Fljótlegt kartöflusalat með rauðu pestói

Uppskrift dagsins er af kartöflusalati með rauðu pestói, radísum, vorlauk, ristuðum furuhnetum, sítrónusafa og sítrónuberki. Kartöflusalatið er einstaklega fljótlegt og passar bæði sem aðalréttur eða sem meðlæti með t.d. góðum grillmat.

Færsla dagsins er í samstarfi við Sacla á Íslandi og við notuðum rauða tómatpestóið þeirra í kartöflusalatið. Þessi uppskrift er jafn góð með rauðu og grænu pestói en við vorum í stuði fyrir það rauða í þetta sinn. Við elskum pestóin og sósurnar frá Sacla og erum alltaf jafn spenntar fyrirn því að fá að vinna með þeim.

Oft eru kartöflusalöt gerð úr soðnum kartöflum og majónesi, en við vildum breyta út af vananum og bökuðum kartöflurnar í ofni upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Eins slepptum við því alfarið að setja majónes í salatið og vildum hafa það aðeins léttara.

Í salatið settum við þunnt skornar radísur, vorlauk og ferska basiliku. Planið var að hafa klettasalat líka, en við gleymdum því. Ég get ímyndað mér að það komi mjög vel út í salatinu. Sítrónusafinn og börkurinn gefa salatinu mjög ferskt og gott bragð.

Ristuðu furuhneturnar gefa salatinu svo þetta extra “krisp.” Það má að sjálfsögðu skipta þeim út fyrir t.d. kasjúhnetur, valhnetur, graskers- eða sólblómafræ. Ég mæli þó mikið með að hafa eitthvað stökkt í salatinu.

Takk innilega fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki uppskriftin. Endilega skellið kommenti undir færsluna ef þið prófið.

-Veganistur

Kartöflusalat með rauðu pestói

Kartöflusalat með rauðu pestói
Höfundur: Helga María
Fljótlegt kartöflusalat með rauðu pestói, radísum, vorlauk, ristuðum furuhnetum, sítrónusafa og sítrónuberki. Kartöflusalatið er einstaklega fljótlegt og passar bæði sem aðalréttur eða sem meðlæti með t.d. góðum grillmat.

Hráefni:

  • 1 kg af íslenskum kartöflum
  • Olía að steikja upp úr
  • Salt og pipar
  • 3/4 krukka af rauðu eða grænu vegan pestó frá Sacla
  • 1 poki af radísum (ca 125 gr)
  • 1-2 vorlaukar
  • Fersk basilika eftir smekk
  • 1 msk sítrónusafi
  • Börkur af hálfri sítrónu
  • Ristaðar furuhnetur eftir smekk
  • Ólífuolía
  • Salt og pipar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn i 220°c.
  2. Skerið kartöflurnar í tvennt, stráið olíu, salti og pipar yfir og bakið á ofnplötu í 30 mínútur eða þar til þær hafa fengið gylltan lit og eru mjúkar í gegn.
  3. Skerið niður vorlauk og basiliku og sneiðið radísurnar.
  4. Leyfið kartöflunum að kólna aðeins og setjið þær svo í stóra skál ásamt pestói, grænmetinu, sítrónusafa og rifnum sítrónuberki.
  5. Ristið furuhneturnar í nokkrar mínútur á pönnu og passið að þær brenni ekki.
  6. Toppið salatið með ólífuolíu, furuhnetum, salti og pipar. Smakkið til hvort þið viljið bæta einhverju við.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Þessi uppskrift er gerð í samstarfi við Sacla á Íslandi-