Vegan samlokur með snitseli og hrásalati

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að djúsí samlokum með vegan snitseli og hrásalati með eplum og parmesanosti. Samlokur sem hitta beint í mark og er auðvelt að útbúa. Þær eru mettandi og henta því fullkomlega í hádegismat eða kvöldmat.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og ég notaði snitselið frá þeim í samlokurnar. Ég elska að eiga snitsel til í frystinum og geta skellt því á pönnu, í ofninn eða airfryerinn og bera fram með góðu meðlæti. Í þetta sinn var ég í stuði fyrir góða samloku. Ég keypti nýbökuð chiabattabrauð og útbjó dásamlegt hrásalat með skemmtilegum snúning þar sem ég setti í það epli og rifinn parmesanost. Virkilega gott!

Ég steikti snitselið á pönnu upp úr miklu vegan smjöri. Eins og ég sagði hér að ofan er ekkert mál að setja það í ofninn eða air fryer.

Ég vissi að ég vildi gera hrásalat en mig langaði að bæta einhverju skemmtilegu við. Ég ákvað að setja epli fyrir ferskleikann og vegan parmesanost. Það varð virkilega gott. Ég geri alltaf frekar stóran skammt af hrásalati til að eiga afgang því mér finnst hrásalat gott með nánast öllu.

Ég notaði chiabattabrauð fyrir samlokurnar í þetta sinn en það er líka gott að nota annað brauð t.d. baguettebrauð eða hamborgarabrauð. Ég get líka ímyndað mér að það sé gott að setja smá buffalosósu á snitselið fyrir ykkur sem ekki eruð viðkvæm fyrir sterkum mat.

Ég mæli mikið með því að prófa að gera þessa gómsætu snitsel samloku. Okkur þykir alltaf jafn hentugt að gera samlokur og erum með nokkrar súper góðar hérna á blogginu, t.d. þessar:

Samloka með pestó, vegan kjötbollum og ostasósu

Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú, piparmajónesi og bjórsteiktum lauk

Grillaðar samlokur með vegan kjúkligasalati

Takk fyrir að lesa og ég vona að þú njótir!

Helga María <3

Samlokur fyrir 2-4 (fer eftir því hversu svöng þið eruð)

Samlokur fyrir 2-4 (fer eftir því hversu svöng þið eruð)
Fyrir: 2-4
Höfundur: Helga María
Hér er uppskrift að djúsí samlokum með vegan snitseli og hrásalati með eplum og parmesanosti. Samlokur sem hitta beint í mark og er auðvelt að útbúa. Þær eru mettandi og henta því fullkomlega í hádegismat eða kvöldmat.

Hráefni:

  • Brauð sem ykkur þykir gott
  • 1 pakki snitsel frá Anamma (í honum eru 4 stykki)
  • Salat
  • 1 dl Vegan majónes
  • 1/2-1 dl vegan sýrður rjómi
  • 250 gr þunnt skorið hvítkál
  • 1 meðalstór rifin gulrót (ég keypti poka sem var að renna út af hvítkáli og rifnum gulrótum til að gera hrásalat. Pokinn var sirka 270 gr)
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 1 lítið epli
  • 1 dl rifinn vegan parmesanostur
  • 1/2 tsk dijonsinnep
  • salt og smá sykur
  • svartur pipar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa hrásalat með því að blanda saman í skál þunnt skornu hvítkáli, rifnum gulrótum, þunnt skornum rauðlauk, þunnt skornu epli, majónesi, sýrðum rjóma, rifnum parmesanosti, dijonsinnepi, salti, sykri og svörtum pipar.
  2. Hitið vegan smjör eða olíu á pönnu og steikið snitselin þar til þau hafa fengið góðan lit og eru elduð í gegn. Vegan snitsel þarf ekki að þíða áður en það er steikt heldur er það tekið beint úr frystinum og steikt.
  3. Ristið brauðið á pönnu, eða í ofni.
  4. Smyrjið smá vegan majónesi á botninn, bætið káli eða salati yfir, þar næst snitselinu og toppið svo með hrásalati og ferskum jurtum ef þið eigið til. Ath að á myndunum er ég með tvö snitsel á hverri samloku. Það var mest fyrir "lúkkið" á myndunum en ég myndi frekar hafa eitt á hverri samloku.
  5. Njótið í botn!
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Færslan er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-