Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý

IMG_9725.jpg

Eftir að hafa eytt þremur mánuðum í asíu fyrir nokkrum árum hefur asískur matur og þá sérstaklega tælenskur matur verið í mjög miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hugsa að ég gæti borðað núðlur, hrísgrjón og karrý á hverjum einasta degi án þess að fá leið á því. Í ferðinni áttaði ég mig á því hversu miklu betri asískar þjóðir eru í að nota krydd og grænmeti heldur en við og fann ég hvergi fyrir því að erfitt væri að vera vegan eða að borða ekki kjöt. Allir réttir eru stútfullir af góðu grænmeti, hrísgrjónum, núðlum og geggjuðum kryddum.

Ég gerði þau mistök að kaupa mér ekki krydd og kryddblöndur til að taka með heim, en ég fór hins vegar mikið að prófa alls konar kryddmauk í matargerð eftir að ferðinni lauk. Það er til fjöldin allur af góðum karrý og kryddmaukum hérna heima sem gera tælensku og asísku matargerðina einfalaldari en hægt er að hugsa sér. Það þarf þó að passa sig á því að oft má finna innihaldsefni í slíkum maukum sem ekki eru vegan eins og t.d. fiskisósur og fiskikraft.

IMG_9712.jpg

Í krónunni er einstaklega gott úrval af svona kryddmaukum og finnst mér ég finna eitthvað nýtt í nánast hverri einustu búðarferð. Ég get eitt góðum tíma í þessari deild búðarinnar að skoða allar þessar spennandi vörur. Maukinn og vörurnar frá Taste of Asia gripu strax athygli mína þegar ég sá þau fyrst snemma á þessu ári en tók ég eftir að flest maukin frá þeim innihalda 100% vegan innihaldsefni og henta mér því einstaklega vel.

Ég hef prófað mikið af þessum vörum en hefur rauða karrýmaukið alltaf verið til í skápunum hjá mér síðan ég smakkaði það fyrst. Það er ótrúlega bragðgott, og hentar fullkomlega í súpur, kássur eða bara á tófú og núðlur. Ég elska einnig hvað er gott úrval af góðum núðlum frá þessu merki, en lengi vel var nánast einungis hægt að fá “skyndinúðlur” og hrísgrjónanúðlur í felstum matvöruverslunum.

Í þessari færslu ætla ég að deila með ykkur einum af mínum uppáhalds réttum. Það er kókoskarrýsúpa með tófúi og Somen núðlum.

IMG_9743.jpg

Hráefni

  • 4 msk ólífuolía

  • 1 stór gulrót

  • 4-5 cm af blaðlauk

  • 1 rauð papríka

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 cm ferskt engifer

  • 1 pakki tófú

  • Tófú marinering

    • 1/2 dl soyasósa

    • 4 msk ólífuolía

    • 1 tsk hlynsíróp

    • 1 tsk chilli mauk (sambal oelek frá Taste of Asia)

    • 1/2 tsk pressaður hvítlaukur

  • 1 krukka rautt karrýmauk frá Taste of Asia

  • 1 tsk chillimauk (sambal oelek frá Taste of Asia) má sleppa

  • 2 msk hlynsíróp

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 dósir kókosmjólk

  • 2 lítrar vatn

  • 2 grænmetisteningar

  • 1/2 pakki somen núðlur frá Taste of Asia

  • Límóna og ferskur kóríander til að bera fram með súpunni

Aðferð:

  1. Byrjið á því að þerra og skera niður tófúið. Blandið öllum hráefnum fyrir marineringuna saman í skál og setjið teningana út í. Veltið vel upp úr marineringunni og setjið til hliðar

  2. Skerið niður allt grænmeti, rífið engifer og pressið hvítlaukinn.

  3. Steikið grænmetið upp úr ólífuolíunni í stórum potti þar til það mýkist vel.

  4. Bætið rauða karrýmaukinu út í pottinn ásamt 1/2 dl af vatni og steikið áfram í nokkrar mínútur.

  5. Bætið kókosmjólkinni út í pottinn ásamt vatninu, grænmetiskraftinum, hlynsírópi og chillimaukinu.

  6. Leyfið suðunni að koma upp við vægan meðalhita og hrærið í af og til á meðan.

  7. Á meðan súpan sýður er gott að nota tíman til að steikja tófúið. Hitið pönnu, hellið tófúinu ásamt mareneringunni út á pönnuna og steikið á háum hita þar til það verður fallega gyllt á öllum hliðum.

