Hvít pizza með kartöflum og timían

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að hvítri pizzu eða pizza bianco, með sýrðum rjóma, kartöflum, rauðlauk, timían og chiliflögum. Eftir baksturinn er hún svo toppuð með klettasalati, ristuðum möndlum, vegan parmesanosti og sítrónuberki. Þetta er mín allra uppáhalds pizza sem slær í gegn í hvert skipti sem ég býð vinum og fjölskyldu upp á hana. Ef þið hafið ekki prófað hvíta pizzu mæli ég með því að gera það á næsta pizzakvöldi.

Ég útbjó einfalt og gott pizzadeig sem bæði er hægt að gera í hrærivél og með höndunum. Ég nota aðferðina “slap and fold” sem mér finnst mjög þægileg til að fá gott deig. Í myndbandinu hér að neðan sjáið þið hvernig ég nota þá aðferð.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í þessa gómsætu pizzu. Hagkaup standa sig svo vel í að bjóða upp á spennandi vegan vörur og við erum ekkert smá stoltar af því að fá að vinna með þeim.

Úr deiginu koma tvær pizzur sem ég myndi segja að hver um sig sé nóg fyrir tvær manneskjur. Sem gerir það að verkum að uppskriftin er fyrir fjóra EN ef þið eruð svakalega svöng, sem margir eru þegar verið er að baka pizzu mæli ég með því að gera tvöfalda uppskrift.

Mörgum finnst eflaust tilhugsunin um kartöflur á pizzu svolítið skrítin, en um leið og þið prófið munið þið sjá hversu ótrúlega gott það er. Galdurinn er að skera kartöflunar mjööög þunnt. Ég notaði mandólín. Ef þið eigið ekki svoleiðis og eigið erfitt með að skera sneiðarnar virkilega þunnt er ekkert mál að skella þeim á pönnu í stutta stund áður en þær fara á pizzuna. Við viljum nefnilega ekki hafa kartöflurnar hráar.

Athugið að á myndinni hér að ofan hef ég sett ristuðu möndlurnar á hana áður en ég bakaði hana. Það geri ég oft en þær eiga það til að brenna við, svo ég prófaði á seinni pizzunni sem ég bakaði að setja þær eftir á og þar sem möndlurnar eru þegar ristaðar og saltaðar fannst mér það betra svoleiðis.

Timían og kartöflur eru guðdómleg blanda að mínu mati. Þar sem pizzan er hvít er engin pizzasósa en í stað hennar smurði ég botninn með sýrðum rjóma sem ég hafði blandað við hvítlauk og smá salt. Ekkert smá gott!!

Vantar þig hugmynd af geggjuðum eftirrétti að bera fram eftir pizzuna? Hér er uppskrift af æðislega góðri súkkulaðimús með appelsínubragði.

Hvít pizza með kartöflum og timían

Hvít pizza með kartöflum og timían
Höfundur: Helga María
Hvít pizza eða pizza bianco, með sýrðum rjóma, kartöflum, rauðlauk, timían og chiliflögum. Eftir baksturinn er hún svo toppuð með klettasalati, ristuðum möndlum, vegan parmesanosti og sítrónuberki. Mín allra uppáhalds pizza sem slær í gegn í hvert skipti sem ég býð vinum og fjölskyldu upp á hana. Ef þið hafið ekki prófað hvíta pizzu mæli ég með því að gera það á næsta pizzakvöldi.

Hráefni:

Pizzadeig fyrir tvær pizzur
  • 500-550 g hveiti (byrjið á því að setja 500 og bætið við ef deigið er mjög blautt)
  • 6 g þurrger
  • 2 tsk salt
  • 2 tsk sykur
  • 4 msk ólífuolía
  • 350 ml vatn (35-37°c)
Hvít pizza með kartöflum og timían
  • Tvö pizzadeig annaðhvort heimagerð eða keypt
  • 250 ml sýrður rjómi frá Oatly
  • 1 hvítlauksgeiri
  • Salt
  • 200 gr rifinn epic mature cheddarostur frá Violife
  • 1 rauðlaukur
  • Kartöflur eftir smekk. Ég notaði sirka 2 litlar á hverja pizzu
  • Ferskt timían
  • Smá ólífuolía
  • Salt og chiliflögur
  • Eftir bakstur:
  • Klettasalat
  • Ristaðar og saltaðar möndlur
  • Hvítlauksolía
  • prosociano (parmesan) ostur frá Violife
  • Rifinn sítrónubörkur

