Kalt kínóasalat með hnetusmjörssósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að virkilega fljótlegu og einföldu köldu kínóasalati með hnetusmjörssósu. Salatið er fullkomið sem bæði kvöldmatur og hádegismatur og hentar vel í nestisboxið þar sem það er borið fram kallt. Það er stútfullt af góðu grænmeti og sósan er bragðmikil og góð og inniheldur hnetusmjör, sojasósu, hvítlauk, engifer, sesamolíu og hlynsíróp. Virkilega gott!

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Kikkoman og við notuðum sojasósuna frá þeim í sósuna. Sojasósan þeirra er okkar “go to” og við notum hana mikið í allskyns matargerð. Við erum því alltaf jafn spenntar fyrir því að vinna með þeim.

Hnetusmjörssósan er algjört lostæti og við elskum að nota hana í allskonar núðlurétti, salöt, tófúrétti og hrísgrjónarúllur. Fyrir þá sem eru með ofnæmi fyrir jarðhnetum er ekkert mál að nota annað hvort tahini eða möndlusmjör.

Grænmetið sem við notuðum í þetta skipti var paprika, edamamebaunir, gulrætur, rauðkál, vorlaukur og kóríander. Það má að sjálfsögðu leika sér endalaust með það og nota það sem manni lystir. Þetta salat er einnig tilvalið til að nýta það grænmeti sem til er í ísskápnum.

Við vonum innilega að ykkur líki uppskriftin. Þetta er réttur sem við systur höfum verið með algjört æði fyrir í langan tíma. Endilega látið okkur vita í kommentunum hvað ykkur finnst!

Kínóa salat með hnetusmjörssósu

Fyrir: 2
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 10 MinEldunartími: 20 Min: 30 Min

Hráefni:

  • 1 1/2 dl óeldað kínóa
  • 1/2 rauð paprika
  • 2 litlar gulrætur (eða 1 stór)
  • 2 vorlaukar
  • Sirka 1 dl af þunnt skornu rauðkáli
  • 1 dl edamame (passa að kaupa afhýddar)
  • fersk kóríander (magn eftir smekk, má sleppa)
  • Hnetusmjörssósa
Hnetusmjörssósa
  • 1 dl hnetusmjör
  • 1 dl vatn
  • 1/2 dl KIKKOMAN soya sósa
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 cm engiferrót
  • 1 msk sesam olía
  • 1 msk hlynsíróp
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða kínóað eftir leiðbeiningum á pakkningu.
  2. Sjóðið edamame baunirnar í vatni í 4-5 mínútur og setjið til hliðar og leyfið að kólna.
  3. Skerið í þunna strimla gulrætur, papríku, rauðkál, vorlauk og kóríander.
  4. Útbúið sósuna.
  5. Blandið öllu saman í stóra skál.
Hnetusmjörssósa
  1. Byrjið á því að hræra saman vatninu og hnetusmjörinu en það tekur smá tíma að ná því sléttu.
  2. Bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman.
  3. Smakkið til með salti og pipar, en einnig má bæta við smá soyasósu ef hver og einn vill.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Færslan er unnin í samstarfi við Kikkoman-