  8. Þegar suðan er komin upp á súpunni er gott að smakka hana til og bæta við salti, pipar og grænmetiskraft ef ykkur finnst þurfa. Leyfið súpunni að sjóða í 15 mínútur.

  9. Bætið núðlunum út í og leyfið súpunni að sjóða í 3 mínútur í viðbót. Slökkvið undir og bætið tófúinu út í pottinn.

  10. Berið fram með límónusneið og ferskum kóríander fyrir þá sem vilja. Einnig er gott að hafa með baunaspírur og muldar salthnetur en það þarf ekki.

-Njótið vel!

- Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna -

 
KRONAN-merki.png
 

Núðlusúpa með grænu karrý og steikt hrísgrjón │ Veganistur TV │ 3. þáttur

Núðlusúpa með grænu karrý frá Blue Dragon (fyrir tvo)

  • 1/2 pakki af tófú (sirka 225 gr)

  • 1/2 laukur

  • 1 tsk hvítlauksmauk frá Blue Dragon

  • 4-5 kastaníusveppir

  • 1 grænt chilli (má sleppa)

  • 2 msk olífuolía

  • 2-3 msk sesamolía frá Blue Dragon

  • 1 dl grænt karrý frá Blue Dragon

  • 2 1/2 dl vatn

  • 2 1/2 dl kókosmjólk eða Oatly haframjólk

  • 1 grænemtisteningur

  • 2-3 msk soyasósa

  • ferskur kóríander (má sleppa)

  • 120 gr heilhveiti núðlur frá Blue Dragon eða aðrar vegan núðlur.

Aðferð:

  1. Byrjið á því að saxa niður laukinn, skera tófúið í litla kubba, sveppina í sneiðar og saxið niður græna chilli’ið. Ég tek fræin úr chilliinu þar sem ég vil ekki hafa súpuna of sterka en græna karrýið er frekar sterkt eitt og sér.

  2. Hitið olíurnar í potti og setjið hvítlauksmaukið út í. Bætið grænmetinu, tófúinu og karrýmaukinu út í pottinn og steikið í góðar 10 mínútur.

  3. Bætið vatninu, kókosmjólkinni eða haframjólkinni, salti og grænmetisteningnum út í pottinn og leyfið þessu að sjóða í 10 til 15 mínútur

  4. Bætið núðlunum, kóríander (ef þið kjósið að nota hann) og soyasósunni út í og leyfið súpunni að sjóða í 3 til 4 mínútur í viðbót eða þar núðlurnar eru soðnar í gegn

Steikt hrísgrjón

  • 1/2 pakki tófú (sirka 225 gr)

  • 2 gulrætur

  • 1 dl frosnar grænar baunir

  • 1 dl frosnar maísbaunir

  • 2-3 cm vorlaukur

  • 1 tsk hvítlauksmauk frá Blue Dragon

  • 2-3 msk soyasósa

  • 1 tsk laukduft

  • 1 dl ósoðin hrísgrjón

  • 3 dl vatn

  • 1 grænmetisteningur

  • 2-3 msk soyjasósa

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið tófúið í litla kubba og saxið niður vorlaukinn og gulræturnar.

  2. Hitið olíurnar á pönnu og bætið síðan út á pönnunna grænmetinu, tófúinu, kryddunum og soyasósunni. Steikið í góða stund.

  3. Bætið út á pönnuna hrísgrjónunum, vatninu og grænmetistening. Hrærið aðeins saman. Setjið lok á pönnunna og leyfið þessu að sjóða á lágum hita í 20 mínútur eða þar til hrísgrjónin eru alveg soðin í gegn.

  4. Berið fram með smá auka soyjasósu ef hver og einn vill eða jafnvel sweet chilli sósu.

Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og Blue Dragon á Íslandi.

 
KRONAN-merki.png
blue-dragon-9f73dcaec1.png

Hrísgrjónanúðlur með hnetusmjörssósu og tofu

IMG_1389.jpg

Þá er veturinn kominn langt á veg og flestir komnir á fullt, rútínan loksins að verða komin á ról aftur og allir á fullu í sínu, allan daginn. Meðlimir fjölskyldunnar fara út á morgnanna hver í sína átt og hittast oft ekki aftur fyr en um kvöldmatarleytið. "En hvað á að hafa í matinn?" Þetta er ein leiðinlegasta umræða sem flestar fjölskyldur þurfa að eiga á hverjum degi. Hvort sem fjölskyldna samanstendur af einni manneskju eða átta þarf alltaf að hafa eitthvað í matinn og bara að ákveða það getur verið mikill hausverkur, hvað þá að þurfa að ákveða það á hverjum einasta degi.