Aðferð:

Pizzadeig fyrir tvær pizzur
  1. Hrærið saman hveiti, þurrgeri, sykri og salti í skál.
  2. Bætið vatni og ólífuolíu saman við.
  3. Deigið mun vera blautt í fyrstu, en hafið ekki áhyggjur. Ef þið notið hærivél hnoðið þar til deigið sleppist frá skálinni. Ef þið hnoðið með höndunum byrjið á því að setja svolítið af hveiti á borðið og hnoða það með blautum höndum og notið svo aðferðina slap and fold. Það er svolítið erfitt að útskýra aðferðina en í myndbandinu hér að ofan sjáiði hvernig ég geri. Þetta geri ég í svolitla stund eða þar til deigið fer frá því að vera blautt í að verða slétt og fínt.
  4. Látið deigið hefast í sirka einn klukkutíma í skál.
  5. Deila deiginu næst í tvennt og útbúið tvær kúlur með því að draga saman kantanna á deiginu. Þetta sýni ég líka í myndbandinu hér að ofan. Leggið viskastykki yfir kúlurnar og leyfið þeim að hefast í 20-30 mínútur í viðbót. Hitið ofninn, pizzasteininn eða pizzastálið á meðan á hæsta hita sem ofninn býður uppá.
  6. Fletjið deigið ekki út með kökukefli heldur notið hendurnar til að fletja út pizzurnar.
  7. Toppið deigið með því sem þið ætlið að hafa á (uppskrift af því hér að neðan) og bakið þar til pizzan hefur fengið lit og osturinn vel bráðnaður. Ég nota pizzastál sem ég hita á hæsta hita með ofninum í sirka 40 mínútur. Ég hef stálið hátt í ofninum og baka pizzuna beint á stálinu. Ég set 2 ísbita eða lítið eldfast mót með vatni í botninn á ofninum og loka honum svo. Það tekur mig bara 3-4 mínútur að baka pizzuna á stálinu. Þetta sýni ég líka í myndbandinu hér að ofan.
  8. Ef þið eigið ekki pizzastál og pizzaspaða myndi ég setja deigið á smjörpappír áður en þið toppið hana með álegginu og rennið því svo beint á ofnplötu.
Hvít pizza með kartöflum og timían
  1. Hrærið sýrðum rjóma saman við hvítlauksgeira og smá salt og smyrjið á pizzadeigið.
  2. Bætið rifnum osti yfir.
  3. Skerið kartöflurnar virkilega þunnt. Ég nota mandolin svo þær verða mjög þunnar. Ég held að ostaskeri ætti líka að geta virkað. Ef þið eigið ekki mandólín eða eigið erfitt með að skera kartöflurnar mjög þunnt er ekkert mál að steikja skífurnar örlítið fyrir svo að þær verði alls ekki hráar þegar pizzan er tilbúin. Skífurnar verða svo þunnar með mandolini að það er engin þörf á að steikja þær fyrir.
  4. Bætið rauðlauk og timían á pizzuna og toppið að lokum með smá ólífuolíu, salti og chiliflögum.
  5. Rennið pizzunni á pizzaspaða ef þið eigið svoleiðis. Mér finnst það enn erfiðasti parturinn en er að æfa mig. Bakið pizzuna þar til hún er orðin gyllt og osturinn vel bráðnaður. Ég skrifa hér að ofan í uppskriftinni að pizzadeiginu hvernig ég baka mínar pizzur á stálinu.
  6. Takið hana út og toppið með klettasalati, vegan parmesanosti, ristuðum og söltuðum möndlum, hvítlauksolíu, sítrónuberki og salti.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Takk fyrir að lesa og vona að þér líki uppskriftin!

-Helga María

-Þessi færsla er gerð í samstarfi við Hagkaup-