Grillaðar vegan pylsur á þrenns konar vegu

IMG_0438.jpg

Í dag er föstudagur og því finnst mér tilvalið að deila með ykkur líklega síðustu grillfærslu sumarsins. Þetta sumar er búið að líða alveg ótrúlega hratt og er erfitt að trúa því að núna séu skólar að komast á fullt. Núna í lok ágúst finnst mér því fullkomið að deila með ykkur þessari færslu sem inniheldur mismunandi tillögur af því hvernig bera megi fram Anamma pylsurnar. Anamma pylsurnar eru í miklu uppáhaldi hjá okkur systrum og elskum við að grilla þær því það er svo einfalt og þægilegt. Þær eru einnig fullkomin matur til að taka með sér í útilegur eða í grillveislur til vina eða fjölskyldu.

IMG_0455-2.jpg

Ég elska hefðbundnar pylsur með tómatsósu, steiktum lauk og sinnepi en finnst einnig alveg ótrúlega skemmtilegt að leika mér með mismunandi hráefni og matreiða pylsurnar á ólíka vegu. Það má breyta réttinum alveg með því að setja aðrar sósur eða góð salöt á pylsurnar. Það má undirbúa öll hráefnin í þessari færslu fyrirfram þar sem þau eru öll mjög einföld og taka með sér í lautarferð eða hvar sem planið er að grilla.

IMG_0459-2.jpg

Þessi hefðbundna:

  • Anamma pylsur

  • Tómatsósa

  • Steiktur laukur

  • Sinnep (ég nota yfirleitt bæði pylsusinnep og sætt sinnep)

  • Heimagert kartöflusalat (uppskrift neðst í færslunni)

  • Pylsubrauð

Aðferð:

  1. Útbúið kartöflusalatið eftir uppskriftinni neðst í þessari færslu.

  2. Grillið pylsurnar í nokkrar mínútur á hverri hlið eða þar til þær fá fallega gylltar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðinn og raðið hráefnunum á eins og hver og einn vill.

BBQ pylsur:

  • Anamma pylsur með bbq sósu

  • Chilli majónes

  • Grænt salat

  • Hrásalat

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa hrásalat, uppskriftina af því má finna neðst í þessari færslu.

  2. Pennslið pylsurnar með bbq sósu og grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til pylsurnar frá fallegar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðin og raðið hráefnunum í eftir smekk.

IMG_0462-2.jpg

Þessi mexíkóska:

  • Anamma pylsur

  • Mangósalsa (uppskrift neðst í færslunni)

  • Guacamole (uppskrift neðst í færslunni)

  • Grænt salat

  • Sýrður rjómi

  • Svart Doritos

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa mangósalsað og guacamole sem er hér neðst í færslunni.

  2. Grillið pyslurnar í nokkrar mínútur á hvorri hlið þar til þær fá fallegar gylltar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðin og raðið hráefnunum í eftir smekk.

Kartöflusalat

  • 500 gr kartöflur

  • 2 dl vorlaukur (einnig hægt að nota blöndu af venjulegum lauk og graslauk)

  • 3/4 dl vegan majónes

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1 msk gróft sinnep

  • 2 tsk sítrónusafi

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið kartöflurnar í litla bita og gufusjóðið í 20 mínútur. Það er líka alveg hægt að sjóða kartöflurnar venjulega og flysja og skera niður þegar þær hafa kólnað.

  2. Saxið vorlaukinn og blandið öllu nema kartöflunum saman í skál. Setjið kartöflurnar út í þegar þær hafa kólnað alveg.

  3. Berið fram með hverju sem er, en salatið passar auðvitað sérstaklega vel með öllum grilluðum mat.

Hrásalat

  • 1 dl vegan majónes

  • 1 dl þunnt skorið hvítkál

  • 1 dl þunnt skorið ferskt rauðkál

  • 2 litlar eða 1 meðalstór gulrót

  • 1 tsk agave síróp

  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið hvítkálið og rauðkálið í mjög þunnar sneiðar.

  2. Rífið niður gulræturnar.

  3. Blandið öllum hréfnum saman í skál. Saltið eftir smekk

Mangó salsa

  • 1 dl niðurskorið mangó

  • 1 dl niðurkorið papríka

  • 1/2 dl niðursaxaður rauðlaukur

  • safi úr hálfri lime

  • Salt eftir smekk

  • Ferskt kóríander eftir smekk (má sleppa)

Aðferð:

  1. Skerið niður grænmetið og mangóið í litla bita.

  2. Blandið öllum hráefnum saman í skál.

  3. Saltið eftir smekk.

Guacamole

  • 2-3 stór avocado

  • 1/2 hvítlauksgeiri

  • 1 tómatur

  • 1/2 lítill rauðlaukur

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Safi úr 1/2 lime

  • Ferstk kóríander (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að stappa avocadoin vel saman með gaffli

  2. Saxið niður tómat og rauðlauk og pressið hvítlauk

  3. Blandið öllum hráefnum saman við avocadómaukið og hrærið vel saman.

  4. Saltið og piprið eftir smekk

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi -

 
anamma_logo.png