IMG_1252.jpg

Eg sagði þessari spurningu stríð á hendur fyrir nokkrum árum og fór að gera matseðla um helgar fyrir viku í senn sem eg verslaði svo inn fyrir í einni ferð. Þvílíkur léttir að þurfa ekkert að hugsa um það, dag eftir dag, hvað ég eigi að hafa í matinn. Fara bara út í daginn vitandi nákvæmlega hvað á að vera í kvöldmat og að allt sé til í ísskápnum í akkúrat þann rétt. Hins vegar er auðvitað ekki alltaf auðvelt að setja niður á blað 6 máltíðir í einu, það er oft snúið, stundum alveg ótrúlega létt en stundum eins og það séu bara ekki til fleiri réttir í heiminum en tveir eða þrír. Ég er hins vegar komin með ágætis æfingu og enn ágætara gagnasafn af vikumatseðlum og fannst því komin tími til að leyfa ykkur að njóta góðs af. Við systur höfum því ákvaða að gera vikumatseðil að vikulegum færslum hérna á blogginu og vonum að ykkur líki vel.

IMG_1384.jpg
IMG_1386.jpg

Þó eru auðvitað ekki næstum allar uppskriftirnar af réttunum hérna inná blogginu en munum við auðvitað bæta í smátt og smátt og reyna að koma öllum okkar uppáhalds réttum hingað inn. Í þessari viku eru hnetusmjörs-tofu-núðlur á matseðlinum og fannst mér því tilvalið að setja þá uppskrift inn samhliða honum en þessar núðlur eru í algjöru uppaháldi hjá okkur þessa stundina. Þær eru alveg ótrúlega bragðgóðar og matarmiklar, og ekki skemmir fyrir hversu hollar og næringarríkar þær eru í leiðinni.

IMG_1439.jpg
IMG_1461.jpg

Hráefni:

  • 1/2 pakki hrísgrjónanúðlur

  • 1/2 kubbur tofu

  • 1/2 haus brokkoli

  • 1/2 græn paprika

  • u.þ.b. 10 cm af blaðlauk

  • u.þ.b. 1 bolli harricot baunir (ég kaupi frosnar)

  • u.þ.b. 1 bolli hvítkál skorið í þunnar ræmur

  • 4 gulrætur

  • Hnetsmjörssósa:

    • 2 bollar vatn

    • 2-3 msk grænmetiskraftur

    • 4 kúfullar msk hnetusmjör

    • 1 msk tamarisósa

    • 3 hvítlauksgeirar

    • 2 ferskar döðlur (muna að taka steininn úr)

    • 2 tsk rautt karrý mauk (red curry paste)

    • smá sítrónusafi kreystur úr ferskri sítrónu (má alveg sleppa)

    • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Mér finnst best að byrja á því að setja vatn í frekar stóran pott og kveikja undir, þá er það farið að sjóða og hægt að setja núðlurnar útí, þegar ég hef undirbúið allt hitt.

  2. Ég sker tofuið niður en mér finnst best að henda því bara inn í ofn eins og það er, ekki með neinu kryddi eða neitt og leyfa því að vera þar á meðan að ég steiji grænmetið og útbý hnetusósuna.

  3. Skerið grænmetið niður eftir smekk og steikið létt upp úr örlitlu vatni

  4. Setjið öll hréfnin fyrir sósuna í blandara ðea matvinnsluvél og blandið vel þar til allt er komið vel saman.

  5. Sjóðið núðlurnar í vatninu eftir leiðbeiningum á pakkningunni.

  6. Takið tófuið út og bætið út á pönnuna með grænmetinu, hellið síðan hnetusósunni yfir það og leyfið suðunni á henni að koma upp. Mér finnst best að leyfa sósunni að malla í 5-7 mínútur áður en ég blanda núðlunum saman við.

  7. Berið réttinn fram einan og sér eða með spírum og muldum salthnetum

Njótið vel

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg