpa þær svo. Ég reif niður appelsínubörk og setti ofan á og mér fannst það koma mjög skemmtilega út.

  7. Geymið í loftþéttu íláti í ísskáp.

Takk fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel.

veganisturundirskrift.jpg