Einföld og fljótleg bláberjabaka

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlega góðri og einfaldri bláberjaböku sem er fullkomin fyrir alla fjölskylduna. Þetta er hinn fullkomni eftirréttur að gera þegar þú vilt gera eitthvað sætt og gott sem tekur stutta stund og þarfnast lítillar sem engrar fyrirhafnar. Ég mæli mikið með að gera þessa gómsætu bláberjaböku úr nýtíndum bláberjum, það er extra gott.

Færsla dagsins er í samstarfi við Til hamingju. Við systur elskum vörurnar frá þeim og skáparnir okkar eru fullir af allskonar þurrvörum frá þeim sem gott er að nota í bakstur eða matargerð. Við erum því einstaklega stoltar yfir því að fá að vinna með þeim.

Þessi uppskrift er ein af þeim sem hægt er að leika sér með. Það má skipta möndlunum út fyrir aðrar hnetur, til dæmis heslihnetur, eða fræ. Frystirinn minn er fullur af gómsætum bláberjum sem ég tíndi í skóginum síðustu vikur og þess vegna fannst mér tilvalið að nota þau í uppskriftina. Það má þó skipta þeim út fyrir til dæmis epli, nektarínur eða önnur ber.

Í uppskriftina nota ég engan hvítan sykur, mér finnst passa betur að setja hlynsíróp. Ég hef líka notað einungis döðlur sem sætu og líka blandað döðlum og smávegis af hlynsírópi. Allt smakkaði það ótrúlega vel, en mér finnst ég fá sem besta áferð með því að nota hlynsírópið.

Þegar ég sagði að uppskriftin væri einföld var ég alls ekki að grínast. Hitið ofninn í 180°c, Blandið í skál haframjöli, muldum möndlum, kókosmjöli, bræddu smjörlíki eða kókosolíu, hlynsírópi, smá salti og kanil. Hellið svo bláberjum í eldfast mót og hrærið maíssterkju og örlitlu hlynsírópi saman við. Toppið með haframjölsblöndunni og bakið í ofni í sirka hálftíma. TILBÚIÐ.

Toppið með vegan vanilluís eða vegan þeyttum rjóma. Ég get ímyndað mér að vegan vanillusósa sé líka virkilega góð með. Borðið sem eftirrétt, millimál, morgunmat jafnvel.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar þér uppskriftin! <3

-Helga María

Einstaklega fljótleg og góð vegan bláberjabaka

Einstaklega fljótleg og góð vegan bláberjabaka
Fyrir: 6
Höfundur: Helga María
Þessi gómsæta vegan bláberjabaka er hinn fullkomni einfaldi eftirréttur. Það tekur enga stund að útbúa hana og hún er dásamlega góð borin fram með vegan vanilluís eða vegan þeyttum rjóma.

Hráefni:

  • 200 gr haframjöl frá Til hamingju
  • 50 gr kókosmjöl frá Til hamingju
  • 50 gr möndlur frá Til hamingju
  • 1 tsk kanill
  • Smá salt
  • 150 gr vegan smjörlíki
  • 1/2 dl hlynsíróp plús 1 tsk til að setja út í berin
  • 400 gr bláber - frosin eða fersk. Ég notaði frosin ber sem ég tíndi sjálf
  • 1 msk maíssterkja
  • Vegan vanilluís eða vegan þeytirjómi til að bera fram með

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°c undir og yfir hita.
  2. Blandið saman haframjöli, kókósmjöli, muldum möndlum (ég muldi mínar í matvinnsluvél en það er hægt að hakka þær smátt ef þið eigið ekki svoleiðis vél), kanil og salti í skál.
  3. Bætið við bræddu smjörlíki og hlynsírópi og hrærið saman við.
  4. Setjið bláberin í eldfast mót. Bætið saman við maíssterkju og hlynsírópi og hrærið svo það þekji berin vel.
  5. Stráið haframjölsblöndunni yfir og bakið í ofninum í sirka 30 mínútur eða þar til bakan fær gylltan og fínan lit.
  6. Berið fram með vegan vanilluís eða vegan þeyttum rjóma.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur
 
 

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Til hamingju-