Einföld vegan ostasósa

Ég deili með ykkur uppskrift af minni uppáhalds vegan ostasósu. Grunnurinn er úr kasjúhnetum og auk þeirra inniheldur sósan hvítlauk, jalapeno, krydd, eplaedik og næringarger. Ostasósan er fullkomin með mexíkóskum mat, svo sem nachos, taco og burrito. Ég elska að bera hana fram með tortillaflögum og salsasósu eða hella henni yfir nachos og baka inni í ofni.

Eins og ég sagði að ofan er þessi ostasósa virkilega góð með mexíkóskum mat. Ef ég myndi gera sósuna til að nota með mat sem ekki er mexíkóskur myndi ég kannski sleppa því að nota jalapeno þar sem það gefur sósunni svolítið þetta “nacho cheese” bragð. Ég hef þó gert sósuna akkúrat eins og hún er hér í ofnbakaðan pastarétt og það var virkilega gott.

Það gæti ekki verið einfaldara að útbúa þessa sósu. öllu er blandað saman í blandara eða matvinnsluvél og útkoman er dásamlega góð silkimjúk sósa sem minnir á ostasósuna sem kemur með nachos í bíó. Ég man að ég elskaði svoleiðis sósu þegar ég var yngri og elska að geta skellt í svipaða sósu heima úr gómsætum og næringarríkum hráefnum.

Ég vona að ykkur líki ostasósan vel. Endilega deilið með mér hvernig ykkur þykir best að bera sósuna fram. Mér finnst best að borða hana sem ídýfu með tortillaflögum, ofan á ofnbakað nachos eins og þetta HÉR, í tacos eða burrito.

-Helga María

Vegan ostasósa

Vegan ostasósa
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • 3 dl kasjúhnetur (lagðar í bleyti annaðhvort yfir nótt eða í heitu vatni í einn klukkutíma. Fer eftir því hversu öflugan blandara eða matvinnsluvél þið notið)
  • 2 dl haframjólk eða önnur vegan mjólk (helst ósæt samt)
  • 4 sneiðar jalapeno í krukku
  • 1/2 dl safi úr jalapenokrukkunni
  • 1/2 dl næringarger
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 tsk laukduft
  • 1 tsk paprikuduft
  • 1/2 tsk túrmerík
  • 2 tsk eplaedik
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Leggið kasjúnhnetur í bleyti. Ég á mjög öflugan blandara svo ég setti þær í bleyti í sjóðandi heitu vatni í klukkutíma. Ef ykkar blandari/matvinnsluvél er kraftminni mæli ég með að hafa þær í bleyti í vatni yfir nótt.
  2. Hellið vatninu af kasjúhnetunum og setjið hneturnar ásamt restinni af hráefnunum í blandara eða matvinnsluvél og blandið þar til úr kemur mjúk sósa. Saltið og piprið eftir smekk.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur