Ofnbakað nachos með vegan hakki, ostasósu og salsasósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að ofnbökuðu nachosi með vegan hakki, ostasósu og salsasósu. Sannkallað súpernachos. Skemmtilegur, fljótlegur og einfaldur réttur sem gaman er að deila með vinum eða fjölskyldu og passar vel sem til dæmis forréttur, snarl eða kvöldmatur.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og í nachosið notaði ég hakkið frá þeim sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og virkilega mikið notað á mínu heimili. Við systur elskum vörurnar frá Anamma og erum alltaf jafn stoltar af því að fá að vinna með þeim.

Ég kryddaði hakkið með blöndu af gómsætum mexíkóskum kryddum. Ég notaði tómatpúrru, hvítlauk, kúmín, túrmerík, reykta papríku, oregano. laukduft og chiliduft. Ég bætti svo örlítilli sojasósu við til að gefa réttinum örlítið extra “umame” og að lokum safa úr hálfu lime. Það má að sjálfsögðu nota tilbúna taco kryddblöndu sem fæst í öllum verslunum. Ég gríp oft í svoleiðis krydd sjálf og finnst það mjög gott.

Vegan-nachos-med-anamma-hakki-vegan-osti-vegan-ostasosu

Ég setti nachosflögurnar í eldfast mót og toppaði með hakkinu, heimatilbúinni ostasósu, salsasósu og rifnum vegan osti áður en það fór inn í ofn. Uppskrift af ostasósunni finnurðu HÉR.

Ég bakaði nachosið þar til osturinn bráðnaði og rétturinn hafði fengið á sig örlítið gylltan lit. Það tók ekki langan tíma, um það bil 10 mínútur.

Ég skellti í einfalt guacamole til að toppa réttinn með. Ég nota yfirleitt ferskt avókadó en ég hafði nýlega keypt tvo pakka af frystu avókadó á afslætti og ákvað að prófa að nota það í guacamole og mér fannst það koma mjög vel út.

Ég toppaði nachosið með guacamole, vorlauk, fersku kóríander, vegan sýrðum rjóma og fullt af kreistum limesafa. Það er í raun hægt að toppa með öllu því sem manni þykir gott. Ég mæli með t.d. svörtum baunum, maísbaunum, fersku eða niðursoðnu jalapeno, ferskum tómötum, sýrðum rauðlauk.. listinn gæti haldið endalaust áfram.

Takk kærlega fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki uppskriftin. Taggið okkur endilega á Instagram ef þið prófið uppskriftirnar okkar, það gerir okkur svo ótrúlega glaðar.

-Helga María

Ofnbakað nachos með vegan hakki, ostasósu og salsasósu

Ofnbakað nachos með vegan hakki, ostasósu og salsasósu
Fyrir: 3-4
Höfundur: Helga María
Einstaklega gott ofnbakað nachos með vegan hakki, ostasósu og salsasósu.

Hráefni:

  • 1 poki tortillaflögur
  • 1 poki Anamma hakk (320 g)
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 tsk reykt papríka (má nota venjulegt paprikukrydd ef ykkur líkar ekki reykta bragðið)
  • 1 tsk kúmín
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk laukduft
  • 1/2 tsk chiliduft
  • 1 dl vatn
  • 2 tsk sojasósa
  • salt og pipar eftir smekk
  • safi úr 1/2 lime
  • 1 krukka salsasósa
  • heimagerð ostasósa eftir smekk (ég notaði sirka helminginn af sósunni á nachosið og notaði svo afganginn á tacos nokkrum dögum seinna. Uppskriftin er hér að neðan).
  • Rifinn vegan ostur eftir smekk
  • Ég toppaði nachosið með: guacamole, fersku kóríander, vorlauk, vegan sýrðum rjóma og limesafa. Hugmyndir af fleira góðgæti að toppa með eru t.d. svartar baunir, maísbaunir, jalapeno, tómatar og sýrður rauðlaukur. Það er í raun hægt að toppa með öllu því sem manni þykir gott.

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn við 200°c.
  2. Steikið hakkið á pönnu uppúr olíu þar til það mýkist örlítið.
  3. Bætið pressuðum hvítlauk út á og steikið í 2 mínútur í viðbót.
  4. Bætið kryddunum, sojasósunni og vatninu út á og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.
  5. Kreistið limesafa út á og takið pönnuna af hellunni.
  6. Setjið tortillaflögur í eldfast mót.
  7. Toppið með hakkinu, ostasósu, salsasósu og rifnum osti.
  8. Bakið í ofninum í sirka 10 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og nachosið fengið á sig örlítið gylltan lit.
  9. Takið út og toppið með því sem ykkur lystir.
Guacamole
  1. 2-3 avókadó
  2. 1/2 laukur
  3. 2 hvítlauksgeirar
  4. 1/2 tómatur
  5. 2 msk ferskt kóríander
  6. safi úr 1/2 lime
  7. örlítið af chiliflögum
  8. Salt og pipar eftir smekk
  1. Stappið avókadó gróflega.
  2. Saxið niður lauk og tómat og pressið hvítlauk.
  3. Bætið saman við avókadóið og pressið limesafa út í.
  4. Saltið og piprið eftir smekk.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi-